1161/2023. Úrskurður frá 16. nóvember 2023
Hinn 16. nóvember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1161/2023 í máli ÚNU 22100019.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 19. október 2022, kærði A, f.h. B, afgreiðslu ríkislögreglustjóra á beiðni um gögn á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Í erindi til ríkislögreglustjóra, dags. 5. september 2022, óskaði A eftir þeim gögnum stoðdeildar um brottvísun B sem orðið hefðu til frá því A hefðu síðast verið afhent gögn úr málinu í febrúar 2021. Erindi A fylgdi afrit af umboði B til hans. Erindið var ítrekað 14. og 26. september.
Í erindi ríkislögreglustjóra, dags. 30. september 2022, var óskað eftir endurnýjuðu umboði frá B í ljósi þess að það umboð sem lægi fyrir væri dagsett hinn 16. september 2020. Með erindi, dags. 3. október 2022, hafnaði A því að leggja fram nýtt umboð því hann teldi að ríkislögreglustjóra skorti heimild til að krefjast nýs umboðs. Ítrekaði A beiðni sína frá 5. september. Í svari ríkislögreglustjóra, dags. 5. október 2022, kom fram að núverandi umboð væri ekki vefengt. Í ljósi þess að umboðið væri ótímasett væri vonandi unnt að verða við því að framvísa endurnýjuðu umboði. Þá var A spurður hvort eitthvað stæði því í vegi að endurnýjað umboð yrði veitt. Í svari A, dags. sama dag, kom fram að hann skildi ekki hvers vegna beiðni hans væri ekki afgreidd í ljósi þess að ríkislögreglustjóri vefengdi ekki umboðið. A ítrekaði erindi sitt frá 5. september að nýju hinn 11. október.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt ríkislögreglustjóra með erindi, dags. 21. október 2022. Var ríkislögreglustjóra veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna ef ætlunin væri að synja beiðninni. Jafnframt var þess óskað að ríkislögreglustjóri léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
Umsögn ríkislögreglustjóra barst úrskurðarnefndinni hinn 1. nóvember 2022. Í henni kemur fram að A hafi verið upplýstur um það hinn 19. október 2022 að ástæða þess að ríkislögreglustjóri óskaði eftir endurnýjuðu umboði í málinu væri sú að B væri skráður horfinn og aðstæður hefðu þannig breyst frá því að fyrri beiðni A, sem afgreidd var í febrúar 2021, var lögð fram. Af þeim sökum væri það afstaða ríkislögreglustjóra að um rétt A til aðgangs að gögnum í málinu færi samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, um upplýsingarétt almennings, en ekki 14. gr. laganna um rétt til aðgangs að gögnum um aðila sjálfan.
Ríkislögreglustjóri teldi að 9. gr. upplýsingalaga ætti við um þau gögn sem óskað væri eftir, þar sem gögnin innihéldu í heild sinni upplýsingar sem vörðuðu einkamálefni B sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Viðkomandi einstaklingur hefði sótt um alþjóðlega vernd og gögnin vörðuðu málsmeðferð hans fyrir stjórnvöldum.
Umsögn ríkislögreglustjóra var kynnt A með bréfi, dags. 3. nóvember 2022, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum hans, dags. 23. nóvember 2022, kemur fram að hann telji kröfu um endurnýjað umboð vera ómálefnalega og að hún sé sett fram af annarlegum hvötum ríkislögreglustjóra, sem leiði til þess að B njóti ekki jafnræðis á við aðra borgara. Afstaða ríkislögreglustjóra hafi komið B verulega á óvart því hann kannist ekki við að vera á nokkurn hátt horfinn.
Með erindi, dags. 1. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort B væri enn skráður horfinn og hvort ríkislögreglustjóri hefði einhverja leið til að hafa samband við hann. Í svari ríkislögreglustjóra, dags. sama dag, kom fram að hinn 21. september 2023 hefði skráningu á þann veg að B væri horfinn verið breytt og upplýsingum um dvalarstað hans bætt við. Þá lægi fyrir símanúmer til að hafa samband við hann, sem skráð hefði verið 17. október 2023. Ríkislögreglustjóri hefði því ekki haft leið til að hafa samband við hann fyrr en þá.
A var gefinn kostur á að bregðast við skýringum ríkislögreglustjóra. Athugasemdir hans bárust hinn 6. nóvember 2023. Þar kemur fram að Útlendingastofnun hafi haft upplýsingar um símanúmer B 9. september 2020. Útlendingastofnun sé það stjórnvald sem beint hafi máli B til ríkislögreglustjóra. Því hefði átt að liggja beinast við að afla upplýsinga frá þeirri stofnun, teldi ríkislögreglustjóri að B væri horfinn. Athugasemdum A fylgdi afrit af dagbókarfærslum Útlendingastofnunar um B, til staðfestingar á því að stofnunin hefði haft upplýsingar um símanúmer hans.
Niðurstaða
Mál þetta varðar beiðni A til ríkislögreglustjóra um gögn sem varða brottvísun umbjóðanda hans, B. Ríkislögreglustjóri telur að umboð A sé ekki gilt og hefur í því sambandi vísað til þess að þegar beiðni A hafi verið lögð fram hafi B verið skráður horfinn. Því telji ríkislögreglustjóri að réttur A til aðgangs að umbeðnum gögnum skuli byggjast á 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um upplýsingarétt almennings.
Í samskiptum borgara við stjórnvöld eru almennt ekki gerðar sérstakar formkröfur til skriflegra umboða til að þau teljist vera gild. Almennt má þó ætla að þau skuli að minnsta kosti innihalda nafn umbjóðanda og lýsingu á umfangi umboðsins. Leiki vafi á um gildi umboðs eða umfang þess ætti stjórnvald sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga og beiðni er beint til að hafa samband við umbjóðandann til að ganga úr skugga um það, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Á það einkum við þegar þau gögn sem óskað er eftir kunna að varða gögn um einka- eða fjárhagsmálefni umbjóðandans sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.
Umboðið sem fyrir liggur í málinu er dagsett hinn 16. september 2020. Umboðið er undirritað af B og vottað af tveimur vitundarvottum. Þar kemur fram að B veiti A fullt og ótakmarkað umboð til að afla allra gagna um sig sem hann eigi rétt á frá íslenskum stjórnvöldum, þ.m.t. frá lögreglu. Þá nái umboðið til þess að leggja fram kvartanir, kærur og/eða endurupptökubeiðnir til stjórnvalda vegna mála B.
Það er mat úrskurðarnefndarinnar að umboðið sé skýrt og lýsi umfangi þess með fullnægjandi hætti. Þá nái umboðið til þess að óska eftir þeim gögnum sem deilt er um aðgang að í þessu máli. Ekkert liggur fyrir í málinu um að umboðið hafi verið afturkallað, lýst ógilt, takmarkað með einhverjum hætti frá því sem fram kemur í texta þess, eða fellt niður af einhverjum öðrum ástæðum. Úrskurðarnefndin telur ekki að það eigi að hafa áhrif á gildi umboðsins hvort B hafi verið skráður horfinn þegar beiðni í þessu máli var lögð fram. Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að það umboð sem liggur fyrir í málinu skuli teljast gilt og að afgreiða hafi átt beiðni A líkt og hún hefði borist frá B sjálfum.
Þau gögn sem óskað hefur verið aðgangs að í málinu varða ákvörðun um að brottvísa B. Slík ákvörðun er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Gögn í slíku máli teljast vera gögn stjórnsýslumáls. Um aðgang aðila máls að gögnum þess fer samkvæmt ákvæðum 15.–17. gr. stjórnsýslulaga. Réttur samkvæmt þeim ákvæðum er ríkari en sá réttur sem veittur er samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Þá nær úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekki til þess að úrskurða um rétt til aðgangs að gögnum í stjórnsýslumáli, sbr. 20. gr. upplýsingalaga, sbr. og 3. mgr. 17. gr. laganna. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru A, f.h. B, dags. 19. október 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir