702/2017. Úrskurður frá 11. september 2017
Úrskurður
Hinn 11. september 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 702/2017 í máli ÚNU 17020005.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 7. febrúar 2017, kærði A, blaðamaður, synjun úrskurðarnefndar lögmanna á beiðni um afhendingu gagna. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ritað formanni úrskurðarnefndarinnar bréf, dags. 30. desember 2016, þar sem hann sagðist hafa upplýsingar um að tiltekinn hæstaréttarlögmaður hafi átt bréfaskipti við nefndina fyrir hönd annars hæstaréttarlögmanns vegna erinda sem nefndinni hefðu borist frá skjólstæðingum þess síðarnefnda. Í bréfinu fer kærandi þess á leit við nefndina að hún staðfesti hvort þessar upplýsingar séu réttar eða ekki. Þá óskar kærandi eftir upplýsingum um hvort nefndin hafi þegar úrskurðað vegna málsins og beiðist afrits af úrskurðinum liggi hann fyrir. Að auki óskar kærandi eftir afritum bréfaskipta vegna málsins.
Úrskurðarnefnd lögmanna svaraði erindi kæranda með bréfi dags. 29. janúar 2017. Í því kemur fram að beiðni kæranda um upplýsingar um hvort tiltekið mál hafi verið lagt fyrir nefndina og gögn þess hafi verið tekin fyrir á fundi nefndarinnar. Samþykkt hafi verið að hafna erindinu með vísan til trúnaðarsambands lögmanns og umbjóðanda, en lögmenn beri þagnarskyldu um hvaðeina sem þeim sé trúað fyrir í starfi sínu. Nefndin telji sanngjarnt og eðlilegt í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að upplýsingar sem henni berist um störf lögmanna fyrir umbjóðendur sína séu bundnar trúnaði.
Í kæru er tekið fram að kærandi sé ósáttur við afgreiðslu úrskurðarnefndar lögmanna og telji hagsmuni þeirra sem kunna í framtíðinni að þurfa lögfræðiaðstoð og rétt sömu aðila til upplýsinga vega þyngra en trúnaðarsamband lögmanns og umbjóðanda í þessu tilviki.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 15. febrúar 2017, var úrskurðarnefnd lögmanna kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.
Í umsögn úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 1. mars 2017, kemur fram að lög nr. 77/1998 gildi um lögmenn. Í 22. gr. laganna sé mælt fyrir um sérstaka þagnarskyldu lögmanna og starfsmanna þeirra. Í siðareglum lögmanna, sem settar eru með stoð í 5. gr. laganna, komi fram í 17. gr. sú afdráttarlausa regla að lögmaður skuli aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint sé að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar sem lögmaðurinn hafi fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing. Sama gildi m.a. um fulltrúa lögmanns og annað starfsfólk. Þá er bent á að í b.-lið 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þeim upplýsingum, sem lögmanni hafi verið trúað fyrir í starfi sínu um einkahagi manns, veitt sama vernd og t.d. upplýsingum um heimildamenn blaðamanns, sbr. a.-lið sama ákvæðis.
Í umsögninni kemur fram að úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfi á grundvelli II. og V. kafla laga um lögmenn, líti svo á að þegar henni berist ágreiningsmál vegna starfa lögmanna, eigi sömu reglur um trúnað við varðandi einkahagi þeirra viðskiptamanna lögmanna sem í hlut eigi. Sé nefndinni því óheimilt að láta óviðkomandi í té upplýsingar sem varði umbjóðendur lögmanna, þ. á m. hvort þeir hafi leitað til lögmanns og þá hvaða lögmanns.
Einnig er bent á að í 43. gr. siðareglna lögmanna séu tilgreindar heimildir nefndarinnar til að nafngreina lögmann í úrskurði eða álitsgerð. Þessar reglur geri því ekki ráð fyrir að nefndin veiti upplýsingar um einstök mál nema í þeim tilvikum sem talin eru upp og þá þannig að úrskurður eða álitsgerð sé birt í heild sinni. Telji sá umbjóðandi lögmanns, sem hlut eigi að máli hverju sinni, rétt að birta opinberlega niðurstöður nefndarinnar eða aðrar upplýsingar um mál, yrði ekki annað séð en að slíkt væri almennt heimilt. Í umsögn nefndarinnar segir síðan:
„Það væri því í brýnni andstöðu við þær reglur sem liggja til grundvallar starfsemi úrskurðarnefndar lögmanna ef hún myndi almennt veita upplýsingar um þau mál sem henni berast eða svara fyrirspurnum af því tagi sem hér um ræðir. Því væri ekki raunhæft að svara fyrirspurnum eingöngu þegar t.d. unnt væri að staðfesta að enginn viðskiptamaður lögmanns hafi beint kvörtun vegna hans til nefndarinnar en neita svo að svara spurningum þegar slíkt væri um að ræða.“
Með umsögn úrskurðarnefnd lögmanna fylgdi bréf afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál í trúnaði.
Umsögn úrskurðarnefndar lögmanna var kynnt kæranda með bréfi, dags. 10. mars 2017, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að gögnum í vörslum úrskurðarnefndar lögmanna. Synjun úrskurðarnefndar lögmanna var byggð á því að nefndinni sé óheimilt að upplýsa hvort gögn séu fyrirliggjandi er heyri undir gagnabeiðni kæranda.
Úrskurðarnefnd lögmanna er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem leysir úr málum eftir ákvæðum laganna og starfar í tengslum við Lögmannafélag Íslands, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Samkvæmt ákvæðinu hefur úrskurðarnefndin lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. laganna. Í ákvæðinu segir jafnframt að nefndin skuli skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara.
Af ákvæðum laga nr. 77/1998 verður enn fremur ráðið að til úrskurðarnefndar megi annars vegar bera upp ágreining milli lögmanns og umbjóðanda um rétt lögmannsins til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. Hins vegar er unnt að bera undir nefndina kvörtun á hendur lögmanni vegna háttsemi hans í starfi, sbr. 1. mgr. 27. gr. og hefur nefndin þá heimildir til að finna að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veita honum áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna, og heimildir til þess að leggja fram tillögu um að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna.
Samkvæmt framangreindu er úrskurðarnefnd lögmanna komið á fót með lögum og falið að taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga á grundvelli laga nr. 77/1998. Af þeim sökum verður að telja að úrskurðarnefndin sé stjórnvald og að ákvæði upplýsingalaga gildi því um starfsemi nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.
Samkvæmt síðari málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga takmarka almenn ákvæði laga um þagnarskyldu ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði verður á hinn bóginn dregin sú ályktun að sérákvæði í lögum um þagnarskyldu geta takmarkað rétt almennings til aðgangs að gögnum, umfram þær takmarkanir sem fram koma í upplýsingalögunum sjálfum. Með sérstakri þagnarskyldureglu er almennt átt við lagareglu þar sem mælt er fyrir um að trúnaður skuli ríkja um nánar tilgreindar upplýsingar.
Ekki verður séð að ákvæði laga nr. 77/1998 hafi að geyma sérstaka þagnarskyldureglu er nái til starfa úrskurðarnefndar lögmanna. Ákvæði 22. gr. sömu laga mælir fyrir um sérstaka þagnarskyldureglu um það sem lögmanni og umbjóðanda hans fer á milli. Ekki verður séð að beiðni kæranda lúti að slíkum upplýsingum, heldur einvörðungu að því hvort hæstaréttarlögmaðurinn A hafi komið fram fyrir hönd hæstaréttarlögmannsins B gagnvart nefndinni.
Í ljósi þess að ekki eru fyrir hendi sérstakar þagnarskyldureglur sem takmarka rétt almennings til upplýsinga af því tagi sem beiðni kæranda lýtur að, verður að leysa úr beiðni kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum nefndarinnar á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 3. mgr. 4. gr. þeirra laga. Um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum úrskurðarnefndar lögmanna fer því eftir 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.
Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:
„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“
Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:
„Undir 9. gr. geta fallið upplýsingar um hvort tiltekið mál er snertir ákveðinn einstakling sé eða hafi verið til meðferðar. Dæmi um slík tilvik væru t.d. upplýsingar um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi lagt fram umsókn um leyfi til að ættleiða barn, umsókn um fjárhagsaðstoð frá félagsmálastofnun eða umsókn um fóstureyðingu.“
Af framangreindum athugasemdum við ákvæði 9. gr. upplýsingalaga verður ráðið að stjórnvöldum kunni að vera heimilt að hafna beiðni um aðgang að upplýsingum um að tiltekið mál nafngreinds einstaklings sé eða hafi komið til meðferðar þegar af þeirri ástæðu að upplýsingarnar um tilvist málsins teljist upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.
Í því máli sem hér er til úrlausnar fór kærandi í fyrsta lagi þess á leit við úrskurðarnefnd lögmanna að hún staðfesti hvort tiltekinn hæstaréttarlögmaður hefði átt bréfaskipti við nefndina fyrir hönd annars hæstaréttarlögmanns vegna erinda sem nefndinni hefðu borist frá skjólstæðingum þess síðarnefnda og hvort nefndin hafi þegar úrskurðað vegna málsins, og að hún afhenti honum afrit af úrskurðinum, ef svo væri.
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður ekki talið að upplýsingar um það hvort úrskurðarnefnd lögmanna hafi borist erindi frá tilgreindum aðila og hvernig erindið hafi verið afgreitt, falli almennt undir upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Því er ekki hægt að fallast á það með úrskurðarnefnd lögmanna að nefndinni sé almennt óheimilt að staðfesta hvort mál hafi komið til kasta hennar. Telja verður að úrskurðarnefnd lögmanna geti því ekki vikið sér undan því að veita upplýsingar um hvaða mál séu eða hafi verið til meðferðar hjá nefndinni, nema beiðni um upplýsingar sé orðuð þannig að úrskurðarnefnd lögmanna geti ekki svarað henni án þess að veita þar með upplýsingar sem falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd lögmanna verður þá að taka sjálfstæða afstöðu til þess hverju sinni hvort sú sé raunin.
Í bréfi því er fylgdi umsögn úrskurðarnefndar lögmanna kom fram að nefndin hafi „að undanförnu“ ekki átt í neinum bréfaskiptum við þá lögmenn sem nafngreindir voru í beiðni kæranda, vegna erinda sem nefndinni hafi borist frá skjólstæðingum annars þeirra, enda hafi nefndinni ekki borist nein slík erindi síðastliðin tvö ár. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður ekki séð að úrskurðarnefnd lögmanna hafi með þessari umsögn alfarið tekið fyrir að nefndin hafi undir höndum gögn með upplýsingum um þau atriði sem beiðni kæranda til nefndarinnar, dags. 30. desember 2016, laut að. Er því lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna að afgreiða beiðni kæranda að þessu leyti að nýju, hafi svo ekki þegar verið gert.
Úrskurðarnefndin vekur í því sambandi athygli á að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laganna má vísa frá beiðni ef ekki er talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Áður en til þess kemur ber stjórnvaldi þó að veita málsaðila leiðbeiningar og gefa honum færi á að afmarka beiðni sína nánar, eftir atvikum með því að afhenda aðila lista yfir mál sem ætla má að beiðni hans geti beinst að, í þeim tilgangi að hann geti tilgreint það mál þar sem hann óskar eftir aðgangi að gögnum.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að vísa máli þessu til nýrrar meðferðar hjá úrskurðarnefnd lögmanna þar sem tekin verði efnisleg afstaða til málsins með vísan til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í málinu, ef þær liggja á annað borð fyrir.
Úrskurðarorð:
Beiðni kæranda, dags. 30. desember 2016, er vísað til nýrrar meðferðar hjá úrskurðarnefnd lögmanna.
Kjartan Bjarni Björgvinsson
varaformaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson