Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 181/2013

Fimmtudaginn 3. desember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. nóvember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. desember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1950 og 1949. Þau eru gift og búa í eigin 324,4 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 7 í sveitarfélaginu D. Kærandi A starfar hjá Y ehf. en kærandi B starfar hjá X hf. Ráðstöfunartekjur þeirra eru 572.849 krónur á mánuði.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til verðtryggingar sem hafi valdið því að lán sem þau tóku hafi hækkað umtalsvert. Einnig séu þau í ábyrgðum fyrir son sinn og hafi auk þess aðstoðað hann fjárhagslega, meðal annars með því að taka fyrir hann lán til húsbyggingar.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 30.771.164 krónur. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2008 og 2009. Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara 29.197.955 krónur.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. maí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 óskaði umsjónarmaður eftir því að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns kom meðal annars fram að skuldasöfnun kærenda mætti fyrst og fremst rekja til ábyrgðarskuldbindinga. Þau hafi aðstoðað son sinn og tengdadóttur við húsbyggingu í tengslum við fyrirtæki sonar þeirra, en fyrirtækið hefði síðan orðið gjaldþrota. Eignir kærenda séu fasteignin C gata nr. 7, sveitarfélaginu D, alls að fasteignamati 47.950.000 krónur, og bifreið árgerð 1998. Þá eigi kærendur 1.452.000 krónur inni á bankareikningi. Mánaðarleg greiðslugeta kærenda sé 352.368 krónur.

Af fyrirliggjandi gögnum megi álykta að kærendur séu ófær um að standa skil á fjárskuldbindingum sínum um fyrirsjáanlega framtíð. Þar verði að hafa í huga aldur þeirra og heilsufar sem ekki sé gott. Megi búast við að tekjur þeirra lækki umtalsvert innan fárra ára þegar kærendur komist á ellilífeyrisaldur.

Kröfuhafar hafi gert athugasemdir við að fasteign kærenda geti ekki talist hófleg í skilningi lge. og því beri að selja hana. Einnig hafi kröfuhafar gert athugasemdir við að eignir kærenda séu talsvert meiri en skuldir og því muni þeir ekki samþykkja frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Í ofangreindu ljósi og með vísan til 5. mgr. 13. gr. lge. óski umsjónarmaður þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 15. nóvember 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin svör bárust frá kærendum.

Með ákvörðun 27. nóvember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar og með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að þau njóti áfram heimildar til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

Kærendur segja að ekkert hafi breyst varðandi þeirra hagi frá því að þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar 11. maí 2011. Hið eina nýja í málinu séu framkomin mótmæli kröfuhafa sem hljóti að hafa legið fyrir þegar umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var samþykkt. Þetta þyki kærendum ekki nægileg ástæða til að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður.

Skuldir kærenda séu miklar eða 30.771.164 krónur. Ábyrgðarskuldbindingar nemi alls 31.960.918 krónum. Gætu þær að miklu eða öllu leyti fallið á kærendur. Það sé fyrirséð að kærendur hafi ekki getu til að greiða þær skuldir sem þau verði krafin um ef ákvörðun umboðsmanns skuldara verði óbreytt.

Kærendur mótmæla því að eignir þeirra séu ekki hóflegar í skilningi 13. gr. lge. en þau hafi búið í fasteign sinni til fjölda ára. Þau þurfi eins og aðrir þak yfir höfuðið og ljóst sé að fasteignamarkaður sé erfiður. Kærendur eigi einungis eina verðlitla bifreið til sameiginlegra nota og nokkrar krónur á bankareikningi sem muni duga skammt til að greiða niður skuldir aðgangsharðra kröfuhafa.

Tekjur kærenda séu ekki miklar og rétt dugi fyrir helstu útgjöldum. Kærendur telja sig uppfylla skilyrði 2. gr. lge. og að þau séu um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er vísað til þess að í 2. gr. lge. komi fram hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. geti einstaklingur sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. segi að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. beri að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2013 sé nettó eign þeirra rúmlega 33.000.000 króna. Samkvæmt gögnum málsins séu skuldir kærenda 30.771.164 krónur og ábyrgðarskuldbindingar 31.960.918 krónur. Fasteign kærenda sé metin á 55.850.000 krónur samkvæmt fyrrnefndu skattframtali. Þá séu bankainnstæður 4.855.593 krónur. Samanlagðar tekjur kærenda séu 586.292 krónur á mánuði og framfærslukostnaður þeirra 249.708 krónur. Það sé því mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi talsvert svigrúm til að standa við skuldbindingar sínar.

Kærendur haldi fram að ekkert hafi breyst frá því að umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var samþykkt 11. maí 2011 nema að fram séu komin andmæli frá kröfuhöfum við frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun. Það þyki þeim ekki næg ástæða til niðurfellingar á greiðsluaðlögunarumleitunum. Umboðsmaður bendi á að þegar umsókn kærenda hafi verið samþykkt hafi verið óvíst hvort kærendur gætu komið fasteign sinni í verð vegna tregðu á fasteignamarkaði. Þessi staða hafi nú breyst og sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur ættu að geta selt fasteign sína, greitt skuldir og átt töluverðan afgang. Þann afgang gætu þau nýtt til að greiða þær ábyrgðarskuldbindingar sem mögulega falli á þau. Eins og nú sé ástatt geti kærendur því leitað annarra og vægari leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar að aðstæðum, mögulega með aðstoð umboðsmanns skuldara.

Verði samkvæmt framansögðu að telja að kærendur uppfylli ekki skilyrði 2. gr. lge. um að vera um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar og beri því að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að þau njóti áfram heimildar til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge., en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skal umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. getur einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lge. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla megi að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 segir að álykta megi af fyrirliggjandi gögnum að kærendur séu ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Kærendur eigi fá ár eftir á vinnumarkaði og séu ekki góð til heilsunnar. Kröfuhafar hafi þó gert athugasemdir við að eignir kærenda séu í raun meiri en skuldir, auk þess sem íbúðarhúsnæði þeirra geti ekki talist hóflegt í skilningi lge. Umboðsmaður skuldara telur á hinn bóginn að kærendur séu fær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar þar sem þau eigi eignir fyrir skuldum og þeim ábyrgðarskuldbindingum sem á þau kunni að falla. Kærendur kveðast ekki fær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Í málinu hefur verið lagður fram tölvupóstur frá Íslandsbanka hf. til umsjónarmanns 8. febrúar 2012 en þar segir: „...bankinn leggst gegn því að samþykkja samning um greiðsluaðlögun til handa B og A. Húsnæði skuldara er úr hófi auk þess sem fasteignamat er hærra en þær skuldir sem hvíla á fasteign þeirra. Bankinn lítur svo á að B og A eigi ekki heima í greiðsluaðlögunarúrræðinu.“

Í málinu liggur fyrir skuldayfirlit umboðsmanns skuldara 27. nóvember 2013. Samkvæmt því eru skuldir kærenda 30.771.164 krónur. Einnig kemur fram í málinu að ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 31.960.918 krónur. Eru ábyrgðarskuldbindingar þessar allar vegna sonar kærenda. Í fyrrnefndu bréfi umsjónarmanns kemur fram að þessar skuldbindingar séu fallnar á kærendur. Samkvæmt því verður að draga þá ályktun að heildarskuldir kærenda séu í raun 62.732.082 krónur (30.771.164 krónur + 31.960.918 krónur). Eignir kærenda samkvæmt skattframtali 2013 eru fasteign að fasteignamati 55.850.000 krónur og bankainnstæður að fjárhæð 4.855.593 krónur eða alls 60.705.593 krónur. Að auki eiga þau gamla bifreið. Miðað við þetta er nettó eignastaða kærenda neikvæð um 2.026.489 krónur. Eignastaða kærenda að þessu leyti er því ekki til fyrirstöðu að þau geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

Með hinni kærðu ákvörðun var auk þess horft framhjá því að umsjónarmaður hafði ekki látið á það reyna hvort kærendur væru reiðubúin til að selja fasteign sína eftir atvikum til að greiða skuldir, þar á meðal ábyrgðarskuldbindingar.

Samkvæmt 1. gr. lge. er markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í þessu skyni er umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarumleitunum heimilt að grípa til ýmissa úrræða svo sem að ákveða að selja þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án samkvæmt 13. gr. lge. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að við mat á því hvort selja skuli eignir skuldara skuli umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skal þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Við mat á því hvort fasteign skuldara skuli seld skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess að hve miklu leyti eignin er veðsett. Við þær aðstæður þar sem veðskuldir eru undir matsverði fasteignar má ætla að til álita komi að eignin verði seld, að því gefnu að tryggt sé að söluandvirðinu, að frádreginni greiðslu veðskulda, megi ráðstafa bæði til kaupa eða leigu á nýrri íbúð fyrir skuldara og til greiðslu krafna samkvæmt greiðsluaðlöguninni.

Með hliðsjón af þeim athugasemdum sem Íslandsbanki hf. gerði við frumvarp umsjónarmanns til greiðsluaðlögunar verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að taka ákvörðun um hvort selja ætti fasteign kærenda í samræmi við 1. mgr. 13. gr. lge. og láta reyna á vilja kærenda til þess. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að umsjónarmaður hafi gert þetta. Engu að síður vísar hann til 5. mgr. 13. gr. lge. í fyrrgreindu bréfi, en þar segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Með vísan til þess sem að framan er rakið hefði umboðsmanni skuldara verið rétt að beina því til umsjónarmanns á þeim tíma, er nefnt bréf umsjónarmanns barst embættinu, að hann ynni málið til enda á grundvelli lge. Þess í stað tók embættið ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á þeirri forsendu að þau ættu eignir fyrir skuldum.

Verður samkvæmt því að telja umboðsmaður skuldara hafi fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda án þess að meðferð málsins hafi verið í samræmi við ákvæði lge. Með vísan til þess ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta