Mál nr. 353/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Endurupptekið mál nr. 353/2020
Þriðjudaginn 19. janúar 2021
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. júní 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 23. mars 2020. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. júní 2020, var óskað eftir að kærandi legði fram staðfestingu sýslumanns/tollstjóra um skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts síðastliðinna þriggja tekjuára. Með öðru bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu sama dag, var óskað eftir að kærandi legði fram undirritaða yfirlýsingu atvinnuleitanda um að hefja ekki rekstur án undanfarandi tilkynningar til stofnunarinnar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. júní 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umsóknin væri ófullnægjandi þar sem ekki væri ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. júlí 2020. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar var mál kæranda endurskoðað hjá Vinnumálastofnun og umsókn hans synjað með nýrri ákvörðun, dags. 18. nóvember 2020, þá á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 15. desember 2020. Fyrir mistök var ekki tekin afstaða til beiðni kæranda um að umsókn hans myndi gilda frá árinu 2018 í stað ársins 2020 en Vinnumálastofnun hafði í bréfinu frá 18. nóvember 2020 synjað þeirri beiðni með vísan til [2.] mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna þessa ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið, í kjölfar beiðni kæranda þar um frá 31. desember 2020.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun flokki hann sem sjálfstætt starfandi sem hann sé ekki. Kærandi hafi ítrekað sent stofnuninni öll þau gögn sem hafi verið óskað eftir en samt sé því haldið fram að hann sé sjálfstætt starfandi. Það sé ósk kæranda að Vinnumálastofnun verði látin taka mál hans upp aftur á þeim forsendum að hann sé launþegi, enda hafi hann alltaf verið það.
Í athugasemdum til úrskurðarnefndar ítrekar kærandi að hann hafi aldrei verið sjálfstætt starfandi. Kærandi hafi sótti um atvinnuleysisbætur í mars 2018 en fyrrverandi vinnuveitandi hafi neitaði að senda Vinnumálstofnun staðfestingu og fulltrúi stofnunarinnar hafi þá veitt þær upplýsingar að hann fengi ekki bætur. Kærandi hafi aftur haft samband árið 2020 og þá reynt að fá upplýsingar um af hverju honum hafi verið neitað um bætur. Kæranda hafi þá verið bent á að sækja aftur um sem hann hafi gert.
Í beiðni um endurupptöku kemur meðal annars fram að upphaf máls kæranda megi rekja til mars 2018 en þá hafi hann fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar. Fyrrverandi vinnuveitandi kæranda hafi neitað að skila gögnum og Vinnumálastofnun þá veitt þær upplýsingar að ekkert væri hægt að gera. Þegar kærandi hafi aftur skráð sig hjá Vinnumálastofnun árið 2020 hafi hann verið ranglega skráður sem sjálfstætt starfandi en ekki launþegi. Vegna þessa hafi Vinnumálastofnun óskað eftir alls kyns gögnum og ekki tekið mark á upplýsingum frá kæranda sjálfum. Þá gerir kærandi athugasemd við vinnubrögð úrskurðarnefndarinnar og þann tíma sem málsmeðferðin hafi tekið.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur komi fram að hann hafi verið sjálfstætt starfandi. Af þeim sökum hafi stofnunin óskað eftir gögnum í samræmi við þær upplýsingar. Eftir að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið kærð til nefndarinnar hafi stofnuninni borist ýmis gögn frá kæranda. Meðal þeirra gagna sé skýringarbréf frá kæranda þar sem fram komi að hann hafi aldrei verið verktaki/sjálfstætt starfandi. Auk þess gefi fyrirliggjandi gögn í máli kæranda, þar á meðal staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, ekki til kynna að kærandi sé sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 11. júní 2020 hafi borist staðfesting á starfstímabili frá B Samkvæmt fyrirliggjandi vinnuveitandavottorði í máli kæranda hafi kærandi starfað á ávinnslutímabilinu hjá B á tímabilinu 22. ágúst 2019 til 24. nóvember 2019 í 15% starfshlutfalli. Fleiri gögn liggi ekki til grundvallar um vinnusögu kæranda á ávinnslutímabili. Auk þess segi í skýringarbréfi frá kæranda, sem hafi borist til stofnunarinnar þann 14. júlí 2020, að vinna hans hjá B hafi verið eina vinnan hans síðastliðin þrjú ár. Þann 18. nóvember 2020 hafi umsókn kæranda verið hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar næði ekki lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga.
Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 teljist launamaður, sbr. a-lið 3. gr. laganna, að fullu tryggður samkvæmt lögunum, hafi hann starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Í 2. mgr. 15. gr. laganna komi fram að launamaður, sem hafi starfað skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, sbr. einnig 4. mgr. Þar komi fram að þrátt fyrir ákvæði 1. til 3. mgr. geti tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemi starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skuli miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.
Við útreikning á bótarétti atvinnuleitanda beri því að líta til starfstíma og starfshlutfalls umsækjanda. Launamaður í 100% starfshlutfalli, sem starfi samtals í þrjá mánuði, öðlist þannig rétt til lágmarks 25% grunnatvinnuleysisbóta. Starfi hann í sex mánuði ávinni hann sér rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Hafi sá hinn sami starfað í níu mánuði á ávinnslutímabilinu eigi hann rétt til 75% atvinnuleysisbóta. Tólf mánaða starf í 100% starfshlutfalli veiti rétt til 100% atvinnuleysisbóta. Störf í lægra starfshlutfalli en 25% komi þó ekki til ávinnslu bótaréttar, sbr. a. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Við mat á tryggingarhlutfalli kæranda sé horft til síðustu 36 mánaða frá því að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi borist til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt fyrirliggjandi vinnuveitandavottorði í máli kæranda hafi hann starfað á ávinnslutímabilinu hjá B á tímabilinu 22. ágúst 2019 til 24. nóvember 2019 í 15% starfshlutfalli. Tryggingarhlutfall kæranda reiknist því út frá þeirri forsendu að kærandi hafi starfað sem launþegi, sbr. a. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, á ávinnslutímabilinu. Við mat á tryggingarhlutfalli kæranda hafi verið litið til þeirra þriggja mánaða sem kærandi hafi starfað hjá B á tímabilinu 22. ágúst 2019 til 24. nóvember 2019 í 15% starfshlutfalli. Starf kæranda hjá B uppfylli ekki skilyrði a. liðar 3. gr. laganna um að launþegi þurfi að starfa í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli og veiti honum því ekki rétt til atvinnuleysistrygginga.
Í ljósi alls framangreinds og fyrirliggjandi gagna í máli kæranda beri að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2020, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og að synja beiðni hans um endurupptöku máls. Nánar tiltekið að umsókn hans myndi gilda frá árinu 2018 í stað ársins 2020. Verður fyrst vikið að þeim þætti málsins.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:
- ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.
Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. febrúar 2019, var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist. Beiðni kæranda um endurupptöku þeirrar ákvörðunar barst 17. júlí 2020 og því ljóst að meira en ár var liðið frá því að kæranda var tilkynnt um framangreinda synjun. Kemur því til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins.
Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar varðandi gagnaskil vegna umsóknar um atvinnuleysisbætur á árinu 2018. Fyrir liggur að kæranda var í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. febrúar 2019 leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í sömu ákvörðun var kæranda einnig leiðbeint um að hann gæti óskað eftir endurupptöku málsins ef ákvörðun væri byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Ljóst er að kærandi hvorki kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar né óskaði eftir endurupptöku hjá Vinnumálastofnun á þeim tíma. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæla með endurupptöku ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 26. febrúar 2019. Synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því staðfest.
Kemur þá til skoðunar synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 23. mars 2020 en umsókninni var synjað á grundvelli 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna, eins og ákvæðið var þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur, telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í 2. mgr. 15. gr. kemur fram að launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.
Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá B í 15% starfshlutfalli á tímabilinu 22. ágúst til 24. nóvember 2019. Þar sem starfshlutfall kæranda nær ekki því lágmarki sem ákvæði a. liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 kveður á um hefur hann ekki áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga á grundvelli 15. gr. laganna. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls er einnig staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson