Álit nr. 15/2004
Álit kærunefndar jafnréttismála
í máli nr. 15/2004:
A
gegn
Reykjavíkurborg
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 11. apríl 2005 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I
Inngangur
Með kæru, dags. 8. desember 2004, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning Reykjavíkurborgar, hinn 25. nóvember 2004, í starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 20. desember 2004. Í bréfinu var, með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, óskað eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til kærunnar. Með bréfi, dags. 14. janúar 2005, komu fram sjónarmið Reykjavíkurborgar vegna erindis kæranda. Með bréfi, dags. s.d., voru kæranda kynnt sjónarmið Reykjavíkurborgar og var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 26. janúar 2005.
Með bréfi, dags. 31. janúar 2005, var Reykjavíkurborg gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda. Í bréfi, dags. 21. febrúar 2005, gerði Reykjavíkurborg grein fyrir afstöðu sinni vegna athugasemda kæranda. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2005, var kæranda sent afrit af bréfi Reykjavíkurborgar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum við nefndina.
Engar frekari athugasemdir hafa borist.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir að Reykjavíkurborg auglýsti starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs laust til umsóknar í nóvember 2004. Í auglýsingu sem birtist í fjölmiðlum, m.a. í Morgunblaðinu þann 7. nóvember 2004, kom meðal annars fram að við ráðningu í starfið yrði sérstaklega horft til þekkingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, reynslu af breytingastjórnun og áhuga á að taka þátt í undirbúningi þeirra stjórnkerfisbreytinga sem framundan væru. Þá var þess jafnframt getið að starfið væri nánar auglýst á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Í auglýsingu vegna starfsins sem birtist á heimasíðu Reykjavíkurborgar kom fram að eftirfarandi kröfur væru gerðar til umsækjenda:
- Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
- Tungumálakunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti.
- Forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikar.
- Reynsla af mannaforráðum.
- Fagleg þekking á menningar- og ferðamálum.
- Þekking á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.
- Reynsla af starfs- og fjárhagsáætlanagerð.
- Reynsla af breytingastjórnun.
Í auglýsingunni var þess getið að sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs væri framkvæmdastjóri menningar- og ferðamálaráðs (svo). Hann tæki þátt í sameiginlegum verkefnum yfirstjórnar Reykjavíkurborgar og bæri ásamt borgarstjóra og öðrum yfirstjórnendum ábyrgð á að áherslur borgaryfirvalda næðu fram að ganga. Hann sinnti samræmingu og samhæfingu í rekstri og þjónustu, bæri ábyrgð á daglegri stjórnun og rekstri sviðsins og starfs- og fjárhagsáætlun þess. Þá sinnti hann samskiptum við kjörna fulltrúa og stofnanir Reykjavíkurborgar og bæri ábyrgð á upplýsingum um starfsemi sviðsins, auk þess sem hann annaðist tengsl og samskipti við viðskiptavini sviðsins og samstarfsaðila innan lands sem utan. Helstu verkefni sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs væru dagleg yfirstjórn og samhæfing starfskrafta sviðsins, ábyrgð á fjármálum sviðsins, þ.m.t. fjárhags- og starfsáætlunum, ábyrgð á starfsmannamálum sviðsins, þátttaka í og frumkvæði að undirbúningi stefnumótunar og framtíðarsýn um menningar- og ferðamál hjá Reykjavíkurborg, sem og samstarf við aðila innan og utan borgarkerfisins vegna verkefna sviðsins.
Kærandi sótti um starfið með umsókn dagsettri 22. nóvember 2004, en þann dag rann út umsóknarfrestur um starfið. Alls bárust átta umsóknir. Við ráðningarferlið voru umsóknirnar yfirfarnar af skrifstofustjóra rekstrar- og þjónustuskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem fer með starfsmannamál í Ráðhúsi Reykjavíkur, og var honum falið að flokka umsóknir, gera útdrátt úr umsóknum þeirra umsækjenda sem taldir voru uppfylla hæfniskröfur og gera tillögu um þá sem boða skyldi til viðtals. Niðurstaða þess mats var að þrír umsækjendur voru taldir standa framar miðað við þær kröfur sem settar voru fram í starfsauglýsingu, tvær konur og einn karl. Þessir þrír umsækjendur voru boðaðir í viðtöl sem fram fóru þann 23. nóvember 2004, en kærandi var ekki meðal þeirra.
Viðtöl við umsækjendur önnuðust þáverandi borgarstjóri og borgarritari. Að viðtölum loknum gerðu þau þá tillögu til borgarráðs að ráða tiltekinn umsækjanda í starfið og var tillagan samþykkt einróma í borgarráði þann 25. nóvember 2004.
Kærandi fékk formlegt svar við umsókn sinni með bréfi, dags. 29. nóvember 2004, þar sem honum var tilkynnt um ráðninguna í starfið. Kærandi óskaði eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir ráðningunni með erindi, dags. 30. nóvember 2004. Í erindinu krafðist kærandi þess að hann fengi aðgang að umsögn um hann og umsögn um þann umsækjanda sem hlaut starfið og jafnframt óskaði hann eftir skriflegum samanburði á honum og þeim umsækjanda sem starfið hlaut, bæði með tilliti til menntunar og reynslu.
Svar við erindi kæranda barst frá Reykjavíkurborg s.d. þar sem honum var sent afrit af rökstuðningi borgarstjóra og borgarritara með tillögu um ráðningu sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, dags. 25. nóvember 2004. Kærandi telur að sá rökstuðningur fjalli ekki um það hvaða mat hafi verið lagt á kæranda sem umsækjanda, á hvaða hátt reynt hafi verið að bera kosti hans saman við kosti þeirrar sem ráðin var, hvers vegna kærandi var ekki kallaður í viðtal eða hvers vegna umsókn hans að öðru leyti var hvergi til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg. Telur kærandi að við ráðninguna hafi verið brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 96/2000.
III
Sjónarmið kæranda
Kærandi byggir á því að með ráðningu Reykjavíkurborgar í starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs og með því að ganga fram hjá kæranda við ráðninguna hafi Reykjavíkurborg brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Af hálfu kæranda er einkum vísað til ákvæðis 24. gr. laganna þar sem fjallað er um bann við mismunun við ráðningu og í vinnuskilyrðum og þeirrar skyldu sem lögð sé á herðar atvinnurekendum að mismuna ekki umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Enn fremur komi fram í ákvæðinu að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu, setningu eða skipun í starf, skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
Kærandi vísar jafnframt til jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar þar sem fram komi meðal annars í gr. 2.2.3 að „jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í stöður hjá Reykjavíkurborg. Umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu þegar hann er jafnhæfur eða hæfari.“
Kærandi telur að með því að ganga fram hjá honum við ráðningu í umrætt starf hafi Reykjavíkurborg borið að sýna fram á að sú sem ráðin var til starfsins hafi verið honum fremri þar sem 10 af 14 æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar séu konur, en það hafi ekki verið gert.
Fram hefur komið af hálfu kæranda að námsferill hans sé svofelldur:
Stúdentspróf af stærðfræði- og náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík vorið 1984, B.A.-gráða í leiklist frá Leiklistarskóla Íslands vorið 1991, 30 eininga nám í íslensku og bókmenntum frá Háskóla Íslands og alþjóðleg MBA-gráða frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á stefnumótun og rafræn viðskipti vorið 2003.
Kærandi tilgreindi starfsferil sinn með eftirfarandi hætti:
2003–2004 Markaðsráðgjafi, lék auk þess í tveimur kvikmyndum.
2003 Framkvæmdarstjórn sérverkefna hjá Sögn ehf.
2002–2003 Sölustjóri á fasteignasölunum Eignalistinn og Fasteignaþingi. Leikstýrði auk þess þremur söngleikjum.
2001 Framleiddi og leikstýrði „Little Shop of Horrors“ í Ósló. Starfaði við kynningu og markaðssetningu hjá Sögn ehf.
1991–2001 Lék í 35 leiksýningum, að mestum hluta til í Borgarleikhúsinu, sex kvikmyndum og fjölda sjónvarpsmynda og auglýsinga og leikstýrði tíu leiksýningum.
Í umsókn um starfið tilgreindi kærandi að hann hefði árið 2002 unnið að ráðgjafarverkefni sem laut að stefnumótun fyrir fyrirtækjasvið Íslandssíma hf. (lokaverkefni við HR), árið 2003 hafi hann unnið að stefnumótun fyrir Árvakur hf. vegna fasteignablaðs og fasteignavefjar og árið 2004 að stefnumótun fyrir Íbúðalánasjóð, Loftkastalann og Endurmenntun Háskóla Íslands.
Stjórnunarreynsla kæranda var tilgreind með eftirfarandi hætti:
2004 Markaðsstjórn hjá Íbúðalánasjóði og Endurmenntun Háskóla Íslands.
2001–2003 Sölustjóri á fasteignasölunum Eignalistinn og Fasteignaþingi.
2001 Framleiddi og leikstýrði Litlu Hryllingsbúðinni í Ósló 2001.
1995–2003 Leikstýrði tíu leiksýningum, að meirihluta stórum söngleikjum þar þar sem þátttakendur voru 20–100 manns.
Að auki var kærandi meðframleiðandi að finnskri sjónvarpsmynd sem gerð var í Finnlandi og á Íslandi.
Í umsókn kæranda kom fram að hann hefði talsverða reynslu í notkun Word, Excel, Visio, PowerPoint og að auki umtalsverða reynslu af vinnu fyrir framan og aftan kvikmynda- og sjónvarpstökuvélar. Að auki tilgreindi kærandi í umsókn mjög góða ensku- og dönskukunnáttu jafnhliða einhverri kunnáttu í þýsku, frönsku og táknmáli.
Að því er félagsstörf varðar kom fram í umsókninni að kærandi var formaður leikara við Borgarleikhúsið árin 1995–1998 og sat á sama tíma í trúnaðarmannaráði Félags íslenskra leikara.
Kærandi byggir á því að menntun hans sé meiri og nýtist betur við stjórnunarstarf hjá Reykjavíkurborg auk þess sem starfsreynsla hans sé mun fjölþættari, yfirgripsmeiri og lengri en þeirrar sem starfið hlaut. Það rökstyður kærandi með eftirtöldum hætti, sbr. nánar kæru til kærunefndar jafnréttismála, dags. 8. desember 2004:
Í fyrsta lagi hafi verið gerð krafa um háskólamenntun sem nýttist í starfi. Kærandi hafi lokið meistaranámi í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík með MBA-gráðu, auk gráðu frá Leiklistarskóla Íslands sem samsvari B.A.-gráðu. Í öðru lagi hafi verið gerð krafa um tungumálakunnáttu og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti. Kærandi hafi mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti, auk þess sem hann hafi lokið alþjóðlegu meistaranámi þar sem kennsla og nám hafi farið fram á ensku. Hann tali og skilji Norðurlandamál vel þar sem hann hafi starfað í Noregi og Finnlandi. Að auki búi hann yfir kunnáttu í táknmáli. Í þriðja lagi hafi verið gerð krafa um reynslu af mannaforráðum. Kærandi hafi framleitt og leikstýrt fjölda leiksýninga sem hafi verið mjög krefjandi verkefni á sviði mannaflsstjórnunar, hérlendis sem erlendis. Þá búi kærandi yfir reynslu af leikstjórn og framleiðslu sjónvarpsefnis hér á landi og erlendis og að auki hafi hann stjórnað daglegum rekstri fasteignasölu í tvö ár. Í fjórða lagi hafi verið gerð krafa um faglega þekkingu á menningarmálum og ferðamálum. Kærandi uppfylli þá hæfniskröfu, enda hafi hann leikið í tíu kvikmyndum og sjónvarpsmyndum, leikstýrt tíu leiksýningum og leikið í 35 leiksýningum. Hann hafi yfirgripsmikla þekkingu á myndlistarheiminum og sýningarhaldi auk þess sem hann hafi samið viðskiptaáætlun um markaðssetningu íslenskrar myndlistar erlendis og á netinu. Þá hafi hann góða þekkingu á bókmenntum og hafi stundað nám í þeirri grein og í íslensku við Háskóla Íslands. Hann hafi sungið inn á hljómplötur og þekki vel til klassískrar tónlistar. Jafnframt hafi hann unnið að stefnumótunartillögu í markaðsmálum fyrir Iceland Express og auglýsingum fyrir vorherferð flugfélagsins. Hann hafi kynnt sér sérstaklega flugmarkaðinn á Íslandi með tilliti til lögmála tvíkeppni sem og markaðssetningu íslenskra flugfélaga erlendis. Þá hafi hann vegna starfa sinna og menntunar ferðast víða og sótt ráðstefnur í Evrópu og Bandaríkjunum og þannig öðlast þekkingu á ferðamálum frá fyrstu hendi. Í fimmta lagi hafi verið gerð krafa um þekkingu á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Kærandi þekki vel til þess vegna starfa hans sem leikari og leikstjóri við Borgarleikhúsið. Þá hafi hann verið trúnaðarmaður leikara og því komið að samningamálum þeirra. Við gerð stefnumótunar fyrir Loftkastalann hafi hann átt fjölmörg samtöl við starfsmenn, pólitískt kjörna fulltrúa og embættismenn borgarinnar. Þá hafi hann lagt fram viðskiptaáætlun um rafrænar greiðslur með SMS og unnið henni pólitískt brautargengi innan Reykjavíkurborgar. Í sjötta lagi hafi verið krafist reynslu af breytingastjórnun. Þá reynslu hafi kærandi aflað sér við framleiðslu og leikstjórn leiksýninga, hér á landi og í Ósló. Þá hafi hann tekið virkan þátt í stefnumótun og umbreytingu þess fyrirtækis sem hann starfi hjá nú um stundir.
Kærandi telur að hæfni hans verði að meta á hlutlægan hátt, óháð kyni og ekki megi ganga fram hjá einstaklingi við ráðningu, sem er að minnsta kosti jafnhæfur til starfs, ef hann er af kyni sem er í minnihluta í starfsgrein. Fyrir liggi að 10 af 14 æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar séu konur, enda hafi Reykjavíkurborg notað það viðmið við kynningar á hinum nýju störfum, m.a. á heimasíðu sinni.
Með vísan til framangreinds er byggt á því af hálfu kæranda að ekki hafi verið gætt ákvæða 23.–25. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar þann 25. nóvember 2004.
IV
Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Á því er byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hafi ekki verið brotin við ráðningu í starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, enda hafi sú sem ráðin var í stöðuna verið öðrum umsækjendum hæfari.
Starfið hafi verið auglýst að undangengnum viðamiklum breytingum á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem samþykktar hafi verið á fundi borgarstjórnar 9. október 2004. Áður en staðan var auglýst hafi verið gerð ítarleg úttekt á réttarstöðu Reykjavíkurborgar og stjórnenda hennar við breytingar á stjórnkerfinu og stjórnsýslunni. Í kjölfar þess hafi verið gerð ítarleg skýrsla, dags. 3. nóvember 2004. Að baki skýrslunni hafi legið sú túlkun borgaryfirvalda að samkvæmt starfsmannastefnu borgarinnar ættu starfsmenn annars vegar rétt til starfsþróunar og starfsöryggis og hins vegar að fagleg þekking og reynsla stjórnenda borgarinnar, m.a. af stjórnkerfi og áætlunargerð, væri Reykjavíkurborg mikilvæg við undirbúning stjórnkerfisbreytinganna og innleiðingu þeirra. Því hafi verið lögð sérstök áhersla á umsóknir úr hópi þeirra sem reynslu hefðu af störfum fyrir Reykjavíkurborg.
Á því er jafnframt byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að almennt verði að ætla þeim sem ræður í starf talsvert svigrúm til að velja þau viðmið sem leggja eigi til grundvallar við ráðninguna og að ákveða innbyrðis vægi þeirra. Af þeim átta umsóknum sem bárust hafi þrír umsækjendur verið metnir hæfastir á grundvelli þeirra krafna sem fram komu í auglýsingu um starfið og hafi kærandi ekki verið meðal þeirra, enda hafi hann ekki verið talinn uppfylla allar hæfniskröfur sem gerðar voru til umsækjenda. Allar umsóknir hafi verið metnar með tilliti til þeirra menntunar- og hæfniskrafna sem gerðar voru til umsækjenda á grundvelli umsókna og fylgigagna þeirra.
Sú sem ráðin var til starfans tilgreindi námsferil sinn með svofelldum hætti í umsókn um starfið: Stúdentspróf frá félagsfræðideild Menntaskólans á Akureyri vorið 1985, sótti námskeið í bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1988–1989, B.A.-Hons.-gráða í samskipta- og ímyndarfræði frá Háskólanum í Kent á Englandi árið 1993. Að auki hafi verið tilgreind námskeið og endurmenntun tengd störfum þeirrar sem ráðin var, svo sem námskeið um skapandi markaðssetningu borga (European City Tourism/Nice) árið 2004, leiðtoganámskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2003, námskeið um samstarf menningar- og atvinnulífs (IFEA/Vín) árið 2003 og námskeið um vefsvæði, hönnun og viðhald árið 2003.
Sú sem starfið hlaut tilgreindi starfsferil sinn með eftirfarandi hætti:
2002–2004 Forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Stofnun stofunnar og rekstur frá 1. janúar 2003.
2002 Umsjón með hugmyndavinnu og frumathugun á nýtingarmöguleikum Eiðajarðarinnar á Héraði.
2001 Ritstjórn landkynningarrits á ensku á vegum forsætisráðuneytis.
Ráðgjöf í markaðs- og kynningarmálum, dagskrárgerð fyrir sjónvarp og pistlaskrif fyrir Morgunblaðið.
Ritstjórn og umsjón með útgáfu á lokaskýrslu Menningarborgarinnar og ljósmyndabókar með svipmyndum frá menningarárinu.
1998–2001 Kynningarstjóri Reykjavíkur Menningarborgar Evrópu árið 2000.
1998 Fjölmiðlafulltrúi Listahátíðar í Reykjavík.
1995–1998 Ritstjóri (1996–1998) og dagskrárgerðarmaður menningar- og dægurmálaþáttarins Dagsljóss hjá Sjónvarpinu.
1994–1995 Blaðamaður á Future Events News Service í Lundúnum.
1993–1994 Verkefnisstjóri á menningarskrifstofu íslenska sendiráðsins í Lundúnum.
1990–1993 Ritstörf með námi.
1986–1990 Ritstjóri (1988–1990), ritstjórnarfulltrúi og blaðamaður á tímaritinu Mannlífi.
1985–1986 Blaðamaður á DV.
Í umsókn um starfið tilgreindi sú sem starfið hlaut, að hún hefði mjög gott vald á að rita og tala íslensku og ensku. Jafnframt læsi hún og skildi þýsku ágætlega, læsi Norðurlandamálin ágætlega auk þess sem hún skildi persnesku sæmilega. Að auki hefði hún góða þekkingu á Windows, Excel, PowerPoint, Lotus Notes og ýmsum myndvinnsluforritum, auk nokkurrar þekkingar á Agresso, GoPro, WebPagePro og Vefþóri vefgerðarforriti. Að auki byggi hún yfir staðgóðri þekkingu á flestu sem lyti að hönnun, auglýsingagerð, framleiðslu og útgáfu, sem og góðri þekkingu á íslenskum fjölmiðlum og víðtækri reynslu í að koma fram sem talsmaður verkefnis jafnt innan lands sem utan. Þá kom fram að hún væri í stjórn Austurhafnar TR, formaður stjórnar Ráðstefnuskrifstofu Íslands, fulltrúi Íslands í International Festivals and Events Associations, fulltrúi í ráðgjafarnefnd UNICEF á Íslandi og formaður úthlutunarnefndar tónlistarsjóðsins Reykjavík Loftbrú.
Á því er byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að sú sem starfið hlaut hafi verið hæfari en kærandi. Í fyrsta lagi sé menntun hennar sett saman úr ýmsum húmanískum og félagsfræðilegum greinum, m.a. táknfræði, kvikmyndafræði, fjölmiðlafræði og fleiri greinum með áherslu á almannatengsl og markaðssetningu. Því henti nám hennar vel fyrir sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Í öðru lagi hafi ekki verið munur á tungumálakunnáttu kæranda og þeirrar sem starfið hlaut. Þau hafi verið talin hafa ámóta þekkingu á því sviði. Í þriðja lagi hafi sú sem starfið hlaut umtalsvert meiri reynslu af mannaforráðum, m.a. vegna starfa hennar hjá Höfuðborgarstofu, auk margháttaðra annarra starfa, svo sem ritstjórn menningar- og dægurmálaþáttarins Dagsljóss, sem og annarra starfa sem tilgreind voru í umsókn hennar. Í fjórða lagi hafi sú sem starfið hlaut yfir að búa ríkum forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikum. Hún hafi stýrt uppbyggingu og síðar rekstri Höfuðborgarstofu auk þess sem hún hafi lagt sig sérstaklega eftir leiðtogaþjálfun. Að auki hafi hún gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Í fimmta lagi hafi sú sem starfið hlaut haft til brunns að bera menntun, faglega þekkingu og víðtæka reynslu á sviði menningar- og ferðamála. Hún hafi sinnt ýmsum og margháttuðum störfum á sviði menningar, auk þess sem hún hafi í störfum sínum hjá Höfuðborgarstofu aflað sér víðtækrar þekkingar á ferðamálum, enda annist Höfuðborgarstofa meðal annars verkefni Upplýsingamiðstöðvar ferðamála. Þá fari Höfuðborgarstofa með yfirstjórn viðburða á sviði menningarmála og yfirstjórn ferðamála og upplýsingamála fyrir ferðamenn fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hún hafi jafnframt lagt sig eftir símenntun á þessu sviði og að auki verið ritstjóri landkynningarrits á ensku sem gefið var út á vegum forsætisráðuneytisins. Því hafi hún búið yfir mun meiri og fjölbreyttari fagþekkingu á sviði menningar- og ferðamála en kærandi og hafi kærandi ekki verið talinn uppfylla það hæfisskilyrði um fagþekkingu á ferðamálum sem sett var fram í auglýsingu um starfið. Í sjötta lagi hafi hún aflað sér ríkulegrar þekkingar á stjórnkerfi borgarinnar í störfum sínum sem forstöðumaður Höfuðborgarstofu, enda hafi forstöðumaðurinn talist til æðstu stjórnenda borgarinnar. Þá hafi hún áður gegnt stjórnunarstörfum fyrir Reykjavíkurborg, m.a. sem kynningarstjóri Menningarborgar 2000. Hins vegar hafi kærandi ekki verið talinn uppfylla þá hæfniskröfu að hafa þekkingu á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Í sjöunda lagi hafi sú sem ráðin var reynslu af gerð árlegra starfs- og fjárhagsáætlana fyrir borgarstofnun, en gerð þeirra lúti ströngum kröfum um stefnumiðaða stjórnun, stefnu- og skorkort, hagræðingu, uppsetningu, árangursmælikvarða og eftirfylgni. Jafnframt hafi sú sem ráðin var sýnt fram á þekkingu sína og reynslu af breytingarstjórnun við uppbyggingu Höfuðborgarstofu og þá nýsköpun og nýmæli varðandi menningarmál, ferðamál og viðburðastjórnun sem fylgdi í kjölfar stofnunar Höfuðborgarstofu.
Við mat á umsókn kæranda hafi einkum verið litið til þess að hann teldist hafa litla þekkingu á opinberri stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, enga reynslu eða þekkingu á sviði ferðamála og takmarkaða reynslu af hefðbundinni stjórnun, rekstri og mannaforráðum.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er jafnframt byggt á því að ekki sé að finna einhlíta túlkun á því við hvaða hóp skuli miðað þegar metin eru hlutföll kynja í starfsgreinum í skilningi jafnréttislaga. Um langa hríð hafi hlutur kvenna í öllum stjórnunarstöðum samanlagt hjá Reykjavíkurborg verið mun meiri en karla, enda séu þrír fjórðu hlutar af öllum starfsmönnum Reykjavíkurborgar konur. Hins vegar gegni 28 einstaklingar æðstu stjórnunarstöðum Reykjavíkurborgar. Í þann flokk falli æðstu embættismenn í miðlægri stjórnsýslu og forstöðumenn stærstu stofnana borgarinnar, svonefndur „kjaranefndarhópur“. Kjör, réttindi og skyldur þessa hóps séu ákvörðuð af kjaranefnd Reykjavíkurborgar sem hafi sambærilegt umboð gagnvart honum og Kjaradómur annars vegar og kjaranefnd ríkisins hins vegar. Við stjórnkerfisbreytingarnar árið 2004 og eftir að ráðið var í hinar nýju stöður sé staðan innan „kjaranefndarhópsins“ sú að karlar í hópnum eru tólf, konur þrettán, en enn sé óráðið í sex stöður og óvíst sé um framhald þeirra.
Á því er byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki sé rétt að sníða hugtakinu „starfsgrein“ svo þröngan stakk sem kærandi geri í kærunni. Réttara sé að miða við „kjaranefndarhópinn“ í stað þess að miða við 14 „æðstu stöður hjá Reykjavíkurborg“. Þar muni kærandi eiga við tíu sviðsstjórastöður, tvær skrifstofustjórastöður, stöðu forstöðumanns innri endurskoðunar og stöðu borgarstjóra. Réttara sé að miða við þann hóp sem teljist til æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar samkvæmt framansögðu, þ.e. „kjaranefndarhópinn“.
Það hafi því verið niðurstaða Reykjavíkurborgar að við ráðningu í starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar hafi hæfasti umsækjandinn verið ráðinn, og að jafnframt hafi við ráðninguna verið gætt ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
V
Niðurstaða
Tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.
Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðinn var sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs hjá Reykjavíkurborg hinn 25. nóvember 2004, einkum ákvæði 24. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 96/2000.
Með auglýsingu sem birtist í fjölmiðlum þann 7. nóvember 2004 var starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar auglýst laust til umsóknar. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að við ráðningu í starfið yrði sérstaklega horft til þekkingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, reynslu af breytingastjórnun og áhuga á að taka þátt í undirbúningi þeirra stjórnkerfisbreytinga sem framundan væru hjá Reykjavíkurborg. Þá var þess jafnframt getið að starfið væri nánar auglýst á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Í auglýsingu starfsins sem birtist á heimasíðu Reykjavíkurborgar kom fram að þær kröfur sem gerðar væru til umsækjenda væru háskólamenntun sem nýttist í starfi, tungumálakunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti, forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikar, reynsla af mannaforráðum, fagleg þekking á menningar- og ferðamálum, þekking á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, reynsla af starfs- og fjárhagsáætlanagerð og reynsla af breytingastjórnun. Fram kom í auglýsingunni að sviðsstjórinn væri framkvæmdastjóri menningar- og ferðamálaráðs (svo) og tæki þátt í sameiginlegum verkefnum yfirstjórnar Reykjavíkurborgar á þessum sviðum og bæri ásamt borgarstjóra og öðrum yfirstjórnendum ábyrgð á að áherslur borgaryfirvalda næðu fram að ganga. Hann sinnti samræmingu og samhæfingu í rekstri og þjónustu, bæri ábyrgð á daglegri stjórnun og rekstri sviðsins og starfs- og fjárhagsáætlun þess. Þá sinnti hann samskiptum við kjörna fulltrúa og stofnanir Reykjavíkurborgar og bæri ábyrgð á upplýsingum um starfsemi sviðsins, auk þess sem hann annaðist tengsl og samskipti innan lands sem utan. Helstu verkefni væru dagleg yfirstjórn, ábyrgð á fjármálum, þ.m.t. fjárhags- og starfsáætlunum, þátttaka í og frumkvæði að undirbúningi stefnumótunar um menningar- og ferðamál hjá Reykjavíkurborg sem og samstarf við aðila innan og utan borgarkerfisins vegna verkefna sviðsins.
Alls bárust átta umsóknir um starfið, frá fjórum körlum og fjórum konum. Umsóknirnar voru metnar af skrifstofustjóra rekstrar- og þjónustuskrifstofu Reykjavíkurborgar. Niðurstaða þess mats var sú að þrír umsækjenda þóttu standa framar öðrum umsækjendum á grundvelli þeirra krafna sem gerðar voru í auglýsingu um starfið og voru þeir í kjölfar þess boðaðir til starfsviðtals. Fyrir liggur að kærandi var ekki einn þeirra þriggja sem boðaður var í starfsviðtal. Að loknum starfsviðtölum var tillaga lögð fyrir borgarráð um að ráða tiltekinn umsækjanda í starfið og var tillagan samþykkt einróma í borgarráði þann 25. nóvember 2004.
Í greinargerð kæranda til kærunefndar jafnréttismála, dags. 8. desember 2004, er á því byggt að kærandi hafi a.m.k. verið jafn hæfur og sú sem ráðin var í starfið. Á því er byggt að menntun kæranda sé meiri og nýtist betur við stjórnunarstarf hjá Reykjavíkurborg, auk þess sem starfsreynsla hans sé mun fjölþættari, yfirgripsmeiri og lengri en þeirrar sem starfið hlaut. Þá er jafnframt byggt á því að meirihluti yfirmanna Reykjavíkurborgar hafi verið konur. Því hafi Reykjavíkurborg, með því að ráða kæranda ekki í stöðuna, brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.
Í greinargerð kæranda til kærunefndarinnar er gerð nákvæm grein fyrir starfs- og námsferli kæranda. Fram kemur að kærandi hafi, auk stúdentsprófs, próf frá Leiklistarskóla Íslands vorið 1991, hafi lokið 30 eininga námi í íslensku og bókmenntum frá Háskóla Íslands og alþjóðlegri MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á stefnumótun og rafræn viðskipti vorið 2003. Þá hafi kærandi leikið í fjölda leiksýninga, kvikmynda, sjónvarpsmynda og auglýsinga auk þess sem hann hafi leikstýrt leiksýningum. Jafnframt hafi starfað við kynningu og markaðssetningu, verið sölustjóri á fasteignasölum, markaðsráðgjafi, og annast framkvæmdastjórn sérverkefna hjá Sögn ehf. Einnig hafi hann unnið að ráðgjafarverkefni sem laut að stefnumótun fyrir fyrirtækjasvið Íslandssíma hf. (lokaverkefni við HR), hafi unnið að stefnumótun fyrir Árvakur hf. vegna fasteignablaðs og fasteignavefjar og unnið að stefnumótun fyrir Íbúðalánasjóð, Loftkastalann og Endurmenntun Háskóla Íslands og flugfélagið Iceland Express. Þá var gerð ítarleg grein fyrir stjórnunarreynslu sem meðal annars fólst í leikstjórn leiksýninga, meðframleiðslu að erlendri sjónvarpsmynd, framleiðslu og leikstjórn söngleikja erlendis, sölustjórn á fasteignasölum og markaðsstjórn hjá Íbúðalánasjóði og Endurmenntun Háskóla Íslands. Þá gerði kærandi grein fyrir félags- og trúnaðarstörfum sem hann hafði sinnt.
Í greinargerð Reykjavíkurborgar til kærunefndar jafnréttismála, dags. 14. janúar 2005, er á því byggt að sú sem ráðin var hafi staðið öðrum umsækjendum framar og verið hæfasti umsækjandinn. Var þar gerð nánari grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu að baki ráðningunni, þar með talið varðandi mat á þýðingu menntunar kæranda og þeirrar sem ráðin var, reynslu af mannaforráðum, forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikum, faglegri þekkingu á menningar- og ferðamálum og þekkingu á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, en við mat á umsóknum hafi verið lögð sérstök áhersla á umsóknir þeirra sem reynslu hefðu af störfum fyrir Reykjavíkurborg.
Allar umsóknirnar hafi verið metnar með tilliti til þeirra menntunar- og hæfniskrafna sem gerðar voru til umsækjenda á grundvelli umsókna og fylgigagna þeirra og hafi þrír umsækjenda verið boðaðir til viðtals að því mati loknu. Hafi kærandi ekki verið einn þeirra, enda hafi hann ekki verið talinn uppfylla allar hæfniskröfur sem gerðar voru til umsækjenda.
Sú sem ráðin var hafi, auk stúdentsprófs, lokið B.A.-Hons.-gráðu í samskipta- og ímyndarfræði frá Háskólanum í Kent á Englandi 1993, auk nánar tilgreindra námskeiða og endurmenntunar, þ.m.t. námskeið í bókmenntafræði hjá Háskóla Íslands 1988–1989. Hún hafi starfað sem blaðamaður á DV, verið blaðamaður, ritstjórnarfulltrúi og síðar ritstjóri tímaritsins Mannlífs, gegnt starfi verkefnisstjóra á menningarskrifstofu íslenska sendiráðsins í Lundúnum og starfað sem blaðamaður hjá Future Events News Service í Lundúnum. Hún hafi starfað sem dagskrárgerðarmaður og síðar ritstjóri menningar- og dægurmálaþáttarins Dagsljóss hjá Sjónvarpinu, starfað sem fjölmiðlafulltrúi Listahátíðar í Reykjavík og verið kynningarstjóri Reykjavíkur, Menningarborgar Evrópu árið 2000. Hún hafi verið ritstjóri landkynningarrits sem gefið var út á ensku á vegum forsætisráðuneytis og frá árinu 2002 gegnt starfi forstöðumanns Höfuðborgarstofu. Jafnframt sæti hún í stjórn Austurhafnar TR, væri formaður stjórnar Ráðstefnuskrifstofu Íslands, fulltrúi Íslands í International Festivals and Events Associations, fulltrúi í ráðgjafarnefnd UNICEF á Íslandi og formaður úthlutunarnefndar tónlistarsjóðsins Reykjavík Loftbrú.
Í rökstuðningi Reykjavíkurborgar sem fylgdi tillögu um ráðningu í starf sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, dags. 25. nóvember 2004, kemur fram að sú sem ráðin var hafi verið sú úr hópi umsækjenda sem að þeirra mati sameinaði best reynslu og þekkingu á þeim málaflokkum sem hinu nýja menningar- og ferðamálasviði væri ætlað að fara með. Hún hefði í störfum sínum sýnt að hún byggi yfir miklum forystu-, skipulags- og samskiptahæfileikum og hefði öðlast reynslu af breytingastjórnun með því að setja Höfuðborgarstofu á laggirnar, en verkefni Höfuðborgarstofu liggi jafnt á sviði menningar- og ferðamála með sérstakri áherslu á samþættingu þessara þátta.
Jafnframt er á því byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að almennt verði að ætla þeim sem ráði í starf talsvert svigrúm til þess að velja þau viðmið sem leggja eigi til grundvallar við ráðninguna og að ákveða innbyrðis vægi þeirra.
Í máli þessu er deilt um ráðningu í nýtt starf í yfirstjórn Reykjavíkurborgar en ráðning var liður í umtalsverðum stjórnkerfisbreytingum hjá Reykjavíkurborg. Það er álit kærunefndar að í þessu tilviki hafi mátt játa Reykjavíkurborg viðeigandi svigrúm til þess að ákveða hvaða þættir voru helst taldir skipta máli við mat á hæfni umsækjenda, enda væri að því leyti til byggt á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.
Hér að framan hefur verið gerð ítarleg grein þeim upplýsingum sem fyrir lágu um umsækjendur þegar ráðið var í starfið, þ.m.t. varðandi menntun og starfsreynslu viðkomandi umsækjenda. Jafnframt hefur verið gerð grein fyrir rökstuðningi Reykjavíkurborgar fyrir ráðningu í umrætt starf. Fyrir liggur að af hálfu Reykjavíkurborgar var einkum lögð áhersla á að sú sem ráðin var í starfið hafi haft víðtæka þekkingu á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar umfram kæranda, m.a. vegna starfa hennar við stofnun og síðar sem forstöðumaður Höfuðborgarstofu, jafnhliða meiri þekkingu á ferðamálum eins og krafa var gerð til í auglýsingu um starfið.
Með vísan til þessa og að öðru leyti til þess samanburðar sem rakinn hefur verið hér að framan þykja ekki forsendur til að hafna þeim rökstuðningi Reykjavíkurborgar að sú sem ráðin var hafi, með tilliti til þeirrar þekkingar og reynslu sem hún hafi búið yfir, einkum varðandi stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og skyld málefni, verið talin hæfari til að gegna starfinu en kærandi. Er þá jafnframt haft í huga að um nýtt og tiltölulega ómótað starf var að ræða innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar.
Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki séu efni til þess að líta svo á að Reykjavíkurborg hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar þann 25. nóvember 2004.
Andri Árnason
Ragna Árnadóttir
Ása Ólafsdóttir