Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 370/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 370/2022

Miðvikudaginn 19. október 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. júlí 2022, kærði A, afgreiðslu Tryggingastofnuna ríkisins frá 11. og 12. júlí 2022 á erindi hans um bótagreiðslur. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fær greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Með tölvupósti til Tryggingastofnunar, dags. 9. júlí 2022, greindi kærandi frá því að hann vildi sækja um viðbótarstuðning við aldraða. Með tölvupósti 11. júlí 2022 greindi kærandi frá því að hann teldi það mismunun og andstætt reglum EES-réttar að viðbótarstuðningur við aldraða væri ekki greiddur til ellilífeyrisþega sem búsettir væru erlendis. Með tölvupósti 11. júlí 2022 upplýsti Tryggingastofnun kæranda um að greiðslur samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð væru ekki greiddar til einstaklinga sem búsettir væru erlendis. Einnig var honum leiðbeint um að hann gæti kært til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá sagði í tölvupósti Tryggingastofnunar 12. júlí 2022 að lífeyrisþegi sem fengi ekki greidda heimilisuppbót ætti rétt á 279.886 kr. með framfærsluuppbót sem væri einungis greidd einstaklingum sem byggju á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júlí 2022. Með bréfi, dags. 27. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 2. september 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 9. september 2022, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 12. september 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi fái mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur að fjárhæð 199.268 kr. og að þær séu lægri en lágmarkslífeyrisgreiðslur á Íslandi.

Tryggingastofnun bjóði upp á heimilisuppbót fyrir bótaþega sem búi einir á Íslandi og viðbótarstuðning við aldraða sem búi á Íslandi ef lífeyrisgreiðslur þeirra séu lágar. Kærandi telji að lög nr. 100/2007 um almannatryggingar séu skýr um rétt hans til þess að fá viðbótarstuðning við aldraða. Önnur beiting á lögunum gagnvart íslenskum ellilífeyrisþegum sem búi erlendis feli í sér mismunun. Auk þess hafi íslenska ríkið samið við lönd eins og B um gagnkvæm almannatryggingaréttindi. Kærandi vísar til 17., 22. og 58. gr. laga um almannatryggingar máli sínu til stuðnings.

Í athugasemdum kæranda telur hann útreikninga Tryggingastofnunar á lífeyrisgreiðslum hans vera ranga. Fram kemur að kærandi hafi andmælt ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. ágúst 2022, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021 og óskað eftir niðurfellingu á endurgreiðslukröfu.

Einnig sé það enn opin lögfræðileg og siðferðileg spurning til úrskurðarnefndar velferðarmála, ráðuneytisins, stjórnmálamanna og löggjafans hvers vegna lífeyrisþegi sem búsettur sé erlendis og þiggi lágmarkslífeyrisgreiðslur hafi ekki heimild til þess að sækja um viðbótarstuðning við aldraða. Tryggingastofnun leggi jafnframt áherslu á að kærandi hafi ekki sótt formlega um viðbótarstuðning í eigin persónu en hann hafi gert það með rafrænum hætti. Kærandi fari fram á viðbótarstuðning við aldraða vegna lágra lífeyrisgreiðslna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á að veita kæranda félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Sá stuðningur sé veittur á grundvelli laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.

Í 1. gr. laganna sé kveðið á um að markmið laganna sé að styrkja framfærslu aldraðra einstaklinga sem búsettir séu hér á landi og eigi engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum.

Í 2. gr. laganna sé kveðið á um gildisvið laganna og þar segi í 1. mgr. að lögin taki til einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri, hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelji varanlega á Íslandi.

Í 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna sé kveðið á um að allar tekjur greiðsluþega skuli koma til frádráttar fjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings samkvæmt 3. gr. Þó skuli greiðsluþegi hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark á mánuði vegna annarra tekna en bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Með tekjum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sé átt við allar tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að undanskilinni fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, þar með talið bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúkratryggingar, lögum um slysatryggingar almannatrygginga, lögum um atvinnuleysistryggingar, greiðslur frá lífeyrissjóðum samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og séreignarlífeyri hverju nafni sem nefnist. Sama eigi við um sambærilegar tekjur sem aflað sé eða greiddar séu erlendis og séu ekki taldar fram til skatts hér á landi.

Í 1. mgr. 6. gr. laganna komi svo fram að heimilt sé að greiða viðbótarstuðning samkvæmt lögum þessum þegar hámarksfjárhæð viðbótarstuðnings samkvæmt 3. gr. nemi hærri fjárhæð en heildarfjárhæð mánaðarlegra tekna greiðsluþega samkvæmt 5. gr., að teknu tilliti til frítekjumarks. Viðbótarstuðningur samkvæmt lögum þessum nemi mismuninum á hámarksfjárhæð viðbótarstuðnings samkvæmt 3. gr. og heildarfjárhæð tekna greiðsluþega samkvæmt 5. gr.

Í 8. gr. laganna sé kveðið á um hvaða áhrif dvöl erlendis hafi á rétt einstaklings til viðbótarstuðnings. Greiðsla viðbótarstuðnings falli niður þegar greiðsluþegi dveljist eða hyggist dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.

Sé dvölinni ætlað að vara lengur en í 90 daga samfellt falli greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hefjist. Í öðrum tilvikum falli greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hafi varað í 90 daga eða þegar dvöl erlendis nemi 90 dögum samtals á greiðslutímabilinu.

Greiðsluþega sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu til landsins, sbr. einnig 11. gr. laganna. Sé upplýsingaskyldu ekki sinnt af hálfu greiðsluþega eða maka hans gildi ákvæði 10. gr. eftir því sem við eigi.

Í 15. gr. laganna komi fram að umsækjandi um viðbótarstuðning skuli sækja um greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun ríkisins og gildi hið sama um endurnýjun umsókna samkvæmt 9. gr. Þó sé Tryggingastofnun heimilt að taka við umsóknum með öðrum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi hvað varði staðfestingu á varanlegri dvöl og búsetu hér á landi.

Kærandi sé búsettur á B. Hann hafi fengið greiddan ellilífeyri samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar frá 1. júlí 2019. Auk þess njóti hann lífeyrisgreiðslna frá Noregi.

Um mitt ár 2022 hafi kærandi átt í tölvupóstsamskiptum við Tryggingastofnun sem stofnunin hafi skilið á þann hátt að hann vildi fá greiddan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Ekki sé hægt að sjá að borist hafi formleg umsókn, en kæranda hafi verið tilkynnt að hann ætti ekki rétt vegna búsetu sinnar á B og leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar.

Ljóst sé að félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða sé eingöngu greiddur til þeirra einstaklinga sem hafi fasta búsetu hér á landi, skráð lögheimili hér á landi og dvelji varanlega á Íslandi, en skýrt sé kveðið á um það í 1. og 2. gr. laga nr. 74/2020. Í 8. gr. sömu laga sé kveðið á um það hvaða áhrif dvöl erlendis hafi á réttarstöðu greiðsluþega. Í greinargerð frumvarpsins sem hafi orðið að lögum nr. 74/2020, segi meðal annars um 8. gr. frumvarpsins að í „1. mgr. er lagt til að greiðsla viðbótarstuðnings falli niður þegar greiðsluþegi dvelur eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt á hverju 12 mánaða tímabili. Er gert ráð fyrir að greiðsluþega sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun fyrir fram um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu aftur til landsins, sbr. 3. mgr. Er þetta í samræmi við tillögu starfshópsins og norræna löggjöf sem litið var til. Ákvæðið er einnig í samræmi við markmið 1. gr. sem og 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að aðeins þeir sem eru löglega búsettir og dvelja varanlega hér á landi geti fengið greiddan viðbótarstuðning sér til framfærslu. Greiðsluþegi sem dvelur eða hyggst dvelja lengur en 90 daga (þrjá mánuði) erlendis fullnægir ekki þessu skilyrði.“

Greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða séu ekki greiðslur almannatrygginga og falli því ekki undir skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, sbr. reglugerð EB nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Þær séu eðlislíkar félagslegri aðstoð sveitarfélaga. Lögin byggi á norrænni fyrirmynd eins og fram komi í lögskýringargögnum og hafi sérstaklega verið horft til norskra laga. Einstaklingar búsettir utan Íslands geti ekki átt rétt á greiðslum samkvæmt lögunum. Varðandi norsku lögin sé rétt að vekja athygli á því kærandi njóti einnig lífeyrisgreiðslna frá Noregi, en ekki komi fram hvort kærandi hafi sótt um sambærilegar greiðslur þar.

Ekki sé um það deilt að kærandi sé búsettur á B, en það sé staðfest af Þjóðskrá og kæranda sjálfum. Samkvæmt lögum nr. 74/2020 sé félagslegur viðbótarstuðningur eingöngu greiddur þeim sem séu búsettir á Íslandi og dvelji þar og þau skilyrði séu skýr og afdráttarlaus. Kærandi eigi ekki rétt á greiðslunum á grundvelli reglugerðar EB nr. 883/2004.

Athygli skuli vakin á því að miðað við tekjur kæranda árið 2022, samkvæmt staðgreiðsluskrá og tekjuáætlun, sé kærandi með það háar tekjur að hann eigi ekki rétt á greiðslu viðbótarstuðnings vegna aldraðra, óháð búsetu. Miðað við stöðu kæranda miðist viðbótarstuðningurinn við tekjur undir 257.957 kr. Kærandi hafi 86.647 kr. í ellilífeyri, 137.971 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur, og 70.547 kr. í tekjur frá Noregi. Að teknu tilliti til 25.000 kr. frítekjumarks séu viðmiðunartekjur hans 268.165 kr. á mánuði. Kærandi eigi því ekki rétt á þessum greiðslum vegna tekna.

Að lokum vilji stofnunin taka fram að kærandi hafi ekki sótt formlega um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, en í 15. gr. laga nr. 74/2020 segi að umsækjandi um viðbótarstuðning skuli sækja um greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun ríkisins og gildi hið sama um endurnýjun umsókna samkvæmt 9. gr. Þó sé Tryggingastofnun heimilt að taka við umsóknum með öðrum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi hvað varði staðfestingu á varanlegri dvöl og búsetu hér á landi. Framkvæmdin hafi verið með þeim hætti að sótt sé um á Mínum síðum eða á umsóknareyðublaði á pappír en umsækjandi þurfi að mæta í eigin persónu til að staðfesta dvöl sína hér á landi. Ekki hafi því legið fyrir umsókn frá kæranda þó að fyrir mistök hafi honum verið leiðbeint um kæruleið í tölvupóstsamskiptum.

 

IV.  Niðurstaða

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Sama gildi um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu er það almennt grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun vegna ákveðinna ágreiningsefna.

Samkvæmt gögnum málsins greindi kærandi frá því með tölvupósti til Tryggingastofnunar, dags. 9. júlí 2022, að hann vildi sækja um viðbótarstuðning við aldraða. Með tölvupósti 11. júlí 2022 greindi kærandi frá því að hann teldi það mismunun og andstætt reglum EES-réttar að viðbótarstuðningur við aldraða væri ekki greiddur til ellilífeyrisþega sem búsettir væru erlendis. Með tölvupósti 11. júlí 2022 upplýsti Tryggingastofnun kæranda um að greiðslur samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð væru ekki greiddar til einstaklinga sem búsettir væru erlendis. Einnig var honum leiðbeint um að hann gæti kært til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá sagði í tölvupósti Tryggingastofnunar til kæranda 12. júlí 2022 að lífeyrisþegi sem fengi ekki greidda heimilisuppbót ætti rétt á 279.886 kr. með framfærsluuppbót sem væri einungis greidd einstaklingum sem byggju á Íslandi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af gögnum málsins að kærandi óski eftir að fá greiddan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Um slíkan stuðning er kveðið á í lögum nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Í 15. gr. laganna er kveðið á um að sækja skuli um slíkar greiðslur í eigin persónu hjá Tryggingastofnun ríkisins en þó sé stofnuninni heimilt að taka við umsóknum með öðrum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun er hægt að sækja um slíkar greiðslur rafrænt á Mínum síðum eða með umsóknareyðublaði á pappír. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki gert það.

Úrskurðarnefndin telur ljóst af orðalagi tölvupósta Tryggingastofnunar frá 11. og 12. júlí 2022 að í þeim fólst einungis upplýsingagjöf, þrátt fyrir að skilja megi upphaflegt erindi kæranda sem umsókn. Var því ekki um stjórnvaldsákvörðun að ræða, þrátt fyrir að leiðbeint hafi verið um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar í öðru þeirra. Þá gat ekki heldur komið til slíkrar ákvörðunar þar sem kærandi hafði ekki lagt inn umsókn með formlega réttum hætti í samræmi við lög nr. 74/2020. Með vísan til þess að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæranda er bent á að hann geti sótt um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða í samræmi við leiðbeiningar frá Tryggingastofnun og verði hann ósáttur við ákvörðun stofnunarinnar í kjölfarið geti hann kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndarinnar.

Í ljósi þess að kærandi sendi úrskurðarnefndinni ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 25. ágúst 2022, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021 og upplýsti um að hann hefði andmælt þessari ákvörðun og óskað eftir niðurfellingu á endurgreiðslukröfu er kæranda jafnframt bent á að hann geti kært ákvörðun Tryggingastofnunar vegna framangreinds þegar hún liggur fyrir, verði ágreiningur fyrir hendi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta