Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 412/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 412/2019

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. október 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. ágúst 2019 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá X 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur fengið greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. ágúst 2019, voru greiðslur heimilisuppbótar stöðvaðar frá X 2019 með þeim rökum að sonur kæranda væri skráður til heimilis á sama stað og hún í þjóðskrá og því virtist hún ekki uppfylla það skilyrði heimilisuppbótar að vera ein um heimilisrekstur. Í bréfinu er kæranda meðal annars leiðbeint um í hvaða tilvikum heimilt er að greiða heimilisuppbót fram að 20 ára aldri barns. Þá var kæranda veittur fjórtán daga frestur til að andmæla.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. október 2019. Með bréfi, dags. 9. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. desember 2019, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til að styðja málatilbúnað um erfiðar fjárhagaðstæður sonar hennar. Með tölvupósti 6. og 14. janúar 2020 bárust gögn frá kæranda sem voru send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2020. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst 5. febrúar 2020 og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. febrúar 2020.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki vitað að hún hafi getað andmælt ákvörðun Tryggingastofnunar. Kærandi hafi haldið að ástæðan fyrir því að heimilisuppbótin hafi verið tekin af henni hafi verið greiðsla lífeyris sem að hún hafi fengið vegna veikinda sonar hennar. Kærandi hafi fengið litla sem enga fjárhagslega hjálp fyrir son sinn frá félagsþjónustunni vegna heimilis-, bæklunar- og geðlæknaþjónustu. Sonur hennar hafi fengið nýlega styrk upp á 55.000 kr. fyrir X læknaþjónustu sem hafi komið sér vel.

Sonur kæranda hafi slasast alvarlega í X slysi X þar sem […]. Í kjölfarið hafi hann verið óvinnufær og ófær að stunda nám. Hann hafi fengið um 100.000 krónur í fjárhagsaðstoð en ekki alltaf þar sem að hann sé ekki alltaf fær um að mæta til læknis vegna X. Ef sonur hennar byggi ekki hjá henni fengi hann um 160.000 krónur í fjárhagsaðstoð en þá hefði hann ekki efni á leiguhúsnæði né uppihaldi. Kærandi gæti samt aldrei séð son sinn búa einan.

Farið sé fram á að uppbótin verði ekki tekin strax, sonur hennar sé vonandi að fá pláss á B. Skattframtöl sýni fram á engar tekjur. Kærandi voni að þau þurfi ekki að hafa enn meiri fjárhagsáhyggjur, ástandið sé nú þegar slæmt. Þá er greint frekar frá erfiðum fjölskylduaðstæðum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun á greiðslu heimilisuppbótar.

Kærandi, sem sé örorkulífeyrisþegi, hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar með umsókn, dags. 27. ágúst 2018, sem hafi verið samþykkt frá X 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2019, hafi heimilisuppbót kæranda verið stöðvuð frá X 2019, þar sem að frá þeim tíma hafi hún ekki lengur verið talin uppfylla það skilyrði laga og reglugerðar að vera ein um heimilisrekstur. Nánar tiltekið hafi heimilisuppbótin verið stöðvuð þar sem að við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar hafi komið í ljós að X, kt. X, væri einnig skráður til heimilis á sama stað og kærandi.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé fjallað um heimilisuppbót. Í 7. gr. reglugerðarinnar segi:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

1.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.

2.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

3.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.

Ef heimilismaður er á aldrinum 18-20 ára og í fullu námi skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann. Þá skal einstaklingur sem er á aldrinum 20-25 ára og stundar nám fjarri lögheimili sínu ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við aðra einstaklinga á skráðu lögheimili sínu og öfugt ef hann hefur sannarlega tímabundið aðsetur annars staðar.“

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Í þessu máli sé sonur kæranda skráður búsettur á sama lögheimili og hún. Kærandi viðurkenni það í kæru að sonur hennar búi hjá henni, hann sé hvorki í námi né vinnu en hafi fengið fjárhagsaðstoð.

Í reglugerð nr. 1200/2018 segi að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun á heimilisuppbót til kæranda vegna breyttra aðstæðna hennar, hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga, þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingi hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 5. febrúar 2020, ítrekar stofnunin það sem fram komi í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.

Ljóst sé að ýmis úrræði séu fyrir son kæranda eins og til dæmis fjárhagsaðstoð, sem hann hafi fengið og ekkert sem segi að hann eigi ekki rétt á slíkri aðstoð aftur. Þá vilji Tryggingastofnun benda á, miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem koma fram í innsendu læknisvottorði, að sonur kæranda ætti að kanna rétt sinn til endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun.

Að öðru leyti vísar stofnunin til fyrri greinargerðar sinnar í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá X 2019.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1200/2018, var sett á grundvelli 5. mgr. 9. gr., sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 7. gr. reglugerðarinnar, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.

Ef heimilismaður er á aldrinum 18-20 ára og í fullu námi skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann. Þá skal einstaklingur sem er á aldrinum 20-25 ára og stundar nám fjarri lögheimili sínu ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við aðra einstaklinga á skráðu lögheimili sínu og öfugt ef hann hefur sannarlega tímabundið aðsetur annars staðar.“

Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands er sonur kæranda, sem er fæddur árið X, skráður til heimilis á sama lögheimili. Kærandi hefur ekki andmælt því en byggir á því að þrátt fyrir að sonur hennar búi hjá henni njóti hún í raun ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu og greinir hún frá erfiðleikum hans og fjárhagsvandræðum. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru þá hefur sonur kæranda þegið greiðslur frá félagsþjónustunni.

Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Kærandi lagði fram upplýsingar um greiðslur X til sonar hennar, dags. 4. september og 5. nóvember 2019, að fjárhæð 100.634 kr. í hvort skipti og læknisvottorð C, dags. 13. janúar 2020, þar sem fram kemur að sonur kæranda sé óvinnufær sökum X sjúkdóms og […] og verði það áfram. Auk þess lagði kærandi fram upplýsingar um að sonur hennar sé að bíða eftir þjónustu hjá […].

Úrskurðarnefndin telur að einstaklingar eldri en 18 ára sem búi saman teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Samkvæmt framlögðum upplýsingum frá kæranda hefur sonur hennar fengið 100.634 kr. greiddar í fjárhagsaðstoð frá X annars vegar í september og hins vegar í nóvember 2019. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að sonur kæranda eigi rétt á fjárhagsaðstoð frá X. Þá hefur Tryggingastofnun leiðbeint kæranda um að sonur hennar geti kannað rétt sinn til endurhæfingarlífeyris frá stofnuninni. Að því virtu að sonur kæranda er á fullorðinsaldri og hefur tekjur er ekki fallist á að kærandi njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá 1. september 2019 er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, frá X 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta