Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 107/2012

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 107/2012.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 29. febrúar 2012, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann endurgreiddi ofgreiddar atvinnuleysisbætur innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin var vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 19. september 2011 og nam 221.996 kr. ásamt 15% álagi 33.299 kr. eða samtals 255.295 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. júní 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 1. mars 2009 og fékk þær greiddar til 9. september 2011 í samræmi við rétt sinn en hann reiknaðist með 100% bótarétt. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 20. ágúst 2012 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 29. mars 2013.

Kærandi lagði fram á skrifstofu Vinnumálastofnunar eyðublaðið tilkynning um tekjur vegna tekna frá B 30. mars 2010. Samkvæmt tekjuáætlun var kærandi með áætlaðar mánaðarlegar tekjur að fjárhæð 31.949 kr. á tímabilinu mars 2010 til maí 2011 og fjárhæð 33.299 kr. á tímabilinu júní 2011 til nóvember 2011.

Kærandi lagði fram á skrifstofu Vinnumálastofnunar 3. desember 2010 eyðublaðið tilkynning um tekjur vegna tekna frá C í nóvember 2010. Kærandi tilkynnti 10. júní 2011 að hann væri kominn með 50% hlutastarf. Vinnuveitandi kæranda tilkynnti 14. júní 2011 að kærandi væri í 50% hlutastarfi hjá sér á bílaþvottastöð.

Kærandi var afskráður 9. september 2011 í kjölfar tilkynningar hans um að hann væri kominn með fulla vinnu.

Þar sem kærandi hafði haft mánaðarlegar tekjur frá B en var ekki skráður í hlutastarf var mál hans tekið til skoðunar hjá Vinnumálastofnun. Í kjölfar beiðni stofnunarinnar um launaseðla bárust 5. janúar 2012 launaseðlar fyrir janúar til september 2011. Á fundi þann dag var tekin sú ákvörðun að kærandi skyldi með afturvirkum hætti skráður í hlutastarf hjá B á tímabilinu 1. mars 2010 til 19. september 2011. Þar sem um afturvirka skráningu var að ræða myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Skuld kæranda var send til Innheimtumiðstöðvarinnar á D til frekari innheimtu 14. maí 2012. Kærandi greiddi í kjölfarið inn á skuldina 56.785 kr. Í nóvember 2012 tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður álag á skuld kæranda, samtals að fjárhæð 26.431 kr. Þá greiddi kærandi 39.621 kr. af skuld sinni með skuldajöfnuði skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í nóvember 2012. Í desember 2012 var útistandandi skuld kæranda við Vinnumálastofnun 42.254 kr. felld niður í samræmi við þá heimild sem fékkst í desember 2012 frá Ríkisendurskoðun til að afskrifa kröfur sem stofnast höfðu á árunum 2009 og 2010 vegna þeirra sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi. Kæranda var tilkynnt um niðurfellinguna með bréfi, dags. 11. janúar 2013. Eftirstöðvar skuldar hans námu þá 90.203 kr.

Í kæru fer kærandi fram á að krafan á hann verði endurskoðuð og felld niður þar sem um hafi verið að ræða tilfallandi vinnu og laun innan svokallaðra frítekjumarka. Hann hafi verið skráður í 50% hlutastarfi hjá E frá júní 2011 sem hafi verið rangt þar sem hann hafi einungis verið í vinnu hjá þeim í júní 2011 og ekkert eftir það meðan á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafi staðið. Kærandi ber að þegar honum hafi upphaflega boðist vinnan hjá B hafi hann látið Vinnumálastofnun vita af því. Vinnan hafi verið við og við þegar um hafi verið að ræða veikindi starfsmanna fyrirtækisins eða vegna frítöku þeirra. Hafi vinnan farið fram á mismunandi tímum dags, gat bæði verið að morgni, kvöldi, á virkum dögum og um helgar og hafi alltaf verið hringt í kæranda með litlum eða engum fyrirvara og því oft erfitt fyrir hann að tilkynna um vinnuna líkt og kveðið sé á um í 35 gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Starfsmenn Vinnumálastofnunar hafi vitað þetta og hafi þeir sagt kæranda að hann þyrfti ekkert að koma og sýna launaseðlana áfram þar sem fjárhæð launanna væri innan svokallaðra frítekjumarka og yfirleitt svipuð eða rétt rúmlega 30.000 kr.

Í júní 2011 hafi kæranda boðist 50% vinna hjá E og hafi kærandi látið Vinnumálastofnun vita af þessari vinnu og að hún ætti aðeins að standa í einn mánuð. Misfarist hafi að afskrá hann úr þessari vinnu þrátt fyrir það að hann hafi látið vita og hafi atvinnuleysisbætur hans verið skertar áfram í júlí, ágúst og september 2011.

Kærandi bendir á að atvinnuleysisbætur hans hafi verið skertar í takt við vinnuframlag hans hjá B eða 14% á mánuði árið 2011 þrátt fyrir að þær væru innan frítekjumarka skv. 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kveðst ekki sjá að sú rökfærsla Vinnumálastofnunar að tekjur hans hafi ekki verið tilfallandi heldur hafi verið um að ræða hlutastarf eigi við rök að styðjast.

Kærandi lagði fram yfirlýsingu frá B. Þar er staðfest að kærandi hafi verið við störf hjá fyrirtækinu við og við en ekki í fastri vinnu. Hafi verið kallað í kæranda þegar vantað hafi mannskap, hvort sem um hafi verið að ræða veikindi annarra starfsmanna eða frítíma. Starfið væri því tilfallandi að mati forsvarsmanna B.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. september 2013, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. mars 2010 til 19. september 2011. Kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu hjá fyrirtækinu B í mars 2010. Þá hafi hann skilað inn tekjuáætlun þar sem hann hafi áætlað sér mánaðarlegar tekjur að fjárhæð 31.949 kr. á tímabilinu mars 2010 til maí 2011 og 33.299 kr. á tímabilinu júní til desember 2011. Tekjuáætlun kæranda hafi að öllu leyti verið í samræmi við rauntekjur hans.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að það sé mat stofnunarinnar að jafnar tekjur frá sama launagreiðanda í tvo mánuði eða fleiri geti ekki talist tilfallandi vinna í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hafi það verið mat stofnunarinnar að umrætt starf kæranda hafi verið hlutastarf í 14% starfshlutfalli. Meginreglan um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Mánaðarlegar tekjur kæranda hafi numið lægri fjárhæð en frítekjumarkið skv. 4. mgr. 36. gr. laganna, sbr. reglugerð nr. 1219/2008, og hafi því ekki komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda, en þar sem skráning kæranda í hlutastarf hafi verið leiðrétt afturvirkt hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar, en skv. 1. mgr. 17. gr. laganna skuli starfshlutfall atvinnuleitanda koma til frádráttar á tryggingarhlutfalli hans.

Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Nemi eftirstöðvar skulda kæranda við Vinnumálastofnun 90.203 kr.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 19. febrúar 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að endurkröfu Vinnumálastofnunar á ofgreiddum atvinnuleysisbótum er kærandi þáði á tímabilinu 1. mars 2010 til 19. september 2011. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun í mars 2010 um tilfallandi vinnu hjá B. Samkvæmt tekjuáætlun var hann með áætlaðar mánaðarlegar tekjur að fjárhæð 31.949 kr. á tímabilinu mars 2010 til maí 2011 og að fjárhæð 33.299 kr. á tímabilinu júní til nóvember 2011. Tekjuáætlunin var alfarið í samræmi við rauntekjur kæranda.

Þar sem kærandi þáði jafnar tekjur frá sama launagreiðanda í marga mánuði verður ekki litið svo á að um tilfallandi tekjur hafi verið að ræða heldur hafi kærandi verið í hlutastarfi. Miðað við tekjur kæranda var hann í 14% hlutastarfi.

Samkvæmt 1.‒ 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur tryggingarhlutfall atvinnuleitanda í atvinnuleysistryggingakerfinu aldrei orðið hærra en sem nemur hlutfallslegum rétti þeirra í kerfinu. Atvinnuleitandi getur átt hlutfallslegan rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta af margvíslegum ástæðum, svo sem vegna þess að hann hafi ekki sinnt fullri vinnu á ávinnslutímabili. Þegar svo háttar til að atvinnuleitandi á fullan rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta en sinnir hlutastarfi þá lækkar það rétt hans í kerfinu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en lagagreinin hljóðar svo:

Launamaður, sbr. a-lið 3. gr, sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.

Þar sem kærandi var í 14% hlutastarfi átti hann því 86% bótarétt á umræddu tímabili og tóku útreikningar ofgreiddra atvinnuleysisbóta mið af því. Útreikningur skerðingar atvinnuleysisbóta kæranda aftur í tímann var í samræmi við svohljóðandi 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. [4. mgr.]1) skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum …,2) [greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum].1) Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Af þessu ákvæði leiðir, sem og 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að kærandi átti eingöngu rétt á að fá greiddar 86% af þeim atvinnuleysisbótum sem hann annars hefði átt að fá. Skerðing vegna tekna er svo útfærð þannig að óskertur réttur kæranda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki er dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann á rétt á. Helmingur þeirra fjárhæðar sem nær umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndar því reiknigrundvöll skerðingar á greiðslu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun beitti því réttum aðferðum við að finna út rétt kæranda í atvinnuleysistryggingakerfinu þegar sú ákvörðun var tekin að kærandi skyldi með afturvirkum hætti skráður í hlutastarf í stað þess að hafa verið í tilfallandi starfi.

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 29. febrúar 2012, þess efnis að honum beri að endurgreiða Vinnumálastofnun eftirstöðvar ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð samtals 90.203 kr., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta