Hoppa yfir valmynd

Nr. 484/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 484/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19070019 og KNU19070020

 

Kæra [...],

[...]

og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. júlí 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir kærandi K) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. júní 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar og barns hennar, [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd og vísa þeim frá landinu. Þann 9. júlí sl. kærði jafnframt dóttir K, er kveðst heita [...], vera fædd [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir kærandi B), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. júní sl., um að taka ekki til efnsimeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd og vísa henni frá landinu. Í ljósi fjölskyldutengsla aðila og gagna málsins, þ.m.t. sameiginlegrar greinargerðar þeirra, eru málin afgreidd í einum úrskurði.

Þess er krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er gerð krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 31. desember 2019. Við leit að fingraförum þeirra í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að þau höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Þann 15. janúar 2019 var beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 23. janúar 2019 barst svar frá ítölskum yfirvöldum þar sem þau samþykktu viðtöku kæranda B, skv. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ekki barst svar innan tilskilins tímafrests í málum kæranda K og barns hennar A og litu íslensk stjórnvöld því svo á að ítölsk stjórnvöld hefðu samþykkt viðtöku, sbr. 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, og sendi Útlendingastofnun ítölskum yfirvöldum bréf þess efnis, dags. 7. febrúar 2019. Útlendingastofnun ákvað þann 21. júní 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 25. júní 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 9. júlí 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 25. júlí 2019, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda K og B, kom fram að ítölsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknirnar yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Ítalíu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli móður hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013, laga um útlendinga nr. 80/2016 og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hans væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til Ítalíu.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að aðstæður á Ítalíu hafi verið fjölskyldunni erfiðar. Rifrildi og slagsmál hafi verið tíð í búsetuúrræði þeirra, herbergisfélagi þeirra hafi ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum og jafnvel lent í slagsmálum í sameiginlegu herbergi þeirra. Fjölskyldunni hafi reynst erfitt að leita stuðnings og félagsráðgjafi þeirra hafi t.a.m. brugðist trausti þeirra og hótað því að fjölskyldan yrði færð í aðrar móttökubúðir ef þau létu ekki af kvörtunum undan húsakynnunum. Félagsráðgjafinn hafi jafnframt varað þau við lögreglunni og þau hafi því óttast hana. Þá hafi B verið sérstaklega hrædd og ekki þorað að yfirgefa herbergi þeirra af ótta við lögreglu og áreiti karlmanna. Fjölskyldan hafi fengið dagpeninga sem hafi dugað fyrir mat en ekki öðrum nauðsynjum, s.s. lyfjum [...]. Þau hafi ítrekað óskað eftir viðtali við lækni og sálfræðing en hafi ávallt verið sagt að þau þyrftu að bíða þar til kæmi að þeim. Þá glími K við andlega erfiðleika eftir atburði í heimaríki og ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir þar.

Í greinargerð kærenda eru gerðar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærendur gera m.a. athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að þau væru einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá er í greinargerð vísað til réttarstöðu A sem barns og nýlegs bréfs frá sálfræðingi þar sem slæmri andlegri heilsu hans sé lýst. Í bréfinu komi fram að [...].

Kröfu sína um efnismeðferð byggja kærendur m.a. á því að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við vegna sérstakra ástæðna í máli þeirra. Kærendur vísa í þeim efnum til lögskýringargagna að baki ákvæðinu sem og eldri úrskurða kærunefndar útlendingamála. Sérstakar ástæður í máli sínu telja kærendur m.a. felast í því að K sé einstæð móðir og þolandi ofbeldis í heimaríki, B hafi glímt við veikindi alla ævi [...] auk þess sem hætta sé á að andlegri og líkamlegri heilsu B muni hraka verði kærendur sendir aftur til Ítalíu. Í greinargerð kærenda er einnig vísað til sérstakra réttinda A sem sé barn að aldri og m.a. reifuð sjónarmið um skyldu íslenskra stjórnvalda til þess að hafa það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, sbr. m.a. 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða ólögráða barns

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ. á m. viðtöl við K og A, sem gefa til kynna að almennt séu fjölskyldutengsl þeirra sterk. Það er því mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Ítalíu á umsóknum kæranda B er byggð á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem hún sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Ábyrgð Ítalíu á umsóknum kæranda og barns hennar A er byggð á því að ítölsk stjórnvöld hafi ekki svarað beiðni um endurviðtöku innan tilskilins frests, sbr.2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja ítölsk stjórnvöld um að taka við kærendum, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur eru fjölskylda sem samanstendur af móður með fullorðna dóttur sína og ólögráða son sinn og komu þau saman hingað til lands. Af gögnum um heilsufar K má ráða að hún sé almennt við góða andlega og líkamlega heilsu en hafi hitt sálfræðing hér á landi í nokkur skipti. Þá kveðst hún hafa verið þolandi ofbeldis í heimaríki [...].

Í gögnum um heilsufar B kemur fram að hún sé [...].

Í gögnum um heilsufar A kemur fram að andleg heilsa hans sé slæm. Þar kemur fram að A hafi greint frá því í viðtali við sálfræðing á Göngudeild sóttvarna, dags. 26. apríl 2019, að honum hafi liðið mjög illa á Ítalíu [...]. [...].

Að mati kærunefndar er ljóst, m.a. með vísan til fyrirliggjandi heilsufarsgagna, að aðstæður fjölskyldunnar séu þess eðlis að fjölskyldan í heild hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka hefur þurft tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður á Ítalíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 24. júní 2019),
  • Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, 16. apríl 2019),
  • Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017),
  • Concluding observations on the combined fifth and sixth periodic reports of Italy (Committee on the Rights of the Child), 28. febrúar 2019.
  • ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016),
  • Freedom in the World 2019 – Italy (Freedom House, 4. febrúar 2019),
  • Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015),
  • Italy 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019),
  • Mutual Trust is Still Not Enough. The situation of persons with special needs transferred to Italy under the Dublin III Regulation (Danish Refugee Council og Swiss Refugee Council, 12. desember 2018),
  • Opinion of the Italian Authority for Children and Adolescents on the Fifth and Sixth Government Report to the UN Committee on the Rights of the Child (Italian Authority for Children and Adolescents), 7. maí 2018.
  • Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016),
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014),
  • The Journey of Hope. Education for Refugee and Unaccompanied Children in Italy (Education International, 31. maí 2017),
  • UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013),
  • Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati - http://www.cir-onlus.org/en/),
  • Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy),
  • Upplýsingar af vefsíðu samtakanna Baobab Experience (https://baobabexperience.org/) og
  • World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Í framangreindum gögnum kemur fram að fái umsækjandi um alþjóðlega vernd synjun á umsókn sinni þá hefur hann kost á því að bera synjunina undir dómstóla (í. Tribunale Civile). Jafnframt eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrir liggur að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eru sendir til baka til meginlandsins með flugi. Í framangreindum gögnum kemur fram að á stærstu flugvöllum landsins, í Róm og Mílanó, eru frjáls félagasamtök til staðar sem veita umsækjendum um alþjóðlega vernd ráðgjöf og þjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga almennt ekki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð þegar þeir leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd en frjáls félagasamtök veita gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð í umsóknarferlinu. Þá geta umsækjendur lagt fram beiðni um gjafsókn (í. gratuito patrocinio) kjósi þeir að bera endanlega synjun á umsókn sinni undir dómstóla.

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að í ítalska hæliskerfinu sé ekki skimað kerfisbundið eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar. Hins vegar getur greining á þolendum pyndinga eða alvarlegs ofbeldis átt sér stað á öllum stigum umsóknarferlisins um alþjóðlega vernd. Svokallaðar svæðisnefndir (í. Commissione territoriale per il riconoscimento della protezione internazionale) taka ákvörðun á fyrsta stigi málsmeðferðar og geta þær m.a. óskað eftir því að umsækjandi fari í sérstaka læknisskoðun þar sem fram fer mat á því hvaða áhrif ofsóknir og ofbeldi hafa haft á umsækjanda. Slíkt mat sé framkvæmt í samræmi við leiðbeiningarreglur sem gefnar hafa verið út af heilbrigðisráðuneytinu varðandi þjónustu til handa flóttamönnum sem þjást af andlegum veikindum og/eða eru þolendur pyndinga, nauðgana eða annars konar andlegs-, líkamlegs- og kynferðislegs ofbeldis.

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á gistirými í móttökumiðstöðvum. Samkvæmt lagabreytingu, sem tók gildi í desember 2018, eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sendir eru til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar rétt á þjónustu og gistirýmum í tilteknum ítölskum móttökumiðstöðvum sem staðsettar eru í sjö héruðum landsins. Ef engin pláss eru til staðar í slíkum móttökumiðstöðvum eru til staðar gistirými í móttökumiðstöðvum sem nefnast CAS (í. Centro di accoglienza straordinaria). CAS miðstöðvarnar eru einungis ætlaðar til tímabundinnar dvalar en vegna mikils fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu nýtur meiri hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd eingöngu þjónustu í CAS miðstöðvunum. Aðstæður þar hafa verið gagnrýndar, m.a. þar sem einhverjar miðstöðvar séu lítið kyntar og þar verði vart við skort á heitu vatni og rafmagni. Þá kemur fram í fyrrgreindum gögnum að frjáls félagasamtök og trúfélög bjóði upp á gistiaðstöðu en þau séu einnig af skornum skammti. Samkvæmt fyrrgreindri lagabreytingu frá því í desember 2018 heita búsetuúrræði sem áður hétu SPRAR og voru aðgengileg umsækjendum um alþjóðlega vernd nú SIPROIMI (e. System for the Protection of Beneficiaries of International Protection and Unaccompanied Foreign Minors) og eru þau nánast eingöngu ætluð þeim sem eru handhafar alþjóðlegrar verndar og fylgdarlausum börnum. Þá kemur fram í skýrslu Asylum Information Database að virða skuli einingu fjölskyldunnar þegar kemur að úthlutun á gistirýmum í móttökumiðstöðvum og að mæður og börn séu almennt hýst saman.

Á grundvelli framangreindra skýrslna og gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér verður jafnframt ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Þeir þurfa þó að skrá sig inn í heilbrigðiskerfið en við slíka skráningu fá þeir útgefið tryggingarkort sem veitir þeim m.a. rétt á meðferð sérfræðilækna. Fyrir útgáfu tryggingarkortsins eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þó rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Skortur á sérhæfingu í málefnum flóttamanna og tungumálakunnátta gerir sumum umsækjendum um alþjóðlega vernd erfitt fyrir að sækja sér viðunandi heilbrigðisþjónustu, einkum einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá þurfi börn sem eiga við andleg veikindi að stríða oft að bíða eftir því að fá aðstoð sérfræðinga.

Í skýrslu Asylum Information Database og skýrslu samtakanna Education International Research kemur m.a. fram að ítölsk lög kveði á um skólaskyldu til 16 ára aldurs. Öll börn sem dvelja á ítölsku yfirráðasvæði eiga því rétt á skyldubundinni menntun frá sex til 16 ára aldurs, til jafns við ítalska ríkisborgara, án tillits til réttarstöðu þeirra á Ítalíu og án endurgjalds. Þá eiga erlend börn rétt á sérstakri aðstoð hafi þau sérþarfir og jafnframt bjóða sumir skólar upp á sérstakt undirbúningsnámskeið til að aðstoða erlenda nemendur við að aðlagast skólanum. Þegar erlend börn leggja fram umsókn um skólavist þá er krafist sömu upplýsinga um barnið og hjá ítölskum börnum og skortur á framlagningu gagna á ekki að koma í veg fyrir að barn sé skráð í skólann.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi.

Eins og áður hefur verið rakið er af gögnum máls ljóst að A glímir við andleg veikindi og hefur verið í sálfræðimeðferð. Í skýrslu sálfræðings, dags. 22. júlí 2019, kemur m.a. fram [...]. Í ljósi þessara gagna sem varða A, sem er barn að aldri, telur kærunefnd að fyrir hendi sé ástæða er varðar heilsufar A sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið. Heilsufar A hafi því vægi við mat á því hvort taka beri umsókn hans til efnismeðferðar, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan hefur verið rakið njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu ýmissa réttinda þar í landi, m.a. rétt til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ.á m. geðheilbrigðisþjónustu. Þá liggur fyrir að það geti verið umsækjendum um alþjóðlega vernd erfiðleikum háð að nálgast viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að það sé nauðsynlegt að A fái greiðlega aðgang að meðferð við andlegum veikindum [...]. Í ljósi upplýsinga um mögulegar aðgangshindranir umsækjenda um alþjóðlega vernd að viðeigandi heilbrigðisþjónustu telur kærunefnd ekki unnt að fullyrða að A geti greiðlega fengið slíkan aðgang að heilbrigðisþjónustu á Ítalíu. Með vísan til stöðu A sem umsækjanda um alþjóðlega vernd á Ítalíu og þess að hann er barn að aldri er það mat nefndarinnar að það sé ekki í samræmi við öryggi hans, velferð og félagslegan þroska að umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi verði synjað um efnismeðferð.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli A, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og tilvitnuð ákvæði reglugerðar um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til sjónarmiða um einingu fjölskyldunnar er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kærenda og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur á, að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda K og barns hennar A, og kæranda B, um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar. 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant´s applications for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

 

Árni Helgason                                                                  Bjarnveig Eiríksdóttir  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta