Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 550/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 550/2020

Fimmtudaginn 11. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. október 2020, um 67% bótarétt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 26. desember 2019. Umsókn kæranda var samþykkt 28. febrúar 2020 og bótaréttur metinn 67%. Með beiðni, dags. 15. september 2020, óskaði kærandi eftir afturvirkum greiðslum atvinnuleysisbóta frá 1. desember 2018 með vísan til þess að hann hafi verið atvinnulaus frá þeim tíma. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. október 2020, var þeirri beiðni synjað á grundvelli 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fór fram á endurupptöku þeirrar ákvörðunar og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2020, var þeirri beiðni synjað. Í kjölfarið fór kærandi fram á að sækja í geymdan bótarétt og lagði fram læknisvottorð um vinnufærni. Með erindi Vinnumálastofnunar 10. nóvember 2020 var kæranda tilkynnt að gögn frá honum hefðu ekki áhrif á fyrri ákvarðanir stofnunarinnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2020. Með bréfi, dags. 29. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. desember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að ekki hafi verið tekið mið af því að kærandi hafi verið slasaður frá 24. nóvember 2017 til 15. desember 2019. Samkvæmt 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi kærandi rétt á því að geyma sinn rétt og að hann hafi 12 mánuði til þess frá degi vinnufærnis. Afstaða Vinnumálastofnunar sé ekki rökrétt og synjun á beiðni kæranda um endurupptöku hafi ekki verið rökstudd.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 26. gr. laga nr. 54/2006 þar sem segi að hinn tryggði geti geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann hafi verið óvinnufær. Í 2. og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 54/2006 segi:

„Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu 24 mánaða frá þeim tíma er hinn tryggði sannanlega hætti störfum og tímabil skv. 1. mgr. hófst.

Vottorð sérfræðilæknis er annaðist hinn tryggða skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem meðal annars skal koma fram hvenær hann varð óvinnufær og hvenær hann varð vinnufær á ný.“

Í fyrirliggjandi læknisvottorði komi fram að kærandi hafi verið í ósamfelldu eftirliti og meðferð á ýmsum heilsugæslustöðvum vegna krónískra sjúkdóma. Ekkert komi fram um slys eða óvinnufærni af þeim sökum. Samkvæmt læknisvottorði sé erfitt að votta vinnufærni kæranda en læknir telji að hann sé vinnufær frá 15. desember 2019. Ekki komi fram á vottorði hvenær kærandi hafi orðið óvinnufær. Þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi læknisvottorð eigi kærandi ekki rétt á geymdum bótarétti samkvæmt 26. gr. laga nr. 54/2006.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða telji Vinnumálastofnun að rétt hafi verið að hafna beiðni kæranda um að líta til síðustu 24 mánaða frá þeim tíma er hann hafi hætt störfum vegna óvinnufærni við mat á bótarétti hans, enda liggi ekki fyrir hvenær kærandi hafi orðið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss. Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna skuli beiðni kæranda um endurútreikning á bótarétti hans.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um 67% bótarétt kæranda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Í IV. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindu getur umsækjandi um atvinnuleysisbætur einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef hann hefur reiknað sér endurgjald í skemmri tíma en 12 mánuði á ávinnslutímabili. Bótaréttur kæranda var byggður á framangreindri reiknireglu en kærandi hafði greitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi á tímabilinu apríl til nóvember 2018. Varðandi tímabilið janúar til mars 2018 þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að kærandi hafi greitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi þá mánuði.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi verið slasaður á tímabilinu 24. nóvember 2017  til 15. desember 2019 og því eigi hann rétt á að sækja í geymdan bótarétt. Í V. kafla laga nr. 54/2006 er kveðið á um tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum og hverfur af vinnumarkaði verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur kom fram í 2. mgr. 26. gr. að við útreikninga á ávinnslutímabili samkvæmt 15. eða 19. gr. þegar komi til geymdrar atvinnuleysistryggingar skyldi líta til síðustu tólf mánaða frá þeim tíma er hinn tryggði sannanlega hætti störfum og tímabil samkvæmt 1. mgr. hófst. Þá segir í 4. mgr. 26. gr. að vottorð sérfræðilæknis er annaðist hinn tryggða skuli fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem meðal annars skuli koma fram hvenær hann varð óvinnufær og hvenær hann varð vinnufær á ný.

Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð frá lækni á Heilsugæslunni í B, dags. 24. febrúar 2020. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi verið í eftirliti og meðferð á ýmsum heilsugæslustöðvum undanfarin ár vegna krónískra sjúkdóma. Lítil samfella hafi verið í þeim samskiptum og kærandi sé ekki skráður á sérstakan heimilislækni. Samskiptin hafi einkennst af rafrænum samskiptum án komu á stofu. Ljóst er að fyrirliggjandi vottorð uppfyllir hvorki þær kröfur sem fram koma í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 54/2006, enda er það ekki skrifað af þeim sérfræðilækni sem annaðist kæranda vegna slyssins sem hann vísar til né kemur þar fram hvenær kærandi varð óvinnufær. Þá bendir úrskurðarnefndin á að í fyrirliggjandi samskiptasögu kemur fram að þrátt fyrir að fullnægjandi vottorði yrði skilað myndi það ekki hafa áhrif þar sem enga vinnu/engan bótarétt væri að sækja á ávinnslutímabili kæranda.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 67% bótarétt kæranda staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um 67% bótarétt A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta