Álit nr. 10/2005
Álit kærunefndar jafnréttismála
í máli nr. 10/2005:
A
gegn
Háskóla Íslands
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 1. júní 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I
Inngangur
Með kæru, dags. 22. desember 2005, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Háskóli Íslands hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands, en ráðið var í stöðuna frá og með 1. janúar 2006.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Háskóla Íslands með bréfi, dags. 10. janúar 2006. Umsögn Háskóla Íslands barst með bréfi, dags. 6. febrúar 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfum, dags. 12. og 22. febrúar 2006. Voru síðastnefndar athugasemdir kæranda sendar Háskóla Íslands til kynningar með bréfi, dags. 27. febrúar 2006, en engar frekari athugasemdir hafa borist kærunefndinni.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir að Háskóli Íslands auglýsti í október 2004 laust til umsóknar starf lektors eða dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands. Í auglýsingunni fyrir starfið sagði:
„Við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands er laust til umsóknar starf lektors eða dósents í tölvunarfræði. Umsækjandi skal hafa lokið doktorsnámi í tölvunarfræði eða skyldum greinum og hafi reynslu af rannsóknum og kennslu á því sviði. Tölvunarfræðiskor hefur markað þá stefnu að rannsóknir og kennsla við skorina standist samanburð við það besta sem völ er á. Lektorinn/dósentinn þarf að geta kennt helstu grunnnámskeið sem kennd eru við tölvunarfræðiskor og sinnt meistara- og doktorsnámi við skorina. Ráðið verður í starfið frá 1. júlí 2005 til þriggja ára með möguleika á framlengingu. Boðið er upp á áhugavert starfsumhverfi hjá vísindalegri rannsókna- og fræðslustofnun sem veitir nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstæðum vísindalegum verkefnum og takast á við margvísleg störf í þjóðfélaginu. Um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna fer eftir ákvæðum laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 og reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 458/2000. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vandaða skýrslu um vísindastörf sem þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir (ritaskrá) og vottorð um námsferil sinn og störf (curriculum vitae). Umsókninni skulu fylgja þrjú eintök af vísindalegum ritum og ritgerðum, birtum og óbirtum, sem umsækjendur óska eftir að verði metin. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafa unnið að, hverju þeir eru að vinna að og hver séu áform þeirra ef til ráðningar kemur. Ennfremur skal leggja fram ítarlega rannsóknaáætlun. Telji umsækjendur að þeir hafi aðra starfsreynslu en að ofan greinir sem nýst geti í starfi lektors/dósents í Háskóla Íslands skulu þeir gera grein fyrir henni. Ennfremur er ætlast til að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á.“
Fjórir umsækjendur voru um starfið. Að áliti dómnefndar sem gaf umsögn um hæfi umsækjenda var einn ekki talinn hæfur til starfsins, einn var talinn hæfur til að gegna stöðu lektors en tveir umsækjendur, kærandi og karl sem ráðinn var, voru taldir hæfir til að gegna stöðu dósents. Fundir í tölvunarfræðiskor og í verkfræðideild mæltu með þeim sem ráðinn var til starfsins og féllst rektor Háskóla Íslands á tillöguna.
Með bréfi, dags. 4. nóvember 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun rektors um ráðningu í viðkomandi starf í verkfræðideild og var sá rökstuðningur veittur með bréfi Háskóla Íslands, dags. 18. nóvember 2005.
Í kæru til kærunefndarinnar kemur fram að kærandi telji að hún hafi meiri reynslu og hafi sýnt meiri árangur á sviði rannsókna á sviði meistara- og doktorsnáms og hafi svipaða reynslu af kennslu í grunnnámi og af stjórnunarstörfum og sá sem ráðinn var og hafi hún því átt rétt á að hljóta ráðningu í stöðuna. Til vara telur kærandi sig að minnsta kosti jafnhæfa og sá sem ráðinn var og hafi því á grundvelli jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands átt rétt á að hljóta stöðuna þar sem konur séu í miklum minnihluta fastráðinna kennara skólans. Af hálfu Háskóla Íslands hefur framangreindum sjónarmiðum kæranda verið hafnað og á það bent meðal annars að við ráðningu í starfið hafi verið litið sérstaklega til hæfis umsækjenda til að kenna helstu grunnnámskeið við tölvunarfræðiskor og hafi sá sem ráðinn var verið talinn hæfari að því leyti til.
III
Sjónarmið kæranda
Af hálfu kæranda er á því byggt að í auglýsingu um starf lektors eða dósents við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands hafi verið lögð áhersla á menntun umsækjenda og reynslu og árangur í rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum. Kærandi hafi haft mun meiri reynslu og sýnt meiri árangur á sviði rannsókna og kennslu í meistara- og doktorsnámi. Kærandi hafi B.Sc., M.Sc. í stærðfræði og doktorspróf í tölvunarfræði. Að auki hafi hún próf í uppeldis- og kennslufræði fyrir framhaldsskólakennara og próf í kennslufræði fyrir háskólakennara. Karlmaður sá sem ráðinn hafi verið hafi B.Sc. og doktorspróf í stærðfræði og próf í uppeldis- og kennslufræði fyrir framhaldsskólakennara, en hafi ekki slíka menntun varðandi kennslu á háskólastigi. Að því er varðar rannsóknir hafi kærandi meðal annars fengið birtar mun fleiri greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum en sá sem ráðinn var, 20 á móti 5, þar af í tölvunarfræðitímaritum 20 á móti 2. Að teknu tilliti til sérstakrar flokkunar á tímaritum með tilliti til faglegra gæða hafi 14 greinar hennar birst í A-flokki, fimm í B-flokki og ein í C-flokki. Sá sem ráðinn var hafi einungis fengið birta eina grein sem félli í lægsta flokkinn, þ.e. C. Að því er kennslu varðar hafi kærandi reynslu af kennslu á doktorsstigi, en sá sem ráðinn var hafi ekki haft neina slíka reynslu. Á sama hátt hafi kærandi reynslu af kennslu á meistarastigi, en sá sem ráðinn var hafi ekki haft sambærilega reynslu að því er það varðar, en hann hafi aðeins leiðbeint einum meistaranema í stærðfræði. Að því er aðra kennslureynslu áhræri þá hafi kærandi 11 ára kennslureynslu á háskólastigi, þar af fjögur og hálft ár sem lektor og fjögur ár sem dósent í tölvunarfræði. Kennsla þessi hafi innifalið ýmis námskeið og leiðbeiningar vegna nemendaverkefna á þessu stigi. Þá hafi kærandi sjö ára kennslureynslu í stærðfræði á framhaldsskólastigi. Af hálfu kæranda er talið að sá sem ráðinn var hafi í mesta lagi 10 ára kennslureynslu samtals á framhaldsskóla- og háskólastigi og sé reynsla af háskólakennslu innan við helmingur þess tíma eða sem svari til fimm ára að hámarki. Jafnframt telur kærandi að svo virðist sem kennsla þess sem var ráðinn var hafi ekki falið í sér leiðbeiningar á nemendaverkefnum og enn fremur hafi mjög lítill hluti kennslunnar fallið innan tölvunarfræðinnar. Af hálfu kæranda er vísað til þess að af samanburði á umsækjendum megi ráða að báðir hafi þeir haft jafnmikla menntun fyrir utan að kærandi hafi lokið námi í kennslufræði fyrir háskólakennara. Að því er rannsóknir varðar hafi kærandi sýnt áberandi betri árangur þar sem hún hafi birt margfalt fleiri greinar en sá sem ráðinn var og í hærra metnum tímaritum og ráðstefnum. Þá hafi kærandi setið í ritstjórnum virtra fræðilegra tímarita og setið í dagskrárnefndum fyrir virtar ráðstefnur í faginu, en sá sem ráðinn var hafi ekki hlotið slíka viðurkenningu. Í kennslu á bæði doktors- og meistarastigi hafi kærandi allverulega reynslu og náð góðum árangri, en sá sem ráðinn var hafi nánast enga reynslu af kennslu á þeim sviðum. Þá hafi kærandi tekið virkan þátt í samningu kennsluefnis fyrir þetta stig sem sá sem ráðinn var hafi ekki gert. Hvað varðar kennslu á grunnstigi telur kærandi að bæði hafi þau sýnt svipaðan árangur en að kærandi hafi mun lengri og fjölbreyttari kennslureynslu í tölvunarfræði á því stigi. Kærandi tekur fram að stjórnunarreynsla beggja sé takmörkuð og ekki sé tilefni til að draga þá ályktun að sá sem ráðinn var hafi meiri reynslu en kærandi á því sviði. Heildarniðurstaða kæranda er sú að kærandi verði að teljast hafa verið hæfari til að gegna umræddu starfi, bæði með tilliti til skilgreiningar starfsins og þess sem kom fram í auglýsingu og út frá mati á innsendum gögnum. Telur kærandi að gróflega hafi verið brotið á sér í ráðningarferlinu og minna hæfur karlmaður hafi verið ráðinn í stöðuna, án nokkurs faglegs eða annars málefnalegs rökstuðnings, en í viðkomandi deild sé fjöldi kvenna í hópi fastráðinna akademískra starfsmanna í lágmarki. Í kæru sinni til kærunefndar jafnréttismála gerði kærandi einnig grein fyrir athugasemdum sem hún hafði gert við ráðningarferlið, meðal annars varðandi skipan dómnefndar sem fjallaði um hæfi umsækjenda, og dómnefndarálitið sjálft, svo og meðferð málsins hjá viðkomandi skor og verkfræðideild Háskóla Íslands.
Af hálfu kæranda er því mótmælt að í auglýsingu um starfið hafi verið lögð megináhersla á kennslu í grunnnámi, eins og vísað sé til af hálfu Háskóla Íslands. Telur kærandi þvert á móti að hvergi komi fram í auglýsingunni að megináhersla sé lögð á slíka kennslu. Telur kærandi að orðalag auglýsingarinnar gefi tilefni til að álykta sem svo að umsækjandi skuli vera fær um að sinna kennslu á meistara- og doktorsstigi en á því sviði hafi sá sem ráðinn var litla sem enga reynslu. Þá mótmælir kærandi því mati verkfræðideildar að vegna eðlis fagsins (tölvunarfræði) hafi verið mikilvægara að fá til starfsins kennara sem hefði reynslu af kennslu í grunnnámskeiðum tölvunarfræði en framhaldsnámskeiðum og/eða mikla rannsóknareynslu. Telur kærandi þetta sjónarmið stangast algjörlega á við það sem fram komi í auglýsingunni enda sé tölvunarfræði í eðli sínu akademískt fag með áherslu á rannsóknir og miðlun í faginu. Vísar kærandi í þessu sambandi til skilgreiningar á dósentstöðu við Háskóla Íslands, en þar komi fram að 51% starfsins sé kennsla, 43% rannsóknir og 6% stjórnun. Þá vekur kærandi athygli á því að rektor Háskóla Íslands hefði sjálfur gert athugasemd við þá röksemdafærslu verkfræðideildar að í auglýsingu um umrætt starf væri lögð áhersla á kennslu í grunnnámi. Hefði rektor bent á að í auglýsingunni væri vísað til þess að sá sem starfið fengi þyrfti að geta kennt helstu grunnnámskeið annars vegar og hins vegar að hann gæti sinnt rannsóknatengdu framhaldsnámi. Áherslan hafi því verið lögð á bæði framangreind atriði. Af þessum ástæðum hafi rektor óskað eftir ítarlegri rökstuðningi deildar áður en ráðið var í stöðuna. Kærandi bendir einnig á að alrangt sé að kennslureynsla hennar sé eingöngu bundin við framhaldsnám. Telur kærandi sig hafa meiri reynslu en sá sem ráðinn var af kennslu í grunnnámi í tölvunarfræði. Hún hafi kennt mun lengur á háskólastigi almennt og öll sú reynsla sé af kennslu í tölvunarfræði og stór hluti hennar sé í grunnnámi í því fagi. Sá sem ráðinn var hafi hins vegar mestmegnis kennt stærðfræði en ekki tölvunarfræði og reynsla hans í kennslu í því fagi sé því takmörkuð.
Kærandi andmælir sérstaklega því áliti deildarfundar verkfræðideildar Háskóla Íslands að sá sem ráðinn var hafi verið hæfari til að gegna starfinu. Niðurstaða þessi hafi byggst á reynslu sem einstakir kennarar innan deildar hafa talið sig hafa haft af samstarfi við umsækjendurna, samanber bókun á deildarfundi 14. október 2005. Í þessu sambandi bendir kærandi á að hún hafi aðeins starfað eitt ár við Háskóla Íslands en stærsti hluti kennslureynslu hennar sé frá Álaborg í Danmörku. Þá hafi kærandi ekki átt samstarf við nema þrjá deildarmanna og hafi tveir þeirra ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins vegna vanhæfis. Þar sem sá sem ráðinn var hafi starfað lengur við Háskóla Íslands hljóti það að fara gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að styðjast eingöngu við upplýsingar frá verk- og raunvísindadeild Háskóla Íslands en taka ekki tillit til gagna sem komið hafi frá Álaborg þar sem hún hafi kennt nánast allan sinn feril.
IV
Sjónarmið Háskóla Íslands
Af hálfu Háskóla Íslands er á það bent að skv. 1. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, sé það rektor sem ræður prófessora, dósenta, lektora, sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn samkvæmt tillögu háskóladeildar að fengnu áliti dómnefndar. Í framkvæmd sé eingöngu hið formlega ráðningarvald hjá rektor, enda hafi hann aldrei farið gegn tillögum deilda við val milli hæfra umsækjenda. Það megi því segja að hið raunverulega ráðningarvald sé í höndum deildarfunda eða valnefnda í samræmi við reglur hverrar deildar. Það sé hlutverk dómnefnda að meta hvort umsækjendur séu hæfir með tilliti til menntunar, reynslu og vísindagildis rannsókna. Það sé ekki hlutverk dómnefnda að meta hvaða umsækjandi sé hæfastur í viðkomandi starf heldur eingöngu að meta hvort viðkomandi uppfylli lágmarksviðmið sem skólinn setur í þessu sambandi. Deildarfundur verkfræðideildar hafi það hlutverk samkvæmt reglum um Háskóla Íslands að gera tillögur til rektors um ráðningu í starf við deildina. Það hafi verið mat deildarinnar að teknu tilliti til umsókna umsækjenda, mats dómnefndar, reynslu umsækjenda og kynna einstakra deildarmanna af umsækjendum að menntun og reynsla þess sem ráðinn var hafi skipað honum framar kæranda við ákvörðun um ráðninguna. Það sé meginregla í vinnurétti að atvinnurekendur hafi um það frjálsar hendur hvern þeir velja til starfa í sína þágu og því hafi verkfræðideild haft svigrúm til að meta á hvaða sjónarmiðum val milli tveggja hæfra umsækjenda skyldi byggjast. Í auglýsingu um starfið hafi vægi kennslu í grunnnámi verið meira en almennt sé þegar Háskóli Íslands auglýsi laus kennarastörf. Orðalagið „Lektorinn/dósentinn þarf að geta kennt helstu grunnnámskeið sem kennd [séu] við tölvunarfræðiskor…“ hafi verið óvenjulegt að þessu leyti. Það hafi verið mat deildarinnar að vegna eðlis fagsins (tölvunarfræði) væri mikilvægara að fá til starfans kennara sem hefði reynslu af kennslu í grunnnámskeiðum tölvunarfræði en framhaldsnámskeiðum og/eða með mikla rannsóknareynslu. Þetta hafi umsækjendum mátt vera ljóst. Deildarmenn hafi haft reynslu af samstarfi við kæranda og þann sem ráðinn var, en eðlilega mismikla vegna skipulags deildarinnar og skiptingu hennar í skorir. Reynsla af samstarfi við umrædda aðila hafi verið þess eðlis að talið var að sá sem ráðinn var teldist vera hæfari til að gegna starfinu. Hefði verið talið að þrátt fyrir að kærandi hefði haft meiri rannsóknavirkni og reynslu af kennslu og leiðbeiningum nemenda á framhaldsstigi myndi sú reynsla ekki nýtast kæranda við kennslu grunnnámskeiða þannig að hún teldist hæfari eða jafnhæf við ráðningu í starfið. Af þessum sökum geti Háskóli Íslands ekki fallist á að umsækjendum hafi verið mismunað vegna kynferðis og ekki séu efni til að líta svo á að Háskóli Íslands hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Af hálfu Háskóla Íslands er sérstaklega tekið fram, varðandi málsmeðferð og undirbúning ráðningarinnar, að kæranda hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við dómnefndarálit áður en málið var sent til afgreiðslu hjá viðkomandi deild. Þótt dómnefndin hefði ekki talið ástæðu til að breyta áliti sínu hafi hún tekið afstöðu til helstu atriða í athugasemdunum og það hafi leitt til þess að orðalagi þess hafi verið breytt.
V
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.
Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands, en ráðið var í stöðuna frá og með 1. janúar 2006.
Staðan var auglýst í Morgunblaðinu þann 10. október 2004. Kom þar fram að auglýst væri laust til umsóknar starf lektors eða dósents í tölvunarfræði og að umsækjendur skyldu hafa lokið doktorsnámi í tölvunarfræði eða skyldum greinum og hafa reynslu af rannsóknum og kennslu á því sviði. Í auglýsingunni kemur fram að tölvunarfræðiskor hafi markað sér þá stefnu að rannsóknir og kennsla við skorina standist samanburð við það besta sem völ sé á. Viðkomandi þurfi að geta kennt helstu grunnnámskeið sem kennd eru við tölvunarfræðiskor og sinnt meistara- og doktorsnámi við skorina. Boðið sé upp á áhugavert starfsumhverfi hjá vísindalegri rannsókna- og fræðslustofnun sem veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstæðum vísindalegum verkefnum o.fl. Um hæfi umsækjenda færi eftir ákvæðum laga um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, og reglugerðar um Háskóla Íslands, nr. 458/2000. Óskað var eftir því að umsækjendur létu fylgja umsókn sinni vandaða skýrslu um vísindastörf sem þeir hafi unnið, ritsmíðar og rannsóknir (ritaskrá). Gert var ráð fyrir að umsókn fylgdi ítarleg rannsóknaáætlun og umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf, ef við ætti.
Á fundi í verkfræðideild Háskóla Íslands hinn 8. júní 2005 var fjallað um ráðstöfun á framangreindu auglýstu starfi. Í fundargerð var meðal annars bókað að formaður dómnefndar hafi gert grein fyrir áliti dómnefndarinnar. Fram kom jafnframt að formaður tölvunarfræðiskorar hafi gert grein fyrir umfjöllun skorarinnar um dómnefndarálitið og þar hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi hafi fengið eitt atkvæði en sá sem ráðinn var hafi fengið fimm, en einn hafi skilað auðu. Á fundi verkfræðideildar urðu miklar umræður um dómnefndarálitið en niðurstaða fundarins varð sú að kærandi fékk þrjú atkvæði en sá sem ráðinn var 14, þrír skiluðu auðu. Var í samræmi við þetta mælt með ráðningu karlmannsins í stöðuna. Fram kemur í bréfi deildarinnar til rektors hinn 23. júní 2005 að umræður á deildarfundi hafi snúist að mestu um þær áherslur í rannsóknum og kennslu sem skilgreining starfsins felur í sér. Í því efni var meðal annars vísað til auglýsingar um starfið, en þar segi að tölvunarfræðiskor hafi markað þá stefnu að rannsóknir og kennsla standist samanburð við það besta sem völ sé á og að viðkomandi þurfi að geta kennt helstu grunnnámskeið sem kennd eru við tölvunarfræðiskor og sinnt meistara- og doktorsnámi við skorina. Það hafi verið mat meirihluta fundarmanna að það sjónarmið sem hefði þyngst vægi við ákvörðun um ráðstöfun starfsins væri þörf verkfræðideildar fyrir kennslu í grunnnámi. Hafi það verið niðurstaða deildarfundar, að teknu tilliti til þessara sjónarmiða, að sá sem ráðinn var hefði verið hæfasti umsækjandinn um starfið.
Í tilefni af bréfi rektors til deildarinnar, dags. 5. ágúst 2005, þar sem óskað var eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir tillögu um veitingu starfsins var málið tekið til meðferðar á deildarfundi verkfræðideildar hinn 14. október 2005. Í erindi deildarinnar til rektors, dags. 17. október 2005, segir meðal annars að eins og fram hafi komið í auglýsingunni um starfið hafi áhersla verið lögð á kennsluþáttinn í starfinu sem vegi þungt við val á milli hæfra umsækjenda og hafi valið því staðið milli þess sem ráðinn var annars vegar og kæranda hins vegar. Það hafi verið mat deildarinnar að sá sem ráðinn var sé „afburðagóður kennari og eigi auðvelt með að fá nemendur til samstarfs. Þrátt fyrir mikla reynslu [kæranda] á sviði rannsókna og kennslu, [sé] það mat deildarinnar að [sá sem ráðinn var] sé hæfari til að gegna hinu auglýsta starfi, enda [hafi] hann farsælan rannsókna- og kennsluferil að baki við Háskóla Íslands. Niðurstaða þessi [byggi] á þeirri reynslu sem einstaka kennarar innan deildarinnar [hafi] haft af samstarfi við þessa umsækjendur.“
Við skipan eða ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja ef ekki er mælt sérstaklega fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Einnig verður að játa atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, samanber til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 121/2002 og 330/2003. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans. Geti ráðningaraðili ekki, í þeim tilvikum þegar valið stendur milli karls og konu, rökstutt niðurstöðu sína með framangreindum hætti, kann ráðning að fara gegn ákvæðum jafnréttislaga, sbr. 24. gr. laganna. Rétt er í þessu sambandi einnig að benda á að í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilin 2000–2004 og 2005–2009 kemur meðal annars fram að verði tveir eða fleiri umsækjendur um starf taldir jafnt að starfinu komnir þar sem þeir séu metnir jafn hæfir verði umsækjandi valinn af því kyni sem er í minnihluta á umræddu starfssviði. Mun færri konur gegndu á þeim tíma sem um ræðir stöðu fastráðinna kennara við verkfræðideild Háskóla Íslands.
Í auglýsingu um starf lektors eða dósents við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands sem birtist hinn 10. október 2004 kemur fram að umsækjendur skuli hafa lokið doktorsnámi í tölvunarfræði eða skyldum greinum og hafa reynslu af rannsóknum og kennslu á því sviði. Þá var áskilið að viðkomandi gæti kennt helstu grunnnámskeið sem kennd séu við tölvunarfræðiskor og sinnt meistara- og doktorsnámi við skorina. Af hálfu Háskóla Íslands er til þess vísað sérstaklega í athugasemdum til kærunefndarinnar að í auglýsingunni hafi sérstök áhersla verið lögð á kennslu grunnnámskeiða. Það hafi verið mat verkfræðideildar, meðal annars vegna eðlis fagsins, að mikilvægara væri að fá til starfsins kennara sem hefði reynslu af kennslu grunnnámskeiða heldur en framhaldsnámskeiða eða með mikla rannsóknareynslu. Þó svo ekki verði ráðið af orðalagi auglýsingarinnar að sérstök áhersla hefði verið lögð á kennslu grunnnámskeiða umfram það að viðkomandi sinnti meistara- og doktorsnámi við skorina verður að telja að það hafi verið á valdi viðkomandi deildar og háskólans að leggja mat á og ákveða hvaða þættir hafi mátt vega þyngst með tilliti til skipulags og starfsemi deildarinnar. Með vísan til þess að tekið var fram í auglýsingunni að viðkomandi þyrfti að geta sinnt kennslu helstu grunnnámskeiða sem kennd eru við skorina verður að telja að málefnalegt geti verið við val á umsækjendum að leggja áherslu á þennan þátt, umfram aðra þætti, við endanlegt val milli umsækjenda.
Fyrir liggur að kærandi hafði er hún sótti um stöðuna ellefu ára kennslureynslu á háskólastigi, þar af tæplega fimm ár sem lektor og fjögur ár sem dósent í tölvunarfræði. Af gögnum málsins má ráða að sá sem starfið hlaut hafi haft skemmri reynslu af kennslu á háskólastigi, en viðkomandi hafði meðal annars verið fastráðinn stundakennari við stærðfræðiskor um eins og hálfs árs skeið, verið settur prófessor í tvö ár og verið aðjúnkt um tveggja og hálfs árs skeið er hann sótti um stöðuna. Bæði höfðu þau umtalsverða reynslu af kennslu á framhaldsskólastigi.
Í upphaflegum rökstuðningi verkfræðideildar Háskóla Íslands fyrir tillögu um ráðningu þess sem starfið hlaut er tekið fram að það sem hafi vegið þyngst við ákvörðun um ráðningu í starfið hafi verið þörf verkfræðideildar fyrir kennslu í grunnnámi. Var það niðurstaða deildarfundar að teknu tilliti til þessara sjónarmiða að sá sem ráðinn var hafi verið hæfasti umsækjandinn. Í viðbótarrökstuðningi deildarinnar kom fram að áhersla hefði verið lögð á kennsluþáttinn í starfinu sem hafi vegið þungt við val milli hæfra umsækjenda og að sá sem ráðinn var hafi verið „afburðagóður kennari og eigi auðvelt með að fá nemendur til samstarfs“. Þrátt fyrir mikla reynslu kæranda á sviði rannsókna og kennslu hafi það verið mat deildarinnar að sá sem ráðinn var hafi verið hæfari til að gegna starfinu, enda hafi hann átt farsælan rannsókna- og kennsluferil að baki við Háskóla Íslands. Niðurstaða þessi hafi verið byggð á þeirri „reynslu sem einstaka kennarar innan deildarinnar hafa haft af samstarfi við þessa umsækjendur“, þ.e. kæranda og þann sem ráðinn var. Ekki kom fram í bókuninni á hvaða hátt reynsla kennara af umsækjendum hefði verið könnuð.
Þótt ákvarðanir um skipun eða ráðningu í opinbert starf séu háðar mati og stjórnvöld hafi rúmar heimildir til að ákveða á hvaða sjónarmiðum matið eigi að byggjast og hvert vægi einstakra atriða eigi að vera í því sambandi verður að leggja á það áherslu að þær þurfa samt sem áður að uppfylla ákveðnar kröfur um málsmeðferð og efni til að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort þær samrýmist ákvæðum jafnréttislaga. Þannig verður kærunefnd jafnréttismála að vera kleift að taka efni ákvörðunar til athugunar með tilliti til fyrirliggjandi gagna eða upplýsinga og meta hvort hún geti staðist.
Ef litið er til rannsóknavirkni kæranda og kennsluferils, sem telja má hafa verið lengri á háskólastigi, má fallast á það að hún hafi alla jafna getað talist standa þeim sem ráðinn var framar við ráðningu í starf dósents við tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands, þ.e. ef ekki hefðu komið til sérstakir kostir eða eiginleikar sem réttlætt hefðu aðra niðurstöðu. Eins og mál þetta er vaxið verður ekki fallist á það með Háskóla Íslands að fyrir hafi legið nægilega við undirbúning ráðningarinnar að sá sem ráðinn var hafi vegna sérstakra kosta mátt teljast hæfari til að gegna starfinu en í því sambandi var einungis byggt á „reynslu sem einstaka kennarar innan deildarinnar“ höfðu af umsækjendum. Ákvörðun um ráðningu í stöðu dósents, sem studd var reynslu „einstakra kennara“ innan deildarinnar af tilteknum umsækjanda án þess að sérstök gögn lægju fyrir þar að lútandi eða aðrar nánari athuganir, gat ekki eins og hér stóð á fullnægt framangreindri kröfu um málsmeðferð og efni að þessu leyti. Svo sem rakið er hér að framan var ákvörðun rektors Háskóla Íslands að ráða viðkomandi karlmann til starfans sérstaklega studd framangreindum rökum.
Með vísan til framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttismála að Háskóli Íslands hafi ekki sýnt fram á að gætt hafi verið jafnréttis kynjanna við ráðningu í starf dósents við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands. Af því leiðir að líta verður svo á að Háskóli Íslands hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf dósents í tölvunarfræði við tölvunarfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands.
Að áliti kærunefndar jafnréttismála telst Háskóli Íslands hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu. Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Háskóla Íslands að viðunandi lausn verði fundin á málinu.
Andri Árnason
Ragna Árnadóttir
Ása Ólafsdóttir