Hoppa yfir valmynd

Nr. 108/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 108/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20020041 og KNU20020042

Beiðni […] og barna þeirra um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 17. október 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 4. júlí 2019, um að synja einstaklingum er kveðast heita […], vera fæddur […], og […], vera fædd […] og börnum þeirra, […], fd. […], […], fd. […] og […], fd […], ríkisborgurum Írak, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 21. október 2019. Þann 18. febrúar 2020 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum.

Krafa kærenda um endurupptöku byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur krefjast þess að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 4. júlí 2019 og að fjölskyldunni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi, með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 74. gr. laga um útlendinga.

II. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi komið til landsins þann 7. júní 2018 og sótt um alþjóðlega vernd. Þegar kærunefnd útlendingamála hafi komist að niðurstöðu i máli fjölskyldunnar, þann 17. október 2019 hafi verið liðnir rúmlega 16 mánuðir frá umsókn til niðurstöðunnar. Nú séu liðnir fjórir mánuðir síðan kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð sinn og fjölskyldan sé enn á landinu. Hafi fjölskyldan því verið á landinu í meira en 20 mánuði. Kærendur vísa til þeirrar þróunar sem hafi orðið í málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd og þeirra breytinga sem nýlega hafi verið gerðar á reglugerð um útlendinga. Krefjast kærendur þess að mál þeirra verið endurupptekið og fjölskyldunni veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærendur vísa til þess að tímamark sem fram komi í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um heimild til að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum frekari skilyrðum, hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi. Nú hafi þetta tímamark verið stytt í 16 mánuði í tilvikum barnafjölskyldna. Almennt sé litið svo á að framangreindum fresti ljúki þegar kærunefnd útlendingamála hafi kveðið upp úrskurð sinn og staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar. Slík túlkun geti hins vegar ekki átt rétt á sér þegar endursending frestist úr hófi fram. Í þeim tilvikum sé eðlilegra að miða tímamarkið við dvöl á landinu, það er fram að þeim tíma sem endursending hefur átt sér stað.

Að öðrum kosti sé hætt við að hælisleitendur festi hér rætur og aðlagist íslensku samfélagi en séu eftir sem áður sendir úr landi löngu síðar án þess að þeim verði sjálfum um kennt. Nú hafi kærendur og börn þeirra skotið föstum rótum hér á landi og aðlagast íslensku samfélagi. Þá sé ljóst að þau beri ekki ábyrgð á að endursending þeirra hafi ekki átt sér stað.

Byggja kærendur á því að kærunefnd beri að líta til þróunar málaflokksins sem heild en með setningu reglugerðar nr. 122/2020 hafi málsmeðferðartími í málum barnafjölskyldna verið styttur enn frekar. Ætti þá að miða við þann tíma sem líður frá því að umsókn um hæli er lögð fram þar til brottvísun er framkvæmd. Skipti það umsækjanda litlu hvort niðurstaða fáist í málið á stjórnsýslustigi ef að brottvísun er ekki framkvæmd. Líta verði á þau stjórnvöld sem komi að málefnum hælisleitenda sem heildstætt kerfi sem beri sameiginlega ábyrgð á málsmeðferðartíma. Sjónarmið um túlkun laga um útlendinga sem taki mið af því að um sé að ræða heildstætt kerfi þar sem mörg stjórnvöld annist saman framkvæmd laganna sé að finna í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9722/2018. Telji kærunefndin ekki tilefni til að beita 2. mgr. í máli kærenda vísa kærendur til 1. mgr. 74. gr. og þess að sú lagagrein feli í sér nokkuð víðtæka og matskennda heimild til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá beri nefndinni að taka sérstakt tillit til barna kærenda og hversu vel þau hafi aðlagast íslensku samfélagi. Hvort sem tímamark samkvæmt nýrri reglugerð muni miðast við úrskurð kærunefndar eða framkvæmd brottvísunar telja kærendur ljóst að í tilviki þeirra hafi málsmeðferð tekið meira en 16 mánuði og falli mál þeirra því í öllu falli undir nýja reglugerð. Sé því heimilt að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli hennar.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kærenda og barna þeirra þann 18. október 2019, en með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synja þeim og börnum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Eins og fram er komið byggja kærendur endurupptökubeiðni á því að atvik í máli þeirra séu verulega breytt í ljósi þess tíma sem hafi liðið frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp, án þess að komið hafi til flutnings þeirra af landinu. Þá byggja kærendur á því að börn kærenda uppfylli skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Þann 17. febrúar 2020 setti dómsmálaráðherra reglugerð nr. 122 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og tók reglugerðin gildi við birtingu, þann 18. febrúar sl. Með reglugerðarbreytingunni var nýju ákvæði, 32. gr. d., bætt við reglugerð nr. 540/2017. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að umsóknum barna skv. 37. og 39. gr. laga um útlendinga skuli svarað innan 16 mánaða. Þá er kveðið á um í 2. mgr. ákvæðisins að þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að veita barni, sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Fram kemur í 2. gr. reglugerðar nr. 122/2020 að hún sé sett samkvæmt heimild í 5. mgr. 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og að hún öðlist þegar gildi.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. júní 2018 og var úrskurður kærunefndar í málum þeirra birtur þeim þann 21. október 2019, eða um 16 og hálfum mánuði eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Er samkvæmt framangreindu ljóst að börn kærenda fengu ekki niðurstöðu í málum sín innan 16 mánaða. Eru atvik verulega breytt frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í málum barna kæranda og því skilyrði uppfyllt fyrir endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verða mál kærenda einnig endurupptekin.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Eins og áður komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að synja bæri kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í endurupptökubeiðni kærenda kemur ekkert fram sem breytt getur fyrra mati nefndarinnar á þeim þáttum sem skipta máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Telur kærunefnd því að kærendur og börn þeirra hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna, öryggis, velferðar og félagslegs þroska barna kærenda. Þá hefur ekkert komið fram sem breytt getur niðurstöðu málsins að því er varðar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að veita megi útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef hann getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða almennra aðstæðna í heimaríki. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Með reglugerð nr. 122/2020 var tímaviðmið ákvæðisins stytt úr 18 í 16 mánuði ef um er að ræða umsókn barns.

Eins og fram er komið lögðu kærendur fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. júní 2018. Niðurstaða kærunefndar var að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 4. júlí 2019, um að synja kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Úrskurður kærunefndar var birtur þeim þann 21. október 2019. Þegar ofangreindur úrskurður kærunefndar var birtur hafði mál kærenda og barna þeirra verið í málsmeðferð hjá stjórnvöldum í 16 og hálfan mánuð. Börn kærenda teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í mál sín innan þeirra tímamarka sem getið er í 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020. Er því heimilt að veita börnum kærenda dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 74. gr.

Er það mat nefndarinnar að börn kærenda uppfylli skilyrði a- d-liða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 3. mgr. 74. gr. laganna eigi við. Með vísan til framangreinds verður börnum kærenda veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 32. gr. d reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður kærendum einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að veita beri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kærenda og barna þeirra á endurupptöku á máli þeirra.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

The appellants and their childrens’ request for re-examination of their cases is granted.

The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellants and their children based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children related to their applications for international protection are affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                      Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta