Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 171/2013

Fimmtudaginn 19. nóvember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 5. nóvember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 18. október 2013, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. desember 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 6. febrúar 2014. Þær voru sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 14. febrúar 2014 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1970. Þau búa ásamt tveimur dætrum sínum, þar af annarri uppkominni, í eigin fasteign að Furugrund 11 á Selfossi sem er 190 fermetrar að stærð.

Kærandi A starfar hjá X en kærandi B starfar á snyrtistofu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 42.537.183 krónur.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína meðal annars til þess að kærandi A hafi misst vinnuna og því hafi ráðstöfunartekjur þeirra minnkað. Hafi hann í kjölfarið þjáðst af þunglyndi og því hafi kærendur slitið sambúð um tíma sem hafi leitt til enn meiri fjárhagserfiðleika.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 18. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. júní 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 3. júlí 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi ekki lagt neitt til hliðar á tímabili greiðslufrestunar, svokallaðs greiðsluskjóls, sem staðið hafi yfir frá því í júní 2011. Útgjöld þeirra á þessum tíma hafi einungis verið tengd rekstri heimilis. Umsjónarmaður telji að þau hefðu átt að geta lagt fyrir um 2.800.000 króna. Kærendur hafi kveðið vinnu sína stopula og því hafi þau ekki getað lagt til hliðar. Að mati umsjónarmanns hafi kærendur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 20. september 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda hafi komið fram að tekjur kæranda A hefðu minnkað mikið frá árinu 2007 og vinna verið stopul. Hann hafi síðan orðið atvinnulaus frá september 2012 til maí 2013 og það hafi reynt mjög á hann andlega. Í kjölfarið hafi kærendur slitið samvistir um tíma en náð saman að nýju. Verði umsókn kærenda synjað óttist þau framtíðina mjög.

Með bréfi til kærenda 18. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja ákvörðun umboðsmanns skuldara ekki uppfylla skilyrði lge. en með henni hafi heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verið felld niður. Í fyrstu hafi embættið talið að kærendur hefðu átt að leggja til hliðar 3.300.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hefðu þá lagt fram skýringar og gögn til stuðnings því að þau gætu ekki lagt svo mikið fyrir. Eftir skoðun gagnanna hafi umboðsmaður talið að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 1.300.000 krónur á tímabilinu. Hafi kærendur greint frá því að þau gætu útvegað 500.000 krónur af launareikningi kæranda A og þannig staðið við greiðslur samkvæmt fyrirliggjandi drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Hafi þeim þá verið sagt að þau hefðu ekki getað greint frá því hvaðan þeir peningar kæmu. Þessi afstaða þyki kærendum undarleg og í andstöðu við lge., enda hafi þau lagt fyrir það fé sem hafi verið umfram framfærsluþörf fjölskyldunnar.

Kærendur kveða mikinn skort hafa verið á upplýsingum til þeirra, þar á meðal hvaða fjárhæð þau hafi átt að leggja fyrir hverju sinni. Þá hafi umsjónarmaður ekki haft samband við þau nema einu sinni í upphafi þegar hann tók símaskýrslu af þeim. Kærendur telja ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. ekki eiga við um þau en samkvæmt ákvæðinu þurfi brot á því að vera augljóst og framið af ásettu ráði. Í greinargerð með lge. komi fram að víki skuldari augljóslega frá skyldum samkvæmt 12. gr. með vísvitandi hætti geti slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Hér sé því gert ráð fyrir því að augljóst sé að vikið sé frá skyldum og að slíkt sé gert vísvitandi. Umsjónarmaður þurfi því að sýna fram á að þessi tvö skilyrði séu uppfyllt. Þau séu ekki fyrir hendi í máli kærenda þar sem þau hafi reynt að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið frá 19. nóvember 2010. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Þær upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim peningum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 33 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013 að frádregnum skatti 13.359.103
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 403.682
Samtals 13.762.785
Mánaðarlegar meðaltekjur 417.054
Framfærslukostnaður á mánuði 314.412
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 102.642
Samtals greiðslugeta í 33 mánuði 3.387.186

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 417.054 krónur í meðaltekjur á mánuði á 33 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 314.412 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnað septembermánaðar 2013 fyrir hjón með eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.387.186 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 102.642 krónur á mánuði í 33 mánuði.

Kærendur kveðist hafa þurft að greiða aukin útgjöld á tímabili greiðslufrestunar meðal annars vegna kaupa á bifreið, viðhalds og reksturs bifreiðar dóttur sinnar sem þau hafi nýtt á meðan að hún dvaldi erlendis, greiðslna af bílaláni þriðja aðila gegn því að fá að nota bílinn og bensínkostnaðar vegna ferða á námskeið í öðru sveitarfélagi. Einnig hafi þau greitt 25.000 krónur á mánuði vegna tómstunda barns. Samtals nemi þessi kostnaður 825.000 krónum. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn þessum kostnaði til stuðnings. Jafnvel þó að tillit yrði tekið til þessa kostnaðar standi enn eftir 1.382.186 krónur sem kærendur hefðu átt að leggja fyrir á tímabilinu.

Kærendur hafi ekki lagt fyrir, en hafi sagt að þau gætu líklega lagt fram 500.000 krónur ef þess væri þörf. Kærendur hafi ekki greint frá því hvernig þau hygðust afla þessara peninga.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með í vinnslu umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Á meðan greiðsluskjól standi yfir skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, samskiptakostnað, fasteignagjöld og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun um samþykki til greiðsluaðlögunar hafi verið að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir ofangreindum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Á meðan frestun annarra greiðslna standi yfir sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í hverjum mánuði, enda markmiðið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu skuldarans.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að skort hafi á upplýsingagjöf til þeirra, þar á meðal hvaða fjárhæð þau hafi átt að leggja til hliðar hverju sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar og komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með setningu laga nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 8. apríl 2011 og aftur 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda um að leggja til hliðar fé sem væri umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma, er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar, voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. júní 2011 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir greiðslu framfærslukostnaðar tiltekin 317.640 krónur.

Kærunefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningum sem sendar voru kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Upplýsingarnar lutu að útskýringum á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin um leið og frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 18. nóvember 2010.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 3. júlí 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil, en hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 18. október 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt fyrir þá peninga sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur telja sig hafa fullnægt skyldum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara 18. nóvember 2010.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 3.387.186 krónur á tímabili greiðsluskjóls Kærendur hafi ekki sýnt fram á sparnað, en þau kveðast geta útvegað 500.000 krónur af launareikningi kæranda A.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur A 237.930
Nettótekjur B 314.135
Nettótekjur alls 552.065
   
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.564.059
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 213.672
Nettótekjur B 2.900.459
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 241.705
Nettótekjur alls 5.464.518
Mánaðartekjur alls að meðaltali 455.377


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.736.897
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 144.741
Nettótekjur B 2.918.833
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 243.236
Nettótekjur alls 4.655.730
Mánaðartekjur alls að meðaltali 387.978

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. september 2013: Níu mánuðir
Nettótekjur A 885.437
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 98.382
Nettótekjur B 2.276.766
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 252.974
Nettótekjur alls 3.162.203
Mánaðartekjur alls að meðaltali 351.356

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.834.516
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 406.898

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 30. september 2013: 34 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.834.516
Bótagreiðslur 1.031.520
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 14.866.036
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 437.236
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 314.412
Greiðslugeta kærenda á mánuði 122.824
Alls sparnaður í 34 mánuði greiðsluskjóli x 122.824 4.176.028

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur kveðast hafa þurft að greiða óvænt útgjöld á tímabilinu en hafa ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings. Er því ekki unnt að taka tillit til þess við útreikninga á sparnaði kærenda.

Kærendur kveðast geta útvegað 500.000 krónur af launareikningi kæranda A. Þau hafa þó ekki lagt fram gögn í málinu sem sýna fram á að þau hafi lagt þá fjárhæð fyrir. Því telur kærunefndin að ekki sé hægt að líta svo á að sú fjárhæð hafi verið lögð til hliðar. Því verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærendur hefðu átt að spara 4.176.028 krónur á tíma greiðsluaðlögunar en það hafi þau ekki gert.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls. Bar umboðsmanni skuldara því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta