Mál nr. 481/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 481/2021
Fimmtudaginn 16. desember 2021
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. september 2021, um að synja beiðni kæranda um gerð námssamnings.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. júlí 2020. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Þann 1. september 2021 óskaði kærandi eftir að nýta sér vinnumarkaðsúrræði stofnunarinnar „Nám er tækifæri“ vegna náms í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri. Með tölvupósti Vinnumálstofnunar þann sama dag var kæranda tilkynnt að nám í lögreglufræði félli ekki undir vinnumarkaðsúrræðið. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi þann 13. september 2021 sem barst samdægurs með tölvupósti stofnunarinnar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. september 2021. Með bréfi, dags. 16. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 19. október 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. október 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 13. desember 2021.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi synjað umsókn hans um þátttöku í úrræðinu „Nám er tækifæri“ sem veiti heimild til að stunda fullt nám á atvinnuleysisbótum í eina önn á þeim forsendum að nám kæranda sé ekki á fyrir fram ákveðnum og tæmandi lista um nám sem uppfylli skilyrði til umsóknar.
Kæranda þyki með eindæmum undarlegt að nám í lögreglufræði, sem komi svo til með að veita starf sem lögreglumaður strax næsta sumar ef ekki fyrr, falli ekki undir það úrræði sem boðið sé upp á, enda sé lögreglan ein af grunnstoðum íslensks samfélags. Kærandi fullyrði að lögreglan sé ekki síður mikilvæg en læknar, hjúkrunarfræðingar eða kennarar ásamt fjölda annarra námsleiða sem í boði séu í vinnumarkaðsúrræðinu.
Eftir að hafa verið atvinnulaus í 12 mánuði og fundið sér nám sem hann hafi lagt hart að sér að komast í þyki honum einstaklega sérstakt að hann geti ekki nýtt sér úrræðið í eina önn sem ríkisstjórn Íslands hafi sett fram í þessu árferði. Kærandi vilji einnig geta þess að nám í lögreglufræði verði að taka að fullu, þ.e. 30 námseiningar, og þess vegna sé ekki möguleiki að fara í hlutanám eftir reglum Vinnumálastofnunar.
Kærandi vilji kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar og að málið verði tekið til endurskoðunar með það fyrir augum að nám í lögreglufræði uppfylli þau skilyrði sem úrræðið feli í sér.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. júlí 2020. Umsókn hans hafi verið samþykkt þann 26. ágúst 2020 og útreiknaður bótaréttur hafi verið 100%.
Þann 1. september 2021 hafi kærandi sent tölvupóst til stofnunarinnar þar sem hann kveðist hafa verið að hefja nám í Lögreglufræði við Háskólann á Akureyri eftir langt og strangt umsóknarferli. Kærandi hafi óskað eftir því að geta nýtt sér úrræðið ,,Nám er tækifæri“ í tengslum við umrætt nám á haustönn 2021. Kærandi hafi óskað eftir leiðbeiningum um það hvernig hann bæri sig að og hvaða gögnum hann þyrfti að skila til að það yrði skoðað og samþykkt.
Vinnumálastofnun taki fram að „Nám er tækifæri“ gefi atvinnuleitendum kost á að vera í fullu námi í eina önn á atvinnuleysisbótum og sé vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur sem hafi verið samfellt í sex mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá og vilji efla sig með þátttöku í námi eða bæta við sig námi. Hins vegar falli ekki öll nám undir úrræðið.
Í svari frá ráðgjafa stofnunarinnar komi fram að heimilt sé að stunda allt að 12 eininga nám á framhalds- eða háskólastigi, án þess að það hafi áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta. Auk þess komi fram í svari ráðgjafa stofnunarinnar: ,,Heimilt er að stunda nám í allt að 20 einingum, á framhalds – eða háskólastigi með ákveðnum skerðingasamningum. Er þá gerður við atvinnuleitanda, námssamningur og atvinnuleysisbætur skertar í hlutfalli við umfang náms. Atvinnuleitendur eru ekki undanskildir atvinnuleit.”
Kærandi hafi verið upplýstur um það að nám í lögreglufræði félli ekki undir úrræðið ,,Nám er tækifæri”. Í svari ráðgjafa stofnunarinnar komi auk þess fram að kærandi geti stundað 12 eininga nám án skerðingar eða með skerðingu að 20 einingum. Auk þess komi fram að ef kærandi hafi stefnt á fullt nám þyrfti hann að afskrá sig af atvinnuleysisbótum. Ef kærandi ætli í nám að 20 einingum þyrfti hann að senda stofnuninni staðfestingu frá skólanum um fjölda eininga á haustönn 2021 og sækja um námssamning.
Þann 13. september 2021 hafi annar tölvupóstur borist frá kæranda og í svari til kæranda frá ráðgjafa stofnunarinnar hafi honum meðal annars verið bent á að í reglugerð nr. 919/2020 væri tæmandi talið hvaða nám og námsbrautir í framhaldsskólum og háskólum féllu undir átakið ,,Nám er tækifæri”.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.
Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.
Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“
Í bráðabirgðaákvæði XVII í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi svo:
„Þrátt fyrir 52. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir átakið Nám er tækifæri, eftir að færni hans og staða hefur verið metin. Framangreindur samningur hefur ekki áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga á grundvelli laganna.“
Markmið átaksins ,,Nám er tækifæri” sé að gefa þeim atvinnuleitendum sem hafi verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur tækifæri til þess að bæta stöðu sína á vinnumarkaði með því að hefja nám á þeim námsbrautum sem talið sé líklegt að auki líkur á farsælli ráðningu að nýju á vinnumarkaði. Bæði innlendar og erlendar rannsóknir bendi til þess að mikill skortur sé á starfs- og tæknimenntuðu fólki, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Við undirbúning að átakinu ,,Nám er tækifæri” hafi því verið ákveðið að afmarka heimild atvinnuleitenda til náms við tilteknar námsgreinar og byggi sú nálgun á þörfum vinnumarkaðsins.
Í reglugerð nr. 919/2020, um námsbrautir í framhaldsfræðslu, framhaldsskólum og háskólum sem falli undir átakið „Nám er tækifæri“, sé tæmandi talið hvaða nám og námsbrautir í framhaldsskólum og háskólum falli undir átakið „Nám er tækifæri“. Í umræddri reglugerð sé skilgreint hvaða nám Vinnumálastofnun sé heimilt að samþykkja við gerð námssamninga við atvinnuleitendur þar sem atvinnuleitendum gefist þá færi á að sækja fullt nám í eina önn, án þess að það hafi áhrif á rétt þeirra til greiðslu atvinnuleysisbóta.
Ljóst sé af reglugerð nr. 919/2020 að nám í lögreglufræði hjá Háskólanum á Akureyri falli ekki undir vinnumarkaðsúrræðið ,,Nám er tækifæri”. Stofnunin telji því að ekki sé unnt að gera námssamning við kæranda vegna náms hans hjá skólanum.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja beiðni kæranda um gerð námssamnings.
Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“
Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:
„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Um vinnumarkaðsúrræðið „Nám er tækifæri“ segir í bráðabirgðaákvæði XVII í lögum nr. 54/2006:
„Þrátt fyrir 52. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir átakið Nám er tækifæri, eftir að færni hans og staða hefur verið metin. Framangreindur samningur hefur ekki áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga á grundvelli laganna.“
Í 2. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um skilyrði samningsins en þar segir meðal annars að námið verði að vera viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir, sbr. einnig reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði, og falla undir átakið „Nám er tækifæri“.
Í 6. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja reglugerð um nánari útfærslu átaksins „Nám er tækifæri“ samkvæmt ákvæðinu, svo sem hvaða námsbrautir falli undir ákvæðið. Reglugerð nr. 919/2020 hefur verið sett á grundvelli ákvæðisins og mælir fyrir um hvaða námsbrautir í framhaldsfræðslu, framhaldsskólum og háskólum falli undir vinnumarkaðsúrræðið „Nám er tækifæri“.
Kærandi óskaði eftir vilyrði Vinnumálastofnunar fyrir því að stunda nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli vinnumarkaðsúrræðisins „Nám er tækifæri“ en um er að ræða 30 ECTS-eininga nám. Samkvæmt skýrum ákvæðum reglugerðar nr. 919/2020 fellur nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri ekki undir vinnumarkaðsúrræðið „Nám er tækifæri“. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um gerð námssamnings sé reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. september 2021, um að synja beiðni A, um gerð námssamnings, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir