Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 184/2013

Fimmtudaginn 3. desember 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 17. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 10. desember 2013 sem tilkynnt var með bréfi 11. sama mánaðar þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 27. desember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 7. maí 2014. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 8. maí 2014 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 14. maí 2014. Hún var send kæranda með bréfi 22. nóvember 2014 og henni gefið tækifæri til að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1963. Hún er einstæð og hefur búið ásamt tveimur uppkomnum dætrum sínum í eigin 111,8 fermetra íbúð að B götu nr. 44 í sveitarfélaginu C.

Kærandi starfar hjá X ehf. og eru útborguð laun hennar 183.854 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 24.731.993 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2004 og 2007.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til minnkandi atvinnu og hækkandi greiðslubyrði af lánum.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 6. september 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. mars 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Þrír umsjónarmenn hafa starfað að máli kæranda. Fyrsti umsjónarmaðurinn sagði sig frá málinu í júní 2012. Tók annar umsjónarmaður þá við því, en skipun hans var afturkölluð og þriðji umsjónarmaðurinn skipaður í október 2012.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 26. ágúst 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umsjónarmaður vísaði til þess að hann hefði haldið fund með kæranda 7. febrúar 2013. Á fundinum hafi verið ákveðið að reyna að semja við kröfuhafa um að kærandi héldi fasteign sinni. Frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið sent kröfuhöfum 14. mars 2013. Andmæli hafi borist frá Íslandsbanka þar sem kærandi hefði keypt gjaldeyri á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Hafi umsjónarmaður óskað eftir skýringum kæranda. Kvaðst kærandi ekki hafa haft vitneskju um að óheimilt væri að fara til útlanda í greiðsluskjóli. Kærandi hefði farið í tvær utanlandsferðir. Henni hafi verið boðið í aðra ferðina, en í hina hefði hún farið með dóttur sinni í tilefni afmælis þeirrar síðarnefndu. Hafi kærandi fjármagnað þá ferð með arfi frá foreldrum sínum, en kærandi hafi fengið 2.200.000 krónur í arf á tímabilinu. Hún hafi lagt 700.000 krónur til hliðar en varið öðru til greiðslu skulda sem hún hefði stofnað til eftir upphaf greiðsluskjóls, til eigin framfærslu, til að greiða fyrir tannviðgerðir og fleira.

Umsjónarmaður hefði upplýst Íslandsbanka um framkomnar skýringar kæranda. Bankinn hefði ekki lagst gegn frumvarpi kæranda, en hann vildi ekki fella niður kröfur sínar á hendur kæranda við lok greiðsluaðlögunartímabils eins og upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Kærandi hafi ekki fellt sig við afstöðu bankans. Því hafi verið ákveðið að kanna hvort unnt væri að komast að annarri niðurstöðu utan greiðsluaðlögunar með aðstoð ráðgjafa hjá Embætti umboðsmanns skuldara. Hafi umsjónarmaður gert hlé á vinnu sinni á meðan. Tillaga ráðgjafans hafi verið kynnt fyrir kæranda 6. ágúst 2013 en kærandi hafi ekki brugðist við tillögunni. Hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst 20. ágúst 2013 þar sem henni hafi verið veittur frestur til og með 23. ágúst 2013 til að gera upp hug sinn. Kærandi hafi einnig verið upplýst um að þrír kostir væru í stöðunni. Í fyrsta lagi að fara að tillögu ráðgjafa sem kynnt hafi verið 6. ágúst 2013, í öðru lagi að ganga að fyrirliggjandi samningi um greiðsluaðlögun og í þriðja lagi gæti kærandi fallið frá umsókn sinni um greiðsluaðlögun. Einnig hafi kærandi verið upplýst um að ef hún veldi ekki einn af framangreindum þremur kostum sæi umsjónarmaður sér ekki annað fært en að leggja til við umboðsmann skuldara að mál kæranda yrði fellt niður. Fresturinn hafi liðið án þess að kærandi tæki ákvörðun.

Með vísan til ofangreinds sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 20. nóvember 2013 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Svar barst ekki frá kæranda.

Með ákvörðun 10. desember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og embættinu gert að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara ranga. Umboðsmaður hafi fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar á þeim grundvelli að hún hefði ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Þessu hafni kærandi. Í ákvæðinu sé ekki útskýrt í hverju „samráð“ felist og engar skýringar sé að finna í athugasemdum með frumvarpi til lge. Kærandi hafi ætíð verið reiðubúin til að veita umsjónarmanni þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir og hafi staðið í þeirri trú að hún hefði fullnægt öllum þeim skyldum sem á henni hvíldu.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leiti nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerti starfssvið þess. Af reglunni leiði að stjórnvaldi beri að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði svo sem að gera aðila viðvart standi hann ekki skil á nauðsynlegum gögnum eða veiti ekki nægilegar upplýsingar. Í ljósi þessa hefði umsjónarmanni borið að leiðbeina kæranda betur.

Umsjónarmaður hafi átt í samningaviðræðum við Íslandsbanka og hafi niðurstöður verið kynntar kæranda 21. maí 2013. Umsjónarmaður hafi veitt kæranda frest til 4. júní sama ár til að taka afstöðu til þeirra. Hafði kærandi þá sótt ráðgjöf hjá Embætti umboðsmanns skuldara til að freista þess að finna viðeigandi lausn á fjármálum sínum. Niðurstöður ráðgjafa hafi legið fyrir 6. ágúst 2013, en kærandi hafi verið ósátt við tillögurnar og því hafi hún ekki fallist á þær. Þegar þetta hafi legið fyrir hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst 20. ágúst 2013 þar sem henni hafi verið veittur þriggja daga frestur til að taka afstöðu til fyrirliggjandi niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana. Hafi sá frestur ekki verið í samræmi við mikilvægi ákvörðunarinnar, en tillögur umsjónarmanns hafi meðal annars falið í sér að kærandi myndi selja fasteign. Kærandi hafi viljað kanna möguleika sína betur. Umsjónarmaður hafi sent kæranda einn tölvupóst, en ekki reynt frekar að ná í hana. Kærandi noti tölvupóst lítið, en umsjónarmaður hefði ekki fengið staðfestingu á því að kæranda hefði borist tölvupósturinn. Gera verði þá kröfu til umsjónarmanns að hann tryggi að skuldari fái upplýsingar, sérstaklega þegar afleiðingarnar séu jafn afdrifaríkar og í þessu máli. Hefði umsjónarmanni verið í lófa lagið að senda kæranda bréf í ábyrgðarpósti og hafa símasamband við kæranda til að útskýra stöðu málsins. Í það allra minnsta hefði mátt ætlast til þess að umsjónarmaður gæfi kæranda meira svigrúm til að bregðast við.

Í 5. gr. lge. sé lögð rannsóknarskylda á umboðsmann skuldara, en reglan eigi sér jafnframt stoð í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í rannsóknarskyldunni felist að umboðsmaður skuldara skuli afla allra nauðsynlegra upplýsinga sem máli geti skipt varðandi skuldir, tekjur og framferði skuldara. Skuli tryggt að allar þessar upplýsingar komi fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Lagaákvæðin eigi að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Rannsóknarskyldan nái jafnframt til þess að umsjónarmaður afli upplýsinga um afstöðu skuldarans til tillagna umsjónarmanns. Geti umsjónarmaður ekki talist hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessu með því að senda skuldara einn tölvupóst og gefa honum skamman tíma til að bregðast við. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga eigi aðilar að stjórnsýslumáli rétt á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið greiðsluaðlögunar að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Ljóst sé að samningur um greiðsluaðlögun gæti orðið kæranda til góða. Slíkur samningur kæmi í veg fyrir að kærandi þyrfti að fara þvingaða leið skuldaskilaréttarins. Verði að telja að ákvörðun um að hafna kæranda um að gera samning um greiðsluaðlögun sé íþyngjandi ákvörðun og verði stjórnvald að gæta meðalhófs þegar slíkar ákvarðanir séu teknar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þeirri lagagrein felist að gæta verði þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Verði að telja það harkalegt að veita kæranda aðeins þriggja daga frest til að bregðast við tillögum umsjónarmanns líkt og gert hafi verið í máli kæranda.

Samkvæmt framansögðu telur kærandi að umboðsmaður skuldara hafi hvorki virt leiðbeiningaskyldu né rannsóknarreglu og ekki veitt sér andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Embættið hafi heldur ekki gætt að meðalhófsreglu laganna. Því hafi kærandi ekki notið þeirrar málsmeðferðar eða réttinda sem henni beri samkvæmt lge. og stjórnsýslulögum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega  framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann veiti liðsinni sitt, sé þess þörf, enda skuli umsjónarmaður semja frumvarp í samráði við skuldara. Athafnaskylda skuldara að þessu leyti sé leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.

Kærandi hafi ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. þar sem hún hafi hvorki svarað fyrirspurnum umsjónarmanns né haft samband vegna greiðsluaðlögunarumleitana.

Umsjónarmaður hafi kynnt kæranda afstöðu kröfuhafa og þau úrræði sem væru fyrir hendi á fundi 15. maí 2013. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 21. maí 2013 þar sem staða málsins hafi verið útskýrð ítarlega. Hafi kæranda verið veittur frestur til 4. júní 2013 til að taka afstöðu til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana. Auk þessa hafi umsjónarmaður leitað til ráðgjafa hjá Embætti umboðsmanns skuldara og óskað eftir því að kannað yrði hvort unnt væri að leysa fjárhagsvanda kæranda með öðru móti en greiðsluaðlögun. Kæranda hafi verið kynntar tillögur ráðgjafans með bréfi 6. ágúst, 2013 en einnig hafi henni verið sendur tölvupóstur þar sem tillögurnar hafi verið útskýrðar og henni bent á að hafa samband við ráðgjafa sem fyrst. Kærandi hafi svarað með tölvupósti 12. ágúst 2013 þess efnis að hún vildi ekki selja fasteign sína eins og ráðgjafinn hafi lagt til. Hún hefði aðra tillögu og myndi hafa símasamband við ráðgjafann í sömu viku. Kærandi hafi þó ekki haft frekara samband og hafi henni verið sendur fyrrnefndur tölvupóstur 20. ágúst 2013.

Eftir að umsjónarmaður hafi lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður hafi kærandi rætt við starfsmann umboðsmanns skuldara í síma 16. október 2013 og hafi hún þá enn verið upplýst um stöðu málsins. Kæranda hafi svo verið sent bréf með ábyrgðarpósti 20. nóvember 2013 þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós varðandi fyrirhugaða niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Kærandi hafi ekki brugðist við bréfinu.

Eðli málsins samkvæmt sé ómögulegt að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum hafni skuldari tillögu umsjónarmanns um framhald eða lok greiðsluaðlögunarumleitana eða gefi ekki upp afstöðu sína til þess. Umboðs­maður skuldara telji að ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge. leggi þær skyldur á herðar skuldara að veita liðsinni sitt og gefa upp afstöðu sína telji umsjónarmaður það nauðsynlegt meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Telji embættið ótvírætt að kærandi hafi verið upplýst um mál sitt og notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig hafi embættið uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína og rannsóknarskyldu samkvæmt 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að embætti umboðsmanns skuldara verði gert að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram ef  kærunefndin verður við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að Embætti umboðsmanns skuldara verði gert að veita henni heimild til að leita greiðsluaðlögunar á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kæranda fyrir kærunefndinni ber að skilja í samræmi við þetta.

Kærandi álítur að umboðsmaður skuldara hafi ekki hagað málsmeðferðinni í samræmi við rannsóknarreglu 5. gr. lge. og ekki gætt leiðbeiningarskyldu 7. gr., meðalhófsreglu 12. gr. eða andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrst skal vikið að málsmeðferð umboðsmanns skuldara samkvæmt rannsóknarreglu 5. gr. lge. Regla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál. Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslubyrði, fjárhæðir skulda og greiðslugetu viðkomandi umsækjanda.

Kærandi telur rannsóknarregluna ná til þess að umsjónarmaður afli upplýsinga um afstöðu skuldara til tillagna umsjónarmanns. Kærandi vísar til þess að umsjónarmaður teljist ekki hafa uppfyllt skyldur sínar í því efni með því að „senda kæranda einn tölvupóst og gefa honum afar skamman tíma til að bregðast við.“ Á þennan skilning kæranda á rannsóknarreglunni getur kærunefndin ekki fallist. Eins og rakið hefur verið varðar rannsóknarreglan öflun nauðsynlegra upplýsinga um atvik máls áður en ákvörðun er tekin í því. Atvik máls þessa voru nægjanlega upplýst í lok maí 2013, þ.e. áður en umsjónarmaður leitaði til ráðgjafa Embættis umboðsmanns skuldara fyrir hönd kæranda. Er það því mat kærunefndarinnar að meðferð málsins hafi verið í samræmi við rannsóknarreglu 5. gr. lge.

Í annan stað telur kærandi að hvorki umsjónarmaður né umboðsmaður skuldara hafi sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart henni. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst þó ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni fékk kærandi ítrekað leiðbeiningar um stöðu málsins, þá kosti sem kærandi þurfti að taka afstöðu til í málinu hverju sinni og hvaða afleiðingar val kæranda hefði í för með sér. Þetta má meðal annars sjá af tölvupóstum umsjónarmanns til kæranda 21. maí og 5. júní 2013. Þá var kærandi einnig upplýst um þá fresti sem henni stóðu til boða í málinu. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var kæranda sent bréf 20. nóvember 2013 þar sem henni var gerð grein fyrir málinu, henni gefið færi á að tjá sig um málið og hverju það varðaði hana að bregðast ekki við bréfinu. Með vísan til þessa telur kærunefndin að málsmeðferð hafi verið í samræmi við leiðbeiningarreglu stjórnsýslulaga, bæði hjá umsjónarmanni og umboðsmanni skuldara.

Kærandi telur enn fremur að hvorki Embætti umboðsmanns skuldara né umsjónarmaður hafi virt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Nánar tiltekið hafi það verið harkalegt af hálfu umsjónarmanns að veita kæranda aðeins þriggja daga frest í málinu 20. ágúst 2013. Í annan stað hafi það verið andstætt meðalhófsreglunni að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.

Meðalhófsreglan beinist að efnislegri ákvörðun stjórnvalds, en ekki undirbúningi að ákvarðanatöku svo sem hvaða fresti aðili máls fær undir meðferð þess. Þegar af þeirri ástæðu á 12. gr. stjórnsýslulaga ekki við um þann frest sem umsjónarmaður veitti kæranda 20. ágúst 2013. Um beitingu umboðsmanns skuldara á meðalhófsreglunni við töku ákvörðunar um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verður fjallað síðar í úrskurðinum.

Kærandi telur sig ekki hafa notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt þeirri lagagrein skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Andmælareglu stjórnsýslulaga er ætlað að veita aðila máls rétt til að hafa áhrif við úrlausn málsins og gæta hagsmuna sinna. Virði stjórnvald þennan rétt hefur það þar með veitt aðila lögbundinn andmælarétt. Það er þá undir málsaðila sjálfum komið að nýta sér þennan rétt. Í málinu liggur fyrir bréf umboðsmanns skuldara til kæranda 20. nóvember 2013 þar sem henni var gefið tækifæri til þess að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings innan tilskilins frests. Kærandi sinnti ekki bréfinu. Með vísan til þessa telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi virt andmælarétt kæranda við meðferð málsins. Kærandi hafi á hinn bóginn ákveðið að nýta sér ekki þennan rétt.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Að mati umjónarmanns hefur skort á samstarfsvilja kæranda þar sem hún hafi ekki tekið afstöðu til framhalds greiðsluaðlögunarumleitana sinna samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. Því felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með ákvörðun 10. desember 2013. Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara ranga þar sem henni hafi verið gefinn of skammur tími til að taka ákvörðun.

Í ljósi málatilbúnaðar kæranda þykir rétt að rekja samskipti aðila á málsmeðferðartímanum, en í málinu liggja fyrir fundargerðir og tölvupóstssamskipti milli aðila málsins. Samkvæmt fundargerð 7. febrúar 2013 áttu kærandi og umsjónarmaður fund þann dag þar sem meðal annars var farið yfir aðstæður og fjárhag kæranda, greiðslugetu, tekjur, netfang, heimilisfang og símanúmer. Í kjölfarið áttu sér stað tölvupóstssamskipti á milli kæranda og umsjónarmanns 8., 12., 17., 18., 19., 20., 21., 22., 26. og 28. febrúar 2013. Voru samskipti þessi vegna upplýsingaöflunar umsjónarmanns þar sem umsjónarmaður bað um upplýsingar og kærandi svaraði fyrirspurnum. Einnig veitti umsjónarmaður kæranda upplýsingar um framgang málsins og gaf kæranda útskýringar eftir þörfum.

Umsjónarmaður sendi kæranda drög að greiðsluaðlögunarsamningi með tölvupósti 1. mars 2013. Þar var óskað eftir afstöðu kæranda til samningsins í síðasta lagi 5. mars 2013. Kærandi svaraði með tölvupósti 5. mars 2013 og kvaðst þurfa að minnsta kosti viku í viðbót til að skoða málið. Umsjónarmaður sendi kæranda ný drög að greiðsluaðlögunarsamningi með tölvupósti 7. mars 2013. Beðið var um afstöðu kæranda eigi síðar en 11. mars 2013. Í tölvupósti kæranda til umsjónarmanns 12. mars 2013 segir kærandi að henni „lítist ágætlega“ á samningsdrögin. Í framhaldinu áttu sér stað frekari tölvupóstssamskipti um drögin þennan sama dag.

Frekari tölvupóstssamskipti áttu sér síðan stað á milli aðila 2., 3. og 18. apríl 2013.

Kærandi og umsjónarmaður áttu fund 15. maí 2013 eins og fram kemur í framlagðri fundargerð. Staða málsins og mögulegt framhald var rætt og afstaða Íslandsbanka til frumvarpsdraga útskýrð fyrir kæranda. Kærandi bað um frest til 29. maí 2013 til að taka afstöðu. Umsjónarmaður sendi kæranda tölvupóst 21. maí 2013 þar sem afstaða Íslandsbanka til fyrirliggjandi samningsdraga var nákvæmlega útskýrð og ítarlega gerð grein fyrir þeim leiðum sem kæranda væru færar í málinu. Umsjónarmaður útskýrði einnig hvað hver og ein leið hefði í för með sér. Kærandi var beðin um að láta vita um afstöðu sína í allra síðasta lagi 4. júní 2013. Með tölvupósti til umsjónarmanns 22. maí 2013 greindi kærandi frá því að hún myndi skoða málið og verða í sambandi við umsjónarmann. Kærandi sendi umsjónarmanni síðan tölvupóst 4. júní 2013 og bað umsjónarmanninn um að hringja í sig daginn eftir. Umsjónarmaður svaraði samdægurs og minnti á að frestur kæranda rynni út þennan sama dag. Kærandi svaraði umsjónarmanni síðar um daginn og greindi frá því að hún vildi gjarnan að umsjónarmaður héldi áfram að reyna að ná samningum. Kærandi kvaðst ekki vera tilbúin til að fara úr greiðsluaðlögunarferlinu að svo stöddu. Umsjónarmaður sendi kæranda síðan tölvupóst 5. júní 2013. Þar voru tilteknir þeir kostir sem kærandi hefði í stöðunni. Umsjónarmaður sagðist þurfa að fá afstöðu kæranda þennan dag ella yrði hann að endursenda málið til umboðsmanns skuldara. Kærandi sendi umsjónarmanni síðan fyrirspurn 8. júní 2013 og spurði hvað hún ætti langan frest eftir.

Næstu tölvupóstssamskipti málsins eru frá ráðgjafa hjá Embætti umboðsmanns skuldara til kæranda 8. júlí 2013. Þar eru fyrirspurnir um fjárhag kæranda. Kærandi svarar ráðgjafanum með tölvupósti 15. júlí 2013. Einnig segir kærandi: „Þú mátt hringja ef það er eitthvað fleira sem þú þarft að spyrja mig um, en það er langbest að senda mér e-mail því það er mikið að gera í vinnunni og ég get ekki alltaf svarað símanum.“

Ráðgjafi sendi kæranda tölvupóst 22. júlí 2013, en þar kemur fram að ráðgjafinn sé að ljúka við málið og vilji hitta kæranda á fundi til að fara yfir niðurstöðurnar. Ráðgjafinn sendi kæranda aftur tölvupóst 6. ágúst 2013 þar sem niðurstöður ráðgjafar voru kynntar kæranda. Lagði ráðgjafinn til að íbúð kæranda yrði seld og hún flytti í leiguhúsnæði. Kæranda var boðið upp á fund og hvött til að hafa samband við ráðgjafann. Í svari kæranda til ráðgjafans 12. ágúst 2013 segist kærandi vilja halda íbúð sinni eitthvað áfram. Hún sé með aðra tillögu í málinu og muni hringja í vikunni.

Loks er tölvupóstur frá umsjónarmanni til kæranda 20. ágúst 2013. Þar kemur fram að umsjónarmaður sé búinn að bíða með málið eins lengi og hægt sé. Svar kæranda verði að koma í síðasta lagi 23. ágúst. Enn voru tilgreindir möguleikar kæranda í stöðunni og ítarlega greint frá því hvert yrði framhaldið miðað við hvern möguleika.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið greindi kærandi frá því í tölvupósti til umsjónarmanns 12. mars 2013 að henni „lítist ágætlega“ á fyrirliggjandi drög að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Einn kröfuhafi, Íslandsbanki, mótmælti frumvarpinu og var þar með ljóst að samningur myndi ekki nást nema kærandi kæmi til móts við afstöðu bankans. Á fundi kæranda og umsjónarmanns tveimur mánuðum síðar, 15. maí 2013, var kærandi meðal annars upplýst um þetta. Hún bað um frest til 29. maí sama ár til að taka afstöðu til samningsins. Kærandi greindi síðan frá því 4. júní 2013 að hún vildi að umsjónarmaður héldi áfram greiðsluaðlögunarumleitunum og kvaðst ekki vilja fara úr greiðsluaðlögunarferli. Þrátt fyrir fyrrnefnda afstöðu Íslandsbanka, sem kæranda var sérstaklega kynnt, sýndi hún hvorki vilja til að koma til móts við bankann né leggja fram aðra tillögu í málinu. Þrátt fyrir leiðbeiningar og áminningu umsjónarmanns 5. júní 2013 upplýsti kærandi ekki um afstöðu sína til framhalds málsins. Eftir þetta reyndi ráðgjafi Embættis umboðsmanns að ná samningum utan greiðsluaðlögunar fyrir kæranda en án árangurs. Var kærandi upplýst um að ráðgjöf hefði ekki skilað árangri með tölvupósti ráðgjafa 6. ágúst 2013. Næstu tölvupóstssamskipti á milli kæranda og umsjónarmanns voru 20. ágúst 2013 þar sem henni var ítarlega gerð grein fyrir þeim kostum sem fyrir hendi voru og henni veittur þriggja daga frestur til að aðhafast í málinu, en ekki væri unnt að bíða með málið lengur. Hafði kærandi þá þegar haft frest frá 6. ágúst 2013, auk þess sem hún hafði boðað tillögu í málinu með tölvupósti sínum til ráðgjafa 12. ágúst 2013. Tillaga kæranda barst ekki.

Þegar framanritað er virt verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kæranda í málinu. Tilgangur greiðsluaðlögunar er að ná samningum milli skuldara og kröfuhafa, en í máli kæranda var ljóst eigi síðar en 6. ágúst 2013 að það myndi ekki takast þrátt fyrir töluverðar tilraunir. Engu að síður lét kærandi hjá líða að hafa það frumkvæði sem nauðsynlegt var til að málinu yrði fram haldið í samræmi við ákvæði lge. Þótt út af fyrir sig megi fallast á að fyrrnefndur þriggja daga frestur hafi verið all skammur verður að mati kærunefndarinnar að líta til forsögu málsins og þess skorts á frumkvæði sem kærandi hafði sýnt í málinu allt frá maílokum 2013 er fyrir lá að málið var nægjanlega upplýst. Í því ljósi telur kærunefndin að ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge. eigi við í málinu og að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé í samræmi við meðalhófsreglu 13. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi kveðst lítið nota tölvupóst. Hún telur að það hljóti að mega gera þá kröfu til umsjónarmanns að tryggt sé að upplýsingar berist. Hefði umsjónarmanni verið í lófa lagið að senda kæranda bréf í ábyrgðarpósti og hafa símasamband við kæranda til að útskýra stöðu málsins í stað þess að senda aðeins títtnefndan tölvupóst 20. ágúst 2013. Eins og hér hefur verið ítarlega rakið voru samskipti kæranda og umsjónarmanns talsvert mikil og fóru að langmestu leyti fram með tölvupósti. Er því að mati kærunefndarinnar haldlaust fyrir kæranda að bera fyrir sig að hún noti tölvupóst lítið.

Hin kærða kvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að skilyrði 15., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge, séu fyrir hendi og ber með vísan til atvika málsins og þess sem hér að framan er rakið að staðfesta mat hans á því. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta