Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 143/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 143/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans því samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefði verið ljóst að hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að eiga rétt til þeirra. Jafnframt hefði verið ljóst að kærandi var við störf hjá B 29. maí og 13. september 2013 án þess að hafa tilkynnt um slíkt til stofnunarinnar. Taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði í umrætt sinn vísvitandi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni um framangreind atvik. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, að fjárhæð samtals 414.354 kr. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. október 2013 til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 26. nóvember 2013. Kærandi óskar eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi í heild sinni. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn 28. maí 2013.

Frá aðilum vinnumarkaðarins bárust Vinnumálastofnun þær upplýsingar að kærandi hefði verið við störf hjá B dagana 29. maí og 13. september 2013. Þann 24. september 2013 var kæranda sent erindi þar sem honum var tilkynnt að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins hefði hann verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það fyrirfram til stofnunarinnar. Óskað var eftir skýringum sem skyldu berast bréfleiðis til Vinnumálastofnunar eða með tölvupósti fyrir 2. október 2013. Jafnframt var kæranda sent annað bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 30. september 2013, þar sem óskað var frekari upplýsinga frá kæranda. Í bréfinu var tilgreint að stofnuninni hafi ekki borist tilkynning um vinnu kæranda fyrir B og óskað skýringa þar um. Jafnframt var vakin athygli kæranda á því að í eftirlitsferð aðila vinnumarkaðarins 13. september 2013 hafi kærandi borið á sér vinnustaðaskírteini og var honum veittur kostur á að koma að skýringum á ástæðu þess að hann var með skírteinið á sér umrætt sinn er eftirlitið fór fram, en kærandi hafi ekki verið að störfum að sögn hans.

Þann 30. september 2013 sendi kærandi skýringar vegna starfa sinna 13. september 2013 hjá B. Skýringar kæranda voru þær að hann hefði ekki verið að vinna, heldur hafi hann verið að fara að borða hádegismat með fjölskyldu sinni og hann hefði verið að bíða við tölvuna á starfsstöð fyrirtækisins meðan faðir hans sótti móður hans.

Þann 3. október 2013 sendi kærandi skýringar vegna starfa sinna hjá B 29. maí 2013. Í skýringum kæranda segir hann að hann hafi verið að vinna þann dag og að hann hafi verið búinn að sækja um atvinnuleysisbætur. Jafnframt kvaðst hann hafa tekið fram í umsókn sinni að hann væri með 20% vinnu en væri samt að vinna minna en það. Kærandi kvað ástæðuna fyrir því að hann lét ekki vita að hann væri að vinna vera þá að hann hefði ekki verið búinn að fara á fundina hjá VR og ekki vitað af því að hann ætti að láta vita þegar hann væri að vinna.

Í kæru, dags. 26. nóvember 2013, kemur fram af hálfu kæranda að hann telji að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á misskilningi og sé í raun of harkaleg miðað við eðli máls.

Kærandi hafi haft vinnu hjá fyrirtæki föður síns, B á árinu 2012, fulla vinnu framan af ári en aðeins lítilsháttar hlutastarf um sumarið og til 1. október 2012. Eftir það hafi kærandi dottið inn í einstök verkefni sem greitt hafi verið fyrir með óreglulegum hætti næstu mánuði, en ekki hafi verið mögulegt að fá þar vinnu að neinu marki.

Um vorið hafi kærandi leitað fyrir sér með vinnu án árangurs og hafi því ákveðið að sækja um atvinnuleysisbætur sem gengið hafi verið frá 27. maí 2013. Kærandi hafi þá enn verið að koma inn á vinnustað föður síns til að ljúka ákveðnum verkefnum, án þess að verið væri að greiða sérstaklega fyrir það. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir að slíkt gæti varðað við lög um atvinnuleysistryggingar. Kærandi telji því mjög harkalegt að túlka viðveru sína á vinnustað 29. maí sem brot á lögunum, enda hafi hann þá rétt nýlega verið búinn að sækja um bætur og hafi ekki haft mikla þekkingu á þessu ferli öllu saman, hafi ekki farið á kynningarfund eða fengið miklar upplýsingar um hvernig hann skyldi bera sig að hvað varði upplýsingagjöf til Vinnumálastofnunar og annað sem snerti rétt hans til atvinnuleysisbóta.

Þann 13. september 2013 hafi kærandi verið staddur á umræddum vinnustað, líkt og oft áður, enda vinnustaðurinn í eigu föður hans. Móðir kæranda hafi einnig verið stödd þarna og hafi þau verið að bíða eftir föður kæranda og hafi ætlað saman í útréttingar fyrir fjölskylduna. Kærandi hafi því verið staddur þarna eingöngu af persónulegum ástæðum í það skiptið þegar fulltrúar stéttarfélaganna komu við og mátu það svo að kærandi væri staddur þarna vegna vinnu.

Það sé eðlilegasti hlutur að mati kæranda að hann líti af og til við á vinnustað föður síns sem sé stutt frá heimili kæranda. Raunar hafi kærandi af og til gripið í að sópa og taka til, og gripið í eitt og annað þegar hann hafi litið þarna við síðustu mánuði. Ekki hafi verið um launaða vinnu að ræða, heldur hafi kærandi aðeins verið að gera þetta til að hafa eitthvað fyrir stafni og til að aðstoða foreldra sína sem sjái honum fyrir húsnæði og fæði, en það sé að mati kæranda hinn eðlilegasti hlutur að börn taki til hendinni fyrir foreldra sína án þess að fá greitt fyrir, hvort sem er innan heimilisins eða að hjálpa til á vinnustað. Kærandi hafi ekki haft hugmyndaflug til að sjá fyrir að það gæti leitt til þess að hann yrði í fyrsta lagi tekinn af bótum og í annan stað að kærandi yrði endurkrafinn um þær bætur sem hann hafði fengið þær vikur sem kærandi hafði verið atvinnulaus frá því í sumarbyrjun.

Í ljósi þessa rökstuðnings telji kærandi þetta því afar harkalega ákvörðun af hálfu Vinnumálastofnunar og óski eftir að úrskurðarnefndin felli hana úr gildi í heild sinni. Í það minnsta óski kærandi eftir að ákvörðunin um endurkröfu greiddra bóta verði felld niður og að látið verði nægja að hann verði settur á tveggja mánaða bið í samræmi við 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. febrúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögunum hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf fyrir B þann 29. maí og 13. september 2013 þegar aðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir á vinnustað. Kærandi hafi tekið fram í skýringum sínum að hann hefði tekið fram á umsókn sinni að hann væri í 20% starfi hjá B. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda frá B missti kærandi vinnu sína þar vegna samdráttar frá og með 30. september 2012. Við afgreiðslu á umsókn kæranda var óskað eftir upplýsingum frá honum um tímabilið október 2012 til maí 2013 vegna þess að engar upplýsingar um það tímabil var að finna hjá stofnuninni. Kærandi sendi stofnuninni tölvupóst þann 5. júlí 2013 þar sem hann sagði að hann hefði misst vinnuna 1. október 2012 og hefði ekki gert neitt fram til 27. maí 2013. Hvergi í umsókn kæranda eða gögnum með henni sé að finna upplýsingar frá kæranda um að hann væri í 20% starfi hjá B.

Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til Vinnumálastofnunar en rík skylda hvílir á þeim sem njóta greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geta ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. og 35. gr. a laganna, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Enda geti tilkynning sem berst stofnuninni eftir að aðili var staðinn að því að sinna ótilkynntri vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur ekki leyst viðkomandi aðila undan þeim viðurlögum sem hann skal sæta samkvæmt skýru orðalagi laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. febrúar 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Á þennan síðari málslið ákvæðisins reynir í máli þessu.

Í máli þessu hittu aðilar vinnumarkaðarins kæranda fyrir á vinnustaðnum B annars vegar 29. maí og hins vegar 13. september 2013.

Samkvæmt því sem áður er komið fram varðandi 29. maí 2013 þá kveðst kærandi hafa verið að ljúka verkefnum og ekki hafa vitað að hann ætti að láta vita að hann væri að vinna.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 27. maí 2013. Samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá tryggður á grundvelli laganna eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. 9. gr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Þegar Vinnumálastofnun hefur samþykkt umsókn atvinnuleitanda er greitt aftur í tímann frá þeim degi er viðkomandi sækir um. Með vísan til þessa verður að miða við að atvinnuleitandi verði að uppfylla öll skilyrði laganna frá þeim degi er hann sækir um atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að hafa ekki sótt kynningarfund stofnunarinnar, enda staðfestir atvinnuleitandi á umsókn meðal annars að hann hafi fengið ýmsar upplýsingar um réttindi sín og skyldur.

Kærandi í máli þessu lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um störf sín hjá B og var bæði við störf þegar eftirlitsaðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir á vinnustað 29. maí og hefur auk þess viðurkennt að hafa verið þar í hlutastarfi. Kærandi kvaðst hafa upplýst Vinnumálastofnun um að hann væri í 20% vinnu en gögn málsins bera það ekki með sér. Jafnframt bar kærandi því við að vegna vanþekkingar sinnar á skyldum sínum hafi hann ekki vitað að hann ætti að upplýsa um vinnu sína. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum þar sem víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunar og á umsóknareyðublaði því sem atvinnuleitendur undirrita þegar sótt er um greiðslu atvinnuleysisbóta. Ber því kæranda að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Hvað atvikið 13. september varðar kvaðst kærandi hafa verið að bíða eftir fjölskyldu sinni en þau hafi verið að fara saman í útréttingar.

Samkvæmt gögnum málsins virðist kærandi hafa verið einn á vinnustaðnum B þegar eftirlitsaðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir 13. september þar sem hann jafnframt framvísaði vinnustaðaskírteini. Fallast verður því á það með Vinnumálastofnun að kæranda beri að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framanritaðs ber að staðfesta þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 414.354 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. október 2013 í máli B þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 414.354 kr. með 15% álagi.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta