Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2013

Fimmtudaginn 22. ágúst 2013

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 11. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi 28. maí 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Kærandi leitaði greiðsluaðlögunar og veitti umboðsmaður skuldara samþykki fyrir henni 23. maí 2012.

Þann 25. maí 2012 var C skipaður umsjónamaður kæranda. B tók við störfum hans og var skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 6. júlí 2012. Þann 19. febrúar 2013 var frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun sent til kröfuhafa, sbr. 1. mgr. 17. gr. lge.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að kröfuhafar hafi mótmælt frumvarpinu en andmæli hafi borist frá Gjaldheimtunni ehf. fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Einnig hafi borist andmæli frá Arion banka hf. Umsjónarmaður hafi reynt að miðla málum en síðan hafi orðið ljóst að samningar myndu ekki takast í samræmi við ákvæði IV. kafla lge.

Kærandi lýsti því yfir við umsjónarmann að hún vildi leita nauðasamnings með yfirlýsingu 13. maí 2103. Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 28. maí 2013 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að frumvarp hafi verið sent til kröfuhafa 19. febrúar 2013. Andmæli hafi borist frá Gjaldheimtunni ehf. fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Einnig hafi borist andmæli frá Arion banka hf.

Kærandi sé þinglýstur eigandi fasteignar að D-götu nr. 34 í sveitarfélaginu E. Í frumvarpinu komi fram að kærandi skuldi lögveðskröfur að fjárhæð 2.377.317 krónur sem standi innan greiðsluaðlögunar og að fjárhæð 99.217 krónur utan greiðsluaðlögunar. Kröfurnar séu vegna vangoldinna brunatrygginga áranna 2010 og 2013, vangoldinna fasteignagjalda áranna 2009–2012, vangoldinna vatns- og fráveitugjalda áranna 2011 og 2012 og vegna vangoldinna húsfélagsgjalda og framkvæmdakostnaðar frá tímabilinu 2008–2012.

Í frumvarpinu sé lagt til að greiðslu vegna lögveðskrafna verði dreift á 22 mánuði á samningstímabilinu. Gert sé ráð fyrir að 116.735 krónur skiptist hlutfallslega milli lögveðskröfuhafa eftir fjárhæð krafna, sbr. 1. mgr. 21. gr. lge., en það sé sú fjárhæð sem sé aflögu eftir framfærslukostnað hjá kæranda. Ekki sé gert ráð fyrir að einstakar lögveðskröfur verði greiddar upp á undan öðrum.

Gjaldheimtan ehf. hafi lýst kröfum fyrir hönd Orkuveitunnar vegna vatns- og fráveitugjalda og fyrir hönd Reykjavíkurborgar vegna fasteignagjalda.

Andmæli Gjaldheimtunnar ehf. hafi lotið að því að í frumvarpinu sé lagt til að greiðslum vegna lögveðskrafna verði dreift á 22 mánuði á samningstímabilinu en ljóst sé að lögveðsrétturinn sem fylgi kröfunum myndi að mestu leyti fyrnast á tímabilinu.

Umsjónarmaður hafi sent Gjaldheimtunni ehf. tölvupóst og óskað eftir að félagið endurskoðaði fyrri afstöðu sína til frumvarpsins og félli frá andmælum sínum. Gjaldheimtan ehf. hafi hins vegar haldið fast við fyrri afstöðu sína.

Andmæli Arion banka hf. hafi lotið að því að skuldari hafi ekki staðið við þá skyldu sem á hana sé lögð í 12. gr. lge. um að leggja fyrir það sem afgangs sé umfram hefðbundinn framfærslukostnað. Í tölvupósti bankans, dags. 12. mars 2013, komi fram að skuldari hafi farið í greiðsluskjól í maí 2012 og hafi því verið í níu mánuði í greiðsluskjóli. Samkvæmt frumvarpinu hafi skuldari lagt til hliðar 250.000 krónur í greiðsluskjóli sem séu 25.000 krónur á mánuði. Miðað við greiðslugetu sína ætti skuldari að hafa lagt til hliðar 1.160.000 krónur í greiðsluskjóli. Bankinn hafi farið fram á að fá gögn til stuðnings ætluðum kostnaði sem fram kæmi í frumvarpinu.

Einnig hafi Arion banki hf. ekki getað samþykkt að ekkert yrði greitt af veðkröfu innan matsverðs fasteignar kæranda í 22 mánuði. Skuldari hafi þegar verið í greiðsluskjóli í tíu mánuði og því myndu líða tæp þrjú ár án greiðslu af kröfunni.

Bankinn hafi alfarið hafnað niðurfellingu samningskrafna og veðkrafna í lok tímabils greiðsluaðlögunar.

Umsjónarmaður hafi óskað eftir því við kæranda að fá sendar kvittanir eða skýringar á ætluðum kostnaði vegna viðgerða og viðhalds á fasteign kæranda. Í svari frá kæranda hafi skuldari sagst hafa fáar kvittanir til að leggja fram vegna vinnu á baðherbergi þar sem hún hafi að stórum hluta verið unnin og greidd á svörtum markaði. Að sögn kæranda hafi hún verið án sturtu í meira en ár og ekki getað hugsað sér að búa í íbúðinni í því ástandi í þau þrjú ár sem greiðsluaðlögun tæki. Hún hafi rætt framkvæmdirnar við fyrri umsjónarmann og að skýrt hefði komið fram með hvaða hætti staðið yrði að greiðslum vegna framkvæmdanna.

Kærandi hafi því ekki lagt fram kvittanir fyrir útlögðum kostnaði, en að hennar sögn sé áætlaður heildarkostnaður vegna viðgerðarinnar 531.000 krónur. Umsjónarmaður hafi gert Arion banka hf. grein fyrir kostnaði kæranda vegna fyrrgreindra framkvæmda. Jafnframt hafi umsjónarmaður áréttað að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 skyldi greiða upp vanskil lögveðskrafna og af þeirri ástæðu væri ljóst að ekki væri hægt að hefja greiðslur á veðkröfum innan matsverðs fasteignar hennar fyrr en það hefði verið gert.

Bankinn hafi svarað svo að hann gæti ekki tekið til greina nótulaus viðskipti. Skuldari hafi því ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Í svari bankans hafi jafnframt falist að bankinn væri tilbúinn að samþykkja frumvarpið ef komið yrði til móts við andmæli hans og lögð til 90% eftirgjöf samningskrafna í stað 95% í lok greiðsluaðlögunar-tímabilsins. Bankinn samþykkti ekki að greitt yrði af veðkröfum innan matsverðs fyrr en lokið yrði við að greiða upp lögveðskröfur eins og greiðsluáætlun gerði ráð fyrir.

Umsjónarmaður hafi upplýst kæranda um framangreind andmæli og að samningar myndu ekki takast í samráði við ákvæði IV. kafla lge. Ljóst sé að þrátt fyrir að komið yrði til móts við andmæli Arion banka hf. um hlutfall eftirgjafar, þá kæmist ekki á samningur vegna afstöðu Gjaldheimtunnar ehf. um að hafna alfarið samningi. Þá hafi kærandi lýst því yfir við umsjónarmann að hún vildi leita nauðasamnings með yfirlýsingu, dags. 13. maí 2013.

Í ákvörðun sinni tekur umsjónarmaður fram að fyrir liggi að kærandi geti greitt 116.735 krónur á mánuði miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og gögn frá kæranda sjálfri. Meðal gjalda sem séu hluti af framfærslukostnaði og kæranda sé skylt að greiða, falli þau til eftir að greiðsluskjól hefjist, séu fasteignagjöld, húsfélagsgjöld, hiti, rafmagn og frárennslisgjald, tryggingar, skólamáltíðir barna og opinber gjöld.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að skuldara sé einungis heimilt að víkja frá því að leggja til hliðar umframfé af launum sínum og öðrum tekjum, sé nauðsynlegt að ráðstafa því til framfærslu. Kærandi hafi verið í greiðsluskjóli frá 23. maí 2012. Kærandi hafi því átt að geta lagt fyrir ríflega 1.400.000 krónur. Einnig verði að hafa í huga að skuldari hafi þann 1. ágúst 2012 fengið til útborgunar samkvæmt álagningarseðli Ríkisskattstjóra 286.324 krónur vegna vaxtabóta, sérstakra vaxtaniðurgreiðslu og barnabóta. Kærandi hafi á greiðsluaðlögunar-tímabilinu lagt fyrir 250.000 krónur. Samkvæmt skýringum hennar hafi hún varið hluta af því fé sem leggja átti til hliðar í viðhald fasteignar sinnar, eða 531.000 krónum, án þess að leggja fram haldbær gögn því til stuðnings. Að mati umsjónarmanns sé ljóst að kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu að leggja til hliðar það fé sem hafi verið umfram framfærslukostnað nema að hluta til og því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Vegna athugasemda Gjaldheimtunnar ehf. um að kærandi hafi ekki staðið í skilum með lögveðskröfur sem fallið hefðu til eftir að skuldari fór í greiðsluskjól, hafi umsjónarmaður kallað eftir frekari gögnum frá lögveðskröfuhöfum. Við nánari skoðun hafi komið í ljós kröfur sem féllu í gjalddaga eftir að kærandi fór í greiðsluskjól, nánar tiltekið hússjóðsgjöld að fjárhæð 186.959 krónur, fasteignagjöld að fjárhæð 52.063 krónur, vatns- og fráveitugjöld að fjárhæð 40.257 krónur og brunatrygging að fjárhæð 39.149 krónur. Auk framangreindra gjalda, sem tryggð séu með lögveði í fasteign kæranda, liggi fyrir upplýsingar um eftirfarandi vangoldin gjöld: Þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 260.507 krónur, orkureikningar að fjárhæð 28.084 krónur og skuld vegna skólamáltíða að fjárhæð 29.544 krónur.

Umsjónarmaður telur ljóst að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að greiða framangreind gjöld, þrátt fyrir að hafa til þess greiðslugetu og að gjöldin hafi öll verið hluti af áætluðum framfærslukostnaði hennar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að skuldara sé óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað hafi verið til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Umsjónarmaður telur að kærandi hafi, með vísan til framangreinds, brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að hún hafi að þessu leyti ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir, sbr. niðurlag 1. mgr. 18. gr. lge. Umsjónarmaður hafi þannig ekki séð annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á með vísan til 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Í greinargerð með kæru kæranda kemur fram að ekki hafi gengið eftir að leggja fyrir þá fjárhæð sem umsjónarmaður hafi lagt til grundvallar að kærandi legði fyrir á tímabili greiðsluaðlögunar. Þó hafi kærandi lifað mjög spart á tímabilinu. Kærandi sé bíllaus og hafi hvorki keypt munaðarvarning né ráðist í dýrar fjárfestingar eða farið í ferðalög svo árum skipti. Kærandi sé ríkisstarfsmaður með takmarkaða möguleika á aukavinnu. Föst heildarlaun kæranda séu 523.000 krónur á mánuði og útborguð laun um 340.000 krónur en engin yfirvinna hafi verið greidd á vinnustað kæranda á tímabilinu. Fyrri aukavinna kæranda við kennslu hafi ekki verið í boði á tímabilinu. Kærandi hafi son sinn ein á framfæri þar sem faðir hans sé búsettur erlendis.

Kærandi hafi rökstutt ítarlega að talsvert fé hafi verið lagt í að lagfæra sturtu í baðherbergi íbúðar hennar. Þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt hafi kærandi þegar verið án sturtu, og þar með án baðaðstöðu, í ríflega ár. Kærandi hafi sagt þáverandi umsjónarmanni sínum að íbúðin væri vart íbúðarhæf án baðaðstöðu en að fjárhagserfiðleikar stæðu í vegi fyrir því að baðherbergið yrði standsett. Þáverandi umsjónarmaður hafi tekið undir með kæranda að það væri óásættanlegt að búa í íbúð án baðaðstöðu meðan á greiðsluaðlögun stæði og samþykkt þá tillögu kæranda að taka tilboði í verkið án þess að formlegur reikningur væri gerður. Þessi vinna hafi kostað um það bil 530.000 krónur.

Kærandi bendir á að umsjónarmaður hafi talið að kærandi sinnti ekki þeirri skyldu sinni að leggja til hliðar umframfé í greiðsluskjóli. Umsjónarmaður hafi metið það svo að þar sem ekki væru til kvittanir fyrir öllum kostnaðinum væri ekki hægt að líta svo á að kærandi hafi í raun greitt fyrir verkið. Umsjónarmaður hafi jafnframt byggt rökstuðning sinn á því að þar sem kærandi hefði átt að leggja fyrir ríflega 1.400.000 krónur á tímabili greiðsluaðlögunar, hefðu eftirstöðvar sparifjárins átt að vera tæpar 900.000 krónur. Kærandi, sem hafi lagt fyrir 400.000 krónur í greiðsluskjóli, dregur í efa að þessir útreikningar séu réttir og telur að ástæðu þessa mismunar, þ.e. þeirra 500.000 króna sem upp á vanti, í raun mega rekja til þess að umsjónarmaður hafi vanáætlað framfærslukostnað kæranda og sonar hennar, miðað við fjárhag og aðrar aðstæður kæranda.

Í fyrsta lagi mótmælir kærandi þeirri almennu afstöðu Arion banka hf. að ekki sé unnt að taka reikningslaus viðskipti til greina, enda hafi kærandi boðið fram sönnunargögn um að viðgerðin hafi átt sér stað og að hún hafi greitt tilgreinda fjárhæð. Í stjórnsýslu- og skuldaskilarétti standist ekki að kröfuhafi á borð við banka myndi sér staðlaða afstöðu til slíks álitaefnis, enda hvorki bankans né kæranda að tryggja rétt skattskil verktaka. Sú mótbára Arion banka hf. sé því ólögmæt og haldlaus að mati kæranda. Því til stuðnings megi benda á að umsjónarmaður hafi í tölvupósti frá 8. nóvember 2012 sagt við kæranda að þetta kæmi ekki að sök heldur væri nóg að gera grein fyrir kostnaðinum á minnisblaði. Kærandi telur að umsjónarmaður sé bundinn af þessari afstöðu.

Í öðru lagi telur kærandi það ámælisvert að umsjónarmaður geti, að því er virðist, lagt persónulegt, og samkvæmt framangreindu, breytt mat á það hvaða gögn teljist fullnægjandi til skýringar á útgjöldum. Í lögunum komi hvergi fram að kærandi þurfi að hafa haldbærar kvittanir og/eða aðra samninga til vitnis um nauðsyn þeirra útgjalda sem hún kunni að ráðast í á meðan hún sé í greiðsluskjóli. Kærandi hafi lagt fram ýmis gögn til að sýna fram á kostnað við framkvæmdirnar og lagt til að henni yrði heimilað að afla vitnisburðar þar að lútandi.

Í þriðja lagi telur kærandi það ekki standast að umsjónarmaður leggist nú gegn nauðasamningi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. í ljósi þess að hann hafi ekki lagst gegn sjálfu frumvarpinu til samnings um greiðsluaðlögun sem Gjaldheimtan ehf. hafi hafnað. Kærandi setji spurningarmerki við það hvers vegna takmarkað sparifé ætti að vera fyrirstaða nú en ekki þá. Kærandi telur umsjónarmann bundinn af fyrri afstöðu sinni sem fram hafi komið í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.

Í fjórða lagi telur kærandi afstöðu umsjónarmanns ólögmæta í ljósi þess að hann hafi byggt hana meðal annars á tæplega 30.000 króna skuld kæranda vegna skólamáltíða. Kærandi bendir á að um sé að ræða lítilræði í heildarsamhenginu, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, auk þess sem skuldin sé tilkomin vegna misgánings kæranda sem ekki geti talist vísvitandi brot á lögunum. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé það skylda skuldara við greiðsluaðlögun að stofna ekki til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá kæranda og fjölskyldu hans farborða. Kærandi vísar í úrskurð kærunefndar frá 22. mars 2013 máli sínu til stuðnings. Þar komi meðal annars fram að ákvæðið sé ekki einskorðað við námsmenn, undir það falli til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem séu nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar. Kærandi telur að þetta eigi augljóslega við um skuldina en þar sem kærandi sé einstæð útivinnandi móðir sé skólamáltíð nauðsynleg tólf ára syni hennar.

Hvað varðar hússjóðsgjöld, fasteignagjöld, vatns- og fráveitugjöld og brunatryggingu, alls að fjárhæð um 350.000 krónur, tekur kærandi eftirfarandi fram. Umsjónarmaður hafi sagt við hana í síma þann 14. desember 2012 að Arion banki hf. vildi að kærandi rýmdi íbúð sína þegar í febrúar eða í síðasta lagi 1. mars 2013. Þetta hafi fengið mjög á kæranda og komið mikið á óvart. Hafi þetta sett allar fyrirætlanir hennar í uppnám og þá einkum vegna þess að hárrar fyrirframgreiðslu sé ávallt krafist á leigumarkaði. Kærandi hafi engin önnur úrræði séð en að hætta þegar að greiða af öllum skuldbindingum sem væru ekki lífsnauðsynlegar og leggja peninga til hliðar, sem hún hafi gert eftir fremsta megni. Kærandi eigi nú fyrir um tveggja til þriggja mánaða húsaleigu. Hins vegar hafi kærandi ekki náð í umsjónarmann í um einn og hálfan mánuð vegna veikinda. Enginn starfsmaður hafi virst gegna störfum fyrir hann eða geta svarað fyrir málið og hafi kærandi því verið í óvissu á meðan, eða þar til í síðari hluta janúar. Kærandi telur því ekki standast lge. og stjórnsýslureglur að nota þetta gegn henni síðar þegar forsendur séu breyttar og hún enn í íbúðinni.

Kærandi telur enn fremur hæpið að nota gegn henni að hafa ekki lagt meira en um 30.000 krónur til hliðar á mánuði eða tæp 10% af heildarráðstöfunartekjum sínum.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að á meðan kærandi leiti greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til lge. komi fram að víki kærandi augljóslega frá þessum skyldum sínum með vísvitandi hætti geti slíkt leitt til þess að umsjónarmaður leggist gegn nauðasamningum.

Kærandi telur að hvorugt skilyrðið, hvorki hlutlæga skilyrðið um augljós frávik né huglæga skilyrðið um að það hafi verið gert vísvitandi, sé fyrir hendi. Til vara sé því haldið fram að bæði skilyrðin skorti en hvort tveggja sé nauðsynlegt að mati kæranda til þess að heimilt sé að mæla gegn nauðasamningi. Til þrautavara heldur kærandi því fram að framangreind atvik um að hún hafi átt að rýma íbúð sína í síðasta lagi 1. mars, leiði til þess að kærandi teljist hafa verið í góðri trú.

Kærandi telur að málflutningur sinn sýni að umsjónarmaður hafi ekki gætt andmælaréttar við ákvarðanatöku.

Kærandi bætir því við að samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, eins og þeim var breytt með lögum nr. 60/2010, setji ráðherra almenna skilmála fyrir uppboðssölu á eignum. Þar skuli meðal annars kveðið á um að kaupandi beri áhættu af eigninni frá því að boð hans sé samþykkt og njóti réttar til umráða yfir henni frá sama tíma, sbr. þó 55. gr. laganna. Við nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði, sem gerðarþoli hafi til eigin nota, skuli hann þrátt fyrir þetta njóta réttar til að halda notum af því í tiltekinn tíma, allt að tólf mánuði frá samþykki boðs, gegn greiðslu sem renni til kaupanda og svari að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu.

Í fyrrgreindum skilmálum segi í 3. mgr. 8. gr. að ef um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem gerðarþoli hafi til eigin nota skuli honum heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., að halda notum af eigninni í tiltekinn tíma. Skuli sá tími almennt ekki vera lengri en sex mánuðir. Vegna sérstakra aðstæðna gerðarþola, svo sem þegar um sé að ræða skólagöngu barna sem búi í eigninni, megi þessi tími vera lengri en að hámarki tólf mánuðir. Gerðarþoli skuli tilkynna sýslumanni hvort hann vilji vera áfram í eigninni.

Sambærilegt ákvæði sé í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eins og þeim hafi breytt með lögum nr. 23/2009.

Kærandi bendir á að umsjónarmanni hafi mátt vera ljóst, og hefði borið að upplýsa kæranda um, að hún hefði þannig aldrei þurft að víkja úr eigninni fyrr en ári síðar en henni hafi verið tilkynnt, þ.e. 1. mars 2014, enda hafi kærandi á framfæri son sem gangi í skóla í hverfinu. Einföld tilkynning kæranda hefði dugað til þess að virkja þennan rétt, hefði komið til nauðungarsölu á fasteign kæranda.

Vegna þessarar yfirsjónar, sbr. og 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, telur kærandi að öll meðferð málsins hafi valdið henni óþarfa umstangi og áhyggjum. Auk þess sé þetta meginástæða þeirrar skuldasöfnunar sem umsjónarmaður tiltaki sem ástæðu synjunar nauðasamningsumleitana. Hefði kærandi þekkt réttarstöðu sína samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga og skilmála um nauðungarsölu, hefði samningsstaða hennar styrkst, skuldasöfnun verið afstýrt og kæranda verið kleift að safna meira fé. Atburðarásin hefði m.ö.o. ekki þurft að verða sú sem kæranda hafi verið tjáð að yrði, þ.e. að rýma þyrfti íbúð hennar með skömmum fyrirvara, um leið og miklar kvaðir væru lagðar á kæranda samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Sökum alls þessa hafi Gjaldheimtan ehf. lagst gegn greiðsluaðlögunarfrumvarpi og umsjónarmaður gegn nauðasamningum.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á byggist á því að kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu að leggja til hliðar það fé sem var umfram framfærslukostnað nema að hluta til og því hafi hún brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Jafnframt telur umsjónarmaður ljóst að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að greiða ákveðin gjöld, þrátt fyrir að hafa getu til þess en gjöldin hafi öll verið hluti af áætluðum framfærslukostnaði kæranda. Þannig hafi kærandi einnig brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að sögn kæranda er ástæðan fyrir því að henni tókst ekki að leggja meira fyrir fyrst og fremst sú að miklir peningar hafi farið í að lagfæra sturtu á heimili hennar. Í greinargerð kæranda með kæru hennar kemur fram að kostnaður við að lagfæra sturtuna hafi verið um það bil 530.000 krónur. Engar formlegar kvittanir eru þó til fyrir framkvæmdum þessum og eru þau gögn sem kærandi hefur lagt fram til að sanna þennan óvænta kostnað ófullnægjandi. Af þeim sökum er ekki unnt að taka tillit til þess við úrlausn málsins að kærandi hafi haft þann kostnað af verkinu sem hún tilgreinir.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í greiðsluskjóli frá 23. maí 2012 en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. var sent kröfuhöfum 19. febrúar 2013. Samkvæmt frumvarpinu hafði kærandi aðeins lagt fyrir 250.000 krónur á u.þ.b. níu mánuðum þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir að hún legði fyrir 116.735 krónur í hverjum mánuði eða samtals 1.050.615 krónur yfir níu mánaða tímabil. Sú fjárhæð miðaðist við tekjur kæranda og áætlaðan afgang af þeim eftir að kærandi hefði greitt framfærslukostnað sinn. Jafnvel þó tekið yrði tillit til kostnaðar kæranda af viðgerðum á baðherbergi hefur kærandi ekki gert fullnægjandi grein fyrir því hvers vegna hún lagði ekki meira fyrir í greiðsluskjóli en raun ber vitni, ekki síst í ljósi þess að á sama tíma lét hún hjá líða að greiða gjöld sem féllu til eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt. Verður því ekki komist hjá því að að líta svo á að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Sem fyrr segir lét kærandi einnig hjá líða að greiða tiltekin gjöld sem féllu til eftir að henni var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Voru það meðal annars hússjóðsgjöld að fjárhæð 186.959 krónur, fasteignagjöld að fjárhæð 52.063 krónur, vatns- og fráveitugjöld að fjárhæð 40.257 krónur og brunatrygging að fjárhæð 39.149 krónur. Kærandi hefur gefið þær skýringar að hún hafi þurft að leggja til hliðar til að safna fyrir fyrirframgreiðslu vegna leigu á nýrri íbúð, þar sem hún hafi séð fram á að þurfa að yfirgefa íbúð sína að kröfu Arion banka hf., í síðasta lagi 1. mars 2013. Hún hafi því verið knúin til að hætta þegar í stað að greiða af öllum skuldbindingum sem ekki væru lífsnauðsynlegar. Kærandi vísar jafnframt til þess að umsjónarmanni með greiðsluaðlögun hefði borið að upplýsa hana um að lögum samkvæmt hefði hún aldrei þurft að víkja úr fasteigninni fyrr en ári síðar en tilgreint hefði verið.

Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. lge. nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt. Var kæranda því óheimilt að grípa til þess ráðs að hætta að greiða kröfur sem til féllu á tímabilinu desember 2012 til maí 2013. Breytir þar engu um þó kæranda hafi ekki tekist að ná í umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni.

Staðhæfingar kæranda um að umsjónarmaður með greiðsluaðlögun hafi ekki gætt andmælaréttar hennar eru órökstuddar og koma því ekki til álita við úrlausn málsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi kæranda staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta