Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 10/2022

Fimmtudaginn 24. mars 2022

A

gegn

Akureyrarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 20. október 2021, um synjun á umsókn hennar um styrk vegna námskostnaðar.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. ágúst 2021, sótti kærandi um styrk hjá Akureyrarbæ vegna námskostnaðar á grundvelli 25. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Umsókn kæranda var synjað með erindi velferðarsviðs, dags. 28. september 2021, með vísan til þess að hún hefði þegar fengið styrk á árinu. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs Akureyrarbæjar sem tók málið fyrir á fundi 20. október 2021 og staðfesti ákvörðun velferðarsviðs.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 6. janúar 2022. Með bréfi, dags. 11. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Akureyrarbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með erindi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2022. Greinargerð Akureyrarbæjar barst 7. mars 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2022. Athugasemdir bárust 22. mars 2022.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar hafi verið synjað á þeim grundvelli að hún hafi fengið styrk fyrr á árinu fyrir vorönn 2021. Velferðarsvið Akureyrarbæjar hafi vísað í gömul lög og reglur settar af bænum sem ekki eigi stoð í gildandi lögum. Ekki sé hægt að nálgast nýju reglurnar sem hafi verið samþykktar af bæjarstjórn Akureyrarbæjar þann 8. september 2021.

Margir brestir hafi verið í málsmeðferð sem og vinnubrögðum velferðarsviðs Akureyrarbæjar og brjóti það meðal annars í bága við 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Það megi telja víst að velferðarsvið Akureyrarbæjar hafi hvorki fylgt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. sömu laga, hvað varði rökstuðning, birtingu ákvörðunar né leiðbeiningar varðandi kæruheimild.

Þá sé í synjun velferðarsviðs Akureyrarbæjar vísað til 4. gr. eldri reglna Akureyrarbæjar sem ekki séu í gildi og hafi ekkert vægi. Enn fremur sé því ranglega haldið fram að styrkir vegna náms séu veitir árlega. Þá sé þar tekið fram að ákvörðun velferðarsviðs Akureyrarbæjar hefði orðið sú sama þar sem nýju reglurnar kveði á um að styrkir séu veittir einu sinni á ári, þrátt fyrir að þær upplýsingar séu hvorki veittar umsækjendum né séu yfirhöfuð aðgengilegar umsækjendum. Það teljist varla góðir stjórnsýsluhættir að umsækjendur hafi ekki kost á að kynna sér gildandi reglur sem fari um umsókn þeirra og þá sérstaklega þegar um synjun á þjónustu/styrk sé að ræða.

Kærandi krefjist þess að velferðarsvið Akureyrarbæjar verði gert að fara að settum lögum og ef taka eigi íþyngjandi ákvarðanir af hálfu velferðarsviðs Akureyrarbæjar sé það gert eftir gildandi lögum og reglum. Þá fari kærandi fram á að vinnubrögð sem þessi verði harðlega gagnrýnd, enda ekki boðlegir stjórnsýsluhættir af hálfu velferðarsviðs Akureyrarbæjar.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi telji að dylgjur séu hafðar um hana fyrir ástæðu kærunnar. Ástæða kærunnar sé sú að málsmeðferð sveitarfélagsins brjóti í bága við lög og reglur sem þeim beri að fylgja. Krafa kæranda sé sú að velferðarsvið Akureyrarbæjar fari að settum lögum og reglum við meðferð umsókna en kærandi telji að svo hafi ekki verið gert í máli hennar. Í eldri reglum sveitarfélagsins sé hvergi að finna orðalagið að styrkir til náms séu eingöngu veittir einu sinni á ári. Hins vegar sé þá reglu sem vitnað sé til í greinargerð sveitarfélagsins að finna í reglum fyrir breytingar árið 2016, eftir að ný viðmið hafi verið gefin út af velferðarráðuneytinu. Þær reglur hafi hvorki verið að finna á vefsíðu sveitarfélagsins né þær reglur sem um sé að ræða í fylgiskjali nr. 2.

Þá virðist velferðarsvið Akureyrarbæjar leggja að jöfnu styrk til náms og styrk til verkfæra- og tækjakaupa. Það hafi meðal annars verið grundvöllur synjunar umsóknar kæranda eins og sjá megi í greinargerðinni sem og í fylgiskjali nr. 1 með greinargerðinni. Sú túlkun fari gegn eigin reglum sveitarfélagsins sem og þeim leiðbeiningum sem þeim beri að fara eftir við samning reglnanna, enda sé strax í 1. gr. reglnanna samkvæmt fylgiskjali nr. 3 gerður greinarmunur á þessum tveimur þáttum. Sama megi segja í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Þegar kærandi hafi sótt um aftur í byrjun febrúar 2022 hafi ekki enn verið búið að setja inn gildandi reglur en þær hafi eflaust verið komnar í byrjun mars miðað við uppfærslutal vefsíðu sveitarfélagsins. Þá þyki kæranda það skjóta skökku við að segja að málsmeðferð sé í hávegum höfð hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar þegar litið sé til málsmeðferðar kærumáls þessa þar sem kærandi hafi þurft að hafa samband af fyrra bragði til að komast að niðurstöðu umsóknar. Áfram séu viðteknir hættir hafðir uppi hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar, staða á umsókn sé nú lokið frá og með 10. mars 2022. Kærandi viti ekki hvað það þýði, enda hafi sveitarfélagið ekki sent neinar upplýsingar aðrar en þær að staða inni á þjónustusíðu velferðarsviðs Akureyrarbæjar gefi til kynna að málinu sé lokið. Það sé á skjön við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þetta virðist byggja á því að um mistúlkun sé að ræða hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar þar sem notast sé við eldri reglur sveitarfélagsins sem ekki hafi verið í gildi. Að auki virðist velferðarsvið Akureyrarbæjar samþætta styrk til náms og styrk til verkfæra- og tækjakaupa en samkvæmt öllum gögnum sé um sitt hvorn styrkinn að ræða. Kærandi hafi sótt um styrk til náms og því telji kærandi að ekki hafi verið unnið rétt úr umsókn hennar.

III. Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar er vísað til þess að velferðarsvið Akureyrarbæjar kappkosti að veita vandaða og persónulega þjónustu þar sem málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga séu í hávegum hafðar. Ekki verði fallist á að hin kærða ákvörðun sé íþyngjandi líkt og kærandi haldi fram. Ljóst sé að hvort sem teknar séu íþyngjandi ákvarðanir eða ákvarðanir almennt sé ávallt farið að gildandi lögum og reglum. Skjólstæðingar félagsþjónustunnar hafi ávallt aðgang að ráðgjafa sínum, bæði með símtölum eða í gegnum tölvupósta. Þá séu reglur bæjarins birtar á vefsíðu bæjarins og það hafi verið svo í tilviki kæranda.

Akureyrarbær krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Krafan sé byggð á því að þegar ákvörðunin hafi verið tekin hafi nýlega verið búið að samþykkja nýjar reglur um styrk til verkfæra- og tækjakaupa. Þær reglur hafi öðlast gildi þann 21. september 2021. Við gerð þeirra hafi verið horft til leiðbeinandi reglna fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi verið miðað við umsóknardaginn og þar af leiðandi stuðst við eldri reglur Akureyrarbæjar sem ekki hafi verið búið að fella úr gildi. Þær reglur hafi mátt finna á heimasíðu bæjarins, auk þess sem kærandi hefði getað fengið aðgang að þeim beint í gegnum ráðgjafa sinn. Eðlilegt hafi þótt að styðjast við eldri reglurnar sem hafi verið í gildi þegar kærandi hafi sótt um, enda       hafi nýju reglurnar ekki verið ívilnandi fyrir kæranda. Þá sé einnig á því byggt að um heimildarákvæði sé að ræða. Þörf fyrir umbeðnum styrk sé metin hverju sinni og fyrir hafi legið að kærandi hafi þegar notið styrks fyrr á árinu. Í 4. gr. eldri reglna Akureyrarbæjar um mat á þörf og skilyrði fyrir styrk komi skýrt fram að styrkur til verkfæra- og tækjakaupa sé að öllu jöfnu ekki veittur til sama einstaklings oftar en á þriggja ára fresti og að árlega megi veita styrk til náms ef sýnt sé fram á gildi námsins fyrir viðkomandi einstakling, góða námsástundun og áætluð námslok.

Í greinargerð, dags. 15. október 2021, sem velferðarráð Akureyrarbæjar og kærandi hafi fengið vegna áfrýjunar kæranda til velferðarráðs, hafi verið vakin athygli á því að þó að nýjar reglur bæjarins hefðu verið samþykktar við afgreiðslu umsóknarinnar hefði það ekki haft nein áhrif á ákvörðun velferðarsviðs um að synja kæranda. Ljóst sé að sama niðurstaða hefði fengist með nýjum reglum. Nýju reglurnar innihaldi einnig heimildarákvæði, auk þess sem styrkur sé að öllu jöfnu ekki veittur til sama einstaklings nema á 24 mánaða tímabili. Þá hafi einnig verið bent á að horft sé til annarra sjónarmiða sem tekið sé tillit til við úthlutun styrkja eins og forgangsröðun en það sé aðeins ákveðin fjárhæð hvert ár sem sé eyrnamerkt þessum umsóknum.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan hafi verið rakið sé ítrekuð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Akureyrarbæjar um að synja umsókn kæranda um styrk vegna námskostnaðar á grundvelli 25. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Markmið laga nr. 38/2018 er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.

Í 25. gr. laganna er fjallað um styrki. Þar segir í 1. mgr. að sveitarfélögum sé heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

  1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
  2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Í 2. mgr. 25. gr. laganna kemur fram að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd styrkveitinganna á grundvelli ákvæðisins, svo sem skilyrði sem uppfylla þurfi til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um styrkina á grundvelli ákvæðisins og reglugerðarinnar.

Samkvæmt framangreindu veitir ákvæði 25. gr. laga nr. 38/2018 sveitarfélögum heimild til að veita styrki, meðal annars vegna námskostnaðar, og ákveðið svigrúm um hvort slíkir styrkir séu veittir og hvaða skilyrði séu fyrir veitingu þeirra. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er það mat að meginstefnu til lagt í hendur viðkomandi sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Akureyrarbær hefur nýtt þá heimild með setningu reglna sveitarfélagsins um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa. Þegar kærandi lagði inn umsókn voru í gildi reglur frá árinu 2016, settar á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í 2. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að markmið styrkjanna sé að auðvelda fötluðu fólki að mennta sig, viðhalda og bæta við færni sína og auka möguleika þess á aukinni félags- og atvinnulegri þátttöku

Samkvæmt 4. gr. reglnanna eru styrkir vegna náms veittir vegna námsgagna og námskeiðs- og skólagjalda. Nám skal vera hafið þegar sótt er um. Í 6. gr. reglnanna kemur fram að styrkupphæðir skuli aldrei nema meira en 75% af útlögðum kostnaði. Hvað varði námskeiðs- og skólagjöld séu að hámarki greiddar 150.000 kr. á ári og skuli styrkurinn greiddur eftir á.

Umsókn kæranda um styrk til greiðslu námskostnaðar var synjað með vísan til þess að hún hefði þegar fengið greiddan styrk á árinu 2021. Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ fékk kærandi greiddan styrk að fjárhæð 136.655 kr. þann 16. febrúar 2021.

Að mati úrskurðarnefndarinnar kemur ekki skýrt fram í þágildandi reglum sveitarfélagsins að eingöngu sé hægt að leggja inn eina umsókn á ári. Hins vegar kemur skýrt fram að hámarksstyrkur á ári geti numið 150.000 kr., að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar, og ljóst er að kærandi nýtti ekki þá heimild til fulls á árinu 2021. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun og vísa málinu til Akureyrarbæjar til mats á því hvort kærandi uppfylli skilyrði til greiðslu þess sem upp á vantar í hámarksstyrk.

 

                 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 20. október 2021, um að synja umsókn A, um styrk vegna námskostnaðar er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta