Hoppa yfir valmynd

Nr. 41/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 41/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21010011

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. desember 2020 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2020, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felldur verði úr gildi úrskurður Útlendingastofnunar um synjun dvalarleyfis og fyrirhugaða brottvísun. Til vara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.t

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæra fyrir lok kærufrests.

  1. Málsatvik og málsmeðferð

    Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. ágúst 2016. Kærandi mætti m.a. í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 16. ágúst það ár. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. ágúst sama ár, var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þann 15. janúar 2018 lagði kærandi fram umsókn um fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þar sem framlögð gögn voru talin stangast á við framburð kæranda við umsókn hans um alþjóðlega vernd var kærandi boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 20. apríl 2018. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 20. apríl 2020, var kæranda tilkynnt um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis með vísan til 59. gr. laga um útlendinga og almennra stjórnsýslureglna. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun vegna málsins þann 19. maí 2020. Þann 10. desember 2020 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Umboðsmaður kæranda móttók ákvörðunina þann 21. desember 2020. Var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála þann 31. desember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. janúar 2021.

  2. Ákvörðun Útlendingastofnunar

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2016. Við meðferð málsins kvaðst kærandi heita [...] og vera fæddur [...]. Kvað kærandi ástæður flótta vera að rekja til ofbeldis og aðkasts sem hann hafi sætt vegna kynhneigðar, en hann væri samkynhneigður. Í viðtali við kæranda greindi kærandi frá því að fjölskylda hans hafi reynt að neyða hann í hjónaband með konu en kærandi hafi neitað að ganga í hjónabandið. Eftir að fjölskylda kæranda hafi komist að því að hann væri samkynhneigður hafi hann verið beittur ofbeldi af fjölskyldunni og orðið fyrir aðkasti í samfélaginu. Hafi Útlendingastofnun talið að kærandi ætti á hættu að sæta ofsóknum vegna kynhneigðar í Pakistan og með ákvörðun stofnunarinnar þann 17. ágúst 2016 var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi og dvalarleyfi sem flóttamaður.

    Útlendingastofnun vísar til þess að þann 15. janúar 2018 hafi kærandi lagt fram umsókn um fjölskyldusameiningu fyrir flóttamann, en umsóknin hafi verið fyrir einstakling að nafni [...], fæddur [...], sem kærandi kvað vera son sinn. Óskaði kærandi eftir því að umsóknin yrði sett í flýtimeðferð þar sem [...] væri munaðarlaus í Pakistan eftir að móðir hans og fyrrum eiginkona kæranda hefði látist í [...] í nóvember 2017. [...] hafi verið sendur á munaðarleysingjahæli svonefndra [...] samtaka þar sem enginn í fjölskyldunni vildi neitt með hann hafa. Í hinni kærðu ákvörðun segir að við umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi kærandi ekki greint frá því að hafa verið í hjúskap og átt barn. Hafi kærandi verið boðaður til viðtals þann 20. apríl 2018 vegna misræmis í tengslum við umsókn um fjölskyldusameiningu og umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Í viðtalinu var kærandi spurður hvers vegna hann hafi ekki greint frá því að eiga son í heimaríki og hjúskaparstöðu sinni þegar umsókn hans um alþjóðlega vernd var til meðferðar hjá stofnuninni. Kvað kærandi ástæðuna vera þá að Útlendingastofnun hafi ekki spurt hann sérstaklega út í hjúskaparstöðu eða börn. Kærandi kvaðst hafa kvænst konu, sem væri frænka hans, þegar hann hafi verið um tvítugt og að hjúskapurinn hafi varað í eitt ár. Fyrrverandi eiginkona hans hafi haft forræði yfir syni þeirra þar til hún hafi látist í fyrrnefndu slysi. Í viðtalinu var vísað til þess að kærandi hafi verið spurður út í fjölskylduhagi í fyrsta viðtali hjá Útlendingastofnun þann 10. ágúst 2016 en hann hvorki greint frá hjúskapnum né því að hann ætti barn. Þá hafi kærandi fyllt út eyðublað til Þjóðskrár við birtingu ákvörðunar árið 2016 þar sem hann hafi skráð að hann hafi aldrei gengið í hjúskap. Þá hafi hann ekki skráð á eyðublaðið að hann ætti son.

    Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi hafi lagt fram ýmis gögn til stuðnings umsókn um fjölskyldusameiningu, m.a. fæðingarvottorð og vottorð um nafnabreytingu. Samkvæmt fæðingarvottorði sé faðir [...] skráður sem [...], en vottorð um nafnabreytingu beri með sér að þann 20. október 2014 hafi maður að nafni [...] breytt nafni sínu í [...]. Þá hafi fæðingardegi verið breytt úr [...] í [...]. Í viðtalinu þann 20. apríl 2018 kvaðst kærandi ekki hafa greint frá auðkennisbreytingunni árið 2016 þar sem hann hafi ekki verið spurður beint út í hana í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Kvaðst kærandi hafa breytt auðkenni sínu svo að lögreglan gæti ekki náð til hans í heimaríki ef hann næði ekki að flýja land.

    Greint er frá því að Útlendingastofnun hafi sent öll gögn sem kærandi hafi lagt fram til stuðnings umsókn um fjölskyldusameiningu í áreiðanleikakönnun hjá lögreglunni á Suðurnesjum, en skýrsla lögreglu um gögnin hafi legið fyrir þann 17. júní 2018. Lögregla hafi gert ýmsar athugasemdir við framlögð skjöl og í skýrslunni segir að líklegt sé að [...] heiti í raun [...] og sé fæddur [...]. Á það nafn hafi verið skráð VIS áritun í Eistlandi með gildistíma í ágúst 2016. Vegabréf umsækjandans hafi verið með gildistíma frá 1. janúar 2016 til 30. desember 2020 sem gefi til kynna að aðilinn hafi verið skráður með nafnið [...] í Pakistan árið 2016. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur einnig fram að kærandi hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um brot hér á landi. Vegna rannsóknarinnar hafi lögregla hér á landi aflað gagna frá Pakistan vegna kæranda, en fyrir liggi upplýsingaskýrsla frá PTN lögreglusamstarfinu (n. Politi- og Toll Norden). Í skýrslunni staðfesti pakistönsk yfirvöld að enginn aðili sé skráður í pakistönskum skráningarkerfum með auðkennið [...], fd. [...], með CNIC númer [...]. Hins vegar sé annar aðili með þetta sama CNIC númer, en hans auðkenni sé [...]. Þá sé [...] giftur og eigi þrjú börn sem séu fædd árin [...]. Hafi það verið mat pakistanskra yfirvalda að fjölmörg gögn sem kærandi hafi lagt fram séu fölsuð, m.a. fæðingarvottorð [...], hjúskaparvottorð, skilnaðarvottorð, dánarvottorð barnsmóður hans og vottorð frá [...] samtökunum um ættleiðingu á syni kæranda. Fram kemur að kærandi hafi mætt til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 19. maí 2020, en þar hafi upplýsingar um auðkenni hans m.a. verið bornar undir hann. Kærandi hafi greint frá því að hafa sett auglýsingu í dagblað þar sem hann hafi tilkynnt almenningi um nafnabreytinguna en ekki breytt nafninu sínu hjá stjórnvöldum. Í viðtalinu neitaði kærandi því að eiga fleiri börn en [...]. Kvað hann börnin sem væru skráð hans börn hjá pakistönskum yfirvöldum vera börn bróður hans, sem væri illa við kæranda.

    Með vísan til framangreinds var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi heiti [...] og að fæðingardagur hans sé [...]. Kærandi hafi þannig logið til um auðkenni sitt þegar hann hafi komið hingað til lands árið 2016. Í ákvörðuninni er tekið fram að gögn til stuðnings umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu hafi verið aflað af fjölskyldumeðlimum kæranda, þ. á m. föður hans. Þá sé yngri bróðir kæranda staddur hér á landi og hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd, en hann hafi lagt fram yfirlýsingu um að hann og kærandi séu á „góðum nótum“. Var það mat Útlendingastofnunar, í ljósi hins ríka innbyrðis ósamræmis í frásögn kæranda, falsaðra gagna sem kærandi lagði fram og niðurstöðu um raunverulegt auðkenni kæranda, að framburður kæranda af atburðum í heimaríki og ástæðum flótta væri ótrúverðugur í heild sinni. Taldi Útlendingastofnun að framangreindar upplýsingar hefðu haft verulega þýðingu við ákvarðanatöku við umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og yrði að líta svo á að forsendur fyrir ákvörðun um að veita kæranda vernd væru brostnar.

    Vísaði Útlendingastofnun til þess að stjórnvöld gætu beitt ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar um afturköllun. Var það mat Útlendingastofnunar, með vísan til þess sem rakið hefur verið, að kærandi hafi við umsókn um alþjóðlega vernd, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar um auðkenni sitt og að framburður hans um aðstæður í heimaríki væri með öllu ótrúverðugur. Gæti kærandi því ekki haft réttmætar væntingar um að halda vernd sinni hér á landi. Afturkallaði Útlendingastofnun því alþjóðlega vernd kæranda á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar. Tók Útlendingastofnun því næst afstöðu til þess hvort kærandi ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á þeim grundvelli.

     

  3. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur fram að hann eigi barnið [...] með fyrrverandi eiginkonu sinni. Samkvæmt skráningarkerfum í Pakistan komi fram að kærandi eigi fleiri börn, m.a. stúlku sem sé fædd í apríl [...]. Kærandi telur það undarlegt að Útlendingastofnun telji að fæðingarvottorð stúlkunnar sé gilt þar sem kærandi hafi verið staddur hér á landi á getnaðartíma hennar. Þá hafi kærandi verið í farbanni árið 2019 auk þess sem konan sem sé sögð móðir stúlkunnar hafi ekki komið til Íslands árið 2019. Kveðst kærandi aðeins hafa eignast eitt barn í hjúskap sínum og telur að möguleiki sé á því að hin börnin hafi verið rangfeðruð eftir að skilnaður hafi gengið í gegn árið [...].

    Kærandi byggir á því að form- og efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun. Þá hafi Útlendingastofnun brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku hinnar kærðu ákvörðunar, en stofnuninni hafi borið að meta og vega hagsmuni kæranda af því að dvelja hér á landi við hagsmuni hins opinbera af því að synja honum um dvalarleyfi og brottvísa honum frá landi. Í greinargerð mótmælir kærandi öllum röksemdum sem Útlendingastofnun leggur til grundvallar við synjun á dvalarleyfi samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að verulegt misræmi sé á niðurstöðum Útlendingastofnunar þegar litið sé til þeirra ákvörðunarorða sem niðurstaðan árið 2016 hafi verið byggð á og þeirra röksemda sem Útlendingastofnun byggi núverandi synjun á. Í ákvörðun árið 2016 hafi Útlendingastofnun vísað til alvarlegra mannréttindabrota í Pakistan en núverandi synjun byggi m.a. á því að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi sem kveðið sé á um í 74. gr. laga um útlendinga. Kveður kærandi að eina misræmið í gögnum Útlendingastofnunar hafi verið nafnabreyting sem hafi átt sér stað á árum áður en kærandi hafi haft ríkar ástæður til þeirrar breytingar. Byggir kærandi á því að enginn grundvöllur sé fyrir mati Útlendingastofnunar um að draga kynhneigð hans í efa, en hann sé í hjúskap með [...] manni.

    Kærandi telur ljóst að yfirvöldum sé ekki stætt að senda hann aftur til heimalands vegna ofsókna sem hann hafi orðið fyrir sem samkynhneigður maður. Óháð því hvert hans rétta nafn sé eða fæðingardagur muni hann ávallt verða fyrir sömu ofsóknunum og hann hafi orðið fyrir áður en hann hafi flúið land. Gera megi ráð fyrir því að ofsóknirnar gætu orðið meiri en áður í ljósi þess að kærandi sé í samkynhneigðu hjónabandi. Þá byggir kærandi á því að það sé óheimilt að endursenda eða vísa honum á brott til lands þar sem líf hans eða frelsi kunni að vera í hættu, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Ofbeldi gegn minnihlutahópum hafi aukist frá árinu 2018 og kærandi sé í lífshættu í heimaríki. Byggir kærandi á því að hann hafi mátt þola mikið ofbeldi og ofsóknir í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun alþjóðlegrar verndar

Í 48. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um heimildir til afturköllunar alþjóðlegrar verndar. Getur alþjóðleg vernd m.a. verið afturkölluð ef flóttamaður hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns eða hann hefur sjálfviljugur sest að á ný í því landi sem hann yfirgaf og dvaldist ekki í vegna ótta við ofsóknir. Í athugasemdum við 48. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið eigi sér stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skuli túlkun fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók flóttamannastofnunar. Í handbók Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna segir að ákvæði C-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins bindi enda á réttarstöðu flóttamanns og kveði á um skilyrði þess að að flóttamaður hætti að vera flóttamaður (mgr. 111). Þá kemur fram að í C-lið 1. mgr. flóttamannasamningsins sé ekki fjallað um ógildingu réttarstöðu flóttamanns. Svo geti farið að eftir viðurkenningu á réttarstöðu flóttamanns leiði staðreyndir í ljós að viðkomandi hafi ekki átt að vera viðurkenndur sem flóttamaður. Til dæmis megi nefna ef réttarstaða flóttamanns hafi verið fengin með því að gefa villandi upplýsingar. Í slíkum tilvikum sé ákvörðun um réttarstöðu flóttamanns að öllu jöfnu ógilt (mgr. 117).

Árið 2003 gaf Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna út viðmið við ógildingu á réttarstöðu flóttamanns (Legal and Protection Policy Research Series – Cancellation of Refugee Status (UNHRC Department of International Protection, mars 2003)). Þar kemur m.a. fram að ógilding á réttarstöðu flóttamanns eigi við þegar stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingur sem hefur fengið viðurkennda stöðu sem flóttamaður hafi ekki átt rétt á því, t.a.m. þar sem hann hafi ekki haft þörf fyrir vernd. Segir enn fremur að það sé ekki tilgangur flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna að veita einstaklingum alþjóðlega vernd sem ekki þarfnist slíkrar verndar og að unnt sé að leiðrétta þær ákvarðanir sem hafi verið byggðar á röngum grundvelli. Er vísað til þess að í flóttamannasamningnum séu ekki ákvæði er lúti beint að ógildingu. Það þýði hins vegar ekki að enginn lagagrundvöllur sé fyrir því að ógilda ákvörðun um viðurkenningu á réttarstöðu flóttamanns. Við mat á því hvort ógilda megi ívilnandi stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið byggð á röngum grunni verði m.a. að horfa til sjónarmiða um réttaröryggi og lögmætar væntingar. Almennt sé viðurkennt að ógilda megi stjórnvaldsákvarðanir sem fengnar hafi verið með sviksamlegum hætti og að sú regla geti verið lögfest í útlendinga- eða stjórnsýslulöggjöf.

Í hinni kærðu ákvörðun byggði Útlendingastofnun afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda á óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Í ákvörðuninni er m.a. vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6073/2010, en þar segir að heimildir stjórnvalda til að afturkalla ákvarðanir séu ekki tæmandi taldar í 25. gr. stjórnsýslulaga. Vísar umboðsmaður til þess að stjórnvöld hafi óskráðar heimildir til að taka aftur lögmætar ákvarðanir sínar, að hluta eða í heild, sem þegar hafi verið birtar. Þegar tekin sé afstaða til þess hvort stjórnvald hafi slíka heimild á óskráðum grundvelli skipti m.a. máli hvaða farvegi verkefni stjórnvaldsins sé markaður í lögum. Hefur umboðsmaður auk þess lagt til grundvallar að heimildir til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar á ólögfestum grundvelli ráðist einkum af hagsmunamati þar sem hagsmunir málsaðilans og tillit til réttmætra væntinga hans af því að ákvörðun standi óbreytt sé metin gagnvart þeim hagsmunum sem mæli með því að ákvörðunin verði afturkölluð.

Með vísan til atvika málsins telur kærunefnd ljóst að ákvæði 48. gr. laga um útlendinga um afturköllun alþjóðlegrar verndar komi ekki til skoðunar í málinu heldur komi aðeins til álita að afturkalla réttarstöðu kæranda sem flóttamanns telji kærunefnd hann hafa veitt stjórnvöldum villandi eða rangar upplýsingar til stuðnings umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi. Sú ákvörðun hvíli á óskráðri reglu stjórnsýsluréttar um afturköllunarheimildir, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem umboðsmaður Alþingis hefur lagt til grundvallar.

Við komu hingað til lands árið 2016 kvaðst kærandi eins og áður greinir bera nafnið [...] og vera fæddur [...]. Með vísan til þess sem rakið er í ákvörðun Útlendingastofnunar um rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á gögnum málsins, m.a. sem kærandi lagði fram til stuðnings fjölskyldusameiningu við [...], sem og upplýsingaskýrslu frá Pakistan í gegnum PTN lögreglusamstarfið, er það mat kærunefndar að enginn vafi leiki á því að kærandi heiti í raun [...] og sé fæddur [...] í Pakistan. Þá telur kærunefnd að leggja megi til grundvallar, með vísan til þess sem fram kemur í umræddri upplýsingaskýrslu, að kærandi sé kvæntur, að eiginkona hans sé á lífi og að þau eigi saman þrjú börn. Að mati kærunefndar gat kærandi ekki veitt trúverðugar skýringar á þessum atriðum í viðtölum hjá Útlendingastofnun heldur leitaðist við að villa um fyrir stjórnvöldum með svörum sínum. Eins og fram er komið var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hann væri samkynhneigður og hefði orðið fyrir ofbeldi í heimaríki af þeim sökum, aðallega af hálfu fjölskyldu sinnar. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er ljóst að kærandi hefur m.a. millifært peninga til föður síns í heimaríki, en í viðtali hjá Útlendingastofnun gaf kærandi óljósar skýringar á þeim millifærslum. Þá liggur ljóst fyrir að yngri bróðir kæranda hefur lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og kærandi hefur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að þeir eigi í góðu sambandi.

Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki fært fullnægjandi sönnur á að hann hafi breytt nafni sínu í heimaríki með lögformlegum hætti, en kærandi hefur aðeins lagt fram afrit af skjölum sem hann kveður liggja til grundvallar breytingunni. Samkvæmt því sem rakið hefur verið telur kærunefnd því ljóst að kærandi hafi með vísvitandi hætti greint ranglega frá auðkenni sínu og fjölskylduaðstæðum í heimaríki við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2016. Við þetta bætist að kærandi hefur, í tengslum við umsókn um fjölskyldusameiningu hér á landi og í viðtölum hjá Útlendingastofnunar vegna þeirrar umsóknar og hugsanlegrar afturköllunar á alþjóðlegri vernd hans hér á landi, greint ranglega frá fjölmörgum atriðum er varða auðkenni hans og fjölskyldu í heimaríki, svo sem meintu dauðsfalli fyrrverandi eiginkonu sinnar og vistun [...] á munaðarleysingjahæli. Renna framangreind atriði enn frekari stoðum undir það mat að kærandi hafi veitt Útlendingastofnun rangar upplýsingar um ástæður þess að hann yfirgaf heimaríki. Að mati kærunefndar eru framangreindar upplýsingar þess eðlis að þær kippa stoðum undan trúverðugleika frásagnar kæranda um þau atvik sem hann bar fyrir sig og urðu grundvöllur fyrir því að Útlendingastofnun viðurkenndi stöðu hans sem flóttamanns árið 2016, svo sem um kynhneigð hans og ofsóknir af hálfu fjölskyldu hans. Hefur kærandi þannig gert tilkall til og öðlast alþjóðlega vernd með sviksamlegum hætti.

Við meðferð málsins óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda um þann hjúskap sem hann vísar til í greinargerð sinni. Í svörum kæranda kvaðst hann hafa kynnst eiginmanni sínum árið 2017 og lagði hann fram vottorð um að þeir hefðu gengið í hjúskap um mitt ár 2020. Þótt kærandi sé nú í hjúskap telur kærunefnd að horfa verði til þeirra upplýsinga sem kærandi gaf íslenskum stjórnvöldum við komu hingað til lands árið 2016. Í því sambandi horfir kærunefnd m.a. til framangreindra atriða um trúverðugleika kæranda og þess að nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. KNU20080015, sbr. úrskurð 375/2020, að hjúskapur sem um ræddi í því máli, sem var á milli kæranda og aðila þess máls, hafi verið til málamynda og eingöngu stofnað til hans í þeim tilgangi að afla aðila þess máls dvalarleyfis og til að styðja við frásögn hans hvað varðaði kynhneigð hans. Þá telur kærunefnd einnig að líta megi til þess að kærandi hafi stofnað til annars hjúskapar árið 2020. Til hjúskaparins var stofnað eftir að Útlendingastofnun hafði tilkynnt honum um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar og hann mætt til viðtala hjá stofnuninni vegna þess máls og umsóknar um fjölskyldusameiningu við [...]. Er það því mat kærunefndar, með vísan til alls þess sem rakið hefur verið, að vægi þess að kærandi sé nú í hjúskap með öðrum manni sé takmarkað í fyrirliggjandi samhengi.

Við mat á lögmæti afturköllunar Útlendingastofnunar á veitingu réttarstöðu flóttamanns, en sú ákvörðun sætir kæru í máli þessu, verður eins og áður segir að hafa hliðsjón af sjónarmiðum um hagsmuni málsaðila af því að upphafleg ákvörðun standi óbreytt gegn hagsmunum af afturköllun, auk sjónarmiða um réttmætar væntingar. Hvað þessi atriði snertir telur kærunefnd, með vísan til þess sem rakið hefur verið, að hagsmunir þess kerfis sem lýtur að veitingu alþjóðlegrar verndar til handa einstaklingum sem raunverulega teljast flóttamenn í skilningi laga um útlendinga og þarfnast verndar gegn ofsóknum vegi mun þyngra en hagsmunir kæranda af því að hann haldi réttarstöðu flóttamanns. Þá hafi kærandi, sem hafi lagt fram umsókn um vernd í vondri trú, ekki getað vænst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem honum var veitt alþjóðleg vernd stæði óbreytt. Hefur kærunefnd litið til þess að í málinu liggja fyrir nýjar upplýsingar sem varpa öðru ljósi á aðstæður kæranda og að þær upplýsingar hefðu haft veruleg áhrif á mat og niðurstöðu umsóknar hans hefðu þær legið fyrir við meðferð Útlendingastofnunar á umsókn hans um alþjóðlega vernd í upphafi.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að afturkalla ákvörðun, dags. 17. ágúst 2016, um veitingu alþjóðlegrar verndar til handa kæranda, á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun, og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kom í 59. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun stofnunarinnar, að því er varðar afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda, því staðfest.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skuli stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við. Þó svo um sé að ræða afturköllun í máli þessu á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar en ekki afturköllun á grundvelli 48. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd rétt, eins og gert var í hinni kærðu ákvörðun, að fram fari mat á því hvort kærandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsettur í Punjab héraði í heimaríki áður en hann kom hingað til lands. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að kærandi glími við heilsufarsvandamál sem gætu leitt til þess að honum yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Að því er varðar almennar aðstæður heimahéraði kæranda í Pakistan hefur kærunefnd meðal annars kynnt sér eftirfarandi skýrslur:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020).

Bera skýrslurnar með sér að Punjab sé talið eitt af öruggustu héröðunum í Pakistan. Að mati kærunefndar benda skýrslurnar þannig ekki til þess að aðstæður þar séu með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli alvarlegra almennra aðstæðna á svæðinu. Með vísan til þess sem rakið hefur verið um mat kærunefndar á trúverðugleika frásagnar kæranda að því er varðar meinta samkynhneigð og aðstæður hans þar að lútandi telur kærunefnd að ekki séu efni til að veita kæranda dvalarleyfi vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Hvað varðar þær aðstæður kæranda í heimaríki, sem urðu grundvöllur alþjóðlegrar verndar hans hér á landi, telur kærunefnd að röng og villandi upplýsingagjöf hans til stjórnvalda í tengslum við þau atvik sem rakin hafa verið kippi stoðum undan frásögn hans um þá atburði. Í tölvubréfi til kærunefndar við meðferð málsins kvað kærandi að kynhneigð hans væri það eina sem kæmi í veg fyrir að hann gæti búið í heimaríki. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Verður því staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að veita kæranda ekki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda og að teknu tilliti til trúverðugleikamats telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda.

Frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda er hann ekki staddur á landinu. Er því ekki ástæða til að gefa honum frest í samræmi við 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                    Sindri M. Stephensen

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta