Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                             

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 7. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 8/2014:

Kæra A

á athöfnum

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur lagt fram ódagsetta kæru, mótt. 17. febrúar 2014, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna veðlána hans hjá Íbúðalánasjóði.

I. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um hvort teknar hafi verið ákvarðanir í máli kæranda sem kæranlegar séu til úrskurðarnefndarinnar. Lægi fyrir slík ákvörðun var óskað eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 6. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. mars 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru heldur kærandi því fram að Íbúðalánasjóður hafi á fjórum árum stolið af honum 10.000.000 króna. Sjóðurinn hafi breytt venjulegu íbúðarláni í gjaldeyrislán sem Hæstiréttur Íslands hafi dæmt ólögmæt.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Af hálfu Íbúðalánasjóðs hefur komið fram að ekki komi fram í kæru hvert kæruefnið sé og ekki sé að sjá í gögnum sjóðsins að formleg kæranleg ákvörðun hafi verið tekin hjá sjóðnum sem gefið hafi slíkt tilefni. Kærandi hafi fengið frystingu lána 2011‒2012 og hafi þá haft meðal annars hugmyndir um að sjóðurinn felldi niður lán hans. Á þeim tíma hafi honum verið leiðbeint um að leita til umboðsmanns skuldara.

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

Í 1. mgr. 42. gr. laganna kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Svo úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.

Kærandi hefur gert athugasemdir við breytingar Íbúðalánasjóðs á lánum hans hjá sjóðnum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að í máli kæranda liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta