Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 12. nóvember 1985

GreinÁr 1985, þriðjudaginn 12. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Árni G. Pétursson f.h.
               eigenda Oddsstaða og
               Vatnsenda, Presthólahreppi,
               Norður-Þingeyjarsýslu
                  gegn
               Vegagerð ríkisins

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 22. apríl 1985 hefur Árni G. Pétursson farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta f.h. eigenda jarðanna Oddsstaða og Vatnsenda, Presthólahreppi, Norður-Þingeyjarsýslu, að metnar verði eignarnámsbætur vegna þegar framkvæmdrar efnistöku Vegagerðar ríkisins úr óskiptu landi ofangreindra jarða, skv. 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Matsbeiðandi skýrir svo frá, að í júlímánuði 1984 hafi umdæmisverkstjóri Vegagerðar ríkisins á Þórshöfn farið þess á leit við hann, sem umboðsmann eigenda jarðanna Oddsstaða og Vatnsenda, að Vegagerðinni yrði heimilað að taka 10 - 15 þús. rúmmetra bindisefnis úr landi umræddra jarða. Umdæmisverkstjóri hefði ekki nema takmarkaða heimild til samninga um endurgjald fyrir efnistökuna, en verð það sem hann bauð hafi matsbeiðandi ekki getað samþykkt. Vegna fjarveru lögmanns Vegagerðarinnar væri ókleift að taka afstöðu til krafna matsbeiðanda um endurgjald fyrir efnið, en brýn nauðsyn talin vera til að efnistaka gæti átt sér stað sem fyrst. Var því fallist á að efnistaka mætti þegar fara fram, enda þá ráðgert að leitað yrði samninga við fyrsta tækifæri. Efnistaka þessi fór síðan fram í ágústmánuði 1984 og hefur eignarnemi gefið upp að teknir hafi verið 9370 rúmm. bindiefnis úr landi umræddra jarða og felst matsbeiðandi á réttmæti þeirrar áætlunar Vegagerðarinnar á efnismagninu. Ítrekaðar tilraunir hafi hins vegar síðan átt sér stað til samninga en án árangurs og því sé beiðni þessi til Matsnefndarinnar sett fram. Eignarnemi hefur greitt kr. 9370.- vegna jarðefnis þess, sem tekið var og hefur viðtöku þeirrar fjárhæðar verið gerð með fyrirvara um að ekki væri fallist á þessa greiðslu, sem fullnaðargreiðslu.

Matsbeiðandi hefur lagt fram umboð til sín frá eigendum ofangreindra jarða, sem eiga landið í óskiptri sameign, og eru eigendur og eignarhlutar þeirra sem hér segir:

Árni G. Pétursson, Vatnsenda, Presthólahreppi   44.5%
Aðalbjörg Pétursdóttir, Ásgötu 23, Raufarhöfn   11.1%
Borghildur Pétursdóttir, Eyrarlandsvegi 3, Akureyri   11.1%
Friðný Pétursdóttir, Sigtúni 21, Reykjavík      11.1%
Jón S. Pétursson, Teigagerði 1, Reykjavík      11.1%
Oddgeir Pétursson, Grýtubakka 28, Reykjavík   11.1%

Fyrir Matsnefndinni hefur matsbeiðandi gert þá kröfu, að metnar verði hæfilegar bætur fyrir töku Vegagerðar ríkisins á 9370 rúmm. slitlagsefnis úr landareign ofangreindra aðila í ágústmánuði 1984. Er jafnframt gerð krafa um, að eignarnema verði gert að greiða eigendum jarðanna hæfilegt endurgjald fyrir þann kostnað sem þeir hafi af rekstri matsmálsins.

Lögmaður matsbeiðanda í máli þessu hefur verið Markús Sigurbjörnsson borgarfógeti. Um málavexti vísar lögmaðurinn að miklu leyti til útlistunar í matsbeiðni matsbeiðanda. Hann telur annars að samskipti umbj. hans við eignarnema hafi ekki á undanförnum árum verið til þess fallin að afla velvildar landeigenda. Tvívegis áður, eða á árunum 1976 og 1978, hafi komið til efnistöku eignarnema úr landi matsbeiðenda. Í báðum þeim tilvikum hafi verið um talsverða erfiðleika að ræða við að ná samningum um endurgjaldið. Á ljósmyndum sem fram hafi verið lagðar sjást enn ummerki eftir efnistökuna á árinu 1978. Það sár á landinu hafi staðið opið svo árum skipti þrátt fyrir samningsbundin fyrirheit eignarnema um úrbætur. Þrátt fyrir þetta hefðu matsbeiðendur, vegna knýjandi nauðsynjar eignarnema, leyft honum að hefja efnisvinnslu og efnistöku þess jarðefnis sem um ræðir í þessu máli. Malarnáma hafi verið opnuð um 100 m. sunnan norðausturvegar á Kjalarási og efnið unnið í ágústmánuði 1984. Hafi smám saman gengið á efnið sem síðast er spurnir voru hafðar uppi hafi enn verið langt í land að efnið væri upp urið. Viðleitni Árna G. Péturssonar til að ná samningum við eignarnema hafi ekki borið annan árangur en þann, að eignarnemi hafi greitt þann 17. janúar 1985 kr. 9.370.00 fyrir hið umdeilda efni, en við því hafi verið tekið með fyrirvara og það skoðað sem innborgun á væntanlega fullnaðargreiðslu. Ljósmyndir hafa verið lagðar fram í málinu frá umræddum Kjalarási, þ.á m. af athafnarsvæði því, sem matsmál þetta varðar og er sunnan við Norðaustur-veg og er ekki talin ástæða til þess, að Matsnefndin fari á vettvang. Ein ljósmyndin er tekin í norðvesturátt frá þjóðveginum en önnur myndin í norðausturátt. Tvær síðasttöldu myndirnar sýna eldri malargryfjur eignarnema, en annars sýna ljósmyndir þessar staðhætti á vettvangi. Er þar talið um sléttlendi að ræða, gróið land og notað til beitar. Land þetta er talið hæft til ræktunar. Matsbeiðandi skorar á eignarnema, að leggja fram upplýsingar um flatarmál svæðis þess er um ræðir.

Ekki er af hendi matsbeiðanda ágreiningur um magn efnisins, sem hann telur vera leirkennda möl, sem notuð hafi verið sem slitlag á sem næst 50 km. kafla norðaustur-vegar. Segir matsbeiðandi starfsmenn eignarnema hafa borið því við í samtölum, að ekki sé annars staðar á allstóru svæði, að finna efni samsvarandi að gæðum til þessara nota.

Matsbeiðendur segja sér ekki kunnugt um, hvort markaður sé fyrir jarðefni þessi hjá öðrum en eignarnema. Stafi þetta einfaldlega af því að þeir hafi ekki áhuga á sölu efnisins hvorki til eignarnema né annarra og hafi því ekki kannað sölumöguleika. Frá Kjalarási séu um það bil 23 km. til Kópaskers og u.þ.b. 35 km. til Raufarhafnar, en kauptún þessi séu næstu þéttbýlissvæði við landareign matsbeiðenda. Matsbeiðendur taka fram, að þeir telji sig engan ávinning hafa af efnistöku eignarnema eða notkun hans á efninu. Verði ekki séð að athafnir eignarnema hafi í för með sér verðmætisauka á landareign matsbeiðanda nema síður sé. Matsbeiðandi gerir í 1. lagi kröfu um bætur fyrir afnotamissi og átroðning. Hann segir að landsvæði það sem eignarnemi hafi tekið undir sig til efnisvinnslu sé á óræktuðu beitarlandi. En hins vegar sé ljóst, að bætur verði að koma fyrir landsafnot eignarnema, sem tálmað hafi samningsbundnum afnotum annarra landeigenda á svæðinu til beitar. Landsvæðið hafi einnig verið notað sem geymslustaður fyrir efnisbyrgðir. Þá hafi einnig hlotist átroðningur á svæðinu, sem m.a. lýsir sér í aukinni umferð þungavinnuvéla um landareignina. Sem lagastoð fyrir þessum sjónarmiðum bendir matsbeiðandi á 1. málsgr. 59. gr. og 60. gr. vegalaga svo og ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 2. lagi krefst matsbeiðandi bóta fyrir landspjöll. Honum sé kunnugt um að eignarnema beri skv. 3. mgr. 59. gr. vegalaga að græða upp sár, sem myndist á grónu landi við vegaframkvæmdir, en hins vegar sé undir hælinn lagt hvort eignarnemi sinni þessari lagaskyldu sinni. Umbjóðendur matsbeiðanda sjái sér því ekki annan kost en þeir verði sjálfir að græða upp sárin á landinu, sem eignarnemi lætur eftir sig.

Um lagastoð fyrir þessum sjónarmiðum vísar matsbeiðandi til fyrirmæla 1. mgr. 59. gr. vegalaga þar sem mælt sé m.a. fyrir um bætur til landeiganda fyrir jarðrask.

Í 3. lagi gerir matsbeiðandi kröfu um bætur fyrir efnistökuna sjálfa. Segir hann að skv. 1. mgr. 59. gr. vegalaga eigi landeigandi rétt á fullum bótum fyrir efnistökuna. Matsbeiðandi telur að hér sé um að ræða söluverð hins eignarnumda, þar sem aðrir kostir falli utan athugunar, þar sem ekki sé um arðberandi eign að ræða, sem unnt væri að ætla notagildi eftir og jafnframt augljóst að ekki komi til álita að huga að öflun annarra samsvarandi eigna. Hér sé því ekki um aðra möguleika að ræða til ákvörðunar eignarnámsbóta en miða við söluverðmæti hinna eignarnumdu jarðefna.

Matsbeiðandi segir, að alls ekki liggi fyrir hvort markaður sé fyrir jarðefni þessi eða hvert hugsanlegt gangverð efnisins sé. Hins vegar telur hann að ljóst sé, að efni það sem um ræðir í þessu máli sé að öllu sambærilegt við þau jarðefni, sem tekin hafi verið úr landi Neðra-Dals í Vestur-Eyjafjallahreppi, sbr. hrd. 1983, bls. 1538. Í því tilviki hafi einnig legið fyrir, að ekki hafi verið um að ræða að jarðefni hafi verið hægt að selja á frjálsum markaði og því hafi niðurstaðan í því máli verið studd með vísan til almennra reglna um eignarnámsbætur og höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um verðmæti jarðefna, sem málið þóttu varða.

Jarðefni í þessu hæstaréttarmáli séu svo til hin sömu og í þessu matsmáli, sem hér sé til umræðu. Í hvorugu tilvikinu geti eignarnámsþoli sýnt fram á, að markaður sé nú til staðar fyrir jarðefni hans.

Með hliðsjón af framangreindu gerir matsbeiðandi þá kröfu að hæsta markaðsverð, sem um ræðir á landinu, verði greitt fyrir jarðefni þau, sem mál þetta fjallar um.

Lögmaður matsbeiðanda tekur fram, að honum sé vegna embættisstarfa óheimil lögmannsstörf gegn endurgjaldi.

II.

Lögmaður Vegagerðar ríkisins Gunnar Gunnarsson, hdl. hefur flutt mál þetta fyrir eignarnema. Segir hann málavexti þá, að á árinu 1984 hafi legið fyrir að mala þyrfti jarðefni í slitlag á Norðausturveg á Melrakkasléttu. Samkomulag hafi náðst við Árna G. Pétursson um leyfi til að vinna efni úr landi jarðanna Oddsstaða og Vatnsenda í svonefndum Kjalarási sunnan Norðausturvegar. Vegagerðin hafi áður unnið efni í malarslitlag í landi Oddsstaða og hefði það gefið góða raun. Árið 1984 voru malaðir í Kjalarási 9370 rúmmetrar jarðefnis og hafi 10650 m² af óræktuðu en að mestu grónu landi farið undir námusvæðið. Mestum hluta efnisins hafi nú verið ekið burtu en eftir séu í haug á námusvæðinu 3-400 rúmm. Fyrir þessa efnistöku hafi eignarnemi greitt kr. 9370.00.

Námusvæðið þar sem efnistaka fór fram 1976 og 1978 var ekki endanlega jafnað fyrr en 1984 og efnistöku ekki lokið þar fyrr en 1985. Ekki hafi því enn verið sáð í námusvæðið, sem sé 16.575.00 m² að stærð. Til greina komi að semja um það við landeigendur að þeir taki að sér að sjá um sáningu og áburðardreifingu á báðum námusvæðunum.

Eignarnemi segir að þegar um greiðslur fyrir efnistökur sé að ræða sé gerður greinarmunur á hvort efnistökusvæðið sé á markaðssvæði eða utan markaðssvæðis, enda hljóti verðmæti jarðefna, að miklu leyti að ráðast af framboði og eftirspurn.

Með hliðsjón af framanrituðu hafi Vegagerðin greitt fyrir efnistöku árið 1985 á þann hátt sem hér segir:

A.   Utan markaðssvæða:
1. Fyllingarefni og efni í malarslitlag   kr.   1.00 pr. rúmm.
2. Burðarlagsefni    ".   2.00 "   "
3. Efni í bundið slitlag    "   4.00 "   "

B.   Á markaðssvæðum:
1. Fyllingarefni og efni í malarslitlag   kr.   2.00 pr. rúmm.
2. Burðarlagsefni    "   6.00 "   "
3. Efni í bundið slitlag    "   10.00 "   "

Eignarnemi segir efnið í landi Oddsstaða og Vatnsenda á Melrakkasléttu vera tvímælalaust utan markaðssvæða. Efnið sé eingöngu hæft til nota sem fyllingarefni og í malarslitlög, þar sem það sé fínefnaríkt og leirkennt og hafi engin ásókn verið í efnið til annarra nota en vegagerðar. Þess vegna falli efnið undir verðflokk A1 og verði greiddar fyrir það kr. 1.00 pr. rúmm. Eignarnemi segir efni þetta myndi ekki vera markaðsvara, þótt það lægi nálægt mörkuðum, þar sem það sé ekki nothæft til steypugerðar eða í klæðningu, olíumöl eða malbik og ekki sé heldur unnt að nota það sem burðarlagsefni í vegi, götur eða húsgrunna þar sem efnið sé "frosthættulegt".

Eignarnemi segir að í þessu máli sé um að ræða efnistöku á óyrktu landi og tjón landeigenda vegna efnistökunnar sé því óverulegt og að fullu bætt með kr. 9370.00, enda sé sú greiðsla í samræmi við uppgjör við aðra landeigendur sem látið hafi í té efni við sambærilegar aðstæður og sambærilegt að gæðum.

III.

Matsnefndin hefur ekki farið á vettvang í þessu máli en nefndin hefur áður farið um þessar slóðir. Aðilar voru sammála um að ekki væri nauðsyn að nefndin færi nú á vettvang, enda voru lagðar fram í málinu ljósmyndir af vettvangi, sem sýna landsvæðið nokkuð vel.

Aðilar lögðu fram greinargerðir í málinu og skýrðu mál sitt munnlega hinn 1. nóvember 1985, er málið var tekið til úrskurðar. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta í þessu máli efnistöku, sem eignarnemi hefur látið fara fram í óskiptu landi jarðanna Oddsstaða og Vatnsenda á árinu 1984, svo og óþægindi og átroðning vegna hennar.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Vegagerðin hefur viðurkennt bótaskyldu í þessu máli.

Að því er jarðefni þetta varðar er það upplýst að Vegagerðin hafði áður unnið efni í malarslitlag í landi Oddsstaða og að það hefði gefið góða raun. Verður að telja að efni þetta sé hentugt vegagerðarefni svo sem það hefur verið notað og hafi þar með í eðli sínu verðgildi, þótt ekki hafi verið sýnt fram á, að um aðra kaupendur sé að ræða núna en eignarnema. Sýnist efni þetta ekki í eðli sínu frábrugðið öðru vegagerðarefni, sem tekið er í byggð víðs vegar um landið, þóttt það sé að vísu talið óhæft sem steypuefni og ekki heldur unnt að nota það sem burðarlagsefni í vegi, götur eða húsgrunna. Af hálfu eignarnámsþola hefur ekki verið bent á sérstaklega, að markaður sé fyrir jarðefni þetta, sem hann kveður tekið á óræktuðu en grónu landi og er ekki ágreiningur um það atriði.

Eignarnámsþoli hefur krafist hæsta verðs fyrir efnið, sem Vegagerðin hafi greitt fyrir jarðefni annars staðar á landinu.

Matsnefndin lítur svo á, að verðmæti jarðefnis ráðist af ýmsum atriðum, en þó fyrst og fremst af legu við markaði, stærð markaðssvæðis og efnisþörf, gæðum efnisins og/eða nýtingarkostum og vinnslukostnaði. Telur Matsnefndin að meta beri jarðefnið í þessu máli m.a. á ofangreindum grundvelli. Tiltölulega þrönga markaðsaðstöðu beri hins vegar að meta til lækkunar á eignarnámsbótum. Fjarlægð efnisnámunnar við þéttbýlissstaði verður látið orka til lækkunar á verði efnisins og nýtingarkostir þess eru takmarkaðir eins og áður segir. Efnisnáman er hins vegar við þjóðveg og er því aðstaða til efnistöku góð. Eignarnemi notaði efnið í nágrenninu og er því aksturskostnaður lítill.

Hvað varðar kröfu eignarnámsþola um greiðslu fyrir afnotamissi af landi því, sem eignarnemi hefur haft til umráða tekur Matsnefndin fram, að gróður á þessu námusvæði virðist lítill og þau beitarafnot, sem eignarnámsþoli hefur tapað af landi þessu séu því lítils háttar og óveruleg, og því ástæðulaust að meta þann lið sérstaklega, en hér er um tvær eyðijarðir að ræða.

Í ágúst 1982 mat Matsnefndin jarðefni úr landi jarðanna Ásmundarstaða í Presthólahreppi, Norður-Þingeyjarsýslu.

Með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan, verði á svipuðu efni annars staðar á landinu, verðbreytingum sem orðið hafa og öðru því, sem Matsnefndin telur að hér eigi að skipta máli, telur nefndin hæfilegt að meta efnistökuna úr óskiptu landi jarðanna Oddsstaða og Vatnsenda á kr. 1.80 fyrir hvern rúmmetra efnisins, eða 9370 rúmm. á kr. 16.866.

Eftir atvikum þykir rétt að eignarnemi greiði eignarnámsþolum fyrir óþægindi, átroðning og málarekstur kr. 10.000.-.

Upp í ofangreinda fjárhæð kr. 26.866.- hefur eignarnemi greitt kr. 9370.-, sem framreiknað með sparisjóðsvöxtum gera kr. 11.056.-. Eftir standa því kr. 15.810.-, og er þá miðað við staðgreiðslu.

Í 3. mgr. 59. gr vegalaga segir að Vegagerðin skuli græða upp sár, sem myndast hafa á grónu landi við vegaframkvæmdir og er eignarnema kunn sú lagaskylda.

Rétt þykir með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 15.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Báður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins greiði Árna G. Péturssyni f.h. eigenda jarðanna Oddsstaða og Vatnsenda, Presthólahreppi Norður-Þingeyjarsýslu kr. 15.810.-.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 15.000.-.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta