Hoppa yfir valmynd

Nr. 356/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 356/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060028

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. júní 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu.

Kærandi gerir kröfu um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

Til vara gerir kærandi kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. desember 2017. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun af ítölskum stjórnvöldum var þann 14. desember 2017 beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þar sem ekki barst svar innan tilskilins tímafrests litu íslensk stjórnvöld svo á að ítölsk stjórnvöld samþykktu viðtöku, sbr. 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, og sendi Útlendingastofnun ítölskum yfirvöldum bréf þess efnis, dags. 21. febrúar 2018. Útlendingastofnun ákvað þann 24. maí 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 29. maí 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 13. júní 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 22. júní 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Ítalíu. Flutningur kæranda til Ítalíu fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Ítalíu, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi óttist að verða sendur til Ítalíu. Hann hafi fundið öryggi og aðlagast á Íslandi og vilji vera í landi þar sem mannréttindi séu virt. Kærandi hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann sé í minnihlutahópi í heimaríki sínu vegna [...]. [...] og það sé ástæða þess að hann hafi lagt á flótta.

Í greinargerð kæranda er gerð grein fyrir ýmsum atriðum er varða aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu með vísan til fjölda alþjóðlegra skýrslna, s.s. Human Rights Watch og Amnesty International. Í skýrslunum komi m.a. fram að ítalska hæliskerfið haldi áfram að vera undir miklu álagi og aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks þar í landi séu mjög bágbornar og móttökuframkvæmdin slæm. Gerðar hafi verið breytingar til að flýta málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Ítalíu, t.d. með því að takmarka rétt umsækjenda til að kæra neikvæðar ákvarðanir. Aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að heilbrigðisþjónustu hafi einnig verið takmarkað á meðan þeim sé gert að bíða úthlutunar sérstakra skilríkja ætluðum þeim sem eru innan hæliskerfisins. Einnig hafi verið vakin athygli á því að umsækjendur fái ekki nauðsynlegar upplýsingar um þá heilbrigðisþjónustu sem standi þeim til boða, auk þess sem heilbrigðisstarfsmenn hafi litla sem enga þekkingu á þeim veikindum sem hrjái umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í nýjustu ársskýrslu Asylum Information Database komi fram að vegna mikils álags á hæliskerfinu á Ítalíu hafi framkvæmdin verið sú að flestir umsækjendur dvelji í CAS móttökumiðstöðvunum, sem ekki séu ætlaðar til að hýsa umsækjendur til lengri tíma. Margir þurfi því að hafast við á götunni og verða lestarstöðvar og yfirgefnar byggingar oft heimili þessa fólks. Þá sé ekkert kerfi sem taki við þeim einstaklingum sem sendir séu til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og alls óvíst hvort þeir komist aftur inn í hæliskerfi landsins. Enn fremur hafi áhyggjum verið lýst yfir vaxandi kynþáttahatri og mismunun á grundvelli kynþáttar á Ítalíu. Af niðurstöðum nýlegra þingkosninga þar í landi sé ljóst að málflutningur gegn flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi hlotið brautargengi meðal ítölsku þjóðarinnar og allar líkur á að ný ríkisstjórn muni ganga harkalega fram í þeim málaflokki með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þennan viðkvæma hóp.

Kærandi byggir kröfu sína á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en greinin leggur þá skyldu á íslensk stjórnvöld að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef sérstakar ástæður mæli með því. Í því sambandi vísi kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, ummæla í frumvarpi til laga nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga og til túlkunar kærunefndar útlendingamála á þeim ummælum.

Kærandi telur að vegna sjónarmiða um bann við afturvirkni íþyngjandi laga og reglna verði ákvæðum reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ekki beitt í hans máli en kærandi hafi lagt fram umsókn sína um alþjóðlega vernd áður en fyrrgreind reglugerð hafi tekið gildi. Þá vísi kærandi til þess að frá því að ákvæði um sérstakar ástæður hafi komið inn í lög um útlendinga hafi þróunin verið sú að gefa sérstaklega viðkvæmri stöðu einstaklinga aukið vægi við mat á sérstökum ástæðum. Með framangreindri reglugerð virðist vera horfið frá þeirri þróun og megináhersla lögð á mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferlisins. Kærandi telji að reglugerðin og þau viðmið sem þar komi fram hafi ekki nægilega stoð í lögum þar sem gengið sé þvert á markmið laga um útlendinga og vilja löggjafans sem lesa megi úr greinargerð með frumvörpum þeim er urðu að lögum nr. 80/2016 og 81/2017. Þá fái kærandi ekki annað séð en að efni reglugerðarinnar gangi að miklu leyti gegn almennri túlkun og skýringu á lögum um útlendinga og athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að núgildandi lögum um útlendinga og síðari breytingum.

Kærandi telji engum vafa undirorpið að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga vegna andlegra veikinda sinna og þeirra ofsókna sem hann hafi þurft að þola [...]. Í framlögðum gögnum komi m.a. fram að kærandi glími við [...] og hann sofi illa út af streitu og kvíða. Gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki hlutast til um að gert yrði sálfræðimat á ástandi kæranda í samræmi við skyldur stofnunarinnar skv. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá bendi upplýsingar um aðstöðu og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu til þess að ástandið þar sé mjög alvarlegt og réttindi þeirra séu þverbrotin og sú vernd sem þeir eigi lögum samkvæmt rétt á sé ekki virt í framkvæmd.

Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna á Ítalíu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Endursending kæranda til Ítalíu teljist jafnframt brot gegn 3. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sem kveði á um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Ákvörðun um senda kæranda til Ítalíu myndi að auki brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði ógild og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að rannsókn málsins og rökstuðningi fyrir niðurstöðu þess sé verulega áfátt. Því til stuðnings bendi kærandi á framangreinda umfjöllun um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu og til þeirra upplýsinga sem fram komi í komunótum Göngudeildar sóttvarna um slæma andlega heilsu hans. Þá hafi ítölsk stjórnvöld ekki samþykkt viðtöku kæranda og því sé ekki vitað hvort ítölsk stjórnvöld muni taka við kæranda verði hann sendur þangað. Dæmi séu um að starfsmenn ríkislögreglustjóra hafi þurft að fljúga til baka með umsækjendur um alþjóðlega vernd vegna þess að ítölsk stjórnvöld hafi ekki viljað taka við þeim.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að ítölsk stjórnvöld bera ábyrgð á viðtöku kæranda á grundvelli 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Ítalíu er byggð á því að ítölsk stjórnvöld hafi ekki svarað beiðni um endurviðtöku innan tilskilins frests. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Kærandi er [...] karlmaður sem kvaðst í viðtölum hjá Útlendingastofnun vera við góða líkamlega heilsu. Hann kvaðst þá vera andlega þreyttur. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 14. desember 2017 til 17. maí 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi fundið fyrir [...] og sofi illa vegna streitu og kvíða yfir því að verða líklega sendur aftur til Ítalíu. Hann hafi fengið ávísað viðeigandi lyfjum við því. Þá hafi kærandi einnig átt við tannvandamál að stríða.

Að mati kærunefndar bera fyrirliggjandi gögn málsins, þ. á m. framburður kæranda og komunótur frá Göngudeild sóttvarna, ekki með sér að heilsufar kæranda eða aðrar aðstæður hans séu með þeim hætti að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Asylum Support Office, 8. júlí 2016),
  • Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018),
  • Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017),
  • ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016),
  • Freedom in the World 2018 – Italy (Freedom House, 5. apríl 2018),
  • Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015),
  • Italy 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016),
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014),
  • UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013),
  • Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati - http://www.cir-onlus.org/en/),
  • Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy),
  • Upplýsingar af vefsíðu samtakanna Baobab Experience (https://baobabexperience.org/) og
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

Í framangreindum gögnum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geta þeir lagt fram umsókn hjá lögreglunni (í. Questura) eða hjá landamæralögreglunni (í. Polizia di Frontiera) hafi þeir ekki áður lagt fram umsókn þar í landi. Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd synjun á umsókn sinni þá hefur hann kost á því að bera synjunina undir stjórnsýsludómstól (í. Tribunale Civile). Jafnframt eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrir liggur að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eru sendir til baka til meginlandsins með flugi. Í framangreindum gögnum kemur fram að á stærstu flugvöllum landsins, í Róm og Mílanó, eru frjáls félagasamtök til staðar sem veita umsækjendum um alþjóðlega vernd ráðgjöf og þjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga almennt ekki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð þegar þeir leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd en frjáls félagasamtök veita gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð í umsóknarferlinu. Þó geta umsækjendur lagt fram beiðni um gjafsókn (í. gratuito patrocinio) kjósi þeir að bera endanlega synjun á umsókn sinni undir dómstóla.

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á gistirými í móttökumiðstöðvum. Flestir fái úthlutað gistirými í CAS (í. Centro di accoglienza straordinaria) sem eru tímabundnar móttökumiðstöðvar en ella eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á gistiplássi í SPRAR (í. Sistema di protezione per richiedenti asilo e rifugiati) móttökumiðstöðvunum. Framboðið sé hins vegar takmarkað og ekki fái allir umsækjendur úthlutað gistirými í þessum miðstöðvum. Þá bjóði sveitarfélög, frjáls félagasamtök og trúfélög í Róm og Mílanó upp á gistiaðstöðu en þau séu einnig af skornum skammti. Ítölsk yfirvöld vinni að því að byggja upp fleiri móttökumiðstöðvar í því skyni að mæta þessum vanda.

Á grundvelli framangreindra skýrslna og gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér verður jafnframt ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þar á meðal geðheilbrigðisþjónustu. Þeir þurfa þó að skrá sig inn í heilbrigðiskerfið en við slíka skráningu fá þeir útgefið tryggingarkort (í. Tessera sanitaria) sem veitir þeim m.a. rétt á meðferð sérfræðilækna. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá aðgang að ítalska vinnumarkaðnum tveimur mánuðum eftir að þeir hafa lagt fram umsókn sína. Þó kemur fram í framangreindum gögnum að atvinnuleysi á Ítalíu hafi verið mjög mikið á undanförnum árum og erfitt hafi reynst fyrir marga, bæði ítalska ríkisborgara sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd, að finna atvinnu.

Samkvæmt ítölskum lögum er kynþáttahatur, kynþáttafordómar og hvers kyns mismunun bönnuð, hvort sem er á grundvelli kynþáttar, trúar, uppruna eða annarra atriða. Í kjölfar athugasemda alþjóðlegra eftirlitsnefnda, stofnana og frjálsra félagasamtaka hafa ítölsk yfirvöld tekið mikilvæg skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum og hatursglæpum, þ. á m. með innleiðingu aðgerðaráætlunar gegn kynþáttahyggju, hræðslu við útlendinga og umburðarleysi (e. National Action Plan against Racism, Xenophobia and Intolerance). Þá hefur rannsóknum og ákærum fjölgað í málum er varða mismunun, hatursorðræðu og hatursglæpi á grundvelli kynþáttar og þjóðernis.

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna fyrir árið 2017, sem vísað er til hér að framan, kemur fram að ætluð brot gegn einstaklingum innan [...] séu rannsökuð af yfirvöldum og að saksótt sé í slíkum málum. Jafnframt eru á Ítalíu í gildi lög sem banna sérstaklega mismunun [...]. Einnig starfrækja frjáls félagasamtök hjálparsíma [...] þar sem stuðningur og ráðgjöf er veitt þeim sem hafa orðið fyrir mismunun eða einhvers konar ofbeldi [...].

Ítalía er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá er Ítalía jafnframt aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna (e. 1951 Convention Relating to the Status of Refugees) og mannréttindasáttmála Evrópu, en grundvallarreglan um bann við endursendingu einstaklinga til svæðis þar sem þeir hafi ástæðu til að óttast ofsóknir eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð er lögfest í þessum alþjóðasáttmálum.

Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er bann við meðferð sem fer gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fortakslaust en meðferð verður þó að ná ákveðinni lágmarkskröfu um alvarleika til að teljast brot gegn 3. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar að sú staðreynd ein og sér að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki sáttmálans sé ekki fullnægjandi til að uppfylla grundvallarkröfu um alvarleika sem 3. gr. sáttmálans geri kröfu um, þ.e. þar sem ekki sé um að ræða sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður sem mæli gegn flutningi, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Að því er varðar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu hefur Mannréttindadómstóll Evrópu lagt til grundvallar að uppbygging og almennar aðstæður í móttökukerfi Ítalíu séu ekki þess eðlis að þær standi í vegi fyrir öllum sendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til landsins, sbr. ákvörðun í máli Ali o.fl. gegn Sviss (mál nr. 30474/14) frá 4. október 2016. Aftur á móti hefur í framkvæmd dómstólsins verið byggt á því að viðhlítandi trygging verði að liggja fyrir af hálfu ítalskra yfirvalda um viðunandi móttökuaðstæður áður en umsækjendur um alþjóðlega vernd sem eru í svo viðkvæmri stöðu að þeir þurfi sérstaka vernd eru sendir þangað. Um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar vísar kærunefnd jafnframt til dóms Hæstaréttar frá 1. október 2015 í máli nr. 114/2015.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Ítalíu bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum um aðstæður á Ítalíu verður jafnframt ráðið að þótt fordómar og mismunun á grundvelli kynþáttar séu til staðar á Ítalíu hafi ítölsk stjórnvöld yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að bregðast við þeim. Þá telur kærunefnd að gögn málsins, þ.m.t. gögn sem varða stöðu [...], bendi til þess að slík úrræði séu aðgengileg [...] einstaklingum sem verði fyrir mismunun eða aðkasti vegna [...].

Þá fær kærunefnd ekki séð að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður á Ítalíu verður ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eigi rétt á heilbrigðisþjónustu.

Í ljósi aðstæðna á Ítalíu og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. desember 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 7. desember 2017.

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars sl., voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Að mati kærunefndar fól gildistaka reglugerðarinnar ekki í sér íþyngjandi breytingar á réttarstöðu kæranda. Koma því sjónarmið um afturvirkni laga, að því marki sem þau kynnu að vera sambærileg varðandi setningu stjórnvaldsfyrirmæla, ekki til skoðunar í þessu máli.

Reglur stjórnsýsluréttar

Varakrafa kæranda lýtur að því að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til aðstæðna umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu og fyrirliggjandi upplýsinga um andlega heilsu kæranda í því sambandi.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun, málsmeðferð Útlendingastofnunar og endurskoðað alla þætti málsins og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar.

Frávísun

Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands 4. desember 2017. Hann sótti um alþjóðlega vernd 7. desember s.á. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Ítalíu ekki síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa ítölsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Ítalíu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                        Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta