Hoppa yfir valmynd

Nr. 125/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 125/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU19110050 og KNU19110051

Kæra […],

[…] og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. nóvember 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, […], um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 22. ágúst 2019. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Þann 28. ágúst 2019 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 11. og 14. október 2019, kom fram að kærendum hefði verið veitt viðbótarvernd þann 10. október 2018 og væru með gilt dvalarleyfi til 29. október 2021. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 24. september 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 8. nóvember 2019 að taka ekki umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 12. nóvember 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 26. nóvember 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum bárust kærunefnd þann 4. desember 2019. Þá bárust kærunefnd frekari gögn dagana, 13. janúar, 18. febrúar og 9. og 11. mars 2020.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendum hefði verið veitt viðbótarvernd í Grikklandi. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Grikklands.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A, B og C kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Grikklands.

Var kærendum veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og athygli þeirra vakin á því að yfirgæfi þau ekki landið innan frests væri heimilt að brottvísa þeim. Í brottvísun fælist bann við komu til landsins síðar og endurkomubann skyldi að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda vísa þau m.a. til viðtala hjá Útlendingastofnun þar sem M og K hafi lýst erfiðum aðstæðum í Grikklandi og fjölskyldan ekki náð andlegu jafnvægi þar í landi. Þá hafi kærendur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki og ástæðum flótta þeirra þaðan sem hafi m.a. verið vegna árása og hótana hryðjuverkahóps. Kærendur hafi lýst aðstæðum sínum í Grikklandi en þau hafi dvalið í flóttamannabúðum sem hafi verið gamalt svínabú þar sem mikið hafi verið um áfengis- og fíkniefnaneyslu og börnin hafi því ekki getað farið út að leika sér. Kærendur hafi greint frá því að í eitt skipti hafi maður í flóttamannabúðunum gefið B eiturlyf með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund. Í kjölfarið hafi M farið með hann á spítala þar sem hann hafi fengið lyf en þegar hann hafi leitað til lögreglunnar hafi hún ekkert gert. Kærendur kveði að sex mánaða bið hafi verið eftir lækni í Grikklandi en þegar fjölskyldan hafi mætt í bókaðan tíma hafi læknarnir ekki haft tök á að hitta þau. K hafi misst fóstur í flóttamannabúðunum en ekki fengið neina læknisþjónustu. Kærendur kveði að eftir að þeim hafi verið veitt vernd hafi þeim ekki verið útvegað húsnæði og því þurft að dvelja áfram í flóttamannabúðunum. Þá hafi þau ekki fengið neina framfærslu frá grískum yfirvöldum síðustu fjóra mánuðina sem þau dvöldu í Grikklandi. Þá kveði þau að þar á undan hafi greiðslurnar ekki komið á réttum tíma og í sumum tilvikum hafi þau ekki fengið greiðslur. M kveði að erfitt hafi verið að fá atvinnu sökum þess að hann tali ekki tungumálið auk þess sem enga atvinnu hafi verið að fá og því hafi fjölskyldan þurft að framfleyta sér með peningum sem fjölskylda þeirra í heimaríki hafi sent þeim. M kveði að hann óttist tiltekinn mann sem hafi búið í flóttamannabúðunum og sé tengdur vopnuðum hópum í heimaríki kærenda. Þessi maður hafi hótað að láta M finna fyrir mikilli sorg en degi síðar hafi vopnaður hópur keyrt yfir bróður hans í heimaríki. Kærendur kveði að þau hafi upplifað fordóma í Grikklandi en þar hafi þeim liðið illa og ekki lifað góðu lífi. Þá hafi K greint frá því að hún hafi verið […]. . Kærendur geri athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að hagsmunum barnanna sé ekki stefnt í hættu með því að þau fylgi foreldrum sínum til Grikklands og vísa til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 533/2019 frá 14. nóvember 2019. Telji kærendur að þau viðmið sem Útlendingastofnun lagði til grundvallar í ákvörðunum í málum barnanna séu ekki í samræmi við lög. Því hefði Útlendingastofnun borið að meta hvað börnunum væri fyrir bestu með tilliti til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska. Því telji kærendur að fella eigi ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi vegna ófullkominnar umfjöllunar stofnunarinnar um börn kærenda og hagsmuni þeirra.

Kærendur gera athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, m.a. hvað varðar aðgang að heilbrigðis-og félagsþjónustu, atvinnumarkaði og húsnæðisúrræðum. Vísa kærendur m.a. til þess að raunverulegt aðgengi þeirra að fyrrnefndri þjónustu og úrræðum sé verulega takmarkað, m.a. vegna fjölda flóttafólks í Grikklandi og þeirra krafna sem þau þurfa að uppfylla. Vísa kærendur til alþjóðlegra skýrslna og heimilda máli sínu til stuðnings. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar séu raktar þær aðgerðir sem gríska ríkið hafi gripið til í því sambandi að stemma stigu við kynþáttafordómum og mismunun í Grikklandi. Telji kærendur að áreiðanlegar heimildir bendi til annars. Þá hafi komið fram í ákvörðunum Útlendingastofnunar að kærendur geti leitað á náðir lögreglu eða annarra yfirvalda telji þau á sér brotið. Vísa kærendur til þess að heimildir bendi til þess gagnstæða. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar sé fullyrt að aðgangur að skóla og leikskóla standi börnum til boða í Grikklandi. Kærendur vísa til þess að aðeins 43% flóttabarna séu þó raunverulega skráð til náms í Grikklandi. Kærendur telja að Útlendingastofnun hafi tekið lagalegan rétt flóttafólks í Grikklandi fram yfir raunverulegt aðgengi þeirra að lögvörðum réttindum og vísað til takmarkaðra átaksverkefna fyrir fáa einstaklinga. Kærendur fjalla um reglugerð nr. 276/2018 sem breytti reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og telja að reglugerðina skorti lagastoð í þeim tilvikum þegar gerðar séu ríkari kröfur en fram komi í lögum um útlendinga.

Hvað varðar aðstæður flóttafólks í Grikklandi vísa kærendur m.a. til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar. Þar sé fjallað um aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi með hliðsjón af alþjóðlegum skýrslum.

Kærendur byggja kröfu sína um efnismeðferð í fyrsta lagi á því að ótækt sé að beita heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki þeirra og barna þeirra þar sem íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Kærendur vísa til þess að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild handa stjórnvöldum til að synja umsækjendum um alþjóðlega vernd um efnismeðferð en ekki skyldu. Kærendur telji að meginregla laganna sé því að allar umsóknir skuli taka til efnismeðferðar nema undantekningarreglur laganna eigi við. Kærendur vísa til 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, þar sem fram kemur að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð máls. Þá vísa kærendur til 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga þar sem fram kemur að Útlendingastofnun skuli tryggja eins fljótt og kostur er að fram fari með aðstoð viðeigandi sérfræðinga einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Kærendur vísa til úrskurða kærunefndar nr. 368 og 369/2019 frá 25. júlí 2019 og telji að sömu sjónarmið eigi við hvað varði hættu á áreiti og mismunun. Þá vísa kærendur til úrskurðar kærunefndar nr. 393/2018 frá 27. september 2018 og telja aðstæður sínar vera sambærilegar. Um mat á því hvenær einstaklingur telst eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vísa kærendur til úrskurða kærunefndar frá 10. október 2017 nr. 550/2017 og 552/2017 og úrskurða frá 24. október 2017 nr. 583/2017 og 586/2017. Kærendur telji að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málum þeirra þar sem þau séu barnafjölskylda sem hafi upplifað erfiðar aðstæður í Grikklandi, þ. á m. líkamlegt- og kynferðislegt ofbeldi og haft takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir börnin. Muni staða þeirra verða verulega síðri en staða almennings í Grikklandi vegna stöðu þeirra sem flóttafólk.

Kærendur byggja kröfu sína um efnismeðferð í öðru lagi á því að þau njóti verndar grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem lögfest er í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sem mælir fyrir um bann við endursendingu fólks þangað sem líf þess eða frelsi sé í hættu eða líkur eru á að það muni sæta pyndingum og ómannúðlegri meðferð, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Frásagnir kærenda um aðstæður í Grikklandi samræmist alþjóðlegum heimildum, m.a. hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu, atvinnumarkaði og félagslegri aðstoð. Aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu svo slæmar að þær jafnist á við að ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sem og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt samræmast þær skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins. Endursending kærenda muni brjóta í bága við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga vegna aðstæðna einstaklinga með alþjóðlega vernd þar í landi. Væri einnig um brot gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna að ræða verði af endursendingu. Sé íslenskum stjórnvöldum því skylt að taka mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja í þriðja lagi á því að ákvarðanir Útlendingastofnunar séu brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrár. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi þróað aðferðafræði sem greini ólögmæta mismunun sem slíka. Í fyrsta lagi þurfi einstaklingur að hafa hlotið aðra meðferð en einstaklingur í sambærilegri stöðu. Sé sýnt fram á slíka meðferð geri dómstóllinn að auki þá kröfu að mismunandi meðferð teljist ólögmæt, þ.e. að hún sé hvorki málefnaleg né hlutlæg. Vísa kærendur til þess að frá árinu 2010 hafi íslensk stjórnvöld ekki sent umsækjendur um alþjóðlega vernd til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé kveðið á um skyldu til að taka til efnismeðferðar umsóknir skv. a-c lið 1. mgr. 36. gr. sömu laga þegar sérstakar ástæður mæli með því. Gildandi lög um útlendinga geri því ekki greinarmun á því hvort einstaklingur falli undir a- eða c-lið ákvæðisins þegar komi að því að meta sérstakar ástæður. Að mati kærenda séu engar málefnalegar ástæður fyrir því að gera greinarmun á því hvort einstaklingur falli undir a-lið 1. mgr. 36. gr. eða c-lið sama ákvæðis. Í ljósi jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar beri af þeirri ástæðu að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Þá hafi Evrópudómstóllinn slegið því föstu að ekki sé heimilt að mismuna einstaklingum eftir því hvort viðkomandi hafi hlotið alþjóðlega vernd eða sé enn í umsóknarferli ef aðstæður sem þeirra bíði í viðtökuríki séu viðlíka slæmar. Geti efnahagslegar ástæður að mati dómsins jafngilt ómannúðlegri meðferð og leitt til þess að aðildarríkjum sé skylt að taka mál til efnislegrar meðferðar. Vísa kærendur til tiltekinna dóma Evrópudómstólsins máli sínu til stuðnings.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barna kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna, þ. á m. viðtöl við kærendur hjá Útlendingastofnun, og er það mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A, B og C sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A, B og C verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin A, B og C eru í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna var kærendum og börnum þeirra veitt viðbótarvernd í Grikklandi þann 10. október 2018 og hafa þau gilt dvalarleyfi þar í landi til 29. október 2021. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærendur og börn þeirra njóta í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur eru hjón með þrjú börn sem eru […]. Í heilsufarsgögnum M kemur fram að hann glími við […]. Þá komi fram í heilsufarsgögnum að M hafi greint frá því að andleg líðan hans sé slæm og hann sé haldinn streitu. Samkvæmt komunótum frá Göngudeild sóttvarna hafi M hitt sálfræðing og greint frá því að hann eigi erfitt með svefn, hann hafi í kjölfarið fengið ávísað svefnlyfjum. Samkvæmt heilsufarsgögnum hafi M leitað til Göngudeildar sóttvarna vegna […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hefur K m.a. greint frá því að hún hafi verið lamin í höfuðið með byssuskefti í heimaríki og í kjölfarið misst heyrn auk þess sem hún sjái ekki vel. Þá hefur hún greint frá því að finna til […]. K kvað andlega heilsu sína vera í lagi en að hún væri mjög þreytt. Þá hefur K greint frá því að hún hafi […]. Samkvæmt heilsufarsgögnum hafi heyrnartæki K þarfnast viðgerðar eða endurnýjunar. Samkvæmt upplýsingum í tölvupósti frá ráðgjafa hjá teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjavík, dags. 10. mars 2020, hefur K notið stuðnings […].

Við meðferð málanna hafa kærendur greint frá því að A og B hafi átt erfitt andlega eftir að hafa orðið vitni að því að ráðist var inn á heimili þeirra í heimaríki og heimilisfólkið beitt ofbeldi […]. Þá hafi börnin orðið vitni að miklu ofbeldi í flóttamannabúðunum í Grikklandi […]. […]. Samkvæmt gögnum málanna hefur B hitt sálfræðing hjá Domus Mentis Geðheilsustöð vikulega og hefur nú þegar farið í átta tíma. […]. Í tölvupósti frá ráðgjafa hjá teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjavík kemur fram að eftir að börnin A og B hafi skipt um skóla eftir áramót hafi líðan þeirra batnað og þeim gengið betur. Þá komi fram að B sé farin að treysta betur og sé öruggari. […].

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2019 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 11. mars 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, 29. mars 2019);
  • Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);
  • Freedom in the World 2019 – Greece (Freedom House, 2019);
  • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
  • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);
  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • Upplýsingar af vefsíðu Doctors of the world (https://mdmgreece.gr/);
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu;
  • World Report 2020 – European Union (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • Yfirlýsing Flóttamannastofnunar, dags. 2. mars 2020 (https://www.unhcr.org/news/press/2020/3/5e5d08ad4/unhcr-statement-situation-turkey-eu-border.html?query=greece);
  • Yfirlýsing barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, dags. 3. mars 2020 (https://www.unicef.org/press-releases/protecting-children-must-be-top-priority-latest-refugee-surge-response);
  • Yfirlýsing samtakanna European Council on Refugees and Exiles, dags. 3. mars 2020 (https://www.ecre.org/ecre-statement-on-the-situation-at-the-greek-turkish-border/?fbclid=IwAR2SHfXn8pq4bLlsY23LxWEPVhxrZHtIkz2LwmiZICP_n0ZpT9IzO0r6_Zg) og
  • Bréf 85 samtaka til grískra yfirvalda og Evrópuþingsins, leiðtogaráðs og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dags. 6. mars 2020 (https://www.ecre.org/joint-statement-protect-our-laws-and-humanity/).

Af framangreindum gögnum verður ráðið grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur meðal annars bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sambærilegan rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst jafnframt aðgangur að vinnumarkaði. Þá veita frjáls félagasamtök einstaklingum með alþjóðlega vernd aðstoð við að kynna sér réttindi sín í Grikklandi.

Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi eiga rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig getur verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Þetta á jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í ríkinu. Þá má af upplýsingum um aðstæður í Grikklandi, í ljósi Covid-19 faraldursins sem nú geisar, ráða að heilbrigðiskerfi Grikklands sé illa í stakk búið til þess að takast á við þá stöðu sem komin er upp og að sérstök hætta sé á að flóttamenn í landinu séu í lakari stöðu í Grikklandi, m.t.t. framangreindra aðgangshindrana að heilbrigðisþjónustu. Þá geta einstaklingar með alþjóðlega vernd leitað til alþjóðasamtaka og frjálsra félagasamtaka í Grikklandi sem m.a. veita nýbökuðum mæðrum og ungabörnum viðeigandi aðstoð, t.a.m. upplýsingar og aðstoð í tengslum við brjóstagjöf og næringu. Jafnframt útvega þau barnaföt, bleyjur og annan búnað til að koma til móts við þarfir þeirra, aðstoðin er þó háð takmörkunum.

Aðgengi einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi að húsnæði er háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með löglega dvöl í Grikklandi. Fá gistiskýli eru í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt getur reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin er mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem hafa verið sendir til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum.

Sem fyrr segir eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sambærilegan rétt á félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar. Þær félagslegu bætur sem í boði eru í Grikklandi eru t.d. bætur fyrir fjölskyldur (e. Family allowance) en skilyrði fyrir slíkum bótum er að sýnt sé fram á tíu ára óslitna og varanlega búsetu í Grikklandi. Þá veita grísk yfirvöld einstaklingum, m.a. handhöfum alþjóðlegrar verndar, sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna, svokallaðan KEA styrk (g. Κοινωνικό Επίδομα Αλληλεγγύης, KEA). Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði; þeir þurfa m.a. að hafa kennitölu, skattnúmer (AFM), gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir að leggja fram ýmis gögn, m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Samkvæmt framangreindri skýrslu Asylum Information Database er erfitt að uppfylla skilyrðin. Þá eru engir aðrir framfærslustyrkir en KEA í boði í reynd. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga.

Í gögnum um aðstæður á Grikklandi kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafi mætt erfiðleikum við að fá útgefið skattnúmer (g. Αριθμός Φορολογικού Μητρώου, AFM), hjá grískum stjórnvöldum. Útgáfa skattnúmers er grundvöllur þess að geta lifað og starfað löglega á Grikklandi og þess að einstaklingar geti sótt aðstoð og réttindi hjá grískum stjórnvöldum. Skattnúmerið er forsenda þess að geta sótt um félagslega aðstoð, til að vinna hvort sem er sem starfsmaður hjá öðrum eða að hefja eigin rekstur og til þess að gera samninga um leigu á húsnæði.

Vegna heimilda um þessa erfiðleika varðandi útgáfu skattnúmera sendi kærunefnd útlendingamála fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og óskaði eftir upplýsingum um hvort stofnuninni væri kunnugt um hindranir sem einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi kunni að mæta við að verða sér úti um slíkt skattnúmer. Í svari Flóttamannastofnunnar, dags. 10. mars 2020, kemur m.a. fram að almennt þurfi að sækja um skattnúmerið í eigin persónu hjá viðeigandi stjórnvaldi, umsóknina þurfi að fylla út á grísku og sýna þurfi skilríki s.s. dvalarskírteini. Þá sé engin túlkaþjónusta í boði en öll málsmeðferð, bæði skriflega umsóknin og samskipti við stjórnvöld, skuli fara fram á grísku. Starfsmenn grískra yfirvalda séu ekki skyldugir skv. lögum til þess að tala ensku í störfum sínum eða vinna með gögn sem ekki séu skrifuð eða þýdd yfir á grísku. Niðurstaða umsóknar vegna skattnúmers sé því undir því komin að starfsmaðurinn sé viljugur til samvinnu og að umsækjandi um skattnúmer hafi grunn í ensku eða grísku tungumáli. Þá kom fram í svari Flóttamannastofnunar að það væri mismunandi og oft misvísandi framkvæmd milli þeirra stjórnvalda sem sjá um útgáfu númeranna. Framkvæmdin færi í raun eftir því hversu vant starfsfólkið væri að þjónusta þennan hóp. Þá geti viðmót og vilji starfsmanns stjórnvaldsins haft áhrif á niðurstöðu varðandi útgáfu skattnúmers og þeir umsækjendur sem njóti aðstoðar frjálsra félagasamtaka eða lögmanna í umsóknarferlinu séu líklegri til þess að fá jákvætt svar við umsókn sinni. Þá hafi komið upp vandamál hjá þessum hópi varðandi það að tengja skattnúmer hjóna saman. Grísk skattayfirvöld hafi árið 2018, gefið út fyrirmæli um ítarlegri skoðun á skilríkjum erlendra umsækjenda um skattnúmer, sem hafi í kjölfarið leitt til þess að biðtími eftir niðurstöðu lengdist töluvert hjá þeim hópi. Flóttamannastofnun, gríski umboðsmaðurinn og frjáls félagasamtök hafi í kjölfarið ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna þessa og því hafi grísk stjórnvöld brugðist við með breytingu á framkvæmd, en þó þurfi enn frekari aðgerðir. Þá sé óvíst hver staðan sé varðandi þann málafjölda sem enn bíði afgreiðslu af þessum sökum.

Í skýrslu Asylum Information Database, kemur fram að börn með alþjóðlega vernd í Grikklandi eiga sama rétt til þess að ganga í skóla þar í landi og önnur grísk börn fram að 15 ára aldri. Þrátt fyrir það þá kemur fram að einungis rúmlega helmingur barna á flótta sækir skóla í Grikklandi. Er ástæðan fyrir þessu m.a. rakin til tungumálahindrana og þess að námið hentar ekki endilega börnum sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að dæmi eru um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar. Þá kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggja bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur eru ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsakar meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar eru á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla er tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Þá kemur fram í vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar í Grikklandi sem eru þolendur glæpa og tala hvorki né skilja grísku eiga rétt á túlkaþjónustu og upplýsingum um mál þeirra á tungumáli sem þeir skilja.

Undanfarnar vikur hafa borist fregnir af átökum og spennu við landamæri Grikklands og Tyrklands, sem sé m.a. afleiðing hernaðaraðgerða í Sýrlandi. Tyrkir hafi slakað á gæslu við landamærin og þúsundir flóttamanna freisti þess nú að komast yfir landamærin til Grikklands þar sem grísk stjórnvöld hafi mætt þeim af hörku og með breytingu á framkvæmd sinni við skráningu og vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd, þ.á m. hætt að skrá nýjar umsóknir. Af gögnum megi ráða að ástandið sé afar viðkvæmt og að ólga sé fyrir hendi í grísku samfélagi. Fordómar, andúð og ofbeldi gagnvart þessum hópi hafi aukist og komið hafi upp tilvik þar sem gerðar hafa verið árásir á mannréttindasamtök og stofnanir sem vinni að hagsmunum flóttafólks í Grikklandi. Ýmis alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök hafa lýst yfir áhyggjum af ástandinu, sbr. m.a. framangreindar yfirlýsingar, þ.m.t. yfirlýsing Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, dags. 2. mars 2020, og barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, dags. 3. mars 2020. Í yfirlýsingu 85 samtaka, þ. á m. European Council on Refugees and Exiles (ECRE), til grískra yfirvalda og Evrópuþingsins, leiðtogaráðs og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dags. 6. mars 2020, er m.a. kallað eftir því að komið verði strax aftur á ferlum varðandi flutning (e. relocation) á flóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Grikklandi til annarra aðildarríkja Evrópusambandsins, á sanngjarnan og skynsaman hátt, með fylgdarlaus börn í forgangi. Þá er í framangreindri yfirlýsingu frá barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kallað eftir því að þjóðir standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og verji börn, sama hvaðan þau koma. Þeim verði tryggt öruggt aðgengi að alþjóðlegri vernd í stað þess að grípa til aðgerða og yfirlýsinga sem ali á fordómum og útlendingaandúð. Þá er í yfirlýsingu ECRE lögð áhersla á að Evrópuríki deili ábyrgð vegna flóttamanna sem koma að ytri landamærum. Herská orðræða ráðamanna og talsmanna Evrópusambandsins auki líkur á ofbeldi gagnvart fólki sem sé í leit að vernd og samtökum sem styðji þann hóp. ECRE lýsir yfir áhyggjum af versnandi umhverfi er þetta varðar, bæði í Grikklandi og Tyrklandi.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er mælt fyrir um sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra eða annars fjölskyldumeðlims sem hefur það á framfæri sínu skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman. Við það mat beri meðal annars að líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kærenda og barna þeirra. Þau eru handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og hafa m.a. greint frá bágum aðstæðum þeirra þar í landi. Þau hafi t.a.m. haft takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, félagslegri þjónustu og ekki fengið atvinnu.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að barn kærenda, B, […], glímir við andleg veikindi. […]. Af gögnum máls um B og þeirri þjónustu og stuðningi sem hann hefur notið hér á landi telur kærunefnd ljóst að staða hans er viðkvæm og hann hafi þörf fyrir aðstoð og stuðning er það varðar. Í ljósi þessa telur kærunefnd að fyrir hendi sé ástæða er varðar heilsufar B sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið. Hefur heilsufar B því vægi við mat á því hvort taka beri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi hafa þegar verið raktar. Eins og þar kemur fram hafa einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd að mestu sambærileg réttindi að lögum og grískir ríkisborgarar. Aftur á móti liggur fyrir að ýmsar hindranir eru á því að þeir geti sótt þessi réttindi. Til að mynda sé ljóst að börn eigi lagalegan rétt á menntun í Grikklandi en framangreind gögn benda til þess að yfirstíga þurfi ákveðnar stjórnsýsluhindranir til að skrá börn í skóla og að réttur til menntunar sé ekki í öllum tilvikum virkur. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður í Grikklandi m.t.t. félagslegra bóta telur kærunefnd ljóst að þau skilyrði sem sett eru fyrir félagslegum bótum í Grikklandi geta valdið því að fjölskyldur með alþjóðlega vernd þar í landi geti átt erfitt með yfirstíga þær hindranir sem finna má í grísku stjórnkerfi er það varðar, og þar með framfleyta sér. Sem dæmi er ólíklegt að þau uppfylli sum skilyrði, t.d. um tíu ára óslitna búsetu fyrir fjölskyldubótum, þá er líklegt að þau mæti hindrunum við að uppfylla önnur skilyrði t.d. varðandi að nálgast gögn sem séu forsendur bótanna, s.s. að útvega skattnúmer til að hljóta framangreindan KEA styrk. Auk þess geti verið bið eftir afgreiðslu umsókna. Þá bera gögn um aðstæður í Grikklandi með sér að aðgengi einstaklinga með alþjóðlega vernd að vinnumarkaðnum sé erfitt, m.a. í ljósi mikils atvinnuleysis í landinu.

Þá telur kærunefnd að ljóst sé af framangreindri umfjöllun, að ýmsar hindranir séu á möguleikum flóttamanna til þess að fá útgefið skattnúmer í Grikklandi, en númerið er, líkt og áður hefur komið fram, nauðsynlegt til þess að starfa löglega í landinu, sækja um félagslegar bætur og gera leigusamning um húsnæði. Það sé því grunnforsenda þess að geta framfleytt sér löglega í Grikklandi. Það er þó mat kærunefndar að þrátt fyrir að einstaklingar með alþjóðlega vernd mæti ýmsum hindrunum við umsókn og útgáfu skattnúmers þá bendi gögn og skýrslur um Grikkland ekki til þess að það sé þeim ómögulegt.

Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi verður ráðið að kærendur hafi aðgang að endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu í Grikklandi, þ. á m. nauðsynlegum lyfjum og geðheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir það þá benda framangreindar upplýsingar um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi til þess að það geti verið kærendum vandkvæðum bundið að sækja þá þjónustu m.a. vegna álags á gríska heilbrigðiskerfinu og þeirra hindrana sem þau kæmu til með að þurfa að yfirstíga. Enn fremur gætu orðið tafir á því að kærendur og börn þeirra fái aðgang að þeirri þjónustu og úrræðum sem þau þurfi á að halda.

Kærendur eru hjón með þrjú ung börn á sínu framfæri. Í ljósi framangreindra aðgangshindrana að grunnþjónustu og lagalegum réttindum í Grikklandi og þeirrar stöðu sem ríkir nú þar í landi vegna átaka við landamærin og þeirrar fordæmalausu stöðu vegna Covid-19 faraldursins sem nú er uppi, sem að mati kærunefndar gæti leitt til enn frekari aðgangshindrana að heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu fyrir flóttamenn, að ástæða sé til að ætla að foreldrar með börn á framfæri sínu séu í verri aðstöðu en áður til þess að sækja sér réttindi sín, framfleyta fjölskyldunni og verða sér úti um húsnæði, og þar með tryggja grunnþarfir þeirra. Þá hefur B, líkt og áður greinir, þörf fyrir heilbrigðisþjónustu en hann hefur sótt vikulega tíma hjá sálfræðingi hér á landi. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar, í ljósi gagna málanna, að það sé nauðsynlegt að B hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna veikinda sinna. Að mati kærunefndar er ekki unnt að draga aðra ályktun af gögnum málanna um aðstæður í Grikklandi en að óvissa sé uppi um hvort kærendur munu greiðlega og án tafar hafa aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem B þurfi á að halda í ljósi fyrrgreindra upplýsinga um mögulegar aðgangshindranir að heilbrigðisþjónustu þar í landi og tafa við að nálgast hana. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að af gögnum verði ráðið að sökum andlegrar heilsu B sé það mikilvægt að hann haldi áfram þeirri meðferð sem hann hefur nú þegar hafið hér á landi með aðstoð sálfræðings.

Samkvæmt framangreindu er það því niðurstaða kærunefndar að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli þeirra sem mæla með því að mál þeirra verði tekið til efnismeðferðar hér á landi skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. sömu laga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og tilvitnuð ákvæði reglugerðar um útlendinga.

Að framangreindu virtu og með vísan til sjónarmiða um einingu fjölskyldunnar er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að taka beri mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi.  

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and their children‘s applications for international protection in Iceland.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                                                          Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta