Matsmál nr. 2/2021, úrskurður 14. júlí 2021
Miðvikudaginn 14. júlí 2021 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 2/2021
Vegagerðin
gegn
dánarbúi Páls Auðar Þorlákssonar
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I
Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II
Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:
Með matsbeiðni 10. febrúar 2021 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu í landi jarðarinnar Sandhóli í Ölfusi, landnúmer 171798, í þágu framkvæmdar við breikkun Suðurlandsvegar.
Eignarnámsheimild er í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.
Eignarnámsþoli er dánarbú Páls Auðar Þorlákssonar, kt. [...], [heimilisfang], þinglýstur eigandi jarðarinnar.
Matsandlagið samkvæmt endanlegri kröfugerð eignarnema er nánar tiltekið:
Landspilda 38.154 fermetrar að stærð í landi Sandhóls, undir hluta af um 630 metra löngu og 60 metra breiðu vegsvæði Hringvegar (1).
III
Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 19. febrúar 2021. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 35 tölusettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs. Fært var til bókar að matsnefnd féllist á að lagaheimild væri til eignarnámsins í 37. gr. vegalaga, sbr. fyrri málslið 1. mgr. laga nr. 11/1973. Þá var fært til bókar að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. laga nr. 11/1973. Aðilar töldu sérstaka þörf á vettvangsathugun í málinu og ákveðið var að fara á vettvang. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.
Föstudaginn 7. maí 2021 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar.
Miðvikudaginn 19. maí 2021 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerða vegna fyrirtöku 19. febrúar 2021 og vettvangsgöngu 7. maí sama ár, svo og tölvubréf matsnefndar til aðila 15. mars 2021, þar sem upplýst var að vettvangsganga sem fyrirhuguð hefði verið föstudaginn 12. mars 2021 frestaðist af óviðráðanlegum ástæðum og ný tímasetning ákveðin 7. maí sama ár. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema 11. maí 2021 ásamt níu tölusettum fylgiskjölum, greinargerð eignarnámsþola sama dag ásamt sex tölusettum fylgiskjölum, athugasemdir eignarnema 19. sama mánaðar og athugasemdir eignarnámsþola 17. þess mánaðar ásamt tveimur tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Var málið við svo búið flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmönnum bókað að þeir teldu sig ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.
Með tölvubréfi 29. júní 2021 fór matsnefnd þess á leit við aðila að upplýst yrði um hverrar stærðar spildurnar yrðu eftir eignarnám sem eignarnámsþoli héldi eftir, það er stærð spildu norðan nýs þjóðvegar, spildu á milli nýja og gamla þjóðvegarins og spildu sunnan gamla þjóðvegarins. Með tölvubréfum aðila sama dag til nefndarinnar var upplýst um að eignarnemi myndi afla umbeðinna upplýsinga. Með tölvubréfi eignarnema 7. júlí 2021 bárust umbeðnar upplýsingar. Með tölvubréfi eignarnámsþola sama dag til nefndarinnar var staðfest að ekki væru gerðar athugasemdir við þær stærðir sem eignarnemi miðaði við í gögnunum.
IV
Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna matsandlagsins, nánar tilgreindrar spildu úr landi Sandhóls. Þá krefst eignarnemi þess að ákveðinn verði hæfilegur málskostnaður vegna hagsmunagæslu eignarnámsþola miðað við eðli og umfang málsins. Eignarnemi mótmælir kröfufjárhæðum eignarnámsþola í heild sinni og telur þær á engan hátt í samræmi við raunverulegt tjón hans, svo og kröfu eignarnámsþola um greiðslu frekari málskostnaðar en greiddur hafi verið samkvæmt samningi aðilanna.
Eignarnemi telur lokatilboð sitt 12. október 2020 í samningaviðræðum aðila svara til þess tjóns sem eignarnámsþoli verði fyrir vegna eignarnámsins á spildu í landi Sandhóls. Í lokatilboðinu hafi verið boðnar bætur samtals 13.858.305 krónur, það er 7.630.800 krónur fyrir land undir vegsvæði (200 krónur á fermetra), 210.897 krónur fyrir ræktunarkostnað, 4.800.000 krónur fyrir óhagræði fyrir það hvernig nýtt vegsvæði skiptir landi eignarnámsþola upp, 250.000 krónur fyrir skert afnot eignarnámsþola af landi sem hann heldur eftir vegna skurða og 1.250.000 krónur vegna jarðrasks og áhrifa á framkvæmdatíma, að frádregnum verðmun að fjárhæð 283.392 krónur vegna dýrari útfærslu girðinga sem eignarnámsþoli hafi kosið. Raunar telur eignarnemi að heildarbætur ættu að vera lægri, að teknu tillit til þeirra kostnaðarsömu mótvægisaðgerða sem ráðist hafi verið í, en að hann sé reiðubúinn að standa við lokatilboð sitt sem nemi að hans mati hæfilegum bótum.
Eignarnemi telur að við mat á bótum skuli líta til almennra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar skuli fullt verð koma fyrir þegar eignarnám sé framkvæmt. Sé matsbeiðanda að meginreglu skylt að bæta matsþola allt fjárhagslegt tjón sem hann verði fyrir. Eigi matsþoli aðeins rétt á bótum fyrir eignarnumið verðmæti auk bóta fyrir óhagræði sem eignarnám hafi í för með sér og leiði til fjárhagstjóns. Skuli eignarnámsbætur miðaðar við sannanlegt tjón matsþola sem standi í beinu orsakasambandi við fyrirhugaða framkvæmd en ekki ávinning matsbeiðanda, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 16. janúar 1997 í máli nr. 18/1995, sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 52. Á eignarnámsþola hvíli sönnunarbyrði um tjón og orsakasamband. Vísar eignarnemi til þess að ekki sé í íslenskum lögum að finna almennar reglur um hvernig meta skuli verðmæti eignarnuminna eigna heldur vísist um það til úrlausna dómstóla, matsnefndar eignarnámsbóta og skrifa fræðimanna. Miði sjónarmið um mat á eignum aðallega við söluverð, notagildi og enduröflunarverð.
Hvað mælikvarða um söluverð varðar bendir eignarnemi á að verðgildi fasteigna sé oft bundið við nýtingu þeirra samkvæmt lögum. Þá geti opinber skráning á verði fasteignar einnig skipt máli, en fasteignamat Sandhóls nemi 583.000 krónum. Vísar eignarnemi til 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, þar sem kveðið sé á um hvernig fasteignamatsverð sé fundið. Þess utan hafi við mat á bótum til eignarnámsþola verið horft til úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta og samninga sem gerðir hafi verið á svæðinu og geti talist sambærilegir. Þá telur eignarnemi það almenna reglu að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni að teknu tilliti til staðsetningar, landgæða, afskrifta, notkunarmöguleika, skipulags o.s.frv. Þannig telji eignarnemi að ef um landbúnaðarland sé að ræða sem sé nýtt sem slíkt og engin önnur staðfest fyrirhuguð notkun liggi fyrir þá beri að meta landið sem landbúnaðarland en ekki sem byggingarland, líkt og eignarnámsþoli hafi krafist. Á Sandhóli hafi verið búskapur undanfarna áratugi og ekkert bendi til annars en að svo verði áfram.
Eignarnemi telur að til þess sé og að líta að þjóðvegur hafi legið um land Sandhóls um áratugaskeið og umferð vaxið jafnt og þétt eins og fram komi í mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna. Telur eignarnemi að tilkoma nýs þjóðvegar hafi öðru fremur jákvæð áhrif á starfsemi á Sandhóli því núverandi þjóðvegur verði innansveitarvegur og umferð um hann óveruleg samkvæmt matinu á umhverfisáhrifum. Þannig eigi áhrif núverandi þjóðvegar og umferðar um hann þegar að vera komin að fullu fram í verðmæti lands jarðarinnar, þ. á m. matsandlagsins. Það land sem fari undir veg sé að verulegu leyti hluti af núverandi veghelgunarsvæði sem sæti þegar lögbundnum takmörkunum auk takmarkana samkvæmt skipulagslöggjöf um heimil not. Þá telur eignarnemi að með mótvægisaðgerðum og úrbótum af hálfu eignarnema sé búið að draga mjög úr hugsanlegu óhagræði á framtíðarnýtingu eignarnámsþola á því landi sem hann heldur eftir og verði því að telja að lokatilboð eignarnema, með þeim mótvægisaðgerðum sem í því felist, feli í sér fullar bætur til eignarnámsþola.
Næst bendir eignarnemi á að þegar eign sé bætt eftir sjónarmiði um notagildi, sé reynt að finna út hver sé höfuðstóll þess arðs sem eignin gefi af sér. Þannig sé stefnt að því að bæta eiganda það tekjutap í framtíðinni sem missir eignarinnar hafi í för með sér. Telur eignarnemi að í flestum tilvikum leiði mat á notagildi eignar til svipaðrar niðurstöðu og mat á söluverði, þar sem söluverð grundvallist oft á þeim arði sem eignin gefi eða geti gefið af sér.
Telur eignarnemi að markaðsverð matsandlagsins sé vegna staðsetningar, gæða og nálægðar við veg og línumannvirki ekki hærra en eignarnemi hafi boðið. Verði talið að markaðsverði sé ekki til að dreifa bendir eignarnemi á að telja verði að notagildi matsandlagsins skuli fyrst og fremst miða við núverandi not þess, sem landbúnaðarlands. Eignarnemi hafi með samningi við eignarnámsþola skuldbundið sig til að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir til að tryggja áframhaldandi not af öllu því landi sem eignarnámsþoli heldur eftir. Þannig telji eignarnemi að óháð því hvort stuðst verði við mælikvarða um markaðsverð eða not eignarnámsþola af eigninni verði niðurstaðan sú að eignarnámsþola beri mjög hóflegar bætur sem séu ekki hærri en þær sem boðnar hafi verið eignarnámsþola fyrir landsréttindi í samningaviðræðum. Þá sé eftir að að taka tillit til þeirra hagsbóta sem felist í samningi aðila um tilhögun framkvæmda. Eignarnemi telur að allt matsandlagið sé jafnverðmætt, að því frátöldu að hann hafi boðið sérstakar bætur fyrir ræktað land til viðbótar við grunnverð fyrir landið sem tekið sé eignarnámi. Þá telur eignarnemi að taka beri tillit til hagsbóta sem eignarnámsþoli hljóti við eignarnámið, sbr. 39. gr. vegalaga og hefðbundinna sjónarmiða við mat eignarnámsbóta, þ. á m. þeirra hagsbóta sem felist í mótvægisaðgerðum og úrbótum sem eignarnemi hafi skuldbundið sig til að ráðast í til að draga úr áhrifum nýlagningar vegarins á hagsmuni eignarnámsþola, svo og þau gæði sem lögð séu til eins og nánar greini í samningi aðilanna.
Því næst heldur eignarnemi fram að þeim sjónarmiðum um ákvörðun bóta, sem byggist á kostnaði eignarnema við að afla sér sambærilegrar eignar í stað þeirra sem tekin var eignarnámi, verði almennt ekki beitt nema söluverð eða notagildi verði af einhverjum ástæðum ekki metið. Telur eignarnemi að þessi sjónarmið eigi ekki við í málinu því slíkar aðstæður séu ekki uppi.
Eignarnemi telur sem fyrr greinir að leggja beri mælikvarða söluverðs til grundvallar við mat á bótum fyrir land undir veg. Eignarnemi leggur til grundvallar meðalverð lands innan jarðar Sandhóls sem hann kveður í fullu samræmi við mat Þjóðskrár Íslands á markaðsverði landsins eftir ítarlega greiningu á raunverulegum sölum á svæðinu. Hafi eignarnemi þannig boðið 200 krónur á fermetra sem grunnverð fyrir land auk 44,15 króna á fermetra fyrir ræktað land, óháð því hvort landsvæði sé skurður, vegslóði, mýrlendi eða annað land, og þetta telur eignarnemi sanngjarnt verð fyrir landið. Þannig séu 2.917 fermetrar matsandlagsins fráveituskurðir, eða 7,7% heildarflatarmáls þess. Önnur nýting landsins en núverandi not þess séu hvorki fyrirséð né líkleg og meta verði einingaverð landsins í því ljósi og því sé rétt að ákveða fjárhæð bóta með tilliti til þess að um landbúnaðarland sé að ræða, sbr. dóma Hæstaréttar 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 og 8. október 2009 í máli nr. 345/2008. Ekki sé unnt að miða við að um byggingarland sé að ræða, svo sem eignarnámsþoli hafi krafist, enda verði kröfur hans að byggja á haldbærum gögnum og á honum hvíli skylda að sanna tjón, sbr. dóm Hæstaréttar 25. mars 2010 í máli nr. 404/2009. Landgreining hafi sýnt að matsandlagið sé framræst ræktunarland, mikið grafið af framræsluskurðum og að hluti þess, næst núverandi þjóðvegi og upp með Bakkárholtsá, sé síðra að gæðum. Virðist eignarnema sem almenn sátt ríki um það landverð sem hann hafi miðað við, því samningar við aðra landeigendur á framkvæmdasvæðinu hafi miðast við sama verð nema fasteignamatsverð hafi verið hærra einkum á óbyggðum lóðum, en ólíku væri farið um önnur áhrif sem vegalagningin hefði á einstaka landeigendur á svæðinu. Eignarnemi mótmælir sjónarmiðum eignarnámsþola um bótafjárhæð samkvæmt samningi eignarnema við eiganda jarðarinnar Kross. Um ákvörðun bótafjárhæðar vísar eignarnemi einnig einkum til úrskurða matsnefndar í málum nr. 5/2014 og 1/2017, kaupverðs vegna Árbæjar 6 2013, spilda í nágrenni matsandlagsins 2014, Laugardælalands 2015, Litla og Stóra Saurbæjar og Öxnalæks 2017, svo og mats Þjóðskrár Íslands á verði á landbúnaðarlandi á svæðinu frá því í desember 2020 (grunnverð 211 krónur á fermetra og 38,5 krónur á fermetra fyrir ræktunarkostnað). Einnig vísar eignarnemi til aðalskipulags Ölfuss, þess að matsandlagið sé einsleitt, blautt á köflum og ekki deiliskipulagt eða að öðru leyti tilbúið til annarra notkunar en núverandi landbúnaðarnota. Telur eignarnemi rétt að uppfæra tilboð sitt til samræmis við fyrrgreint mat þjóðskrár, þar sem grunnverð sé uppfært til hækkunar en ræktunarkostnaður til lækkunar. Nemi bætur þá samtals 14.251.094 krónum að teknu tilliti til frádráttar vegna dýrari útfærslu girðinga sem eignarnemi telur fullar bætur að teknu tilliti til þeirra mótvægisgerða sem hann hafi jafnframt ráðist í. Einnig vísar eignarnemi til lands sem auglýst hafi verið til sölu að Króki í Flóahreppi og Litlu Sandvík á Selfossi. Hann hafnar því á hinn bóginn að sala á íbúðarhúsalóðum í skipulögðum hverfum á borð við Hjarðaból eða í Gljúfurárholti verði taldar samanburðarhæfar í þessu tilliti, því land sem ekki hafi verið skipulagt verði ekki verðlagt sem byggingarlóð og vísar um sjónarmið til lækkunar í dóm Hæstaréttar 10. júní 1999 í máli nr. 461/1998 og áréttar sönnunarkröfur samkvæmt dómi réttarins í máli nr. 404/2009. Eignarnemi bendir á að nauðsynlegt land undir vegsvæði nýs Hringvegar úr landi Sandhóls sé spilda 60 metrar að breidd, það er 30 metrar til hvorrar handar frá miðlínu vegar, samtals 38.154 fermetrar að stærð. Telur eignarnemi að ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 eigi ekki við í málinu og því þurfi ekki að taka eignarnámi stærra svæði en eignarnámsákvörðun hafi tekið til. Hið eignarnumda land sé fyrst og fremst landbúnaðarland og um 0,5 hektarar af ræktuðu landi fari undir vegsvæði. Þá sé landið tilgreint sem landbúnaðarland í aðalskipulagi. Ekki sé kunnugt um skipulagsáætlanir á aðra veru eða önnur staðfest nýtingaráform á svæðinu. Loks telur eignarnemi að við mat á verðmæti matsandlagsins beri að miða við þann dag sem eignarnemi fékk umráð þess, sem hafi verið í desember 2020. Verðmat Þjóðskrár Íslands hafi verið gefið út í sama mánuði og beri því að miða við það sem hámark.
Með samkomulagi aðila 18. desember 2020 um heimild til framkvæmda féllst eignarnemi á að greiða eignarnámsþola innborgun 12. október 2020 vegna eignarnámsbóta að fjárhæð 9.899.188 krónur, eða 70% af lokatilboði eignarnema til eignarnámsþola, auk 5.077.107 krónur vegna lögmannskostnaðar, gegn heimild til að hefja framkvæmdir fyrir landi hans. Þar var einnig meðal annars tiltekið að eignarnemi myndi vísa ágreiningi um fjárhæð bóta til matsnefndar eignarnámsbóta, svo og að innborgun vegna bóta og kostnaðar væri samkomulagsatriði og væri ekki bindandi fyrir aðila við meðferð málsins fyrir matsnefndinni, heldur færi endanlegt uppgjör bóta fram þegar mat matsnefndar lægi fyrir. Áréttar eignarnemi að hann telur sig óbundinn af framlögðum tilboðum, því þau hafi verið liður í að ná samningum. Leggur eignarnemi áherslu á að sú fjárhæð sem komi fram í samkomulagi aðila bindi ekki matsnefnd og beri ekki að skilja sem lægstu mögulegu bótafjárhæð. Það sé matsnefndar að leggja sjálfstætt mat á hæfilegar bætur út frá gögnum málsins og eigin sérfræðiþekkingu óháð þeirri fjárhæð sem greidd hafi verið til bráðabirgða samkvæmt samningi aðila og að teknu tilliti til þeirra mótvægisaðgerða og hagsbóta sem felist í samningnum. Bendir eignarnemi á að ef samkomulagsfjárhæðin yrði reiknuð til fermetraverðs næmu bætur 330 krónum á hvern fermetra, sem sé meira en ríflegar fullar bætur.
Hvað önnur áhrif vegna eignarnámsins varðar vísar eignarnemi til þess að nýr Hringvegur liggi samkvæmt gildandi aðalskipulagi um nýtt vegsvæði í landi Sandhóls og skipti landi jarðarinnar norðan núverandi þjóðvegar í tvær stærri spildur. Þannig sé land jarðarinnar tekið undir veg þar sem ekki hafi verið vegur fyrir. Með tilkomu nýs þjóðvegar rofni vegarslóði sem liggi um land jarðarinnar frá norðri til suðurs og að leggja þurfi nýjan slóða um undirgöng undir veginn. Með þeim hætti verði aðkomuleið milli jarðarhlutanna eftirleiðis tryggð um steypt undirgöng undir brú og nýjum vegarslóða, sem séu meðal þeirra mótvægisaðgerða sem eignarnemi hafi samið við eignarnámsþola um í tilefni eignarnámsins. Jafnframt hafi eignarnemi skuldbundið sig til að vakta göngin á næstu árum og bregðast við því ef klakahröngl teppi akstursleið um þau. Verði vegslóði og leið um undirgöngin einkavegur í merkingu vegalaga og í umsjón og viðhaldi eignarnámsþola, líkt og núverandi vegarslóði hafi verið. Við mat á hugsanlegum áhrifum eignarnámsins á það land sem eignarnámsþoli heldur eftir bendir eignarnemi á þær ráðstafanir sem hann hafi tekist á hendur að framkvæma til að draga úr áhrifum eignarnámsins, þ. á m. aðkomuleiðir og undirgöng, sem beri í öllu falli að telja til sérstakra hagsbóta í þágu eignarnámsþola. Í fyrsta lagi verði núverandi þjóðvegur áfram á sama stað og muni þjóna sem innansveitarvegur, sem auðveldi eftirleiðis aðkomu að landi eignarnámsþola því ekki þurfi lengur að fara um fjölfarinn veg þar sem hraði og umferð sé mikil til að komast að túnum eða fjárhúsum. Í öðru lagi verði lagður nýr vegslóði, sem eignarnemi hafi tekist á hendur að leggja í stað fyrri slóða, og verði hann veglegri, dýrari og burðarmeiri en sá sem fyrir sé og fyrirkomulag girðinga verði þannig að tenging sé auðvelduð milli jarðarhlutanna tveggja. Í þriðja lagi verði grafnir frárennslisskurðir meðfram vegsvæði beggja vegna og girt, þar sem áætlað flatarmál nýrra skurða með tilheyrandi raski vegna skurðbarma og girðingarstæðis sé 5.025 fermetrar en af leggist eldri skurðir að flatarmáli 2.917 fermetrar, og haldi eignarnámsþoli eignarrétti að landi undir skurðum og svæði beggja vegna. Í fjórða lagi fylgi þjóðveginum kvaðir samkvæmt skipulagsreglugerð sem þó hafi ekki áhrif á landbúnaðarnot. Í fimmta lagi verði vegsvæðið afgirt og undir það lögð nauðsynleg ídráttarrör að ósk eignarnámsþola og þannig tryggt að hann fái notið rafmagns og brynningarvatns. Auk þess verði sett upp hliðgrind á vegslóða. Þá telur eignarnemi að gömul fjárrétt sem fari undir vegsvæði hafi óverulegt verðgildi og notagildi. Eins og nánar greinir í málatilbúnaði eignarnema hafnar hann sem fjarstæðukenndum kröfum eignarnámsþola, sem styðjast við dóm Hæstaréttar í máli nr. 349/2004, um mjög háar bætur fyrir ætluð önnur áhrif af lagningu nýs þjóðvegar, það er ætlaða verðrýrnun þess lands sem eignarnámsþoli heldur eftir utan veghelgunarsvæðis. Bendir eignarnemi á að Suðurlandsvegur hafi legið um land Sandhóls um áratugaskeið sem meginumferðaræð og að ekki verði breyting á því þótt vegur flytjist norðar. Þá hafi það jákvæð áhrif fyrir jörðina að færa aðalveginn fjær húsakosti, auk þess sem boðin hafi verið undirgöng og vegarslóðar sem taki við öllum tegundum ökutækja. Þá hafnar eignarnemi því alfarið að um almenna verðrýrnun jarðarinnar geti verið að ræða. Hafi bætur sem boðnar hafi verið fyrir matsandlagið og önnur áhrif bætt að fullu ætlað tjón eignarnámsþola vegna framkvæmdarinnar ásamt því að taka verði fullt tillit til mótvægisaðgerða og hagsbóta sem felist í samningi aðila um tilhögun framkvæmda. Þótt land eignarnámsþola norðan núverandi þjóðvegar skiptist með tilkomu nýs þjóðvegar hafi verið dregið úr hugsanlegu óhagræði með undirgöngum og aðkomuleiðum. Land sunnan nýs þjóðvegar verði um 14-15 hektarar að stærð og vel nýtanlegt. Eignarnemi vísar til þess að hann hafi boðið eignarnámsþola 250.000 krónur í bætur vegna skertra afnota af skurðum sem grafnir séu utan vegsvæðis, enda haldi eignarnámsþoli eftir eignarrétti að því landi. Hafi eignarnemi orðið við öllum óskum eignarnámsþola um fyrirkomulag skurða og ræsa í samningaviðræðum og hafi framræsing verið í samræmi við óskir hans og liður í að bæta landið. Þá sé girt meðfram vegsvæði í samræmi við reglur 51. gr. vegalaga og í stað þess að girða á lóðarmörkum hafi verið farið að óskum eignarnámsþola um að girt yrði landmegin við vegskurð og því séu engar forsendur til að greiða bætur fyrir land undir girðingastæði því hann verði ekki fyrir tjóni vegna þessa. Jafnframt hafi eignarnemi lagt lengri vegarslóða um land eignarnámsþola en ráðgert hafi verið, frá núverandi Hringvegi og upp með Bakkárholtsá, í samræmi við óskir eignarnámsþola. Loks sé hafnað bótakröfu eignarnámsþola um ætlaðan framtíðarkostnað við snjómokstur í og við undigöng, því það sé eignarnámsþola að annast slíkt. Eignarnemi hafi á hinn bóginn skuldbundið sig til að vakta og hreinsa frá ef akstursleið stíflist vegna jakaburðar úr ánni.
Eignarnemi tiltekur að á framkvæmdatíma megi búast við að eitthvað óhagræði geti orðið en hann hafi reynt að lágmarka það og haft samráð við eignarnámsþola um tilhögun framkvæmda eftir þörfum. Hafi eignarnemi boðið hæfilegar bætur að álitum vegna þessa að fjárhæð 1.250.000 krónur, það er fyrir jarðrask, tímabundið óhagræði o.s.frv.
Hvað mótvægisaðgerðir af sinni hálfu varðar, vísar eignarnemi til þess að fyrir liggi samningur um tilhögun framkvæmda, þar sem greint sé frá ýmsum kostnaðarsömum aðgerðum sem samið hafi verið um og ætlað sé að draga úr áhrifum af nýlagningu vegarins á hagsmuni eignarnámsþola. Telur eignarnemi að taka verði þessar aðgerðir til mats og athugunar samhliða ákvörðun um bætur vegna vegarlagningarinnar, það er taka verði fullt tillit til kostnaðar af þessum aðgerðum við ákvörðun um bætur til handa eignarnámsþola. Um þetta vísar eignarnemi nánar til samningsins, sem sé meðal gagna málsins, en helstu atriðin séu steinsteypt undirgöng undir veg, nýr vegarslóði sem lagður sé frá núverandi þjóðvegi, lögn ræsa, ídráttarrör fyrir rafmagn og brynningarvatn sem lögð verði undir nýja veginn, svo og girðingar og hlið. Eignarnemi kveður heildarkostnað af þessum aðgerðum, sem lagaðar hafi verið að óskum eignarnámsþola, hafi numið 57.456.463 krónum, að teknu tilliti til 12% álags vegna hönnunar, umsjónar og eftirlits. Með þessum úrbótum og tilfæringum ásamt lokatilboði eignarnema, telur hann að búið sé að bæta eignarnámsþola fyrir matsandlagið og hugsanlegt óhagræði og jarðrask sem tilkoma nýs þjóðvegar yfir land eignarnámsþola kunni að hafa.
Eignarnemi mótmælir sem fyrr greinir kröfu eignarnámsþola um greiðslu frekari málskostnaðar en greiddur hafi verið samkvæmt samningi aðilanna. Telur eignarnemi að málsgögn beri með sér að meginhluta þess tíma sem varið hafi verið í verkefnið af hálfu eignarnámsþola hafi farið í að útfæra samning um tilhögun framkvæmdar, með uppskrift nákvæmrar verklýsingar sem sé sennilega einsdæmi. Bent sé á að um tvær aðliggjandi jarðir sé að ræða, þar sem hagsmunir og aðstæður séu eðlislíkar. Samkvæmt lögum nr. 11/1973 skuli eignarnemi aðeins bera kostnað sem teljist nauðsynlegur og hóflegur, sbr. t.d. úrskurði matsnefndar í málum nr. 1/2011 og 2/2011. Það sé matsnefndar að leggja heildstætt mat á málið og ákveða hvaða kostnað eignarnemi skuli bera. Sú fjárhæð sem eignarnemi hafi greitt samkvæmt samningi aðila bindi ekki hendur nefndarinnar. Kveður eignarnemi að sú fjárhæð sem krafist hafi verið við gerð samningsins sé líklega hæsta fjárhæð sem eignarnemi hafi nokkurn tímann innt af hendi í eignarnámsmáli. Hafi kostnaður eignarnámsþola vegna þessa máls og annars sem hann hefur samhliða rekið fyrir nefndinni numið um 10.200.000 krónum fram til þess tíma að samningurinn komst á og þá hafi verið eftir öll meðferð málsins fyrir matsnefndinni. Eignarnemi mótmælir fjárhæð málskostnaðarkröfu eignarnámsþola og vísar í því samhengi til 11. gr. laga nr. 11/1973. Tiltekur eignarnemi að engin gögn liggi fyrir um að eignarnámsþoli hafi staðið skil á greiðslu þessa kostnaðar. Þá telur eignarnemi að undir hæfilegar bætur geti ekki fallið að eignarnámsþoli feli lögmanni að leggjast í umfangsmikla rannsóknarvinnu á lögfræðilegum og tæknilegum atriðum og að kostnaður við slíka vinnu verði hiklaust lagður á eignarnema, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 26. mars 2015 í máli nr. 583/2014. Hafnar eignarnemi þeirri fullyrðingu eignarnámsþola sem rangri, að lögmaður hans hafi þurft að koma málinu í lögformlegan farveg. Kveður eignarnemi að skilningur lögmannsins á ákvæðum VII. kafla vegalaga fari ekki saman við túlkun og framkvæmd laganna og að það hafi valdið vandræðum við málsmeðferðina, sem hafi þvert á móti öll verið í samræmi við ákvæði laganna. Þá hafi gríðarlegum tíma verið eytt í útfærslu á samningi um tilhögun framkvæmda en ekki nauðsynlegu landi undir veg. Hafnar eignarnemi því að honum beri skylda til að kosta vinnu vegna rannsóknar lögmanns eignarnámsþola á ákvæðum vegalaga og vegna útfærslu á tilhögun framkvæmda eignarnema. Eignarnemi mótmælir einnig tímagjaldi lögmanns eignarnámsþola meðal annars í ljósi þess fjölda vinnustunda sem krafist sé greiðslu fyrir. Loks hafnar eignarnemi kröfu um greiðslu kostnaðar sem fallið hafi til fyrir kynningu framkvæmdarinnar sem málið varði, svo sem vegna vinnu vegna samskipta við skipulagsyfirvöld, umhverfismats, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu o.s.frv., og að málsmeðferð eignarnema í tengslum við eignarnámið hafi fyrst hafist 25. október 2017.
Loks bendir eignarnemi á að taka verði tillit til 3. mgr. 39. gr. vegalaga, það er að taka verði tillit til þeirra hagsbóta sem eignarnámsþola hlotnist við framkvæmdina. Lagfæring vegarins, ásamt bættari og öruggari aðkomuleiðum að spildunum ætti að hafa jákvæð áhrif á verðmæti þeirra og auka nýtingarmöguleika.
V
Sjónarmið eignarnámsþola:
Eignarnámsþoli krefst þess að eignarnema verði gert að greiða sér eignarnámsbætur samtals að fjárhæð 62.282.257 krónur, að frádreginni innborgun eignarnema að fjárhæð 9.899.188 krónur. Tekur bótakrafa eignarnámsþola í fyrsta lagi til bóta fyrir eignarnumið land að fjárhæð 13.353.550 krónur, í öðru lagi bóta vegna verðfalls lands sem ekki sé tekið eignarnámi að fjárhæð 45.887.895 krónur, í þriðja lagi bóta fyrir tímabundið ónæði, rask, óþægindi, óhagræði o.fl. að fjárhæð 5.500.000 krónur og í fjórða lagi bóta vegna kostnaðar við snjómokstur að fjárhæð 7.440.000 krónur.
Þá krefst eignarnámsþoli málskostnaðar úr hendi eignarnema samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti samtals að fjárhæð 6.253.557 krónur, að frádreginni innborgun eignarnema að fjárhæð 5.077.107 krónur.
Varðandi kröfu sína um bætur fyrir eignarnumið land vísar eignarnámsþoli til þess að matsandlagið takmarkist við nauðsynlegt land undir þjóðveg og veghelgunarsvæði og að undan séu skilin önnur hlunnindi og auðlindir. Sé því mótmælt sem fram sé komið af hálfu eignarnema að eignarnámið taki til matsandlagsins, það er landsins, með öllum gögnum og gæðum. Næst bendir eignarnámsþoli á að vegna nálægðar jarðarinnar Sandhóls við þéttbýlissvæði, góðra samgangna, atvinnumöguleika, hæðar yfir sjávarmáli og veðurfarslegra skilyrða sé Ölfusið eitt besta og virkasta markaðssvæðið utan Reykjavíkur, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta 1. ágúst 2006 í máli nr. 8/2006 (Innsta-Vogsland). Felist framtíðarmöguleikar Sandhóls ekki síst í byggingarlandi jarðarinnar og óraunhæft sé að hefðbundinn búskapur verði stundaður á svo verðmætu landi í framtíðinni, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 30. ágúst 1985 (Kirkjubú). Tiltekur eignarnámsþoli að meginreglan sé sú að taka beri tillit til mögulegrar framtíðarnýtingar við ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta. Í tilviki Sandhóls sé bæði fjárhagslega raunhæft og líklegt að um byggingarland sé að ræða þegar jafnframt sé litið til skipulags- og tæknimála og langsótt sé að lagalegar takmarkanir geti komið í veg fyrir þéttingu byggðar enda geri aðalskipulag þegar ráð fyrir ríkum heimildum innan landbúnaðarsvæða til þéttingar byggðar. Matsandlagið sé allt gott byggingarland og þar sé bæði heitt og kalt vatn í jörðu og því miklir möguleikar á arðbærri nýtingu í framtíðinni sem hafi mikil áhrif á markaðsvirði þess í dag. Þróun byggðar og skipulags í Ölfusi styðji jafnframt að um framtíðarbyggingarland sé að ræða. Allt í kringum Sandhól séu þéttbýlishverfi eða orlofshúsabyggð í uppbyggingu. Við það bætist að eignarnámsþoli sé dánarbú Páls Auðar Þorlákssonar, en Páll Auðar hafi búið á jörðinni til dauðadags með sauðfé sem verið hafi líf hans og yndi. Eftir andlát hans séu erfingjarnir ólíklegir til að starfrækja áfram fjárbúskap eða annan hefðbundinn landbúnaði á jörðinni og horfi þeir til breyttrar og arðsamari nýtingar. Áréttar eignarnámsþoli að staða lands í gildandi skipulagi sé ekki skilyrði bóta heldur ráðist bótaskylda af raunhæfri framtíðarnýtingu. Um framtíðarnýtingu skírskotar eignarámsþoli til fræðiskrifa og réttarframkvæmdar, t.d. dóms Hæstaréttar 2. febrúar 2012 í máli nr. 220/2011 og úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 8/2006 (Innsta-Vogaland), 1. júlí 1999 í máli nr. 11/1998 (Sandlækur), 12. janúar 2009 í máli nr. 3/2008 (Egilsstaðir II) og 30. desember 1980 (Deildartunguhver). Eignarnámsþoli tekur fram að bótaútreikningar hans taki mið af því að ekki liggi fyrir deiliskipulag eða önnur leyfi til aukinnar starfsemi eða þéttingar byggðar. Eignarnámsþoli telur að einnig verði að líta til þess að eftir eignarnámið standi jörð Sandhóls eftir klofin upp í marga hluta. Áður en eignarnámið hafi komið til hafi núverandi þjóðvegur verið lagður um land jarðarinnar og síðar lögð háspennulína yfir nyrsta hluta jarðarinnar og hafi báðum framkvæmdunum fylgt tilheyrandi byggingarbann og neikvæð áhrif. Vegna þessa séu allar frekari skerðingar mjög þungbærar og komi til með að hafa meiri áhrif á þéttingu byggðar, búskaparskilyrði og aðra nýtingu en ella. Fyrirhugaður nýr þjóðvegur verði lagður um besta byggingarland jarðarinnar og þann hluta hennar sem hafi verið óraskaður fyrir. Eins og nánar greinir í málatilbúnaði eignarnámsþola mótmælir hann því að lokatilboð eignarnema, grunnverð að fjárhæð 200 krónur á fermetra, endurspegli fullar bætur og að meta beri grunnverðið hærra en það sem eignarnemi hafi samkvæmt framangreindu boðið fyrir landbúnaðarland. Hafnar eignarnámsþoli því að miðað verði við fasteignamat landbúnaðarlands því sá grundvöllur opinberra gjalda hafi aldrei endurspeglað markaðsverð. Vísar eignarnámsþoli til hærra verðs sem eignarnemi hafi greitt til landeiganda nágrannajarðarinnar Kross í tilefni eignarnámsins, sem þó hafi verið lakara en matsandlagið að Sandhóli. Séu þær bætur, sem eignarnemi hafi boðið, reistar á röngum forsendum. Að öllu virtu telur eignarnámsþoli fullar bætur fyrir matsandlagið nema að lágmarki 13.353.550 krónum miðað við 350 krónur á fermetra.
Varðandi kröfu sína um bætur vegna verðfalls lands sem ekki sé tekið eignarnámi vísar eignarnámsþoli til fordæmis samkvæmt dómi Hæstaréttar 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 um að áhrifasvæði þjóðvegar taki til 250 metra svæðis frá miðlínu vegarins og rekur hvernig hann telji að fordæmi þetta eigi jafnframt við um Sandhólsjörðina og þó þannig að eignarnám hafi meiri áhrif á jörðina Sandhól en í tilviki Þjórsártúns samkvæmt nefndum dómi. Eignarnámsþoli vísar til þess að eignarnemi greiði samkvæmt fyrrgreindu bætur fyrir matsandlagið, það er það land sem fari undir nýjan þjóðveg og 30 metra veghelgunarsvæði í hvora átt frá miðlínu. Gerir eignarnámsþoli því kröfu um fullar bætur vegna 220 metra áhrifasvæðis í hvora átt frá mörkum veghelgunarsvæðis fyrirhugaðs Hringvegar (það er fyrir 250 metra áhrifasvæði þjóðvegar að frádregnu 30 metra veghelgunarsvæði). Telur eignarnámsþoli að landið næst þjóðveginum verði fyrir mestum áhrifum (af völdum mannvirkja á borð við skurði, byggingabanns, hljóðs og annarrar mengunar) en síðan verði þau minni eftir því sem fjær dragi og að skýra beri niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra manna, sem legið hafi fyrir í nefndum dómi Hæstaréttar, að áhrifin í því máli hafi verið metin að jafnaði 25% af markaðsverði. Krefst eignarnámsþoli þess að eignarnema verði gert að greiða að lágmarki 45.887.895 krónur í bætur vegna 220 metra áhrifasvæðisins í hvora átt frá nýjum þjóðvegi, þar sem fyrir fyrstu 70 metrana norðan vegar skuli koma 80% af grunnverði/markaðsvirði, en 60% af sama verði fyrir næstu 150 metrana. Vegna áhrifasvæðis norðan nýs þjóðvegar skuli þannig greiða bætur samtals að fjárhæð 30.905.560 krónur (0,8 x 350 krónur x 43.435 fermetrar + 0,6 x 350 krónur x 89.256 fermetrar). Vegna áhrifasvæðis sunnan þjóðvegarins skuli á hinn bóginn koma 80% af grunnverði/markaðsverði fyrir fyrstu 70 metrana en 10% af sama verði fyrir næstu 150 metrana, samtals 14.982.335 krónur (0,8 x 350 krónur x 45.051 fermetri + 0,1 x 350 krónur x 67.661 fermetri). Í málatilbúnaði eignarnámsþola er eins og þar greinir nánar ítarlega rakið til hvaða atriða líta þurfi við mat á því við hve hátt hlutfall af grunnverði/markaðsverði skuli miða þegar ákveðnar séu bætur vegna fjárhagslegra áhrifa á áhrifasvæði eignarnámsins, utan veghelgunarsvæðis. Hér vísar eignarnámsþoli einkum til þess að til komi lögbundið byggingarbann vegna nýs þjóðvegar á nánar tilgreindu landi eignarnámsþola þar sem nánast ekkert byggingarbann hafi verið fyrir vegna eldri þjóðvegarins, nánar tilgreint land eignarnámsþola fari undir skurði, girðingar og nýjan vegslóða og komi því ekki til með að nýtast, af nýjum þjóðvegi muni stafa aukin mengun (sjón-, ljós-, hljóð- og eiturefnamengun) með tilheyrandi framtíðaróhagræði meðal annars þar sem vegamannvirkið verði hærra, stærra og umferðarþyngra en fyrri þjóðvegur, svo og þess að jörðin Sandhóll sæti nú enn skerðingum af hálfu hins opinbera sem kljúfi jörðina í sundur. Loks hafnar eignarnámsþoli því að hann hafi notið hagsbóta umfram aðra landeigendur í skilningi 3. mgr. 39. gr. vegalaga eða annarra hagsbóta. Fyrir liggi samningur milli aðila 18. desember 2020 um þær verklegu framkvæmdir sem nauðsynlegt hafi verið að ráðast í vegna eignarnámsins og þar sé lýst þeim mótvægisaðgerðum sem ætlað sé að draga úr tjóni sem eignarnámsþoli verði fyrir vegna eignarnámsins meðal annars í skilningi 8. gr. laga nr. 11/1973. Hafni eignarnámsþoli t.d. því sem fram hafi komið af hálfu eignarnema við vettvangsathugun í málinu, um að aðgengi að landi Sandhóls lagist með tilkomu undirganga og vegna hægari umferðar um Ölfusveg, því fyrir eignarnámið hafi ekkert hindrað aðgengi að norðurhluta jarðarinnar en fjórföldun nýs þjóðvegar komi til með að útiloka aðgengi nema um göngin og séu á engan máta til hagsbóta fyrir eignarnámsþola heldur hafi þann eina tilgang að leysa aðgangsmál vegna nýja þjóðvegarins. Eignarnámsþoli hafnar því að draga eigi frá bótum andvirði þeirra mótvægisaðgerða sem eignarnemi hafi ráðist í og heldur því fram að ef ekki hefðu náðst samningar milli aðila um þessa verkþætti þá hefði þurft að meta þá til bóta. Hafi mótvægisaðgerðirnar haft mikil áhrif á útreikninga eignarnámsþola enda hefði vegna þeirra ekki komið til þess að reikna þyrfti til bóta það tjón sem að öðrum kosti hefði orðið. Hér tiltekur eignarnámsþoli jafnframt að það sé frumskylda eignarnema að lágmarka það tjón sem hann valdi við að beita eignarnámsheimildinni og leggja veg yfir land eignarnámsþola. Þær aðgerðir sem samist hafi um að eignarnemi hefði veg og vanda af hafi ekki verið ónauðsynlegar, svo sem eignarnemi hafi haldið fram, heldur þvert á móti sjálfsagðar og nauðsynlegar til að draga eins og kostur var á úr áhrifum eignarnámsins á jörðina og ljóst að aðgerðirnar hefðu ekki komið til framkvæmda ef um þær hefði ekki verið samið með tilheyrandi tilkostnaði af hálfu eignarnámsþola.
Varðandi kröfu sína um bætur vegna tímabundins ónæðis, rasks, óþæginda, óhagræðis o.fl.vísar eignarnámsþoli til þess að rask muni fylgja framkvæmdunum og ónæði fyrir landeigendur bæði fyrir og á meðan framkvæmdum standi. Yfir tíu ár séu liðin síðan ákveðið hafi verið að ráðast í framkvæmdina og hafi jörð eignarnámsþola í raun verið í gíslingu frá þeim tíma og fram yfir verklok. Ekki sé áætlað að ljúka framkvæmdum á jörðinni fyrr en eftir tvö til þrjú ár og verði jörðin því áfram í uppnámi þangað til. Erfitt verði um vik með nýtingu á þessu tímabili, svo og áform um aukna nýtingu og starfsemi á jörðinni. Við það bætist að eignarnemi hafi af óútskýrðum ástæðum dregið úr hófi að ljúka samningum og greiða eignarnámsbætur því nú sé á fjórða ár frá því formleg ákvörðun hafi verið tekin um eignarnám sem borist hafi eignarnámsþolum með bréfi 25. október 2017. Á þeim tíma sem liðinn sé hafi tveir eignarnámsþolanna fallið frá og vegna dráttarins af hálfu eignarnema hafi þeir ekki fengið notið bótanna heldur aðeins þurft að þola íþyngjandi áhrif eignarnámsins. Eignarnámsþoli kveður raskið í tilviki Sandhóls verða verulegt og óvanalega mikið og að mikið samráð verði milli aðila um verkþætti framkvæmdarinnar, sbr. samning 18. desember 2020 um tilhögun framkvæmda. Þegar hafi verið haldnir nokkrir verkfundir og mikill tími muni áfram fara í slíka fundi fyrir eignarnámsþola fram yfir verklok. Eignarnámsþoli vísar til þess að samkvæmt dómum Hæstaréttar og úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta séu bætur fyrir rask, óhagræði o.fl. metnar eftir atvikum í einstökum málum og ákveðnar að álitum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 31. mars 1987 sem birtur var í dómafni réttarins það ár á bls. 497, dóm Hæstaréttar 31. mars 1980 sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 920, og úrskurði matsnefndar 14. desember 2006 í máli nr. 5/2006 (Fremra- og Ytra-Kot), 1. október 2014 í máli nr. 10/2014 (Efri- og Neðri-Skálateigur) og 10. október 2019 í máli nr. 11/2019 (Hólar í Hornafirði). Telur eignarnámsþoli að fullar bætur vegna þessa þáttar séu að lágmarki 5.500.000 krónur og að þá hafi verið tekið tillit til ræktunarkostnaðar túna og fjárréttar sem verði að víkja vegna framkvæmda eignarnema. Sé réttin mjög léleg og verði ekki flutt og verðmæti hennar felist aðeins í því að hún hafi nýst eignarnámsþola eins og hún sé.
Varðandi kröfu sína um bætur vegna kostnaðar við snjómokstur vísar eignarnámsþoli til þess að hann hafi, eins og nánar greinir í málsgögnum, lagt til við samningsgerð að eignarnemi annaðist vetrarþjónustu í og við undirgöngin undir Bakkárholtsá sem tengja muni nyrðri og syðri hluta þess lands sem eignarnámsþoli heldur eftir að eignarnámi frágengnu. Heldur eignarnámsþoli því fram að fyrirséð sé vegna aðstæðna að mikil snjósöfnun verði í og við undirgöngin, sem eignarnemi hafi valið stað í farvegi Bakkárholtsár, en engin slík vandamál hafi verið til staðar áður og sé slík fyrirséð snjósöfnun því afleiðing af framkvæmdum við nýjan þjóðveg. Hafi eignarnemi hafnað greiðsluskyldu þar sem um einkaveg sé að ræða. Bendir eignarnámsþoli á að engin önnur leið verði eftirleiðis að landi Sandhóls norðan vegar og hafi eignarnemi ítrekað hafnað óskum eignarnámsþola um að tryggja aðra vegtengingu að landinu og mögulegum útfærslum í því samhengi. Erfitt sé að áætla þennan kostnað eignarnámsþola sem hann muni bera uns veginum (undirgöngunum) verði breytt í þjóðveg og þótt uppbygging í framtíðinni muni líklega kalla á slíka breytingu vegarins kunni nýr þjóðvegur að hafa neikvæð áhrif á slíka þróun byggðar og hafi eignarnámsþoli hér miðað við tíu ár. Vegna óvissu kveður eignarnámsþoli ótækt að gera hér ríkar kröfur um sönnun og sé kostnaður við snjómokstur áætlaður 7.440000 krónur, miðað við að notast sé við snjómoksturtækis frá Selfossi (20 km leið) sem kosti 20.000 krónur á klst. auk virðisaukaskatts (samkvæmt upplýsingum sem eignarnámsþoli hefur aflað frá einstaklingi sem rekur gröfuþjónustu á Selfossi og annast hefur snjómokstur á svæðinu), að verkið taki að lágmarki 2 klst. hverju sinni og að þörf sé á snjómokstri í 30 skipti á ári í tíu ár. Telur eignarnámsþoli mikilvægt að nefndin taki afstöðu til þess hvort skilyrði séu til að meta bætur að álitum eða fresta þessum bótaþætti, sbr. 16. gr. laga nr. 11/1973 og 2. mgr. 40. gr. vegalaga.
Varðandi kröfu sína um bætur vegna kostnaðar við girðingarefni vísar eignarnámsþoli til þess að hann hafi valið járnstaura í girðingu meðfram nýjum þjóðvegi. Í samningi aðila komi fram að eignarnemi leggi til tréstaura en samþykki járnstaura gegn því að eignarnámsþoli greiði mismuninn. Aðila greini á um hvor aðila beri skyldu til að halda við girðingunni en eignarnemi telji að það sé í höndum eignarnámsþola. Sé það rétt telur eignarnámsþoli að enn fráleitari en ella sé sú ákvörðun eignarnema að velja lélegasta girðingarefni sem völ sé á og þurfi viðhald eftir fáein ár vegna fúa í stað þess að nota járnstaura sem endist áratugum saman. Það sé álit eignarnámsþola að eignarnemi hafi hagsmuni af að girða með járnstaurum því mikilvægt sé að tryggja öryggi á vegsvæði og draga úr framtíðarkostnaði eignarnema af viðhaldi girðinga. Í reglugerð nr. 930/2012 um girðingar meðfram vegum sé kveðið á um þátttöku eignarnema í viðhaldskostnaði girðinganna. Telur eignarnámsþoli að eignarnema sé óheimilt að draga mismun á járn- og tréstaurum, að fjárhæð 283.400 krónur, frá eignarnámsbótum og óskar eftir afstöðu matsnefndar til þessa.
Varðandi málskostnaðarkröfu sína vísar eignarnámsþoli til þess að kostnaður fyrir lögfræðiráðgjöf vegna matsmálsins hafi þegar verið greiddur af eignarnema að frátöldum kostnaði sem fallið hafi til eftir að eignarnámsþoli hafi veitt eignarnema umráð matsandlagsins með samningi, þegar ljóst hafi verið að samningar um bætur tækjust ekki. Kostnaðurinn hafi verið greiddur af eignarnema í samræmi við framlagða tímaskýrslu og nánar tilgreinda sundurliðun. Tiltekur eignarnámsþoli að eignarnemi telji í matsbeiðni að umsaminn málskostnaður sæti endurskoðun matsnefndar þótt aðilar hafi samið um greiðslu alls lögfræðikostnaðar og að sú greiðsla væri forsenda samninga um tilhögun og heimild til framkvæmda 18. desember 2020. Aðeins hafi átt að leggja það sem ágreiningur væri um fyrir matsnefnd. Bendir eignarnámsþoli einnig á að lögfræðikostnaðurinn hafi að hluta verið samþykktur af eignarnema í samningi um eignarnámsbætur fyrir jörðina Kross, því sami lögmaður hafi unnið jöfnum höndum að málum Sandhóls, Kross og Bakkárholts, þar sem tímafrekt hafi reynst að koma málsmeðferð og samningsgerð í lögformlegan farveg. Heldur eignarnámsþoli því fram að tímaskýrslur beri með sér að vinnan hafi verið nauðsynleg og sannanlega í tengslum við eignarnámið. Hafi eignarnemi ekki rökstutt að þessi kostnaður sé úr hófi miðað við sambærileg mál. Þá sé skorað á lögmann eignarnema að leggja fram tímaskýrslur vegna vinnu sem unnin hafi verið í þágu málsins af hans hálfu. Málskostnaðarkrafa eignarnámsþola nemur samtals 6.253.557 krónum, það er annars vegar umsaminn kostnaður sem fallið hafi til frá 2009 til 18. mars 2019 og eignarnemi hafi þegar greitt að fjárhæð 5.077.107 krónur og hins vegar kostnaður vegna meðferðar málsins fyrir matsnefnd að fjárhæð 1.176.450 krónur, þ. á m. útlagður kostnaður vegna ráðgjafar verkfræðings að fjárhæð 69.057 krónur, og séu allar fjárhæðirnar að meðtöldum virðisaukaskatti. Sé þess farið á leit við matsnefndina að leyst verði úr málskostnaðarkröfu með rökstuddum hætti.
Eignarnámsþoli kveður bótaútreikninga sína vera setta fram með fyrirvara um að forsendur eignarnema reynist réttar, þ. á m. hönnun undirganga þannig að þau tryggi vegtengingu milli jarðarhluta og óvissu um væntan kostnað eignarnámsþola við snjómokstur.
VI
Niðurstaða matsnefndar:
Eignarnám á landspildu eignarnámsþola, að Sandhóli í Ölfusi, er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmdar við breikkun Suðurlandsvegar. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til breikkunar Hringvegar (1) frá Hveragerði að Selfossi og gerð nýs hliðarvegar, Ölfusvegar. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í því að auka umferðaröryggi með aðskilnaði akstursstefna og fækkun tenginga við Hringveg ásamt því að auka umferðarrýmd vegakerfisins milli Hveragerðis og Selfoss og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Þannig sé í samgönguáætlun tilgreint að lagður verði 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum með vegriði í miðdeili og planvegamótum á kaflanum milli Selfoss og Hveragerðis, nánar tiltekið frá Biskupstungnabraut að Kambarótum. Að því er framkvæmdina og landspildu eignarnámsþola varðar, mun Hringvegur (1) liggja á nýju vegsvæði um land Sandhóls. Nýja vegsvæðið sveigir frá núverandi þjóðvegi austan Gljúfurár og liggur á nýjum stað um land Sandhóls frá landamerkjum við Akurholt og allt að stöð 43800, þar sem eru landamerki við Bræðaból land 1. Núverandi þjóðvegur verður áfram í notkun eftir tilkomu nýs vegsvæðis Hringvegar (1) en eftirleiðis sem innansveitarvegur sem mun þjóna hlutverki tengivegar á milli Hveragerðis og Selfoss.
Hinn 18. desember 2020 gerðu eignarnemi og eignarnámsþoli með sér tvo samninga. Annars vegar samning í 11 greinum um tilhögun framkvæmda. Þar er fjallað um það land eignarnámsþola sem fer undir vegsvæði eignarnema, heimild eignarnema til efnisnáms fyrir landi eignarnámsþola, að um bætur fari samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, um frágang raskaðs lands af hálfu eignarnema, gerð aðkomuvegar í landi eignarnámsþola og önnur áhrif af völdum framkvæmda eignarnema. Einnig er þar fjallað um ýmis önnur atriði, þ. á m. gerð undirganga, vegslóða, skurða, ræsa, girðinga, hliða, lagna o.fl. Þá er þar að finna bráðabirgðaheimild til handa eignarnema til framkvæmda, mælt fyrir um stofnun fasteignar og opinbera skráningu vegna vegsvæðis fyrir landi eignarnámsþola, fjallað um samráð og úttektir, greiðslur og greiðsluskilmála og lausn ágreiningsmála. Hins vegar samkomulag í sex greinum um heimild eignarnema til framkvæmda. Með síðargreinda samkomulaginu heimilaði eignarnámsþoli í ákvæði 2. gr. samkomulagsins að eignarnemi fengi umráð lands og heimild til framkvæmda innan nánar tilgreinds vegsvæðis landspildu að Sandhóli þrátt fyrir að ekki væri búið að ganga frá samningi um bætur fyrir land, efni og önnur réttindi. Ákvæði 3. gr. samkomulagsins fjallar um innborgun á bætur og þar segir meðal annars:
„[Eignarnemi] greiðir [eignarnámsþola] innborgun á bætur við undirskrift samkomulags þessa á bankareikning eftir fyrirsögn [eignarnámsþola]. Innborgun er 70% af heildarfjárhæð síðasta tilboðs [eignarnema] skv. bréfi dags. 12. október 2020, alls kr. 9.899.188 [14.141.697 x 70%]. Fjárhæð þessi kemur til frádráttar endanlegri fjárhæð bóta.
[Eignarnemi] greiðir [eignarnámsþola] einnig áfallinn lögmannskostnað við undirskrift samkomulags þessa. Samkvæmt yfirliti er áfallinn kostnaður talinn 5.077.107 kr. þar með talinn virðisaukaskattur. [...]“
Í ákvæði 4. gr. samkomulagsins er fjallað um málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og þar segir:
„[Eignarnemi] mun vísa ágreiningi um fjárhæð bóta til Matsnefndar eignarnámsbóta, sbr. lög nr. 11/1973 vegna þeirra framkvæmda [eignarnema] sem fram þurfa að fara innan landamerkja Sandhóls og kynnt hefur verið, innan fjögurra vikna frá undirskrift samnings þessa.
Innborgun á bætur og kostnað skv. 3. gr. er samkomulagsatriði og bindur hvorugan aðila í kröfugerð fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Endanlegt uppgjör bóta og málskostnaðar fer fram þegar mat Matsnefndar eignarnámsbóta liggur fyrir. Báðir aðilar geta skotið úrskurði nefndarinnar til dómstóla í samræmi við lög um framkvæmd eignarnáms.
[Eignarnemi] mun standa við þær framkvæmdir og tilhögun framkvæmda eins og þeim er lýst í meðfylgjandi samningi um tilhögun framkvæmda og fylgiskjölum við hann.
Aðila greinir hins vegar á um hvaða atriði, sem tilgreind eru í samningnum teljist til mótvægisaðgerða, bótagreiðslna, lagfæringa eða sérstaklega til hagsbóta eignarnámsþola. Þá er ágreiningur um allt er lýtur að áhrifum lagningar vegarins á hagsmuni eignarnámsþola. Aðilar munu lýsa kröfum sínum og bótasjónarmiðum nánar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Báðir aðilar áskilja sér rétt til að leggja fram skriflegar greinargerðir og gögn. Að öðru leyti fer málsmeðferð fram í samræmi við lög nr. 11/1973 og málsmeðferðarreglur nefndarinnar og bindur samkomulag þetta ekki matsnefndina við úrlausn mála.“
Kemur þá til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um bætur úr hendi eignarnema vegna eignarnáms á matsandlaginu, spildu eignarnámsþola í landi jarðarinnar Sandhóls.
Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.
Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 7. maí 2021 ásamt lögmönnum aðila og fulltrúum eignarnámsþola og kynnti sér aðstæður. Samkvæmt málsgögnum tekur eignarnámið til 38.154 fermetra spildu undir nýtt vegsvæði þjóðvegar sem þverar land Sandhóls frá norðvestri til suðausturs frá landamerkjum gagnvart Akurholti til merkja gagnvart Bakkárholti. Samkvæmt málsgögnum sem stafa frá eignarnámsþola og upplýsingum í fasteignaskrá mun jörðin samtals vera 105,2 hektarar að stærð og þar af 27,0 hektarar af ræktuðu landi. Þessu til viðbótar fylgir jörðinni engjaspilda 34,8 hektarar að stærð sunnan hennar, sem aðskilin er frá öðru landi jarðarinnar. Ef frá er talin engjaspildan tekur matsandlagið til um 26,5% af heildarflatarmáli jarðarinnar. Samkvæmt málsgögnum sem stafa frá eignarnema var jörðin samtals 141 hektari að stærð fyrir eignarnám, en verður samtals 137 hektarar að eignarnámi frágengnu. Af uppdráttum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að fyrir framkvæmdina á vegum eignarnema um breikkun Suðurlandsvegar, sem er tilefni eignarnáms á spildu úr landi jarðar eignarnámsþola, lá þjóðvegur, Hringvegur (1), sunnar í landi Sandhólsjarðarinnar, sem var tvíbreiður vegur með einni aksturstefnu í hvora átt. Af uppdráttunum verður jafnframt ráðið að staðháttum eftir framkvæmdina verði háttað á þann veg að Suðurlandsvegur verði við það vegur með aðskildum akstursstefnum. Samkvæmt gögnum málsins mun vegsvæði nýs þjóðvegar verða 60 metra breitt og verður það sem fyrr greinir staðsett nokkru norðar í landi jarðarinnar en eldri þjóðvegur. Þegar frá er dregið matsandlagið í landi Sandhóls heldur eignarnámsþoli eftir 619.425 fermetra spildu í landi jarðarinnar norðan nýs þjóðvegar, 142.970 fermetra spildu milli nýs og eldri þjóðvegar og 605.103 fermetra spildu sunnan eldri þjóðvegarins, samkvæmt upplýsingum sem stafa frá eignarnema og hefur ekki verið mótmælt af hálfu eignarnámsþola. Vettvangsathugun á landi Sandhóls leiddi í ljós að matsandlagið er vel gróið og framræst beitiland.
Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskilinni kröfu eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns af völdum kostnaðar við snjómokstur á tilgreindu svæði í framtíðinni. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að til staðar sé virkur markaður um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.
Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir þá landspildu sem fer undir nýtt vegsvæði þjóðvegar, Hringvegar (1). Telur matsnefndin að uppfært tilboð eignarnema, sem nemi grunnverði að fjárhæð 211 krónur á fermetra ásamt ræktunarkostnaði að fjárhæð 38,5 krónur á fermetra, gefi ekki fyllilega raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Það geri ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggi á, 350 krónur á fermetra. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi 310 krónum á fermetra eða 310.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að ekki liggur enn fyrir deiliskipulag vegna landsvæðisins, sem um er að ræða, eða aðrar aðstæður sem heimila þegar önnur en núverandi not þar, en jafnframt að landsvæðið er á suðvesturhorni landsins og gróðursælt, í grennd við þéttbýliskjarna á Selfossi, í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir 38.154 fermetra spildu í landi Sandhóls þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 11.827.740 krónur (38.154x310).
Í öðru lagi er það álit matsnefndar að eignarnámsþola beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegsvæði hefur á það land sem hann heldur eftir, það er verðrýrnun þar sem vegurinn skiptir landi jarðarinnar þannig að óhagræði hlýst af. Skiptist land jarðarinnar eftirleiðis í þrjár spildur því það er skorið af nýja þjóðveginum og eldri þjóðvegi sem áfram verður nýttur sem innansveitarvegur. Hér er þó að áliti matsnefndar jafnframt til þess að líta að aðilum hefur með samningi 18. desember 2020 samist svo að eignarnemi viðhafi nánar tilgreindar ráðstafanir til að draga úr þeim fjárhagslegu áhrifum sem nýtt vegsvæði kunni að hafa á það land sem eignarnámsþoli heldur eftir. Það er álit matsnefndar að þessar ráðstafanir séu til þess fallnar að rýra ekki óbreytt not landsins sem eignarnámsþoli heldur eftir. Að teknu tilliti til þessara ráðstafana, sem eignarnemi hefur skuldbundið sig til að viðhafa, er það álit matsnefndar að eignarnámið rýri ekki óbreytt not landsins sem eignarnámsþoli heldur eftir. Á hinn bóginn er það álit matsnefndar að nýr vegur skipti landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun verði á spildu sem myndast á milli nýs og eldri þjóðvegar sem nemi 142.970 fermetrum í landi Sandhóls og telur nefndin rétt að miða verðrýrnun þessa við fjórðung fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 77,5 krónur á fermetra eða 77.500 krónur á hektara. Þykja hæfilegar eignarnámsbætur vegna þessa vera 11.080.175 krónur (142.970x77,5). Er kröfu eignarnámsþola um frekari bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif af völdum eignarnámsins hafnað sem tilhæfulausum.
Eignarnámsþoli hefur og haft uppi bótakröfu vegna ætlaðs kostnaðar við snjómokstur í framtíðinni. Hér er að áliti matsnefndar slík óvissa um áhrif veðurfars á undirgöngin sem krafan snýr að, að ekki er að svo stöddu unnt að ákveða eignarnámsbætur fyrir ætlað framtíðartjón af þessum völdum, líkt og eignarnámsþoli hefur krafist. Hefur matsnefndin þá meðal annars í huga heimildir 16. gr. laga nr. 11/1973 til endurupptöku bótaákvörðunar og fyrirmæli 2. mgr. 40. gr. vegalaga. Er þessari kröfu eignarnámsþola því hafnað.
Eignarnámsþoli hefur einnig haft uppi bótakröfu vegna girðingarefnis sem fyrr greinir. Það er að áliti matsnefndar forsvaranlegt af hálfu eignarnema að girða beggja vegna þjóðvegar með tréstaurum á þann hátt sem hann hefur ráðgert og er þessari kröfu eignarnámsþola því hafnað.
Þá er það í þriðja lagi álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Er kröfu eignarnámsþola um frekari bætur fyrir ætlað tjón af völdum tímabundins óhagræðis hafnað sem tilhæfulausum.
Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola vera 23.907.915 krónur (11.827.740+11.080.175+1.000.000) að frádreginni innborgun eignarnema samkvæmt samkomulagi aðila 18. desember 2020 að fjárhæð 9.899.188 krónur, eða samtals 14.008.727 krónur.
Eignarnámsþoli hefur uppi kröfu um greiðslu kostnaðar í málinu og ber því við að eignarnemi hafi staðið skil á mestum hluta kostnaðarins við gerð samnings 18. desember 2020 og að ekki hafi verið ágreiningur um þann þátt málsins, enda hafi málskostnaðarkrafan verið studd ítarlegum gögnum. Af hálfu eignarnema er á hinn bóginn fram komið að mótmælt sé málskostnaðarkröfu eignarnámsþola í heild sem of hárri og að kostnaðurinn hafi að hluta fallið til vegna vinnu sem sé sjálfu eignarnáminu óviðkomandi og lúti að afskiptum eignarnámsþola af framkvæmd eignarnema. Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmál og hæfilegur verður talinn. Varðandi mótmæli eignarnema sem lúta að fjárhæð þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hefur krafist í málinu er til þess að líta að aðilar hafa hér farið þá leið að semja í aðdraganda eignarnáms um ýmsar aðgerðir sem eignarnemi skyldi viðhafa til að draga úr fjárhagslegum áhrifum eignarnámsins á hagsmuni eignarnámsþola. Við þær aðstæður verður að áliti matsnefndar jafnframt að miða við að eignarnámsþola beri réttur til endurgjalds vegna kostnaðar sem hann hefur haft af þessari vinnu enda er það álit nefndarinnar að aðgerðirnar hafi þýðingu fyrir ákvörðun um fjárhæð bóta vegna eignarnámsins. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram sameiginlegt málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola í þessu máli og eignarnámsþola í öðru máli sem rekið er fyrir matsnefnd, máli nr. 3/2021, vegna framkvæmdarinnar við Suðurlandsveg. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaður féll að hluta til vegna vinnu á árunum 2009 og 2010 vegna mats á umhverfisáhrifum og samskipta lögmanns eignanrámsþola við umbjóðanda sinn og við eignarnema, mörgum árum áður en ráðist var í framkvæmd þá sem var tilefni eignarnámsins og samningaviðræður aðila um bætur vegna þess hófust. Þótt samkvæmt lögum nr. 11/1973 sé það matsnefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði raunhæfur og virkur, verður þessi hluti kostnaðar eignarnámsþola ekki talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþola í þessu máli þannig ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til þess að lögmaður eignarnámsþola hefur samkvæmt áðurgreindu rekið annað mál fyrir matsnefndinni vegna eignarnáms í þágu sömu framkvæmdar eignarnema. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola 5.850.000 krónur að frádreginni innborgun eignarnema samkvæmt samkomulagi aðila 18. desember 2020 að fjárhæð 5.077.107 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði. Hefur þá verið tekið tillit til meðferðar málsins fyrir matsnefnd, þ. á m. vettvangsathugunar í málinu 7. maí 2021 og þess að lögmaður eignarnámsþola hefur sem fyrr greinir rekið samhliða rekið annað mál fyrir matsnefndinni, mál nr. 3/2021, vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema.
Þá skal eignarnemi greiða 1.000.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða eignarnámsþola, dánarbúi Páls Auðar Þorlákssonar, 14.008.727 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og 772.893 krónur í málskostnað.
Þá skal eignarnemi greiða 1.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.
Valgerður Sólnes
Gústaf Vífilsson Magnús Leópoldsson