Mál nr. 12/2011B. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 5. júlí 2011
í máli nr. 12/2011B:
Logaland ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 15. júní 2011, krafðist Logaland ehf. þess að ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 12/2011, dags. 14. júní 2011, yrði endurupptekin.
Ríkiskaupum var gefinn kostur á að tjá sig um endurupptökubeiðnina og með bréfi, dags. 29. júní 2011, krafðist varnaraðili þess að endurupptökukröfunni yrði hafnað.
I.
Í mars 2011 auglýsti varnaraðili útboð nr. 15039 „Automated system for viral screening and measurement of ferritin in blood donors“. Í útboðsgögnum var m.a. að finna eftirfarandi skilyrði í gr. 1.2.1 sem ber heitið „Qualification Criteria“:
„The tenderer SHALL have an established implementation of a fully operational bi-directional connection to Prosang, the Blood Bank Information System in at least two (2) Blood Banks in Europe.“
Sóknaraðili kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála og gerði eftirfarandi kröfur:
„1. Að kærunefndi stöðvi þegar í stað innkaupaferli/gerð samnings á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
2. Að kærunefndin felli úr gildi ólögmæta skilmála í útboðslýsingu þar sem krafist er að bjóðendur hafi „established implementation of a fully operational and bi-directional connection to Prosang, the Blood Bank Information System in at least two (2) Blood Banks in Europe,“ en þessi krafa er sett fram í eftirtöldum ákvæðum útboðsins:
Ákvæði 7. mgr. í gr. 1.2.1
Ákvæði gr. 2.3.4, þriðji reitur að ofan í töflu
Ákvæði gr. 5.3 (bls. 6 í viðauka)
3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda.
4. Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða Ríkiskaup greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“
Með bréfi, dags. 8. júní 2011, krafðist varnaraðili þess að kærunni yrði vísað frá en annars að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað og að sóknaraðila yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.
Hinn 14. júní 2011 tók kærunefnd útboðsmála eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 12/2011:
„Kröfu kæranda, Logalands ehf., um að stöðvað verði innkaupaferli útboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 15039 „Automated system for viral screening and measurement of ferritin in blood donors“, er hafnað.“
II.
Sóknaraðili telur að ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi og mögulega röngum upplýsingum um það hvenær kærandi vissi eða máttti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann taldi brjóta gegn réttindum sínum. Sóknaraðili segir að honum hafi fyrst orðið ljóst að varnaraðili myndi ekki breyta útboðsskilmálum þegar honum bárust svör við fyrirspurnum sem hann hafði sent. Sóknaraðili segist hafa haft fulla ástæðu til að ætla að honum tækist að fá útboðsskilmálum breytt því varnaraðili hafi m.a. gert aðrar breytingar á útboðsskilmálum. Sóknaraðil segir alþekkt að í útboðum berist margvíslegar fyrirspurnir og athugasemdir.
III.
Varnaraðili segir að í hinu kærða útboði hafi verið boðinn út sérhæfður tækjabúnaður við sams konar aðstæður og áður hafði verið gert í öðru útboði, þar sem gerðar hafi verið sams konar kröfur um reynslu. Sóknaraðili hafi einnig tekið þátt í því útboði. Sóknaraðili hafi því verið kunnugur öllum aðstæðum og mátt vera ljóst að kröfum útboðsgagna yrði ekki breytt.
IV.
Ákvæði 95. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, fjallar um meðferð mála hjá kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt 8. mgr. 95. gr. laganna gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um meðferð kærumála að öðru leyti en kveðið er á um í 95. gr. laga nr. 84/2007. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. á aðili máls einnig rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í endurupptökubeiðni hefur ekki verið vísað til nýrra upplýsinga, málsástæðna eða lagaraka. Þannig er ekkert fram komið um það að upphafleg ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í endurupptökubeiðni er eingöngu byggt á því að túlka eigi upphaf kærufrests með öðrum hætti en kærunefnd útboðsmála gerði í ákvörðun sinni, dags. 14. júlí 2011. Kærunefnd útboðsmála telur að túlkun nefndarinna á upphafi kærufrests eigi skýra stoð í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, einkum ef litið er til athugasemda við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007. Eru þannig engin lagaskilyrði til þess að endurupptaka ákvörðun nefndarinnar.
Ákvörðunarorð:
Kröfu sóknaraðila, Logalands, um endurupptöku á ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 12/2011, dags. 14. júní 2011, er hafnað.
Reykjavík, 5. júlí 2011.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, júlí 2011.