Mál nr. 20/2011. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. júlí 2011
í máli nr. 20/2011:
THK ehf.
gegn
Reykjavíkurborg
Með ódagsettu bréfi, sem barst kærunefnd útboðsmála 11. júlí 2011, kærði THK ehf. ákvörðun Reykjavíkurborgar um val á tilboði í útboði kærða nr. 12589 „Metanbifreiðar“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi umrætt samningsferli við Bifreiðar og Landbúnaðarvélar – Ingvar Helgason ehf., á grundvelli ofangreinds útboðs í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.
2. Að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða um að ganga til samningaviðræðna við Bifreiðar og Landbúnaðarvélar – Ingvar Helgason ehf., á grundvelli ofangreinds útboðs, sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
3. Að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. heimild í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
4. að kærunefnd útboðsmála leggi á kærða að greiða kæranda málskostnað að skaðlausu vegna kostnaðar kæranda af því að bera kæruefnið undir kærunefndina, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.“
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með tölvupósti, dags. 11. júlí 2011, bárust svör kærða.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva hið kærða innkaupaferli.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
I.
Í apríl 2011 bauð kærði út „útvegun á 49 fólksbifreiðum sem hafa tvíeldsneytisvél (e. bi fuel) sem gengur fyrir metan og bensíni. Heimilt er að bjóða breyttar bifreiðar, þar sem búið er að breyta bensínvel í metan/bensín tvíeldsneytisvél“.
Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu. Hinn 14. júní 2011 tilkynnti kærði að gengið hefði verið að tilboði Ingvars Helgasonar ehf. / Bifreiða og landbúnaðarvéla ehf. Hinn 24. júní 2011 tilkynnti kærði að tilbðið hefði verið endanlega samþykkt.
II.
Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að þegar innkaupaferli ljúki með vali kaupanda á tilboði skuli líða a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. laganna er kominn á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.
Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 og þegar af þeirri ástæðu er kærunefnd útboðsmála ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva samningsgerðina.
Ákvörðunarorð:
Kröfu kæranda, THK ehf., um að stöðvuð verði samningsgerðs kærða, Reykjavíkurborgar, í kjölfar útboðs nr. 12589 „Metanbifreiðar“, er hafnað.
Reykjavík, 15. júlí 2011.
Páll Sigurðsson
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, júlí 2011.