Hoppa yfir valmynd

Nr. 177/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 177/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. febrúar 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019 um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 9. júlí 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt ákvörðunin þann 25. janúar sl. og kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 13. febrúar sl., en kæru fylgdu athugasemdir. Þann 8. apríl sl. bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar vísaði stofnunin til og reifaði ákvæði 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Vísaði stofnunin til þess að kærandi væri [...] ára og ríkisborgari [...]. Gögn málsins bentu ekki til annars en að kærandi hafi búið alla tíð í heimaríki en ljóst væri að hann hefði aldrei búið á Íslandi. Þegar litið væri til dvalarinnar einnar og sér væri ljóst að kærandi hefði mun sterkari tengsl við heimaland sitt heldur en við Ísland. Þá hafi hann fjölskyldutengsl í heimaríki, þ.e. eiginkonu og tvö börn, þrátt fyrir að í greinargerð kæmi fram að hann væri ekki í samskiptum við þau. Þá hafi móðir kæranda sent honum peninga til framfærslu í nokkur ár. Vísaði stofnunin til þess að í framkvæmd hefði verið talið að þau umönnunarsjónarmið sem vísað væri til í 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga, ættu við um þær aðstæður þegar umsækjandi um dvalarleyfi þarfnist sjálfur umönnunar en ekki ættingi hans sem búsettur sé hér á landi. Með vísan til framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að ekki væru rík umönnunarsjónarmið gagnvart kæranda fyrir hendi í málinu né að það væri bersýnilega ósanngjarnt að veita kæranda ekki dvalarleyfi. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann sé á framfæri móður sinnar í heimaríki sem sendi honum reglulega peninga. Þá eigi hann enga nákomna ættingja eða aðra sem séu í reglulegum tengslum við hann þar. Sé hann ekki með vinnu í heimaríki og eigi þar litla starfsmöguleika. Þurfi hann því á stuðningi móður sinnar að halda og þá þurfi foreldrar hans hér á landi einnig aðstoð frá honum. Sé faðir hans mikið veikur og þurfi mikla aðstoð heima fyrir. Geti hann helst ekki verið einn og geti ekki farið einn utandyra. Vísar kærandi til þess að hann fái ekki nægilega aðstoð frá opinberum aðilum hér á landi vegna skorts á aðstoðarfólki í velferðarþjónustunni. Auk þess vinni móðir hans langa vinnudaga til þess að annast framfærslu fjölskyldunnar og þá hafi hún áhyggjur af stöðu hans. Muni hún geta annast framfærslu hans hér á landi að fullu. Þá muni kærandi líklegast geta fengið starf á Íslandi og þannig annast eigin framfærslu auk þess að aðstoða við framfærslu foreldra sinna með þátttöku í rekstri heimilisins. Þá byggir kærandi á því að vegna persónulegra tengsla við fjölskyldu sína hér á landi hafi hann í raun sérstök tengsl við landið í skilningi ákvæða laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 9. júlí 2018, kemur fram að hann sé ekki í sambandi við eiginkona sína sem hafi flust til [...] árið 2015. Þá búi börnin hans hjá fyrrverandi tengdamömmu sinni sem búi annars staðar í heimaríki og sé ekkert samband á milli þeirra. Kærandi vinni einungis hlutastarf í heimaríki og hafi móðir hans sent honum peninga til framfærslu í mörg ár. Í heimaríki eigi hann enga fjölskyldu sem hann sé í sambandi við en á Íslandi búi foreldrar hans og systir. Þá sé faðir hans sjúklingur og hafi sl. 6 ár verið heima og þarfnist umönnunar. Því vilji foreldrar hans fá hann til Íslands svo hann geti séð um föður sinn, búið hjá þeim og foreldrar hans sjái fyrir honum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kærufrestur

Ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt umboðsmanni kæranda þann 25. janúar 2019 og var kæra lögð fram til kærunefndar utan kærufrests þann 13. febrúar sl.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram hvernig skuli fara með kæru sem berst að liðnum kærufresti en þar segir m.a. í 1. tölul. 1. mgr. að ekki skuli vísa kæru frá ef afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Í athugasemdum sem fylgdu 28. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er tekið sem dæmi um tilvik sem falli undir 1. tölul. ákvæðisins þegar lægra stjórnvald hefur vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Með tölvupósti til kærunefndar, dags. 27. mars 2019, greindi umboðsmaður kæranda frá ástæðum þess að kæra barst of seint. Í bréfinu kemur fram að umboðsmaður kæranda hafi leitað til Útlendingastofnunar og greint starfsmanni stofnunarinnar frá því að hún ætti bókaðan tíma hjá lögfræðingi þar sem hún þyrfti nánari útskýringu á ákvörðun Útlendingastofnunar og aðstoð við að kæra ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Hafi hún sagt starfsmanni að skrá hjá sér að kæran myndi því berast þann 13. febrúar 2019. Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn kærunefndar, dags. 28. mars sl., kemur fram að umboðsmaður kæranda hafi komið í afgreiðslu Útlendingastofnunar þann 4. febrúar sl. og svo hafi virst sem að hún hafi ekki skilið innihald ákvörðunarinnar. Hafi starfsmaður stofnunarinnar ráðlagt henni að fá aðstoð túlks og jafnframt leiðbeint henni um að senda tölvupóst og óska eftir frekari fresti til að kæra ákvörðunina.

Af framangreindu er ljóst að umboðsmaður kæranda leitaði til Útlendingastofnunar innan 15 daga frá ákvörðun stofnunarinnar í þeim tilgangi einum að óska eftir leiðbeiningum sem vörðuðu fyrirhugaða kæru, þ.m.t. varðandi kærufrest. Þá voru leiðbeiningar stofnunarinnar til umboðsmanns kæranda ekki nægar svo henni væri unnt að gæta réttar kæranda enda barst kæran utan kærufrests. Þótt ekki liggi nákvæmlega fyrir hvaða leiðbeiningar umboðsmaður kæranda fékk hjá Útlendingastofnun telur kærunefnd nægjanlega upplýst, í ljósi skýringa Útlendingastofnunar, að þegar umboðsmaður kæranda leitaði til stofnunarinnar hafi starfsmanni verið ljóst að hún skildi ekki leiðbeiningar í ákvörðun stofnunarinnar um kærufrest. Þótt stjórnvöldum sé að lögum ekki skylt að tryggja einstaklingum sem til þeirra leita þjónustu túlks telur kærunefnd að við mat á inntaki leiðbeiningarskyldu Útlendingastofnunar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, í þessu tilviki verði að líta til 2. mgr. 9. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls þar sem fram kemur að stjórnvöld skuli leitast við að tryggja að sá sem skilur ekki íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli. Því er það mat kærunefndar að kæranda hafi verið veittar rangar eða ófullnægjandi upplýsingar frá Útlendingastofnun um kæruheimild og kærufrest. Í ljósi þess er það mat kærunefndar að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 hefur ráðherra sett fram skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Er þar kveðið á um að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára. Tengsl kæranda við landið eru þau að foreldrar hans búa hér á landi og samkvæmt framlögðum gögnum hefur hann verið á framfæri þeirra. Móðir kæranda er íslenskur ríkisborgari en faðir kæranda er ríkisborgari [...]. Þá býr systir kæranda einnig hér á landi samkvæmt gögnum málsins. Samkvæmt greinargerð á kærandi tvö börn í heimaríki sem hann er þó ekki í samskiptum við. Þá kemur fram í greinargerð að eiginkona hans búi í [...]. Í fyrrgreindri greinargerð byggir kærandi á því að hann sé í engum samskiptum við fjölskyldu sína í heimaríki og að hann hyggist annast veikan föður sinn hér á landi. Í framlögðu læknisvottorði kemur fram að faðir kæranda sé [...]. Eigi hann erfitt með að búa einn og þar sem eiginkona hans sé útivinnandi sé æskilegt að einhver sé hjá honum vegna framangreinds. Í greinargerð með kæru kemur jafnframt fram að eiginkona hans vinni langa vinnudaga og að þau hafi ekki fengið nægilega aðstoð frá opinberum aðilum vegna skorts á aðstoðarfólki í velferðarþjónustunni.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd ljóst að kærandi hefur mun ríkari tengsl við heimaríki en Ísland en þar á kærandi tvö börn. Þá bera gögn málsins með sér að kærandi sé heilsuhraustur og vinnufær. Foreldrar kæranda hafa dvalarleyfi á Íslandi og vega umönnunarsjónarmið í tilviki föður hans ekki þungt enda á faðir kæranda rétt á aðstoð félagsmálayfirvalda hér á landi. Þá verður ekki talið að aðstæður kærenda séu að öðru leyti þess eðlis að þær falli undir undantekningarheimild 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur m.a. fram að ef ekki sé unnt að veita dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar sé þess óskað að veitt verði tímabundið dvalarleyfi, svo sem með heimild í 78. eða 79. gr. laga um útlendinga. Eins og að framan greinir byggði umsókn kæranda um dvalarleyfi, dags. 9. júlí 2018, á tengslum hans við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, og laut hin kærða ákvörðun og úrskurður kærunefndar í málinu að þeirri umsókn. Vilji kærandi sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli er honum leiðbeint um að leggja fram slíka umsókn hjá Útlendingastofnun. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd útlendingamála enga afstöðu tekið til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði 79. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                        Laufey Helga Guðmundsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta