Mál nr. 17/2011
Fimmtudaginn 22. september 2011
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 9. ágúst 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 2. ágúst 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 7. júlí 2011, um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni í fullu námi.
Með bréfi, dags. 10. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 3. september 2011.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 15. september 2011.
I.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi greinir frá því að haustið 2010 hafi hún verið skráð í fullt nám í B við C-háskóla eða 30 einingar (þrjú 10 eininga námskeið) og hugðist ljúka því. Hún hafi á hinn bóginn þurft að breyta áætlunum sínum og segja sig úr einu námskeiðinu vegna aðgerðar tengdri meðgöngu. Námskeiðið sem hún hafi sagt sig úr hafi byggst að öllu leyti á ferðalagi í nokkra daga en á sama tíma hafi hún farið í eggheimtuaðgerð og uppsetningu fósturvísa (glasafrjóvgun) sem þau hjónin hafi áætlað og beðið lengi eftir. Hún hafi því ekki átti annan kost en að segja sig úr námskeiðinu og hún hafi ekki átt tök á því að fara í annað námskeið í staðinn þar sem það hafi verið orðið of seint. Hún hafi þó lokið 20 einingum (tveimur 10 eininga námskeiðum) eða sem nemi 68% námi á haustönn 2010. Vekur kærandi athygli á því að í náminu séu einungis 10 eininga námskeið í boði. 75% nám sé því ekki valmöguleiki. Hún hafi heldur ekki haft tök á að stýra eða breyta tímasetningu aðgerðarinnar.
II.
Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.
Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram kærandi hafi með umsókn, dags. 9. maí 2011, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 4,5 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 2. ágúst 2011. Með umsókn kæranda hafi fylgt yfirlit frá C-háskóla, dags. 24. maí 2011, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 12. maí 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.
Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. júlí 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi þar sem hún hefði ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám á haustönn 2010.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með kæru hafi fylgt læknisvottorð, dags. 4. ágúst 2011, ásamt nýju yfirliti frá C-háskóla, ódagsettu. Í kjölfarið hafi sjóðurinn aflað frekari upplýsinga. Annars vegar frá C-háskóla, sbr. tölvupóst, dags. 16. ágúst 2011, og hins vegar hafi verið óskað eftir staðfestingu frá D, sbr. bréf, dags. 23. ágúst 2011. Þá hafi verið óskað eftir upplýsingum um uppbyggingu þess námskeiðs sem kærandi sagði sig úr, sbr. bréf frá kæranda, dags. 23. ágúst 2001 og fylgigögn með því bréfi.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að barn kæranda sé fætt Y. ágúst 2011 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. ágúst 2010 fram að fæðingardegi barnsins.
Sjóðurinn bendir á að samkvæmt ódagsettu yfirliti frá C-háskóla komi fram að kærandi hafi lokið 20 ECTS einingum á haustönn 2010 og sagt sig úr 10 ECTS einingum. Á vorönn 2011 hafi kærandi lokið 40 ECTS einingum.
Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljast 22 – 30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að kærandi uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem kærandi hafi einungis lokið 20 ECTS einingum á haustönn 2010.
Fæðingarorlofssjóður bendir á að í ffl. sé að finna undanþágu fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna.
Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eiga við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni.
Fæðingarorlofssjóður bendir á að í læknisvottorði C, dags. 4. ágúst 2011, komi fram að kærandi hafi verið í glasafrjóvgunarmeðferð í október til nóvember 2010 og að hún hafi þurft að mæta í skoðun/meðferð reglulega, þó án innlagnar. Á þeim tíma hafi hún þurft að minnka við sig í námi.
Samkvæmt upplýsingum frá C-háskóla, sbr. tölvupóst, dags. 16. ágúst 2011, hafi kærandi sig úr 10 ECTS eininga áfanga af haustönn 2010 þann 28. september 2010.
Í vottorði frá C lækni, dags. 23. ágúst 2011, komi fram að kærandi hafi hafið tæknifrjóvgunarmeðferð á D 10. október 2010. Hormónagjöf hafi hafist sama dag. Eggheimta hafi verið framkvæmd 10. nóvember og uppsetning fósturvísis hafi verið 12. nóvember. Þungun hafi verið staðfest 26. nóvember 2010.
Í fylgigögnum með bréfi kæranda, dags. 23. ágúst 2011, komi fram að námskeiðið sem kærandi sagði sig úr hafi átt að standa yfir dagana 14. til 17. október 2010. Samkvæmt framangreindu hafi kærandi sagt sig úr áfanganum 28. september 2010 en þungun hafi á hinn bóginn ekki verið staðfest fyrr en 26. nóvember 2010 eða tæpum tveimur mánuðum síðar. Meðferð hafi aftur á móti hafist 10. október 2010.
Eins og fram komi í 13. mgr. 19. gr. ffl. sé heimilt að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Af framangreindu telur Fæðingarorlofssjóður ljóst að ákvæðið geti ekki tekið til aðstæðna kæranda enda hafi hvorki meðferðin né meðgangan verið hafin þegar kærandi sagði sig úr áfanganum 28. september 2010.
Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingardag barns né heldur að undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. geti átt við. Kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.
III.
Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.
Í athugasemdum við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vísar kærandi til þess að samkvæmt niðurstöðu sjóðsins geti ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. þess efnis að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, ekki tekið til hennar aðstæðna þar sem hvorki meðferð hennar í glasafrjóvgun né meðganga hennar verið hafin þegar hún hafi sagt sig úr áfanganum 28. september 2010.
Kærandi bendir á að við upphaf náms á haustönn hafi henni verið ljóst að hún kæmist fyrr að í glasafrjóvgunarmeðferð en til hafi staðið, það er í október í stað desember 2010. Á þessum tíma hafi henni borist náms- og kennsluáætlun fyrir námskeiðið sem hún hafi þurft að segja sig úr og hún hafi séð að meðferðin og námskeiðið myndu vera á sama tíma. Úrsagnarfrestur úr námskeiðinu hafi verið 1. október 2010, það fáist staðfest hjá skólanum. Af þeirri ástæðu hafi hún þurft að ákveða fyrir 1. október 2010, hvort hún gæti tekið námskeiðið eða ekki og þess vegna hafi hún sagt sig úr námskeiðinu 28. september 2010, áður en meðferðin hafi hafist. Ekki hafi verið vitað hvenær meðferðin myndi hefjast og að hún myndi hafa töluverð áhrif á getu og tíma til náms. Þetta geti læknir hennar staðfest.
IV.
Niðurstaða.
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna vegna fæðingar barns hinn Y. ágúst 2011
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.
Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá fæddist barn kæranda hinn Y. ágúst 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. ágúst 2010 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt yfirliti frá C-háskóla, dags. 24. maí 2011, lauk kærandi 20 ECTS einingum á haustönn 2010 og 40 ECTS einingum á vorönn 2011. Samkvæmt ódagsettu yfirliti frá sama skóla var kærandi skráð í 30 ECTS einingar á haustönn 2010 en sagði sig úr 10 ECTS einingum. Samkvæmt gögnum málsins skráði hún sig úr námskeiðinu 28. september 2010.
Fullt nám við C-háskóla er 30 ECTS einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 ECTS einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Þar sem kærandi lauk ekki fullu námi á haustönn 2010 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.
Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.
Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð C, dags. 4. ágúst 2011, þar sem fram kemur að hún hafi verið í glasafrjóvgunarmeðferð í október og nóvember 2010 og því þurft að mæta í skoðun/meðferð reglulega, þó án innlagnar. Á þeim tíma hafi hún þurft að minnka við sig í námi.
Í vottorði sama læknis, dags. 23. ágúst 2011, kemur fram að kærandi hafi hafið tæknifrjóvgunarmeðferð á D 10. október 2010. Hormónagjöf hafi hafist sama dag. Eggheimta hafi verið framkvæmd 10. nóvember og uppsetning fósturvísis hafi verið 12. nóvember. Þungun hafi verið staðfest 26. nóvember 2010.
Í athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 74/2008 segir um 16. gr.: „Jafnframt er lagt til að sú heimild að taka tillit til aðstæðna móður þegar hún getur ekki stundað nám sitt á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna verði færð í lögin en áður hefur eingöngu verið kveðið á um þessa heimild í reglugerð. Er þá átt við sambærilegar heilsufarsástæður og eiga við um veikindi móður sem valda óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hefur verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni, sbr. 9. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Er gert ráð fyrir að móðir leggi fram vottorð sérfræðilæknis sem hefur annast hana á meðgöngu til staðfestingar á heilsufari hennar á þeim tíma.“
Ákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. er afdráttarlaust þess efnis að átt er við veikindi móður á meðgöngu. Ekki er fyrir að fara heimild, hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, til að taka tillit til tilvika sem gerast fyrir það tímamark. Þegar af þeirri ástæðu er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.
Jóna Björk Helgadóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson