Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 121/2014

Fimmtudaginn 19. nóvember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 17. desember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 2. desember 2014, þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 30. desember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Þann 2. janúar 2015 bárust viðbótargögn og skýringar við kæru. Með bréfi 5. janúar 2015 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til viðbótargagna kæranda. Greinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 7. janúar 2015.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 26. janúar 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 28. janúar 2015 og 30. janúar sama ár bárust gögn og athugasemdir kærenda.

Með bréfi 11. febrúar 2015 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til viðbótargagna og athugasemda kærenda. Umboðsmaður skuldara tilkynnti kærunefndinni 17. febrúar 2015 að embættið myndi ekki bregðast við athugasemdum kærenda.

Með bréfi 19. apríl 2015 bárust kærunefndinni viðbótargögn og athugasemdir kærenda. Óskað var eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til bréfs kærenda. Greinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 30. apríl 2015. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 4. maí 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 8. maí 2015 bárust gögn og athugasemdir kærenda.

Með tölvupósti 20. maí 2015 afturkölluðu kærendur rökstuðning við kæru frá 17. desember 2014 með vísan til þess að á þeim tíma sem kæra var lögð fram hefðu þau ekki notið ráðgjafar. Kæran stæði óbreytt sem slík en óskað væri eftir að þau bréf sem lögfræðingur kærenda sendi nefndinni kæmu í stað fyrri rökstuðnings við kæru, hvað efnisatriði varðaði. 

 

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin fasteign að C götu nr. 12 í sveitarfélaginu D, sem er 253 fermetra einbýlishús. A er viðskiptafræðingur og framhaldsskólakennari, en hefur verið tekjulaus frá sumrinu 2013. B er guðfræðingur og starfar sem prestur.

Heildarskuldir kærenda nema 94.088.304 krónum samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Stofnað var til helstu skuldbindinga árið 2006 í tengslum við fasteignakaup.

Ástæður skuldasöfnunar eru að mati kærenda atvinnuleysi og atvinnuverkefni sem ekki gengu upp.

Kærendur lögðu inn umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 16. september 2014.

Með bréfi 27. nóvember 2014 óskaði umboðsmaður skuldara eftir skýringum studdum gögnum þar sem fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) Í fyrsta lagi var óskað eftir gögnum er sýndu fram á hlutafjáreign kæranda A í félaginu X hf. Í öðru lagi var óskað eftir upplýsingum um rekstrarform gistihúss kærenda, umfang rekstrar, ráðstöfun hagnaðar o.s.frv. stutt gögnum. Í þriðja lagi var óskað eftir upplýsingum um launatekjur kæranda A hjá félagi hans Y ehf. Í fjórða lagi var óskað eftir gögnum vegna 40% eignarhluta kæranda A í félaginu Z og gagna vegna tekna félagsins. Í fimmta lagi var óskað eftir upplýsingum um hvort einstaklingar, sem voru skráð búsett á heimili kærenda, greiddu þeim leigu og í sjötta lagi óskaði embættið eftir upplýsingum um hvort tekjur kæranda B yrðu óbreyttar og hvort hún væri fastráðin í starfi.

Kærendur brugðust við beiðni umboðsmanns skuldara með þremur tölvupóstum 28. og 30. nóvember 2014.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. desember 2014 var kærendum synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. með hliðsjón af 4. og 5. gr. laganna. Umboðsmaður skuldara vísar í ákvörðun sinni til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda hafi áður verið felldar niður, sem var 31. október 2011, meðal annars á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn þóttu ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra. Einnig hafi kærendum verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar af sömu ástæðu 4. apríl 2014.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, enda liggi nú fyrir þau gögn sem umboðsmaður skuldara hafi talið þörf á.

Kærendur vísa til þess í bréfi 19. apríl 2015 til kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi synjað umsókn þeirra á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með hliðsjón af 4. og 5. gr. laganna. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé vísað til bréfs embættisins frá 27. nóvember 2014 þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um tekjur og hlutafjáreignir kæranda A, hvort kærendur hefðu fengið leigutekjur og hefðu gögn er sýndu fram á umfang reksturs heimagistingar og hvernig hagnaði af rekstrinum hefði verið varið. Jafnframt komi fram í ákvörðun umboðsmanns skuldara að svör kærenda frá 28. og 30. nóvember 2014 hefðu ekki varpað ljósi á þau atriði sem þóttu óglögg varðandi tekjur og eignir kærenda. Loks sé tiltekið að umbeðnar upplýsingar um fjárhag kærenda og félaga, sem kærandi A kvaðst eiga eignarhlut í, væru mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fá heildarmynd af fjárhag kærenda. Þá vísa kærendur til greinargerðar umboðsmanns skuldara frá 7. janúar 2015 þar sem fram komi að ekki sé unnt að taka mið af þeim skýringum kærenda sem ekki séu studdar viðhlítandi gögnum. Umboðsmaður telji að kærendur hafi ekki sýnt fram á launatekjur kæranda A hjá félögunum Y ehf. og Z, auk þess sem ekki liggi fyrir gögn sem sýni fram á hlutafjáreign hans í X hf.

Kærendur kveðast ítrekað hafa sýnt vilja til þess að leggja fram upplýsingar sem umboðsmaður skuldara telji fullnægjandi. Þannig hafi þau sent bréf og tölvupósta, auk þess að ræða í eigin persónu og símleiðis við fulltrúa embættisins. Þrátt fyrir þetta hafi kærendum reynst erfitt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvaða gögn og upplýsingar embættið taldi skorta.

Þ ehf. hafi verið stofnaður árið 2003 af E en kærandi A hafi fljótlega orðið meðeigandi. Upphaflega hafi staðið til að félagið myndi halda utan um rekstur sprotafyrirtækisins V ehf., sbr. upplýsingar á skattframtölum kærenda. Þegar ljóst hafi verið að rekstrargrundvöllur var ekki fyrir hendi hafi verið ákveðið að færa félagið yfir á kæranda A sem hugðist nýta það til að standa undir rekstri gistiheimilisins U sem rekið var í fasteign kærenda. Vegna mistaka hafi yfirfærsla félagins ekki tekist sem skyldi, en í ljósi þess að öll bréf félagsins hafi borist til kæranda A og að rekstur gistiheimilis kærenda hafi jafnframt verið eini rekstur félagsins, hafi kæranda A ekki grunað að yfirfærsla félagsins hafði ekki tekist. Árið 2014 hafi þetta verið leiðrétt og hafi félagið farið í þrot skömmu síðar vegna áætlana skattayfirvalda. Rekstur gistiheimilisins hafi þá verið færður yfir í félagið Y ehf. sem lengi hafi verið í eigu kæranda A en ekki verið í neinum rekstri. Í skattframtali félagsins Y ehf. fyrir árið 2014 komi fram tekjur gistiheimilisins U, launatekjur kærenda A vegna rekstursins og leigutekjur kærenda af fasteign sinni.

Félagið Y ehf. haldi utan um rekstur gistiheimilisins U og fari allar tekjur félagsins í gegnum reikning þess félags, sbr. reikningsyfirlit áranna 2012 til 2014.

Gistiheimilið U hafi verið rekið í fasteign kærenda síðastliðin ár yfir sumartímann. Fram til ársins 2014 hafi rekstur gistiheimilisins ekki skilað eiginlegum hagnaði, aðallega vegna stofnkostnaðar, rekstrarkostnaðar og endurbóta á húsnæði kærenda sem unnar hafi verið í þeim tilgangi að fjölga gistirýmum og auka þar með tekjur gistiheimilisins.

Tekjur gistiheimilisins fyrir árið 2014 hafi numið 3.924.042 krónum og launatekjur kæranda A 1.468.800 krónum. Í ársreikningi Y ehf. fyrir árið 2014 komi fram að stofnkostnaður teljist nú að fullu greiddur svo að fyrirséð sé að launagreiðslur fyrir árið 2015 verði talsvert hærri. Þá sé ljóst að endurbætur á gistiheimilinu hafi skilað árangri, enda hafi rekstur þess tvöfaldast frá árinu 2012 en þá hafi heildartekjur þess numið rúmlega 1.800.000 krónum. Kærendur telja að rekstur gistiheimilis muni verða svipaður árið 2015.

Kærendur kveðast vera skráðir fyrir hlutafé í X hf. að verðmæti 17.424 krónur, sbr. skattframtal þeirra fyrir árið 2014. Hluthafafundur verði haldinn fyrir lok sumars 2015 og hafi ýmsir fjárfestar sýnt verkefninu áhuga. Jafnframt sé stefnt að hlutabréfaútboði í lok árs 2015.

Z sé nýsköpunarverkefni á frumstigi. Félag hafi ekki enn verið stofnað um hugmyndina og launagreiðslur því engar.

Kærendur vísa til þess að kærandi A sé viðskiptafræðingur að mennt og hafi þar að auki kennsluréttindi. Síðustu ár hafi hann séð um rekstur gistiheimilisins U ásamt því að starfa við kennslu sem verktaki. Auk þess hafi hann sinnt ýmsum nýsköpunarverkefnum sem til þessa hafi ekki skilað hagnaði. Tekjur kæranda A komi fram á þeim skattframtölum sem umboðsmaður skuldara hafi aðgang að en jafnframt sé lagt fram skattframtal fyrir árið 2014.

Kærendur kveðast ekki hafa haft reglulegar leigutekjur. Þau hafi endurbætt húsnæði sitt svo að fjölga mætti gistirýmum og jafnframt gert húsnæðið þannig að unnt væri að leigja jarðhæð þess. Auk þess hafi þau innréttað bílskúr til útleigu. Endurbótum á bílskúr hafi lokið síðastliðið vor og sé hann nú innréttaður sem íbúð. Hafi bílskúrinn verið í útleigu frá september 2014 og hafi kærendur því fengið fastar leigutekjur að fjárhæð 90.000 krónur á mánuði sem renni inn í félagið Y ehf. Tekjurnar hafi verið nýttar til greiðslu rafmagns- og húshitunarkostnaðar.

Kærendur hafi jafnframt nýlega lokið við að útbúa sérstaka íbúð á jarðhæð sem verði leigð út frá og með september 2015. Áætlað sé að íbúðin verði leigð út mánaðarlega á um 150.000 krónur. Kærendur sjái því fram á að heildartekjur fasteignarinnar muni nema um 240.000 krónum á mánuði frá og með september 2015 að loknu gistirekstrartímabili sem hefjist um miðjan júní.

Kærendur vísa til þess að þau hafi lagt fram skattframtal fyrir árið 2014, auk framtals Y ehf. fyrir árið 2014 sem annist rekstur gistiheimilis í eigu kærenda. Þá hafi kærendur gert grein fyrir tekjum og hlutafjáreign kæranda A. Kærendur hafi einnig gert grein fyrir áætluðum leigutekjum að undanskildum sumarmánuðum þegar rekstur gistiheimilis standi yfir. Að öllu virtu telja kærendur að þær viðbótarupplýsingar, sem nú hafi verið komið á framfæri til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, séu þess eðlis að skilyrði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. séu uppfyllt, enda liggi nú fyrir þau gögn sem umboðsmaður skuldara hafi talið þörf á. Vísa kærendur í því samhengi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 189/2012.

Í framhaldsgreinargerð kærenda er vísað til þess að þar sem félagið Y ehf. hafi verið að fullu í eigu kærenda og gistirekstur þeirra jafnframt rekinn í húsnæði þeirra hafi þau talið óþarft að félagið greiddi þeim sérstakt endurgjald fyrir afnot félagins af húsnæði þeirra. Vegna fullyrðingar umboðsmanns skuldara um að þeim tekjum, sem aflað hafi verið með útleigu á fasteign kærenda, hafi verið ráðstafað til greiðslu á skuldum félagsins vísa kærendur til þess að í því tilfelli hafi eingöngu verið um að ræða greiðslu sem hafi numið uppsöfnuðu útvarpsgjaldi sem nauðsynlegt hafi verið að greiða svo hægt væri að nýta félagið til gistireksturs. Ljóst sé að hagsmunir kærenda af stöðugum tekjum frá gistirekstri hafi verið umtalsvert meiri en greiðsla gjaldsins.

Varðandi hlutafjáreign kærenda hafi hlutur kæranda A í félaginu X hf. upphaflega numið 17.424 krónum, en við hafi bæst 50.000 hlutir í félaginu sem eigendur hafi samþykkt að veita kæranda A vegna vinnu hans fyrir félagið. Alls séu hlutir A því 67.424 og séu þeir verðmetnir á 67.424 krónur á meðan verkefnið sé enn á tilraunastigi. Fyrir mistök hafi þær upplýsingar ekki verið færðar inn í skattframtal kærenda fyrir árið 2014, en leiðrétting hafi verið send skattayfirvöldum því til áréttingar. Ástæða þess hversu hlutafjárupplýsingar kærenda hafi verið á reiki sé sú að félagið hafi verið tekið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara sem hafi stöðvað framþróun félagsins meðan á þeirri rannsókn stóð. Kærandi A hafi verið upplýstur um að rannsóknin hafi verið felld niður með tölvupósti frá embætti sérstaks saksóknara 24. mars 2014. Um tíma hafi litið út fyrir að verkefnið gengi upp en rannsókn sérstaks saksóknara hafi eðli málsins samkvæmt fælt fjárfesta frá. Núverandi staða verkefnisins sé sú að það haldi áfram á tilraunastigi, en tölvunarfræðingar hafi verið ráðnir til að vinna áfram að þróun þess en engir fjármunir séu þó í hendi fyrir hluthafa. Ómögulegt sé því að leggja mat á hvort verkefnið verði arðbært eða ekki.

Hvað varði verktakagreiðslur fyrir kennslu, þá hafi staðið til að kærandi A kæmi að kennslu í hlutastarfi en það hafi ekki gengið eftir. Ummæli um það í erindi til kærunefndarinnar hafi því verið dregin til baka.

Kærandi A hafi skilað ársreikningum fyrir félagið Y ehf. síðustu ár. Í ljósi þess að hagnaður félagsins hafi enginn verið þar sem skuldir þess, þ.e. stofn- og rekstrarkostnaður gistiheimilisins, hafi verið hærri en tekjur félagsins hafi kærandi A aftur á móti eingöngu talið þörf á að skila inn svokölluðum núll ársreikningi sem sé yfirlýsing þess efnis að hagnaður félagsins hafi ekki verið neinn það árið. Ríkisskattstjóri hafi gert athugasemdir við ársreikning félagins fyrir árið 2013, en eftir útskýringar kæranda A á málavöxtum hafi borist tölvupóstur frá Embætti ríkisskattstjóra 19. nóvember 2014 þess efnis að félagið Y ehf. muni ekki fá frekari bréf frá ársreikningaskrá vegna ársins 2013. Kærendur hafi verið í góðri trú um að skil ársreikninga væri með fullnægjandi hætti, en muni jafnframt leita aðstoðar löggilts endurskoðanda vegna skila á ársreikningi fyrir árið 2014.

Kærendur árétta að vandi þeirra sé verulegur og viðvarandi og teljist þau ógjaldfær í skilningi laganna. Fyrri samskipti kærenda við umboðsmann skuldara hafi litast af því að um tíma hafi verið gott útlit fyrir velgengni félagsins X hf., en rannsókn sérstaks saksóknara hafi sett strik í reikninginn. Ómögulegt sé að segja hvort verkefnið gangi að lokum upp og verði arðbært, en ótækt sé að leggja það til grundvallar í greiðsluaðlögunarferli umboðsmanns skuldara.

Kærendur telji að með útleigu á fasteign sinni, rekstri gistiheimilis yfir sumarið og með launatekjum sínum, geti þau greitt talsvert af því sem þau skulda en leigutekjurnar séu áætlaðar 240.000 krónur á mánuði og tekjur vegna gistiheimilisins geti numið allt að 6.000.000 króna. Aftur á móti sé skuldastaða þeirra nú slík að kærendur séu ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar og teljist því varanlega ógjaldfærir í skilningi lge.

Kærendur kveðast hafa lagt fram öll þau gögn sem Embætti umboðsmanns skuldara hafi þótt skorta og sé lögfræðingur kærenda jafnframt tilbúinn til að veita frekari upplýsingar og gögn, verði talin þörf á því.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara beri að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til greiðsluaðlögunar. Þá segi í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 27. nóvember 2014 hafi meðal annars verið óskað eftir upplýsingum um tekjur og hlutafjáreign kæranda A, hvort kærendur fengju leigutekjur, gögnum er sýndu fram á umfang reksturs heimagistingar og hvernig hagnaði af rekstrinum hefði verið varið. Svör kærenda hafi borist með tölvupóstum 28. og 30. nóvember 2014, en hafi ekki varpað ljósi á þau atriði sem hafi þótt óglögg um tekjur og eignir kærenda. Þá hafi ekki verið lögð fram önnur gögn en skráningarvottorð frá efnahagsráðuneyti Maldíveyja vegna skráningar Y ehf. þar í landi. Að mati umboðsmanns skuldara hafi umbeðnar upplýsingar um fjárhag kærenda og félaga, sem kærandi A kvaðst eiga hlut í, verið mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fá heildarmynd af fjárhag þeirra. Embættið eigi erfitt um vik að nálgast gögn vegna tekna og reksturs að öðru leyti en því sem fyrir liggi í málinu. Auk þess sé erfitt að sundurgreina persónulegan fjárhag kærenda og rekstur á þeirra vegum. Telur embættið að það sé á ábyrgð kærenda að leggja fram gögn sem skýri fjárhag þeirra.

Að öllu ofangreindu virtu sem og því að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar hafi áður verið felld niður, meðal annars á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn þóttu ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra og kærendum hafi verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar af sömu ástæðu 4. apríl 2014, hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að fyrir hendi væru aðstæður sem kæmu í veg fyrir að heimilt væri að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Umsókn kærenda hafi því verið synjað á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., með hliðsjón af 4. og 5. gr. laganna.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 7. janúar 2015 til kærunefndarinnar segi að ákvörðun um afgreiðslu umsóknar verði ekki byggð á öðru en þeim gögnum sem liggi fyrir í málinu. Að mati embættisins gefi fyrirliggjandi gögn og upplýsingar ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og væntanlegri þróun fjárhags þeirra. Ekki sé unnt að taka mið af þeim skýringum kærenda sem ekki séu studdar viðhlítandi gögnum. Kærendur hafi ekki sýnt fram á launatekjur kæranda A hjá félögunum Y ehf. og Z (félagsgerð óþekkt). Þá liggi ekki fyrir gögn sem sýni fram á hlutafjáreign kæranda A í X hf.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess í framhaldsgreinargerð til kærunefndarinnar 30. apríl 2015 að ýmsar upplýsingar frá kærendum hafi áður komið fram. Til að mynda hafi áður komið fram hver aðkoma kæranda A væri að einkahlutafélaginu Þ, að rekstur gistiheimilis hafi verið færður yfir á fjárfestingar- og eignarhaldsfélagið Y ehf. í kjölfar gjaldþrots Þ ehf. og að kærendur hefðu fjármagnað endurbætur á húsnæði sínu með hagnaði af gistirekstrinum í þeim tilgangi að fjölga gistirýmum og auka rekstrartekjur. Þá hafi að auki verið greint frá því að tekjur A samanstandi af verktakagreiðslum, annars vegar vegna gististaðarrekstrar og hins vegar vegna kennslu. Þá hafi komið fram að kærendur hafi mánaðarlegar leigutekjur að fjárhæð 90.000 krónur sem komi til með að aukast frá næsta hausti þegar sumarvertíð gistiheimilisins ljúki. Kærendur hafi enn fremur greint frá því áður að hlutafjáreign kæranda A í félaginu X hf. nemi 17.424 krónum samkvæmt skattframtali ársins 2014 og að kærandi A hafi komið að ýmsum nýsköpunarverkefnum sem til þessa hafi ekki skilað neinum tekjum. Þá hafi kærendur lagt fram skattframtal sitt og Y ehf. vegna ársins 2014, hluta af óstaðfestu skattframtali Þ ehf. fyrir árið 2012, yfirlit yfir veltureikning í eigu Y ehf. fyrir tímabilið 30. mars 2012 til 31. desember 2014, auk afrits af skýrslutöku vegna þrotabús Þ ehf.

Umboðsmaður skuldara tekur ekki afstöðu til áður framkominna skýringa varðandi Þ ehf. Kærendur hafi gefið þá skýringu að skattframtölum félagsins vegna tekjuáranna 2010 til 2012 hafi fyrir mistök ekki verið skilað, þótt þau hafi verið unnin. Þá hafi framtali vegna ársins 2013 heldur ekki verið skilað. Enn fremur hafi ársreikningum félagsins ekki verið skilað frá árinu 2009 svo að ekki liggi fyrir ársreikningar félagsins frá þeim tíma sem gistirekstur kærenda var í félaginu. Þau gögn sem fyrir liggi um gistirekstur kærenda séu því skattframtal vegna ársins 2014 og reikningsyfirlit vegna veltureiknings Y ehf. Kærendur vísi til ársreiknings Y ehf. fyrir árið 2014 til staðfestingar á að stofnkostnaður gistirekstrarins teljist nú að fullu greiddur. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi ársreikningum þó ekki verið skilað. Fyrirliggjandi gögn varpi því ekki ljósi á hvernig tekjum úr rekstrinum hafi verið varið, en samkvæmt skýringum kærenda muni ekki hafa verið svigrúm til að greiða laun úr félaginu fyrr en á árinu 2014, meðal annars vegna stofnkostnaðar.

Kærendur hafi gefið þær skýringar á tekjuleysi kærandans A að rekstur gistiheimilisins hafi fyrst skilað hagnaði árið 2014 og að hann hafi fyrst reiknað sér laun úr rekstrinum það ár. Þá komi fram að hann starfi jafnframt við kennslu sem verktaki. Einnig sé greint frá leigutekjum sem kærendur eru sagðir hafa. Samkvæmt skattframtali 2015, vegna tekjuársins 2014, hafi tekjur kæranda A á árinu 2014 frá launagreiðandanum Y ehf. verið alls 1.407.600 krónur eftir frádrátt lífeyrisiðgjalda. Ekki sé tiltekið sérstaklega að hann hafi haft verktakagreiðslur vegna starfa við kennslu og óljóst hvort þær greiðslur hafi einnig farið í gegnum Y ehf. Þá hafi kærendur ekki talið fram leigutekjur vegna útleigu á fasteign sinni á skattframtölum. Ekki liggi fyrir hvort kærendur telji leigutekjur af fasteign sinni til tekna vegna gistireksturs og taki tekjurnar í gegnum Y ehf. Samkvæmt fyrirliggjandi framtali félagsins vegna ársins 2014 greiði það enga húsaleigu eða aðstöðuleigu vegna afnota af húsnæði kærenda og því líti ekki út fyrir að kærendur fái endurgjald fyrir afnot félagins af húsnæði þeirra. Gögn málsins beri með sér að tekjum Y ehf., sem aflað hafi verið með útleigu á fasteign kærenda, hafi meðal annars verið ráðstafað til greiðslu á skuldum félagsins á sama tíma og skuldir kærenda, þar með taldar veðskuldir, hafi verið í vanskilum frá árunum 2008 og 2009. Að framangreindu virtu þyki því enn hvorki fyllilega ljóst hverjar heildartekjur kæranda A voru né heldur hvernig kærendur geri grein fyrir öllum þeim tekjum sem þau hafi af útleigu fasteignar sinnar.

Varðandi hlutafjáreign geri kærendur grein fyrir því að virði hlutafjár þeirra í X hf. nemi 17.424 krónum og sé vísað í stöðu samkvæmt skattframtali kærenda fyrir árið 2014. Við skoðun á framtalinu verði hins vegar ekki séð að virði hlutafjár X hf. sé þar getið. Eina félagið sem getið sé um í framtölum kærenda sé V ehf. og nemi virði hlutabréfa í félaginu 150.000 krónum. Í fylgiblaði framtala sé einnig aðeins tiltekin hlutabréfaeign kærenda í V ehf. Fara þurfi aftur til ársins 2011 til að finna upplýsingar um hlutabréfaeign í X hf. en þar sé virði bréfanna sagt 100.000 krónur. Í framtali vegna ársins 2010 sé virði bréfanna sagt nema 12.000.000 krónum. Þá hafi komið fram í greinargerð með umsókn kærenda að kærandi A hafi átt inni tekjur hjá X hf. vegna starfa sinna fyrir félagið á árunum 2013 og 2014 og að hann hafi samið um að fá þær greiddar í formi hlutafjár. Tiltekið sé að samanlagt virði hlutafjár hans í X hf. sé 67.000.000 króna. Nauðsynlegt hafi þótt að fá staðfestingu á virði hlutafjár til að fá yfirsýn yfir fjárhagsstöðu kærenda. Enn þyki ekki liggja ljóst fyrir hvert raunverulegt virði hlutabréfa kærenda í X hf. sé þar sem aðeins liggi fyrir skýringar kærenda, en ekki opinber gögn sem staðfesti andvirði þeirra.

Auk þess hafi kærandi A ítrekað greint frá því í samskiptum við embættið að hann eigi hlut í verkefnum sem verið sé að koma af stað, til að mynda fiskútflutningsverkefni og fiskveiðaverkefni í Asíu, og að hann vænti tekna vegna þessara verkefna. Kærendur hafi greint frá því að kærandi A tengdist nýsköpunarverkefnum sem til þessa hafi ekki skilað tekjum. Því liggi ekki ljóst fyrir hvort vandi kærenda sé verulegur og viðvarandi og hvort þau geti í reynd taldist ógjaldfær í skilningi laganna. Ítrekað hafi komið fram í samskiptum við kæranda A við Embætti umboðsmanns skuldara að sóst væri eftir „greiðsluskjóli“ þar til tekjur af verkefnum skiluðu sér. Umsækjendur um greiðsluaðlögun þurfi að sýna fram á að þeir séu um fyrirsjáanlega framtíð ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, en erfitt hafi verið að leggja mat á það í máli kærenda þar sem skýringar þeirra séu ekki í öllum tilvikum í samræmi við fyrirliggjandi gögn eða að gögn skorti til að styðja skýringar þeirra.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið er á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort heldur af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Í 2. mgr. 4. gr. segir að upplýsingar samkvæmt 1. mgr. skuli einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljist til heimilis með honum.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis átt við að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um að afla gagna eða veita upplýsingar sem honum einum sé unnt að afla eða gefa. Áréttað sé að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Samkvæmt framangreindu skal hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst sú skylda að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 27. nóvember 2014 var óskað eftir upplýsingum í sex liðum um tekjur, hlutafjáreign og önnur atriði er embættið taldi skipta máli við mat á fjárhagsstöðu kærenda. Ákvörðun embættisins um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggðist á því að kærendur hefðu ekki veitt umbeðnar upplýsingar samkvæmt efni bréfsins. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er vísað til þess að kærendur hafi ekki svarað spurningum embættisins um tekjur og hlutafjáreign kæranda A, hvort kærendur fái leigutekjur og ekki lagt fram gögn er sýni fram á umfang reksturs heimagistingar og um það hvernig hagnaði af rekstrinum hafi verið varið.

Í fyrsta lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um virði hlutafjáreignar kæranda A í X hf. þar sem skattframtöl gefi það ekki til kynna. Vísar umboðsmaður skuldara til þess að kærandi A hafi greint frá því í greinargerð með umsókn til greiðsluaðlögunar að virði hlutfjár hans í X hf. væri 67.000.000 króna. Umboðsmaður skuldara óskaði eftir að upplýsingar um hlutafjáreign yrðu staðfestar með gögnum.

Í greinargerð kærenda 19. apríl 2015 kemur fram að samkvæmt skattframtali 2014 séu kærendur skráð fyrir hlutafé að fjárhæð 17.424 krónur í félaginu. Í greinargerð kærenda 8. maí 2015 kemur fram að hlutur kæranda A í félaginu hafi aukist um 50.000 hluti sem eigendur þess hafi samþykkt að veita honum vegna vinnu hans fyrir félagið. Alls séu hlutir kæranda A í félaginu því 67.424 og séu verðmetnir á 67.424 krónur á meðan verkefni tengd félaginu séu enn á tilraunastigi. Fyrir mistök hafi upplýsingar um hlutafjáreignina ekki verið færðar inn í skattframtal fyrir árið 2014, en leiðrétting hafi verið send skattayfirvöldum því til áréttingar. Fram kemur að ómögulegt sé að meta hvort verkefni félagsins verði arðbær eða ekki. Með greinargerð kærenda 8. maí 2015 barst yfirlýsing framkvæmdarstjóra X hf. þess efnis að hlutafjáreign kæranda A væri 67.424 hlutir. Þá aflaði kærunefndin leiðrétts skattframtals kærenda 2015 vegna tekjuársins 2014 þar sem fram kemur að nafnvirði hlutabréfa í X hf. sé 67.424 krónur.

Samkvæmt framangreindu liggja fyrir upplýsingar og gögn um hlutafjáreign kæranda A í félaginu X hf. Á meðal gagna er fyrrgreind yfirlýsing framkvæmdastjóra félagsins þess efnis að hlutafjáreign kæranda A sé samtals 67.424 hlutir. Samkvæmt skattframtölum taldi kærandi virði hlutabréfanna vera 100.000 krónur í árslok 2011 en 12.000.000 krónur í árslok 2010. Kærendur telja virði hlutabréfanna nú vera 67.424 krónur og er það í samræmi við leiðrétt skattframtal kærenda vegna tekjuársins 2014. Verður því að telja að nú liggi fyrir upplýsingar og gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir með bréfi 27. nóvember 2014 um hlutafjáreign kæranda A í X hf.

Í öðru lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um rekstur gistiheimilis í fasteign kærenda. Óskað var eftir því að kærendur greindu frá því hvort það væri félag um reksturinn. Ef svo væri óskaði embættið eftir því að tilgreint væri hvaða félag það væri og ef ársreikningur þess væri til að hann væri afhentur embættinu. Væri reksturinn á kennitölu kærenda óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um heildartekjur, útgjöld, reiknað endurgjald vegna vinnu kærenda við reksturinn og nákvæmlega hvernig hagnaði væri varið. Nauðsynlegt væri að fá gögn til stuðnings skýringum kærenda. Umboðsmaður taki fram að gögn til stuðnings upplýsingum geti verið afrit af bankamillifærslum og stöðu reikninga sem tengist rekstrinum. Einnig geti þau verið skilagreinar ríkisskattstjóra vegna reiknaðs endurgjalds, hafi kærendur reiknað sér laun vegna vinnu við reksturinn. Þá óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um það fyrir hvaða tímabil uppgefnar heildartekjur af rekstrinum væru, þ.e. árið 2013 eða það sem af væri ári 2014. Umboðsmaður skuldara upplýsti að hér kæmi til skoðunar f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. hafi hagnaði kærenda af rekstrinum verið varið til greiðslu skulda einkahlutafélags á sama tíma og skuldir kærenda voru í vanskilum.

Í greinargerð kærenda 19. apríl 2015 kemur fram að félagið Y ehf. standi að rekstri gistiheimilisins U og fari allar tekjur í gegnum reikninga félagins. Meðfylgjandi greinargerð kærenda voru reikningsyfirlit veltureiknings Y ehf. fyrir árin 2012, 2013 og 2014. Kærendur greina frá því að eiginlegur hagnaður hafi ekki verið af starfsemi félagsins heldur hafi tekjur aðeins staðið undir rekstri gistiheimilisins, endurbótum húsnæðis og stofnkostnaði. Þá hafi launatekjur kæranda A af rekstrinum numið 1.468.800 krónur á árinu 2014. Undir rekstri málsins lögðu kærendur meðal annars fram skattframtal þeirra vegna tekjuársins 2014. Í framtalinu er greint frá tekjum kæranda A frá Y ehf. Einnig lögðu kærendur fram skattframtal rekstraraðilans Y ehf. fyrir tekjuárið 2014, en samkvæmt upplýsingum úr ársreikningaskrá hefur Y ehf. ekki skilað ársreikningi frá árinu 2009. Þrátt fyrir að ársreikningi hafi ekki verið skilað verður að telja að nú liggi fyrir þær upplýsingar og gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir með bréfi 27. nóvember 2014 um félagsform rekstrar um gistiheimili kærenda, tekjur félagsins og útgjöld, launatekjur kæranda A af rekstrinum og ráðstöfun rekstrarhagnaðar.

Í þriðja lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um launatekjur sem kærendur telja að kærandi A eigi eftir að fá greidd frá Y ehf. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvenær mætti búast við að launatekjurnar fengjust greiddar. Farið var fram á upplýsingarnar í ljósi þess að kærandi A gegndi öllum helstu ábyrgðarstöðum hjá Y ehf.

Í greinargerð kærenda 19. apríl 2015 er vísað til þess að tekjur kæranda A komi fram á skattframtali fyrir árið 2014 og hafi verið 1.468.800 krónur. Kærandi hafi ekki fengið launatekjur fyrr en á árinu 2014 þegar rekstur gistiheimilisins hafi fyrst skilað hagnaði. Að mati kærunefndarinnar liggja nú fyrir þær upplýsingar og gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir með bréfi 27. nóvember 2014 um launatekjur kæranda A frá Y ehf.

Í fjórða lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir staðfestingu á 40% eignarhlut kæranda A í félaginu Z þar sem ekki hafi verið greint frá eignarhlutnum í skattframtali kærenda til ríkisskattstjóra. Einnig óskaði umboðsmaður skuldara eftir því að kærendur greindu frá kennitölu félagins. Þá óskaði embættið eftir upplýsingum um hvort kærendur gætu sýnt fram á væntanlegar fastar tekjur kæranda A frá félaginu að fjárhæð 4.000.000 til 5.000.000 króna auk 300.000 króna mánaðarlega fyrir bókhaldsstörf eins og greint hafi verið frá í greinargerð með umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar.

Í greinargerð kærenda 19. apríl 2015 kemur fram að Z sé nýsköpunarverkefni á frumstigi. Félag hafi ekki verið stofnað um hugmyndina og launagreiðslur því engar. Að mati kærunefndarinnar liggja nú fyrir þær upplýsingar sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir með bréfi 27. nóvember 2014 um hið óstofnaða félag og væntanlegar launatekjur frá því.

Í fimmta lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um leigugreiðslur þeirra einstaklinga sem væru búsettir á heimili kærenda.

Í greinargerðum kærenda 19. apríl 2015 og 8. maí 2015 kemur fram að mánaðarlegar leigutekjur kærenda vegna útleigu bílskúrs hafi frá september 2014 verið 90.000 krónur á mánuði. Þær tekjur hafi runnið til Y ehf. til greiðslu rafmagns- og hitunarkostnaðar. Þá stefni kærendur á útleigu kjallaraíbúðar eftir endurbætur frá september 2015 og séu áætlaðar leigutekjur 150.000 krónur á mánuði. Alls verði leigutekjur því 240.000 krónur á mánuði að undanskildum þeim sumarmánuðum þegar rekstur gistiheimilisins standi yfir. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur lagt fram upplýsingar og gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir með bréfi 27. nóvember 2014 um leigutekjur af fasteign þeirra.

Í sjötta lagi óskaði umboðsmaður skuldara eftir upplýsingum um hvort kærandi B væri fastráðin í starfi og hvort gera mætti ráð fyrir að tekjur hennar yrðu óbreyttar í framtíðinni.

Kærendur hafa samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki svarað þessari spurningu umboðsmanns skuldara, en ákvörðun umboðsmanns um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar virðist ekki byggjast á því að skortur á þessum upplýsingum standi í vegi heimildar til greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafa kærendur veitt upplýsingar og lagt fram gögn um tekjur og hlutafjáreign kæranda A, leigutekjur, upplýsingar um rekstur og ráðstöfun rekstrarhagnaðar, auk gagna til stuðnings upplýsingum. Þá aflaði kærunefndin leiðrétts skattframtals kærenda vegna tekjuársins 2014. Að mati kærunefndarinnar liggja því fyrir þær upplýsingar og gögn þeim til stuðnings sem  nauðsynlegar voru að mati umboðsmanns skuldara til að hægt væri að fá heildarmynd af fjárhagslegri stöðu kærenda, sbr. b- lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þar sem nú hefur verið bætt úr framangreindum annmörkum á umsókn kærenda um greiðsluaðlögun skortir lögmætar forsendur fyrir því að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Af því leiðir að fella ber ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta