Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 173/2013

Fimmtudaginn 19. nóvember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 25. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 9. október 2013, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 28. ágúst 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1978 og 1976. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í eigin fasteign að C götu nr. 4 sveitarfélaginu D sem er 115 að stærð. Kærandi A starfar hjá X og kærandi B starfar hjá Y ehf.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 35.916.061 króna og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína meðal annars til atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. október 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. maí 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 14. desember 2012 greindi umsjónarmaður frá því að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum lge. væri heimil. Því teldi hann að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stóð yfir. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærendur hafi ekki mátt greiða af skuldbindingum sínum í alls 19 mánuði en á þessum tíma hafi þau notið greiðsluskjóls. Útgjöld þeirra á þessum tíma hafi því eingöngu verið vegna heimilisrekstrar og útgjöld tengd honum. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi þó ekkert lagt til hliðar á tímabilinu þrátt fyrir að greiðslugeta þeirra hafi verið um 110.000 krónur á mánuði. Hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir um 2.090.000 krónur á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum hafi staðið. Kærendur hafi tilgreint ýmis útgjöld sem þau hafi þurft að standa straum af á tímabilinu svo sem vegna kaupa á bifreið, reiðhjóli, þvottavél og gleraugum. Þá hafi þau þurft að greiða tannlæknakostnað sem og útgjöld vegna rannsókna og lyfja vegna veikinda kæranda B. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn þessu til stuðnings.

Komið hafi í ljós að kærendur hafi farið í tvær í utanlandsferðir og keypt gjaldeyri fyrir 569.140 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Aðspurð hafi kærendur greint frá því að móðir kæranda B hefði boðið fjölskyldunni til Tælands og hún hafi að mestu leyti greitt uppihald og keypt gjaldeyri. Þá hafi þau einnig farið til Danmerkur. Ferðina hafi þau fengið á góðum kjörum og ekki þurft að greiða fyrir gistingu.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 26. september 2013 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda hafi meðal annars komið fram að þeim hefði verið sagt að leggja til hliðar eftir getu en aldrei hefði komið fram hversu mikið. Þá hefði þeim ekki verið greint frá því að legðu þau ekki til hliðar yrði umsókn þeirra hafnað. Þeim hefði heldur ekki verið gerð grein fyrir því að þau mættu ekki fara til útlanda á tímabilinu. Í upphafi greiðsluaðlögunarumleitana hefði kærandi B verið eina fyrirvinna heimilisins. Síðar hefði kærandi A fengið starf en þrátt fyrir það hefðu þau ekki haft tök á að leggja fyrir. Ástæðan hafi verið sú að smáskuldir hefðu safnast upp og það hefði tekið tíma að greiða þær. Hafi þetta meðal annars verið leikskólagjöld, fasteignagjöld og lán frá foreldrum. Kærendur hefðu enn fremur þurft að greiða ýmis útgjöld á tímabili greiðsluskjóls en þau hafi ekki geymt kvittanir vegna þeirra.

Með bréfi til kærenda 9. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Það sé mat kærenda að ákvörðunin sé ólögmæt og fari því í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Samkvæmt reglunni þurfi ákvarðanir stjórnvalds annars vegar að vera í samræmi við lög og reglur og hins vegar að eiga sér viðhlítandi stoð í lögum til að geta talist lögmætar. Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður skuldara byggi hina kærðu ákvörðun á því að kærendur hafi vikið frá skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar af launum sínum það sem hafi verið umfram nauðsynlega framfærslu. Við mat á lögmæti ákvörðunarinnar sé nauðsynlegt að kanna hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að ákvæðið geti verið grundvöllur ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge.

Af lögskýringargögnum með a-lið 1. mgr. 12. gr. megi sjá að gerðar séu strangar kröfur um saknæmi. Þess sé krafist að um ásetning skuldara sé að ræða, þ.e. að hann hafi vísvitandi og augljóslega vikið frá skyldum sínum samkvæmt greininni. Samkvæmt þessu megi ætla að það hafi verið vilji löggjafans að setja ströng skilyrði fyrir því að ákvæðið gæti varðað niðurfellingu, enda markmið lge. skýrt samkvæmt 1. gr. laganna; að gefa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kost á að endurskipuleggja fjármál sín. Sé ekki hægt að skilja ákvæðið öðruvísi en svo að gáleysi skuldara sé ekki nægilegt til að beita ákvæðinu.

Til þess að umboðsmaður skuldara geti beitt ákvæði 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., verði hann samkvæmt framansögðu að sýna fram á að skuldari hafi vikið frá skyldu sinni af ásetningi. Til þess að maður víki frá skyldu sinni af ásetningi megi ætla að hann þurfi að lágmarki að vita hver séu efnisleg skilyrði skyldunnar og þá hvað þurfi til að uppfylla hana. Það sé álit kærenda að þessi atriði séu ekki fyrir hendi í málinu þar sem ekki sé hægt að saka þau um að hafa ekki lagt fyrir einhverja óljósa fjárhæð mánaðarlega. Slík háttsemi geti aldrei talist augljós og vísvitandi. Annað gilti ef kærendum hefði verið gert að leggja til hliðar ákveðna fjárhæð mánaðarlega.

Kærendum hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar 12. maí 2011. Í kjölfarið hafi þeim verið tilkynnt að þau mættu ekki greiða af lánum samkvæmt 11. gr. lge. Á þessum tíma hafi þeim aðeins verið bent á að þau ættu að reyna að leggja til hliðar eftir getu. Hvorki hafi verið farið ítarlega yfir hvað þetta þýddi né hverjar afleiðingar yrðu ef þau sinntu ekki þessari skyldu. Kærendum hafi fyrst verið ljós skylda sín til að leggja fé til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um tveimur árum eftir að þau komust í greiðsluskjól þegar umsjónarmaður þeirra benti þeim á að þau hefðu átt að leggja fyrir um 290.000 krónur á mánuði.

Í tilkynningu umsjónarmanns 14. desember 2012 sé byggt á því að kærendur hefðu átt að leggja fyrir 160.526 krónur á mánuði í 33 mánuði. Þessi fjárhæð sé reiknuð út frá framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara miðað við að tekjur kærenda hefðu verið 551.849 krónur á mánuði. Þessi fjárhæð eigi sér enga stoð í öðrum gögnum málsins, en samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 119.292 krónur á mánuði. Þetta sýni að hvorki starfsmenn Embættis umboðsmanns skuldara né umsjónarmaður hafi í raun vitað hvað kærendur hafi átt að leggja fyrir. Kærendur hafi ítrekað reynt að ná sambandi við umsjónarmann vegna þessa en án árangurs. Séu þessi vinnubrögð ekki boðleg, en þarna hafi verið liðin tæp tvö ár frá því að kærendur hafi komist í greiðsluskjól. Eðli málsins samkvæmt skipti það miklu hvort leggja eigi fyrir 290.000 krónur á mánuði, 119.000 krónur eða 110.000 krónur. Þessi vinnubrögð geti ekki verið í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur telja að óljós skylda til að leggja til hliðar eftir getu geti ekki verið grundvöllur niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana. Útgjöld fimm manna fjölskyldu geti verið misjöfn frá mánuði til mánaðar. Því sé ósanngjarnt að ætla kærendum að leggja tiltekna fjárhæð til hliðar nema legið hefði tiltölulega ljóst fyrir hver sú fjárhæð ætti að vera og þá að teknu tilliti til tekna kærenda á þeim tíma. Kærendur fullyrði að það hafi ekki verið gert.

Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu hlutlægur og almennur mælikvarði á framfærslukostnað sem nota eigi við gerð frumvarps samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. Ekkert sé kveðið á um það í lge. að framfærsluviðmiðið skuli haft til grundvallar við mat á skyldum aðila samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Telja kærendur að ákvæðið sé óljóst hvað þetta varði. Því hafi þau ekki getað áttað sig á að miða ætti við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í þessu samhengi. Umboðsmanni skuldara hafi borið að fara yfir það með kærendum hvað þau ættu að geta lagt fyrir í samræmi við fyrrgreinda leiðbeiningarskyldu umboðsmanns skuldara. Misbrestur hafi orðið á þessu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 29. október 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa og jafnframt hvaða afleiðingar það gæti haft ef þau brygðust skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 33 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013 að frádregnum skatti 16.558.766
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 1.652.248
Samtals 18.211.014
Mánaðarlegar meðaltekjur 551.849
Framfærslukostnaður á mánuði 391.329
Greiðslugeta á mánuði 160.520
Samtals greiðslugeta í 33 mánuði 5.297.157

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 551.849 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 33 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 391.329 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls og hafi þá einnig verið gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað septembermánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna einstaklinga með þrjú börn á framfæri, auk annars framfærslukostnaðar samkvæmt upplýsingum kærenda. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 5.297.157 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggðust á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og tækju mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Fyrir umsjónarmanni hafi kærendur gert grein fyrir því að þau hafi keypt bifreið fyrir 580.000 krónur, reiðhjól fyrir börn sín fyrir 80.000 krónur, nýja þvottavél fyrir 150.000 krónur og þurft að leggja út fyrir kostnaði að fjárhæð um 60.000 krónur þegar elsta barn þeirra hóf framhaldskólagöngu. Þá hafi þau þurft að skipta út rafmagnstenglum á heimili sínu en það hafi kostað um 60.000 krónur, kostnaður vegna gleraugnakaupa hafi numið 140.000 krónum og læknis- og lyfjakostnaðar kæranda B hafi numið um 80.000 krónum. Samtals hafi þessi viðbótarkostnaðar kærenda numið um 1.150.000 krónum að viðbættum ótilgreindum tannlæknakostnaði er kærendur kveðast hafa greitt. Engar kvittanir hafi verið lagðar fram til stuðnings þessum kostnaði.

Kærendur hafi gefið þær útskýringar á utanlandsferð fjölskyldunnar til Tælands að hún hafi verið í boði móður annars kæranda. Gjaldeyriskaup fyrir samtals 569.140 krónur í tengslum við ferðina hafi að minnsta kosti að hluta til verið fyrir hönd móðurinnar. Þá hafi ferð þeirra til Danmerkur verið ódýr þar sem þau hafi ekki þurft að greiða fyrir gistingu.

Umboðsmaður skuldara telur að upplýsingar um aukin útgjöld kærenda ættu í flestum tilvikum að vera aðgengilegar í heimabanka kærenda. Ef ekki ættu kærendur að geta óskað eftir afriti greiðslukvittana hjá þeim aðilum sem selt hafi þeim vöru sína eða þjónustu. Það hafi því aðeins verið á færi kærenda sjálfra að afla gagna um útgjöld sín, en umboðsmaður skuldara geri þær kröfur að kærendur verði við slíkum beiðnum.

Í tilefni af skyldum kærenda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bendi umboðsmaður skuldara á að ekki sé gerð krafa um að skuldarar leggi til hliðar ákveðna fjárhæð í hverjum mánuði. Þeim beri á hinn bóginn að leggja til hliðar þá fjárhæð sem þau hafi mánaðarlega aflögu að teknu tilliti til framfærslukostnaðar. Séu tekjur óreglulegar geti fjárhæð sparnaðar verið mismunandi á milli mánaða. Hefðu kærendur verið í nokkrum vafa um hversu háa fjárhæð þeim hafi borið að leggja til hliðar eða hvaða útgjöld þau mættu eða ættu að greiða hefði þeim verið í lófa lagið að leita leiðbeininga hjá Embætti umboðsmanns skuldara.

Kærendur hafi gert athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þau telji í fyrsta lagi að ákvörðunin eigi sér ekki stoð í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þessu hafni embættið en ákvörðunin eigi sér skýra lagastoð í 15. gr. lge. Þá telji kærendur að sakarmat þurfi að fara fram við ákvörðun á niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Embættið svari því til að í lge. sé hvorki að finna refsikennd viðurlög né skaðabótaskyldu af nokkru tagi og komi því saknæmisskilyrði ekki til skoðunar við mat á brotum á skyldum skuldara í greiðsluskjóli.

Þá telji kærendur að misræmi hafi verið í tölulegum upplýsingum til þeirra og að leiðbeiningar hafi skort. Skýrist þetta fyrst og fremst af breytilegum tekjum kærenda á tímabili greiðsluskjóls og hækkandi neysluviðmiðum á þeim tíma sem málið hafi verið í vinnslu, en fjárhæð sparnaðar hafi verið reiknuð út oftar en einu sinni á tímabilinu. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið gerð grein fyrir meðalgreiðslugetu kærenda á tímabilinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja embætti umboðsmanns skuldara ekki hafa sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart þeim. Nánar tiltekið telja kærendur að þau hafi ekki verið upplýst um skyldu þeirra til að leggja til hliðar fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fyrr en rúmum tveimur árum eftir að þau hafi fengið greiðsluskjól þegar umsjónarmaður þeirra hafi bent þeim á það.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með lögum nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda þess efnis að leggja til hliðar fé sem var umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint í umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum, sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. maí 2011, þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir kostnað við framfærslu tiltekin 168.838 krónur.

Kærunefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningum sem sendar voru kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin um leið og frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 29. október 2010.

Kærendur telja ákvörðun umboðsmanns skuldara ólögmæta þar sem hún fari í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Samkvæmt reglunni geti stjórnvöld ekki tekið ákvarðanir sem íþyngja borgurunum verulega nema hafa til þessa sérstaka lagaheimild. Skilja verður málatilbúnað kærenda þannig að þau telji ekki fyrir hendi lagaheimild til að fella niður ákvörðun um greiðsluaðlögun á grundvelli brots á a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þeim hafi ekki fyrirfram verið gert að leggja fyrir ákveðna fjárhæð mánaðarlega, en í staðinn verið upplýst um að leggja fyrir þá fjárhæð sem væri aflögu í hverjum mánuði. Með vísan til þess, sem segir hér að framan um leiðbeiningar til kærenda, er það mat kærunefndarinnar að kærendum hafi verið ljóst hvernig sparnaður þeirra skyldi reiknaður út í mánuði hverjum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og hvaða viðmið skyldu notuð í þeim tilgangi. Þeim var einnig ítrekað kynnt hvaða afleiðingar það hefði að leggja ekki fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., nánar tiltekið að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður, en skýr lagaheimild til að fella þær niður er í 15. gr. lge. Fellst kærunefndin ekki á það sjónarmið kærenda að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild þeirra til greiðsluaðlögunar hafi skort lagastoð.

Þá telja kærendur að með hinni kærðu ákvörðun hafi Embætti umboðsmanns skuldara lagt sakarmat á gerðir þeirra og komist að því að þau hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.

Málið varðar skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. sem kærendur hafa að mati nefndarinnar vísvitandi ekki staðið við þar sem þau voru upplýst með fullnægjandi hætti um þær skyldur eins og fyrr greinir. Með hliðsjón af þessu telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda hafi réttilega verið felldar niður samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. eins og gert var með hinni kærðu ákvörðun.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. desember 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og því ætti að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 9. október 2013.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja til hliðar 5.297.157 krónur eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013. Kærendur kveðist hafa þurft að greiða óvænt útgjöld á tímabilinu en þau hafi þó ekki lagt fram kvittanir vegna þessa.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur A 0
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 0
Nettótekjur B 627.777
Nettó mánaðartekjur Bað meðaltali 313.889
Nettótekjur alls 627.777
Mánaðartekjur alls að meðaltali 313.889

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir  
Nettótekjur A 2.294.493  
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 191.208  
Nettótekjur B 3.309.466  
Nettó mánaðartekjurB að meðaltali 275.789  
Nettótekjur alls 5.603.959  
Mánaðartekjur alls að meðaltali 466.997  


 
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir  
Nettótekjur A 3.145.741  
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 262.145  
Nettótekjur B 3.262.599  
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 271.883  
Nettótekjur alls 6.408.340  
Mánaðartekjur alls að meðaltali 534.028  

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. september 2013: Níu mánuðir  
Nettótekjur A 2.233.734  
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 248.193  
Nettótekjur B 2.566.284  
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 285.143  
Nettótekjur alls 4.800.018  
Mánaðartekjur alls að meðaltali 533.335  

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.440.094
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 498.288

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 30. september 2013: 35 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.440.094
Bótagreiðslur 1.652.248
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 19.092.342
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 545.495
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 391.329
Greiðslugeta kærenda á mánuði 154.166
Alls sparnaður í 35 mánuði í greiðsluskjóli x 154.166 5.395.827

 

Eins og fyrr segir hafa kærendur ekki lagt fram nein gögn er sýna fram á hin óvæntu útgjöld sem þau segjast hafa þurft að standa straum af á tímabili greiðsluskjóls. Því er ekki hægt að taka tillit til þess kostnaðar við útreikning á því fé sem kærendur áttu að leggja til hliðar á tímabilinu.

Svo sem fram er komið er það mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt framansögðu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 5.395.827 krónur á tímabili greiðsluskjóls, en af málatilbúnaði þeirra verður ekki annað ráðið en að þau hafi ekki lagt neitt til hliðar.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærendur brugðust skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta