Hoppa yfir valmynd

Nr. 267/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 267/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030009

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 2. mars 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Súdan, ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 4. mgr. 51. gr. sömu laga.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn hans um dvalarleyfi hér á landi vegna skorts á starfsfólki.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 31. maí 2019. Með ákvörðun, dags. 24. september 2019, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála 17. febrúar 2020. Hinn 25. júní 2020 féllst kærunefnd útlendingamála á beiðni kæranda um endurupptöku málsins og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Með ákvörðun, dags. 15. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. ágúst 2021, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 24. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 12. ágúst 2021. Með úrskurði kærunefndar, dags. 13. janúar 2022, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku vegna versnandi öryggisástands í kjölfar valdaráns í heimaríki kæranda en ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest að nýju. Hinn 18. júlí 2022 lagði kærandi að nýju fram beiðni um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 16. september 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað.

Hinn 2. júní 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun vegna skorts á starfsfólki. Með ákvörðun, dags. 15. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar umsókn kæranda hafi verið lögð fram hjá stofnuninni hafi kærandi ekki haft heimild til dvalar hér á landi, hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. laga um útlendinga. Auk þess hafi kærandi sótt um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, en það dvalarleyfi sé ekki að finna í stafliðum a-c í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga sem fjalli um undanþágur frá skyldunni til að sækja um dvalarleyfi áður en komið sé til landsins. Þá taldi Útlendingastofnun að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti að rétt væri að beita ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kæranda var birt ákvörðun Útlendingastofnunar 16. febrúar 2023 og kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 2. mars 2023. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 16. mars 2023. 

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni til kærunefndar vísar kærandi til þess að í greinargerð hans til Útlendingastofnunar hafi verið á því byggt að kærandi væri flóttamaður. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé á því byggt að áður hafi verið farið yfir aðstæður kæranda í heimaríki í ákvörðun umsóknar hans um alþjóðlega vernd og þær væru því ekki til umfjöllunar við núverandi málsmeðferð. Kærandi mótmælir þeirri röksemdarfærslu með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Kærandi byggir á því að í ákvörðun í máli hans þar sem farið hafi verið yfir aðstæður í heimaríki hafi nýjustu heimildir um almennt ástand í landinu verið frá árinu 2020 og þær séu því úreltar.

Nýjar landaupplýsingar um heimaríki kæranda bendi til þess að landið sé með öllu ótryggt, sér í lagi með tilliti til ættbálks umsækjanda, Tanjur, sem tilheyri minnihluta í Súdan og í ljósi þess að kærandi hafi verið búsettur í héraðinu [...] þar sem ástandið sé hvað verst um þessar mundir. Almennt ástand mannréttinda og öryggisástand hafi farið versnandi síðastliðið ár. Kærandi vísar í alþjóðlegar skýrslur því til stuðnings. Einnig bendi nýjar upplýsingar til þess að ósanngjarnt sé fyrir kæranda að þurfa að dvelja í Súdan í ljósi heilsufarsástands hans og nýjustu upplýsinga sem liggi fyrir um aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Kærandi glími við alvarlegar geðrænar áskoranir sem hann hafi fengið meðferð við á sjúkrahúsi. Kærandi hafi þurft að taka geðvirkandi lyf að staðaldri sem hann fái ekki séð að séu aðgengileg í heimaríki sínu.

Þegar litið sé til allra framangreindra atriða um ástandið í Súdan og persónubundnar aðstæður kæranda séu sérstakar sanngirnisástæður fyrir hendi að kærandi fái að dvelja á Íslandi á meðan umsókn hans sé til meðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og þá liggur fyrir að þegar kærandi lagði fram dvalarleyfisumsókn sína hér á landi var dvöl hans hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er á því byggt að öryggisástand og almennt ástand mannréttinda í heimaríki hans hafi versnað til muna undanfarna mánuði og sé með öllu óöruggt. Einnig sé heilsufar hans slíkt að hann eigi erfitt með að ferðast. Kærandi telur því að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli hans og því beri að heimila honum að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi sé til meðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Með úrskurðum kærunefndar, nr. 357/2021 frá 12. ágúst 2021 og nr. 13/2022 frá 13. janúar 2022, í málum kæranda lagði nefndin m.a. mat á aðstæður í heimaríki kæranda og komst að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt nýjum upplýsingum um aðstæður í Súdan, m.a. upplýsingum á vefsíðu OCHA frá 28. apríl 2023, á vefsíðu ACAPS frá 21. og 30. apríl 2023 og á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna frá 25. apríl 2023, hafa átök milli súdanska hersins (SAF) og Rapid Support Forces (RSF) sem brutust út 15. apríl 2023 haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir almenna borgara landsins. Óbreyttir borgarar flýi heimili sín til nágrannalanda vegna átakanna og árásir á hjálparsamtök og skrifstofur þeirra komi í veg fyrir mannúðaraðstoð á helstu vígstöðum. Þá hafi yfirvöld vestrænna ríkja hvatt sendiráðsstarfsmenn og ríkisborgara sína til að yfirgefa Súdan og varað borgara sína við öllum ferðalögum til Súdan.

Framangreindar  upplýsingar benda til þess að það geti verið miklum erfiðleikum háð fyrir kæranda að ferðast til heimaríkis síns og dvelja þar á meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar en gögn málsins benda ekki til þess að kærandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki en heimaríki sínu. Hefur kærandi því mikla hagsmuni af því að fá að dvelja hér á landi og ljóst að ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi í máli kæranda, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

Þorsteinn Gunnarsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta