Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 159/2013

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 15. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 21. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. janúar 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1948 og 1950. Þau eru gift og búa ásamt dóttur sinni í eigin fasteign að C götu nr. 5 í sveitarfélaginu D, sem er 146 fermetra einbýlishús.

Kærandi A er fyrrverandi lögreglumaður. Kærandi B er menntaður sjúkraliði en þiggur lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Kærendur fá að auki vaxtabætur.

Heildarskuldir kæranda beggja eru 53.091.743 krónur samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara. Þá er kærandi B í ábyrgðum fyrir aðra vegna skulda að fjárhæð 12.773.001 króna.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til fasteignakaupa árið 2004, hækkandi afborgana af lánum og veikinda kæranda B.

Kærandi A sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 30. júní 2011 en kærandi B 9. ágúst 2011. Með tveimur ákvörðunum umboðsmanns skuldara 23. maí 2012 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Sami umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra beggja. Í fylgiskjali með ákvörðunum umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með ákvörðun 10. ágúst 2012 sameinaði umboðsmaður skuldara mál kærenda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 28. janúar 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi A hafi notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 30. júní 2011, þ.e. frá því að hann lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun. Að hans sögn hafi hann ekkert lagt fyrir á tímabilinu. Kærandi B hafi verið í greiðsluskjóli frá 14. maí 2012 og segist hún hafa lagt fyrir 720.000 krónur. Að mati umsjónarmanns hafi kærendur samtals átt að geta lagt fyrir 6.789.322 krónur á tímabilinu, þar af hefði kærandi B átt að leggja fyrir 1.675.503 krónur. Kærendur hafi ekki gefið skýringar á því hvers vegna sparnaður þeirra sé svo lítill. Af framangreindum ástæðum teldi umsjónarmaður að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki nægilega háa fjárhæð fyrir í greiðsluskjóli. Því væru komnar fram upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 20. ágúst 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

Með bréfi til kærenda 30. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærandi A óskar eftir því að greiðsluaðlögun hans verði endurreiknuð með tilliti til nýrra upplýsinga. Kærandi B gerir ekki sérstakar kröfur í málinu. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja að útreikningar í máli þeirra séu rangir. Vegna aldurs þeirra séu forsendur breyttar og tekjur lægri en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Einnig sé sjúkra- og lyfjakostnaður hærri en komi fram í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi A hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 30. júní 2011 og hafi frestun greiðslna hafist sama dag. Kærandi B hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 9. ágúst 2011 og hafi frestun greiðslna hafist með ákvörðun um samþykki umsóknar 23. maí 2012. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem notið hafi frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur samkvæmt 12. gr. lge. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðunum umboðsmanns skuldara um samþykki umsókna kærenda um greiðsluaðlögun 23. maí 2012 sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfum. Einnig hafi verið hringt í kæranda B 8. júní 2012 og kæranda A 11. júní 2012 og hafi þau bæði staðfest að þau könnuðust við fyrrgreindar skyldur. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda A hafi staðið í rúmlega 25 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 31. júlí 2013. Greiðsluskjól kæranda B hafi staðið í rúmlega 14 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júní 2012 til 31. júlí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur A 1. júlí 2011 til 31. júlí 2013 að frádregnum skatti 9.658.496
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 507.099
Samtals 10.165.595
Mánaðarlegar meðaltekjur 406.624
Launatekjur B 1. júní 2012 til 31. júlí 2013 að frádregnum skatti 3.481.613
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 244.740
Samtals 3.726.353
Mánaðarlegar meðaltekjur 266.168
Framfærslukostnaður kærenda á mánuði 350.741
Framfærslukostnaður kæranda A á tímabilinu 1. júlí 2011 til 31. maí 2012 1.929.076
Framfærslukostnaður beggja kærenda á tímabilinu 1. júní 2012 til 31. júlí 2013 4.910.374
Samtals greiðslugeta kærenda á tímabili greiðsluskjóls 7.052.499

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hefðu getað lagt fyrir 7.052.499 krónur á því 25 mánaða tímabili sem kærandi A naut greiðsluskjóls og því 14 mánaða tímabili sem kærandi B naut greiðsluskjóls samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þ.e. á 11 mánaða tímabili sem kærandi A naut einn greiðsluskjóls og á 14 mánaða tímabili sem kærendur nutu bæði greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum á meðan frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur sem skuldarar geti fært sönnur á með haldbærum gögnum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 305.741 króna á mánuði meðan þau nutu greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið á þeim tíma í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað ágústmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna með eitt barn á framfæri, auk annars framfærslukostnaðar samkvæmt upplýsingum kærenda sjálfra.

Gert sé ráð fyrir því að kærandi A hafi staðið straum af helmingi kostnaðar við framfærslu heimilisins í þá 11 mánuði sem hann naut einn greiðsluskjóls eða frá 1. júlí 2011 til 31. maí 2012. Nemi hlutur hans í framfærslu samtals 1.929.076 krónum á því tímabili. Þá sé gert ráð fyrir því að kærendur hafi í sameiningu greitt framfærslukostnað í þá 14 mánuði sem þau nutu bæði greiðsluskjóls eða frá 1. júní 2012 til júlíloka 2013. Nemi kostnaður vegna framfærslu kærenda fyrir það tímabil samtals 4.910.374 krónum. Kærendur hafi að sögn umsjónarmanns lagt fyrir 720.000 krónur og komi það til frádráttar fyrrnefndum 7.052.499 krónum. Því liggi ekki fyrir hvernig 6.332.499 krónum hafi verið ráðstafað á tímabili greiðsluskjóls.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Í 3. mgr. 2. gr. lge. kemur fram að hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð geti í sameiningu leitað greiðsluaðlögunar. Kærendur sóttu um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sitt í hvoru lagi og ekki á sama tíma. Þannig barst umsókn kæranda A til umboðsmanns skuldara 30. júní 2011 en umsókn kæranda B 9. ágúst 2011. Samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. ágúst 2012 voru greiðsluaðlögunarmál kærenda sameinuð.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 28. janúar 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 30. september 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar nema hluta þeirra fjármuna sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur gáfu þær skýringar að þau hafi ekki haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. vegna lægri tekna og hærri sjúkra- og lyfjakostnaðar en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram sú meginregla að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Með setningu laga nr. 128/2010, sem tóku gildi 18. október 2010, var lögfest bráðabirgðaákvæði II í lge. þess efnis að tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna myndi hefjast við móttöku umsókna sem bærust umboðsmanni skuldara fyrir 1. júlí 2011. Fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn og frestun greiðslna hefjist. Kæranda A bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 30. júní 2011 en kæranda B frá 23. maí 2012. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fyrir fé í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 7.052.499 krónur á tímabili greiðsluskjóls, sbr. framangreint. Þau kveðast hafa lagt fyrir 720.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda A í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur A 2.286.639
Mánaðartekjur Aað meðaltali 381.107


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 4.491.470
Mánaðartekjur A að meðaltali 374.289


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur A 3.227.833
Mánaðartekjur A að meðaltali 403.479


Nettótekjur A í greiðsluskjóli 10.005.942
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali í greiðsluskjóli 384.844

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, framangreindar tekjur og bætur var greiðslugeta kæranda A þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013: 26 mánuðir
Nettótekjur A í greiðsluskjóli 10.005.942
Bótagreiðslur 2011 og 2012 561.889
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.567.831
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 406.455
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 152.871
Greiðslugeta kærenda á mánuði 253.585
Alls sparnaður í 26 mánuði í greiðsluskjóli x 253.585 6.593.198

*Gert er ráð fyrir að A greiði 50% framfærslukostnaðar heimilisins eða helming af 305.741 krónu á mánuði.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, launaupplýsingum ríkisskattstjóra og öðrum gögnum málsins, hafa mánaðartekjur kæranda B í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli hennar á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2012: Sjö mánuðir
Nettótekjur B 2.322.839
Mánaðartekjur B að meðaltali 331.834


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur B 1.353.661
Mánaðartekjur B að meðaltali 169.208


Nettótekjur B í greiðsluskjóli 3.676.500
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali í greiðsluskjóli 245.100

 

Sé miðað við tekjur kæranda B og bætur var greiðslugeta hennar þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júní 2012 til 31. ágúst 2013: 15 mánuðir  
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 3.676.500
Bótagreiðslur 2012 302.589
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 3.979.089
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 265.273
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 152.871
Greiðslugeta kærenda á mánuði 112.402
Alls sparnaður í 15 mánuði í greiðsluskjóli x 112.402 1.686.032

*Gert er ráð fyrir að A greiði 50% framfærslukostnaðar heimilisins eða helming af 305.741 krónu á mánuði.

 

Samkvæmt framangreindu átti samanlagður sparnaður beggja kærenda í greiðsluskjóli að vera þessi í krónum:

 

Sparnaður A í 26 mánuði 6.593.198
Sparnaður B í 15 mánuði 1.686.032
Alls sparnaður í greiðsluskjóli 8.279.230

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur eins og gerð hefur verið grein fyrir. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Að sögn kæranda B lagði hún fyrir 720.000 krónur á meðan á greiðsluskjóli stóð. Kærendur hafa hvorki lagt fram gögn er sýna þann sparnað né aukinn sjúkra- og lyfjakostnað og er því ekki unnt að taka tillit til þess við útreikninga á sparnaði kærenda.

Samkvæmt þessu ber að staðfesta þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá gildir einu hvort sú fjárhæð sem kærendum var ætlað að spara í greiðsluskjóli er reiknuð út fyrir þau bæði saman eða sitt í hvoru lagi.

Þar sem kærendur hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðslu-aðlögunarumleitanir þeirra niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta