Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 108/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. mars 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 108/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15020019

Kæra [...]

og sonar hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 16. febrúar 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), þær ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2015, að synja henni og syni hennar, [...], um hæli á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja henni og syni hennar um hæli á Íslandi verði ógilt. Til vara er þess krafist að ákvörðun stofnunarinnar um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga verði ógilt.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 15. júní 2014 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Kærandi var boðuð í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 12. desember 2014 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun dags. 10. febrúar 2015, synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu ákvörðunarinnar þann 16. febrúar 2015, ásamt því að óska eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri í kærumeðferð. Fallist var á frestun réttaráhrifa með bréfi kærunefndar, dags. 4. mars 2015. Greinargerð kæranda, ásamt fylgiskjölum, barst kærunefnd þann 24. febrúar 2015. Þann 16. desember 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Talsmaður kæranda var viðstaddur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var það mat stofnunarinnar að frásögn kæranda, að teknu tilliti til leiðréttinga og skýringa kæranda, væri í grófum dráttum trúverðug.

Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi kveðst [...] og að upplýsingar um landið beri ekki með sér að þar séu aðstæður með þeim hætti að kærandi geti átt á hættu ofsóknir eða

ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð. Því væri það mat stofnunarinnar að aðstæður kæranda væru hvorki með þeim hætti sem greini í 1. mgr. né 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem þær féllu ekki undir 1. mgr. 45. gr. laganna.

Um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga segir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði séð að þær aðstæður sem tilgreindar séu í ákvæðinu eigi við um kæranda. [...] Væri það því niðurstaða stofnunarinnar að aðstæður kæranda í heimalandi hennar væru ekki slíkar að þær réttlættu dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins, hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla við Ísland. Þá hafi athugun stofnunarinnar ekki leitt í ljós neitt sem bendi til þess að [...].

Þá þótti rétt að beita frávísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga og frestaði kæra ekki réttaráhrifum, með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. laganna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kröfur hennar séu byggðar á því að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem konur og börn búi við í [...], sbr. ákvæði 68. gr. stjórnarskrár, 45. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Matið hafi ekki farið fram í samræmi við þær kröfur sem lagðar séu á íslensk stjórnvöld og hafi stofnunin því brotið gegn ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 50. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig hafi Útlendingastofnun ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga um rétt flóttamanns til hælis hér á landi og ákvæða um viðbótarvernd, né 12. gr. f um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Ákvörðunin brjóti því gegn lögum um útlendinga og stjórnsýslulögum.

Í greinargerð kemur fram að [...].

Þá greinir í greinargerð kæranda að [...].

Aðstæður í [...] eru raktar í greinargerð kæranda og sérstaklega fjallað um [...]. Með greinargerð fylgdu ýmsar skýrslur og gögn, þar á meðal skýrsla [...]. Þá er almennt fjallað um [...].

Í greinargerð kæranda er vísað til 44. gr., 44. gr. a og 46. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna til stuðnings máli kæranda. [...].

Þá er á því byggt í greinargerð kæranda að hún og barn hennar eigi rétt á viðbótarvernd bæði vegna hins almenna hættulega ástands í [...] og vegna sérstakra aðstæðna þeirra.

Um varakröfu um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f segir í greinargerð að ljóst sé að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður í [...], ásamt almennt erfiðum aðstæðum. Hún og barn hennar tilheyri [...] og stjórnvöld þar geti ekki verndað þau gegn hinum ýmsum ógnum sem að þeim steðji.

Þar að auki er vísað til 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, sbr. 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu málinu til stuðnings. Einnig til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Jalloh gegn Þýskalandi nr. 54810/00, Tarakhel gegn Sviss nr. 29217/12 og Ahmed gegn Austurríki nr. 25964/94. Aðstæður í [...] brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans og kærandi og sonur hennar muni ekki lifa mannsæmandi lífi þar né njóta réttinda sem kveðið sé á um í alþjóðlegum sáttmálum. [...] sé ekki öruggt ríki og þau eigi á hættu að sæta illri, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð.

Í greinargerð eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Stofnunin hafi ákveðið að styðjast ekki við [...] en stofnunin hafi metið framburð kæranda trúverðugan. [...]. Ljóst sé að [...] sé ekki í stakk búið til þess að veita henni þá aðstoð sem hún og sonur hennar þurfi á að halda. Verði þeim

snúið til baka [...]. Þá sé hafnað fullyrðingu Útlendingastofnunar, um að [...]. Staða kvenna og barna þar sé viðkvæm auk þess sem stjórnvöld séu ekki í stakk búin til þess að vernda þau gegn ofbeldi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Við meðferð máls kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum hefur hún lagt fram vegabréf sitt. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé ríkisborgari [...].

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hennar. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hennar varði börn hennar, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Kærandi eignaðist son hér á landi þann [...]. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá kærunefnd þann 16. desember 2015 að hún eigi von á barni [...]. Það er mat kærunefndar að líta verði svo á að fjölskyldan í heild teljist í viðkvæmri stöðu.

Réttarstaða barna kæranda

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Ákvæðið sækir einkum fyrirmynd til inngangsákvæða Barnasáttmálans, einkum 3. gr. Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Svo sem fram er komið eignaðist kærandi son þann [...]. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir telst í fylgd beggja foreldra sinna.

Landaupplýsingar

[...] er lýðræðisríki í [...] með um [...] íbúa. [...].

Kærunefndin hefur m.a. yfirfarið eftirfarandi gögn um aðstæður í [...].

Af ofangreindum gögnum má ráða að [...] er tiltölulega friðsælt ríki og ástandið þar í landi slíkt að það er almennt til þess fallið að tryggja mannréttindi borgaranna. Helstu vandamál ríkisins varðandi mannréttindi einstaklinga eru þó meðal annars [...]. Þó hafa yfirvöld í [...] gripið til ráðstafana til að ákæra og refsa opinberum starfsmönnum sem hafa brotið af sér í starfi. Þrátt fyrir það er refsileysi ákveðið vandamál í ríkinu. Ferðafrelsi er tryggt í stjórnarskrá ríkisins og virða stjórnvöld almennt þann rétt. Í ofangreindri skýrslu [...] kemur fram að þrátt fyrir að kveðið sé á um jafnrétti kynjanna í lögum ríkisins þá verði konur fyrir félagslegri mismunun, sérstaklega í dreifbýli, þar sem tækifæri til menntunar og launaðrar vinnu eru takmarkaðri. Hefðir og samfélagslegar venjur koma oft í veg fyrir að konur njóti lögbundins réttar síns til arfs og eigna, löglega skráðs hjónabands með tilheyrandi réttindum og réttar til fullnægjandi úrræða varðandi forsjá barna. Hins vegar er konum að fjölga í háskólum ríkisins auk þess sem þær sinni mikilvægum verkefnum hjá stjórnvöldum ríkisins. Félög sem berjast fyrir hagsmunum kvenna eru virk í ríkinu og standa m.a. fyrir verkefnum til að efla menntun kvenna, starfsþjálfun, auk þess að veita þeim lögfræðilega aðstoð og ýmsan annan stuðning. Stjórnvöld [...] vinni einnig að því að efla menntun kvenna og margir opinberir embættismenn eru baráttumenn fyrir réttindum kvenna. Þá gerðu yfirvöld í [...] rannsókn [...]. Þá hafa stjórnvöld unnið með frjálsum félagasamtökum og hagsmunasamtökum barna við að stuðla að hagsmunum og velferð barna í [...].

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kæranda verði veitt hæli sem flóttamaður hér á landi.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hennar séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir kröfu sína á því að hún vilji ekki fara aftur til [...]. Þá er á því byggt í greinargerð kæranda að hún sé [...] og eigi því rétt á vernd hér á landi vegna þess.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins, sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Í greinargerð er af hálfu kæranda haldið fram að hún sé [...]. Í gögnum málsins liggur [...]. Í máli þessu verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi [...].

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða áreiti af hendi yfirvalda eða annarra í [...]. [...]. Í ljósi þess og landsupplýsinga um [...] þá telur kærunefnd það ljóst að kærandi og sonur hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga, fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt lögunum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem

bendir til þess að hætt sé við því að kærandi og sonur hennar sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í skýringum með lögum nr. 115/2010 sem breyttu 12. gr. f laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Þá kemur fram að ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt sé rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Fyrir liggur að kærandi [...]. Gögn um [...], sem kærunefnd hefur kynnt sér, gefa til kynna að [...]. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem benda til annars. Það er því mat kærunefndar að framangreindu virtu að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Í skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 sem breyttu ákvæði 12. gr. f útlendingalaga er fjallað um mjög íþyngjandi félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og er sem dæmi nefnt aðstæður kvenna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða sem aðhyllast ekki kynhlutverk sem eru hefðbundin í heimaríki þeirra og af þessum sökum eigi þær hættu á útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Í greinargerð kæranda er því haldið fram að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður í [...], ásamt almennt erfiðum aðstæðum. [...]. Í fyrrgreindum skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 kemur fram að íþyngjandi félagslegar aðstæður verði að jafnaði ekki taldar taka til neyðar af efnahagslegum rótum, s.s. fátæktar eða húsnæðisskorts. Kærandi [...]. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt nægilega fram á að yfirvöld í [...] séu ófær um að veita henni vernd og aðstoð, óski hún eftir því við þau. Að framangreindu virtu og þeirra upplýsinga um aðstæður í [...] sem liggja fyrir í málinu er það mat kærunefndar að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til [...] séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 12. gr. f laga um útlendinga.

Þá kemur fram í ofangreindum skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 það sjónarmið að almennt séð beri að taka sérstakt tillit til barna hvort sem þau eru fylgdarlaus eða ekki. Þá beri að líta til þess hvort framfærsla, þá sérstaklega fylgdarlausra barna, sé tryggð. Kærunefnd telur, skv. framansögðu, að kærandi geti með góðu móti lifað og framfleytt sér og sínum í heimalandi sínu og þannig tryggt börnum sínum fullnægjandi framfærslu. Ennfremur sýna gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið að [...]. Kærunefnd telur að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að börn kæranda fylgi móður sinni aftur til heimalands hennar. Sonur kæranda hefur verið hér á landi í fylgd með báðum foreldrum sínum og

verður, ásamt ófæddu barni kæranda, í fylgd með móður sinni við endursendingu til heimalands hennar.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar [...] séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Jafnframt telur kærunefndin kæranda eða son hennar ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælismál sitt.

Ákvæði stjórnsýslulaga

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem stofnunin hafi ekki kannað aðstæður sem konur og börn búi við í [...].

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal Útlendingastofnun sjá til þess, að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og telur ekki að slíkur ágalli sé á rannsókn og málsmeðferð Útlendingastofnunar við úrlausn málsins þannig að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af ofangreindum ástæðum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar eru málavextir reifaðir sem og málsástæður kæranda. Þá er í stuttu máli fjallað um aðstæður í [...] og í því tilefni vísað til alþjóðlegra skýrslna um aðstæður þar í landi. Kærunefnd telur að Útlendingastofnun hafi við meðferð málsins tekið tillit til málsástæðna kæranda og fjölskyldu hennar og skoðað aðstæður í [...] með fullnægjandi hætti þrátt fyrir að umfjöllun um þær og rökstuðningur ákvörðunarinnar hafi verið í stuttu máli. Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um efni rökstuðnings stjórnsýsluákvarðana. Í skýringarriti með stjórnsýslulögunum (Stjórnsýslulög – skýringarrit (Páll Hreinsson, forsætisráðuneytið, 1994)) kemur fram að í málum á fyrra stjórnsýslustigi ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur að nægja til þess að uppfylla skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga. Þessari málsástæðu kæranda er því hafnað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta