Hoppa yfir valmynd

Nr. 272/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 272/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030048

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. mars 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. apríl 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. febrúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 20. desember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. mars 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 19. mars 2019. Kærunefnd barst sameiginleg greinargerð kæranda og bróður hans þann 1. apríl 2019.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem aðilar tengdir yfirvöldum í heimabæ hans séu á eftir honum og að hann geti ekki fengið viðeigandi vernd.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Af sameiginlegri greinargerð kæranda og bróður hans má ráða að hann byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd aðallega á aðstæðum bróður síns en kærandi sé í hættu í heimaríki vegna þeirra atburða er tengist bróður hans.

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og bróður hans, [...], kemur fram að bróðir kæranda hafi starfað sem lögreglumaður í heimaríki bræðranna frá árinu 2007 og gegnt stöðu teymisstjóra teymis er hafi unnið gegn glæpum. Hafi bróðir kæranda handtekið þrjá menn árið 2015 sem hafi leitt til þess að þeir hafi verið dæmdir í fangelsi. Einu og hálfu ári síðar hafi bróðir kæranda fengið símtal frá einum af mönnunum í málinu, [...], sem þá hafi enn setið í fangelsi. Hafi maðurinn tjáð bróður kæranda að hann myndi fá að kenna á því vegna þáttar síns í málinu. Þann 10. janúar 2018 hafi bróðir kæranda fengið annað símtal frá [...]sem hafi greint frá því að hann og samverkamenn hans væru lausir úr fangelsi og væri betra fyrir kæranda að gefa sig fram við þá ellegar myndu þeir hafa uppi á honum. Hafi hann einnig hótað bróður kæranda með því að þeir vissu hvar kærandi ynni og gætu auðveldlega nálgast hann og drepið. Fimm dögum síðar hafi mennirnir ruðst inn á lóð kæranda og fjölskyldu hans og skotið á húsið. Kærandi og bróðir hans hafi flúið upp á þak og þaðan hafi þeir komist í burtu. Þeir hafi tekið leigubíl til Arbat og fengið að gista hjá kunningja bróður kæranda. Þar hafi kærandi og bróðir hans tekið ákvörðun um að yfirgefa heimaríki og farið til Tyrklands þann 20. janúar 2018. Í greinargerð kemur fram að kærandi og bróðir hans muni ekki geta leitað aðstoðar yfirvalda, m.a. vegna þess að umræddir menn tilheyri Shwankara ættbálknum sem hafi tengsl bæði við PUK flokkinn og við KDP flokkinn.

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og bróður hans er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í Írak og vísar kærandi í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu m.a. morð af hálfu öryggissveita ríkisins, mannshvörf, kúganir, pyndingar, illvígar og lífshættulegar aðstæður í fangelsum, handahófskenndar frelsissviptingar, inngrip í einkalíf fólks, takmarkanir á tjáningarfrelsi, víðtæk spilling hins opinbera og umtalsverð mildun refsinga fyrir svokölluð heiðursmorð. Í Írak séu dauðarefsingar við lýði og hafi landið eina hæstu tíðni aftaka í heiminum. Þá sé afstaða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi endursendingar til Íraks á þann veg að hún hvetji ríki til að snúa ekki nokkrum Íraka aftur til heimaríkis gegn vilja sínum, sem komi frá svæðum í Írak sem séu undir áhrifum af stríðsátökum, teljist óörugg eftir að hafa verið losuð undan stjórn ISIS eða séu undir stjórn ISIS .

Þá er í greinargerð fjallað almennt um aðstæður á yfirráðasvæði Kúrda í Írak. Fram kemur að með breytingu á stjórnarskrá Íraks árið 2005 hafi yfirráðasvæði Kúrda í Írak (e. the Kurdistan Region of Iraq (KRI)) verið viðurkennt sem sjálfstjórnarsvæði með eigin stofnanir, svo sem svæðisbundin stjórnvöld, þing, forsetaembætti og öryggissveitir. Vísað er til þess að með atkvæðagreiðslu, í september 2017, um stofnun sjálfstæðs ríkis á yfirráðasvæði Kúrda í Írak hafi magnast upp á ný spenna á milli kúrdíska minnihlutans og yfirvalda í Bagdad og hafi átök átt sér stað í kjölfarið. Samkvæmt heimildum eigi íröksk og kúrdísk stjórnvöld í viðræðum um ágreiningsefni sín. Einnig sé efnahagsástandið í Kúrdistan á niðurleið og þar ríki í raun fjármálakreppa. Þá standi Kúrdum nú hætta af hendi Tyrkja gegn þeim. Löggæsla í Kúrdistan sé nokkuð markvissari og skilvirkari en í suður- og mið-Írak. Hvort yfirvöld Kúrda geti veitt vernd geti þó farið eftir því hver það sé sem standi að baki ofsóknum. Myndu yfirvöld t.a.m. ekki veita vernd hafi einstaklingur átt í deilum við kúrdískan stjórnmálamann. Þá veigri fólk sér við því að leita til lögreglu eða dómstóla. Aðgengi að réttarkerfinu velti á því hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé um að ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri og tengslum viðkomandi.

Byggt er á því í greinargerð að kærandi sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi samkvæmt því rétt á að hljóta alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Byggt er á því í greinargerð að bróðir kæranda hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en vegna stöðu sinnar sem lögreglumaður í heimaríki sæti hann ofsóknum vegna aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vísað er til þess að samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar hafi meðlimir starfsgreina sem sæta ofsóknum verið taldir tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi. Starf bróður kæranda við öryggisgæslu feli í sér bakgrunn sem hann geti ekki breytt. Kærandi telji að hann og bróðir hans geti enga aðstoð fengið hjá yfirvöldum vegna þess að mennirnir sem þeir óttist tilheyri áhrifamiklum ættbálki. Kærandi vísar til þess að samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar geti ofsóknir sem vinir, ættingjar eða þjóðfélagshópar verði fyrir gefið til kynna að ótti umsækjenda um alþjóðlega vernd við að verða þolandi ofsókna sé ástæðuríkur. Kærandi telur að samkvæmt framangreindu beri því að leggja til grundvallar, með vísan til aðstæðna bróður hans, að hann eigi á hættu ofsóknir af sömu ástæðu.

Til vara kveðst kærandi uppfylla skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Sem fyrr greinir má rekja ástæðu flótta kæranda frá heimalandi sínu til ótta við einstaklinga sem virðast njóta verndar yfirvalda og ofsóknir af þeirra hálfu. Þá telur kærandi að síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi jafnframt við í hans máli í ljósi þess að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í Írak síðan í mars 2003 og hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum til Íraks vegna vopnaðra átaka sem hafi átt sér stað þar. Kærandi telur að með tilliti til þess hversu óstöðugt ástandið sé í heimaríki hans sé ótímabært að líta svo á að stríðsástandi þar í landi sé lokið. Með vísan til framangreinds telur kærandi ljóst að raunhæf ástæða sé til að ætlast að hann eigi á hættu pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Kærandi telur að með endursendingu hans til Íraks yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki muni slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu þar sem m.a. komi fram að grundvöllur mannúðardvalarleyfis geti verið alvarlegar aðstæður í heimaríki, s.s. viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá geti útlendingur einnig þurft á vernd að halda vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum félagslegum aðstæðum viðkomandi sé vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi.

Að lokum eru í greinargerð m.a. gerðar athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að kærandi og bróðir hans geti leitað sér aðstoðar og verndar með skilvirkum hætti þrátt fyrir að hafa fallist á það að tengsl, bæði ættbálkatengsl og innan stjórnmála, geti skipt máli þegar leitað sé verndar stjórnvalda. Þá er gerð athugasemd við þá túlkun Útlendingastofnunar að sökum þess að ástandið sé skárra í Kúrdistan en Írak að þá sé í lagi að senda kæranda og bróður hans til heimaríkis. Kærandi mótmælir þeirri túlkun. Kærandi telur að aðal álitamálið sé ekki hvort stjórnvöld geti veitt honum vernd heldur hvort þau hafi vilja til þess að veita honum vernd. Kærandi telur fjölmargt benda til þess að slíkur vilji sé ekki fyrir hendi hjá stjórnvöldum í heimaríki.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og því yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Íraks. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé írakskur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Country Policy and Information Note Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 1. september 2018);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Iraq: Blood feuds (UK Home Office, ágúst 2017);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, 14. mars 2017);
  • Country Information and Guidance Iraq: Return/Internal relocation (UK Home Office, ágúst 2016);
  • Country Report on Human Rights Practices 2018 - Iraq (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2017 - Iraq (Freedom House, 2. júní 2017);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information report (EASO, 1. mars 2019);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 6. janúar 2016).
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
  • Iraq 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 25. apríl 2018);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Iraq Country of origin information (COI) report (UK Home Office, 25. mars 2011);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI) - Report on issuance of the new Iraqi ID card (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
  • Northern Iraq - Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • Thematic report: The Security Situation in Iraq -July 2016-November 2017 (version 4.0) (Migrationsverket, 18. desember 2017);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitarian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016) og
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með rúmlega 32 milljónir íbúa. Írak varð til sem ríki eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi í Írak. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011 og alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður- og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.

Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli Kúrda og stjórnvalda í Írak. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lúti sjálfsstjórn Kúrda. Þann 25. september 2017 hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa KRI að tilstuðlan forseta KRI þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis KRI. Íröksk stjórnvöld hafi mótmælt atkvæðagreiðslunni og hafi ekki viðurkennt niðurstöður kosninganna. Tæplega 93 % kjósenda hafi kosið með sjálfstæði en fréttir hafi borist af því að minnihlutahópar á deilusvæðum hafi verið beittir miklum þrýstingi til að kjósa annaðhvort með eða á móti. Í kjölfar kosninganna hafi írakski stjórnarherinn tekið aftur stjórn yfir ytri landamærum Írak innan KRI og landsvæðum sem hafi verið undir stjórn kúrdískra yfirvalda frá árinu 2014, þ. á m. borgina Kirkuk. Þá hafi forseti KRI sagt af sér í nóvember 2017. Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í KRI en það séu PUK flokkurinn (e. The Patriotic Union of Kurdistan) og KDP flokkurinn (e. The Kurdistan Democratic Party). Í september 2013 hafi orðið talsverðar breytingar þegar PUK flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins Gorran (e. The Movement for Change). Í nýafstöðnum kosningum sem fram fóru þann 30. september 2018 hafi PUK flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og KDP flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í KRI. Samband PUK flokksins og KDP hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að vera í hættu í heimaríki vegna tengsla sinna við bróður sinn en bróðir hans hafi starfað hjá lögreglunni þar í landi og hafi í starfi sínu handtekið menn sem vilji ná fram hefndum vegna þess. Kæranda hafi þó ekki verið hótað persónulega heldur í gegnum bróður sinn. Þá hafi mennirnir m.a. ráðist á heimili kæranda og fjölskyldu hans.

Í gögnum málsins má sjá að kærandi hafi ekki leitað til lögreglu eða annarra yfirvalda vegna árásarinnar á heimili fjölskyldunnar en bróðir hans hafi rætt við sinn yfirmann vegna þess. Þá kemur fram í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun að hann þekki ekki persónulega árásarmennina en bróðir hans hafi sagt honum hvað þeir heiti og að þeir tilheyri Shwankara ættbálknum. Aðspurður kvað kærandi Shwankara ættbálkinn vera þekktan í Sulaymaniyah, einstaklingar í honum væru þekktir fyrir að ræna og stunda glæpi. Engin haldbær gögn voru lögð fram í málinu um Shwankara ættbálkinn, stöðu hans og orðspor í heimaríki. Þá hafa þau gögn sem kærunefnd hefur kannað ekki leitt í ljós upplýsingar um framangreindan ættbálk eða annað sem gæti stutt frásögn kæranda um tengsl hans við glæpi eða stjórnmálaflokka í KRI. Þá liggja ekki fyrir gögn sem renna stoðum undir þá staðhæfingu að þeir menn sem hafi staðið að baki hótunum í garð kæranda og árás á hús fjölskyldunnar séu með tengsl við stjórnmálaflokka eða stjórnvöld í heimaríki kæranda.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Verði kærandi fyrir ofbeldi, áreiti eða hótunum í heimaríki sínu bera skýrslur um aðstæður í heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar það með sér að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda, enda styðja gögn málsins ekki þá fullyrðingu að þeir einstaklingar sem standi fyrir ætluðum hótunum í garð kæranda hafi tengsl við stjórnmálaflokka eða stjórnvöld í KRI að því marki að það kunni að hafa áhrif á vilja og getu yfirvalda til að veita viðeigandi vernd eða að slík vernd sé ekki tiltæk kæranda vegna annarra ástæðna. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að einhverju leyti ábótavant er það því mat kærunefndar kærandi hafi ekki sýnt fram á að stjórnvöld þar í landi vilji ekki veita honum aðstoð gegn ofbeldi eða öðru áreiti, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Eins og rakið er í greinargerð kærenda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh-samtakanna eða þeim svæðum þar sem Daesh sé enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda, Sulaymaniyah, sé á öruggu svæði í KRI. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði KRI sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir Kúrda séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kæranda, Sulaymaniyah, langt inni í landi KRI þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að raunhæf ástæða sé til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði hann sendur aftur til KRI. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til gagna málsins, að kæranda standi til boða viðeigandi vernd og aðstoð lögreglu í KRI.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi stríðstástand hafi ríkt í heimaríki kæranda og heldur kærandi því fram að yfirvöld í Írak geti ekki veitt honum þá vernd sem hann þarfnist. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má draga þá ályktun að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. KRI sé jafnframt með virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kæranda viðeigandi vernd.

Kærandi er einstæður karlmaður á þrítugsaldri. Af gögnum málsins má ráða að heilsufar hans sé almennt ágætt en honum líði þó illa, einkum vegna aldraðra foreldra hans sem séu í heimaríki. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar, svo sem heimildarvinnu stofnunarinnar sem og hvernig upplýsingar úr skýrslum séu túlkaðar. Má af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 27. febrúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta