Mál nr. 4/2010
Grein
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ráðning í starf. Hæfnismat.
Reykjavíkurborg auglýsti í september 2010 lausa stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu Velferðarsviðs borgarinnar. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum, í fyrsta lagi vegna samskipta ráðningaraðila við kæranda, í annan stað vegna þess að kærandi var ekki valinn í viðtal þrátt fyrir að hafa uppfyllt þær hæfniskröfur sem settar voru fram og í þriðja lagi vegna þess að kærandi var ekki valinn í starfið þrátt fyrir að hann hafi uppfyllt allar kröfur sem gerðar voru til starfsins og haft meiri menntun á þeim sviðum sem við komu starfinu, sem og meiri reynslu sem nýtast myndi í starfinu miðað við þá konu sem ráðin var. Reykjavíkurborg kvaðst hafa litið sérstaklega til menntunar sem myndi nýtast í starfinu, reynslu af stjórnun, sér í lagi breytingastjórnun, sem og reynslu af opinberri stjórnsýslu. Reykjavíkurborg taldi á grundvelli niðurstöðu þriggja manna ráðningarteymis sem mat allar 57 umsóknirnar sem bárust vegna starfsins að konan sem ráðin var hefði uppfyllt best þær kröfur sem gerðar voru til starfsins. Kærunefnd jafnréttismála taldi að ekki væru leiddar líkur að því að við ráðningu í starf skrifstofustjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi einstaklingum verið mismunað, með beinni eða óbeinni mismunun, á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008. Af þeim sökum telur kærunefndin að Reykjavíkurborg hefði sýnt nægilega fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun um umrædda starfsveitingu. Niðurstaða kærunefndar er því sú að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf skrifstofustjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. apríl 2011 er tekið fyrir mál nr. 4/2010 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru dagsettri 29. október 2010, móttekinni 30. nóvember 2010, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort kærði, Reykjavíkurborg, hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er kona ráðin var í starf skrifstofustjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar í kjölfar auglýsingar sem birt var í september 2010.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi dagsettu 3. desember 2010. Hinn 23. desember 2010 barst umsögn kærða með bréfi dagsettu 16. desember 2010. Kærunefnd óskaði eftir frekari gögnum kærða með bréfi dagsettu 7. janúar 2011. Með bréfi kærða, dagsettu 13. janúar 2011, var óskað eftir frekari fresti og var kærandi upplýstur um þann frest með bréfi nefndarinnar, dagsettu 14. janúar 2011.
- Frekari gögn kærða bárust með bréfi, dagsettu 19. janúar 2011, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við greinargerðina og gögnin á framfæri með bréfi, dagsettu 24. janúar 2011.
- Dagana 8. og 15. febrúar 2011 óskaði kærandi eftir frekari fresti til að koma athugasemdum á framfæri og var kærði upplýstur um frestina með bréfi, dagsettu 15. febrúar 2011.
- Hinn 21. febrúar 2011 bárust athugasemdir kæranda með bréfi dagsettu sama dag. Kærða var með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. febrúar 2011, gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda en engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.
- Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina
SJÓNARMIÐ KÆRANDA - Í kæru, dagsettri 29. október 2010, kemur fram að kært sé ráðningarferlið er ráðin var kona í starf skrifstofustjóra á skrifstofu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í september 2010 en kærandi hafi sótt um starfið en hvorki verið kallaður í viðtal né ráðinn í starfið.
- Í fyrsta lagi lýtur kæran að samskiptum Reykjavíkurborgar við kæranda þar sem hann kveðst hafa fengið ónákvæm svör. Í öðru lagi snýr kæran að því að kærandi hafi ekki verið boðaður í viðtal þrátt fyrir að hann telji sig uppfylla þær hæfniskröfur sem settar voru fram í auglýsingu um starfið. Í þriðja lagi lýtur kæran að því að kærandi hafi ekki verið valinn í starf skrifstofustjóra þrátt fyrir að hann telji sig uppfylla allar þær kröfur sem gerðar voru til starfsins. Þá telur kærandi sig hafa meiri menntun á þeim sviðum sem viðkomi starfinu og meiri reynslu sem nýtist í starfinu miðað við þá konu sem ráðin var í starfið.
- Kærandi rekur að menntun hans spanni breitt svið, þ.e. raungreinasvið, viðskiptafræðisvið og opinbera stjórnsýslu. Grunnmenntun kæranda sé raungreinamenntun þar sem hann hafi bæði lokið BS í tæknifræði og cand. polyt. í verkfræði. Viðskiptafræðinámið hafi verið í stjórnun og stefnumótun og að hluta til tekið í Viðskiptaháskólanum í Árósum hvað varðar sérfög og að hluta í Háskóla Íslands hvað varðar grunnfög og lokaritgerð. Lokagráða kæranda í viðskiptafræði hafi verið MS í viðskiptafræðum með stjórnun og stefnumótun sem sérsvið. Stjórnsýslunámið hafi alfarið verið tekið í Háskóla Íslands sem hafi lokið með MPA. Námið sé tveggja ára framhaldsnám í háskóla þar sem meðal annars sé krafist tíu ára starfsreynslu hjá opinberum aðilum. Námið sé mjög góður undirbúningur fyrir stjórnunarstarf hjá opinberum aðilum, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum.
- Þá rekur kærandi að starfsreynsla hans sé á breiðu sviði og hafi hann komið að stjórnun og rekstri frá ýmsum hliðum, þ.e. sem kennari, ráðgjafi, stjórnandi og rekstraraðili/eigandi. Um árabil hafi kærandi kennt rekstrarfög á háskólastigi. Um átta ára skeið hafi kærandi verið rekstrarráðgjafi og veitt ráðgjöf til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana á vegum sveitarfélaga. Aðalviðfangsefni kæranda hafi verið fjármál, nýsköpun, breytingastjórnun og endurskipulagning. Þá hafi kærandi verið framkvæmdastjóri í fyrirtækjum á ýmsum sviðum atvinnugreina og haft á sinni könnu meðal annars fjármál og starfsmannahald. Á vegum sveitarfélaga hafi hann verið rekstrarstjóri hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann hafi rekið ráðgjafarstofu, þ.e. Iðnþróunarfélag Suðurnesja og Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, auk fleiri starfa. Kærandi bendir á að eftir nám hans í opinberri stjórnsýslu 2008 hafi hann unnið fyrir Vesturgarð, þjónustumiðstöð Vesturbæjar sem heyri undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, að verkefni sem tengist heimaþjónustunni á Aflagranda.
- Kærandi gerir þá athugasemd við val á umsækjendum í viðtal að honum þyki undarlegt að kalla ekki mann til viðtals sem hafi mjög góða menntun og reynslu til að gegna umræddu starfi. Kærandi ítrekar að hann sé til að mynda bæði með MA í stjórnun og stefnumótun og einnig MPA í opinberri stjórnsýslu og hafi til margra ára tekið þátt í starfi faghópa um stjórnun á vegum Stjórnvísis. Um þau atriði sem hafi ráðið vali umsækjenda sem teknir voru til viðtals sé sagt að sérstaklega hafi verið horft til menntunar sem nýtast myndi í starfinu, reynslu af stjórnun, sér í lagi breytingastjórnun, og reynslu af opinberri stjórnsýslu. Kærandi fái ekki annað séð en að þetta hafi verið sér mjög hagstætt þar sem menntun hans sé nákvæmlega á þessu sviði og jafnframt hafi kærandi unnið verkefni fyrir Vesturgarð og hafi langa reynslu af stjórnunarstarfi og starfi með opinberum aðilum í starfi hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum.
- Kærandi veltir því fyrir sér hvers vegna breytingastjórnun virðist hafa verið gerð að skilyrði í þessu starfi. Sú sem ráðin var hafi lýst starfi sínu sem skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra hjá Velferðarsviði með eftirfarandi hætti: Hún sé í yfirstjórn Velferðarsviðs og sitji fundi velferðarráðs, þátttaka/stjórn verkefna og vinnuhópa, ábyrgð á kynningarmálum, í láni til skrifstofu borgarstjóra hluta árs 2009 og 2010, hafi stýrt gerð viðbragðsáætlunar fyrir borgina, unnið að upplýsingamálum og lýðræðisverkefnum. Það komi nú ekki beinlínis fram að breytingastjórnun sé nauðsynleg fremur en almenn stjórnunarþekking eða verkefnastjórnun í þessari lýsingu.
- Þá hafi ekkert jafnræði verið milli aðila í umsóknarferlinu en öllum hljóti að vera ljóst að sú sem ráðin var hafi úthugsaða sérstöðu í tengslum við þetta ráðningarferli og í vissum skilningi sitji hún báðum megin við borðið. Hún sitji í starfi skrifstofustjóra á skrifstofu sviðsstjóra þar sem verið sé að skilgreina starfið og setja fram starfslýsinguna og taka á móti umsóknum. Það ætti því engum að koma á óvart að hún setji mark sitt á starfskröfurnar með því að krefjast sérþekkingar í breytingastjórnun þegar allt bendi til að ekki sé frekari þörf á þekkingu í breytingastjórnun frekar en þekkingar í almennri stjórnun, stefnumótun og framkvæmd stefnu eða verkefnastjórnun. Kærandi telur að krafan um þekkingu á breytingastjórnun varpi ljósi á það að kærði hafi haft það í huga að veita þeirri sem ráðin var forskot umfram aðra umsækjendur. Henni hafi verið komið í starfið án auglýsingar og til að tryggja henni sérstöðu þá hafi verið farin sú leið að upphefja breytingastjórnun og gera það að sérkröfu fyrir þetta starf. Sú sem ráðin var hafi ekki hefðbundna menntun til að gegna starfi skrifstofustjóra. Hún sé í grunninn hagfræðingur og sú menntun sé almennt talin lakari en til dæmis viðskiptafræðimenntun fyrir starf á skrifstofu. Því megi velta fyrir sér hvers vegna hún hafi verið sett í þetta starf án auglýsingar í upphafi.
- Loks telur kærandi að mikið ójafnræði sé í tengslum við ráðningarferlið og hafi í reynd verið fyrirfram ákveðið af sviðsstjóra hver fengi starfið. Sú sem ráðin var hafi verið ráðin tímabundið í starf skrifstofustjóra en forsendur fyrir slíkri ráðningu hafi ekki verið til staðar að mati kæranda og ráðning hennar þá hafi haft þann eina tilgang að þjálfa hana upp í starfinu svo hún stæði vel að vígi og hefði forskot umfram aðra umsækjendur um starfið þegar það yrði auglýst. Kærandi sem karlmaður á sextugsaldri hafi aldrei haft möguleika á starfinu þar sem sviðsstjórinn hafi ekki haft áhuga á karlmanni á aldri kæranda í starfið. Niðurstaða kæranda sé því að 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafi verið brotin. Fólki sé mismunað eftir kyni, stjórnmálaskoðunum og aldri og horft sé framhjá menntun og reynslu og reynslumiklu fólki með hnitmiðaða menntun fyrir þetta starf ekki einu sinni gefið tækifæri á viðtali við ráðningaraðila. Í staðinn sé reynt að sérsníða kröfur til umsækjenda sem henti þeirri sem ráðin var. Auglýsingin um starf skrifstofustjóra á skrifstofu sviðsstjóra Velferðarsviðs og ráðningarferlið sem hófst í framhaldinu hafi verið sýndarspil og blekking frá upphafi þar sem jafnræði stjórnsýslulaga hafi verið brotið.
- Kærandi fari því fram á að honum verði greiddar bætur sem samsvari að minnsta kosti þriggja mánaða launum skrifstofustjóra fyrir það tjón og misrétti sem honum hafi verið sýnt
SJÓNARMIÐ REYKJAVÍKURBORGAR - Um þann þátt kærunnar sem lýtur að samskiptum starfsmanna kærða við kæranda vísar Reykjavíkurborg til þess að starfsmannastjóri kærða hafi svarað erindum kæranda með tveimur bréfum, 8. og 28. október 2010. Í fyrra bréfinu hafi verið farið yfir ráðningarferlið með almennum hætti og í því seinna svarað níu tölusettum spurningum kæranda sem hann hafi sent Velferðarsviði Reykjavíkurborgar þann 15. október sama ár. Leitast hafi verið við að svara spurningum kæranda á tæmandi og skýran hátt.
- Um þann þátt er lýtur að ráðningunni og vali á umsækjendum í viðtöl er ráðningarferlinu lýst svo: Um starfið hafi sótt 57 einstaklingar. Hver og ein umsókn hafi verið metin með tilliti til þeirra þekkingar- og hæfnisþátta sem lágu til viðmiðunar og fram komu í auglýsingu um starfið. Sérstaklega hafi verið horft til menntunar sem myndi nýtast í starfinu, reynslu af stjórnun, sér í lagi breytingastjórnun, og reynslu af opinberri stjórnsýslu. Þar sem um ráðningu í mikilvægt starf hjá kærða hafi verið að ræða var sett saman teymi sérfræðinga (ráðningarteymi) til að meta allar umsóknir. Í teyminu sátu starfsmannastjóri Velferðarsviðs, aðstoðarstarfsmannastjóri ÍTR og mannauðsráðgjafi á mannauðsskrifstofu Reykjavíkurborgar. Hver og einn í teyminu hafi lagt sjálfstætt mat á allar 57 umsóknirnar með tilliti til þekkingar og hæfnisþátta og að því loknu hafi teymið hist til að ákveða hvaða umsækjendur ætti að boða í viðtal. Röðun hvers matsaðila í teyminu á hæfustu umsækjendunum hafi verið mjög svipuð og því hafi samkvæmni milli matsaðila verið mjög mikil. Þar sem mjög margir hæfir einstaklingar sóttu um starfið hafi teymið talið óraunhæft að taka viðtöl við alla þá sem uppfylltu lágmarkskröfur til starfsins. Af þeim sökum hafi teymið tekið þá ákvörðun að velja þá umsækjendur sem metnir voru hæfastir út frá umsókn og starfsferli. Byggt á mati teymisins hafi verið ákveðið að boða 11 umsækjendur í viðtal og allir í teyminu verið sammála um þá niðurstöðu. Ráðningarteymið hafi síðan séð um að taka viðtöl við þá 11 umsækjendur sem höfðu verið metnir hæfastir og hafi tilgangur þessara viðtala verið sá að meta umsækjendur nánar og þrengja þannig hópinn enn frekar.
- Í viðtölum teymisins hafi verið notast við staðlaðan spurningalista, þ.e. allir umsækjendur sem komu í viðtal voru spurðir sömu spurninganna og hver og einn í teyminu lagði sjálfstætt mat á svör þeirra. Að loknum öllum viðtölunum hafi teymið hist til að fara yfir niðurstöðurnar. Aftur hafi samkvæmni milli matsaðila verið mjög mikil. Niðurstaða teymisins hafi verið sú að leggja til að þeir þrír umsækjendur sem höfðu verið metnir hæfastir, á grundvelli stigagjafar, eftir fyrsta viðtalið yrðu teknir í annað viðtal. Sviðsstjóri Velferðarsviðs ásamt starfsmannastjóra hafi séð um að taka viðtöl við þá þrjá sem komið höfðu best út úr fyrsta viðtali og var notaður staðlaður spurningalisti til að meta umsækjendur. Að auki hafi verið leitað til umsagnaraðila fyrir þá þrjá aðila sem boðaðir voru í annað viðtal og voru notaðar staðlaðar spurningar til að afla upplýsinga frá umsagnaraðilum. Niðurstaðan úr ráðningarferlinu var að sú sem ráðin var hafi uppfyllt best þær kröfur sem gerðar höfðu verið til starfsins. Hún hafi verið metin hæfust á öllum stigum í ferlinu, þ.e. í upphaflegu mati á umsóknum, í mati eftir fyrsta viðtal og í mati eftir annað viðtal.
- Kærða hafi verið ljóst að fleiri umsækjendur en þeir 11 sem voru boðaðir í viðtal uppfylltu hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu. Þeirra á meðal hafi kærandi verið en ráðningarteymið hafi valið þá 11 sem taldir voru hæfastir á grundvelli umsóknargagna til að koma í viðtal. Hér hafi verið um að ræða einróma niðurstöðu teymisins, niðurstöðu sem hafi byggst á faglegu mati á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
- Að teknu tilliti til menntunar, þekkingar og reynslu á sviði stjórnunar, sér í lagi breytingastjórnunar, framsýni, metnaðar, frumkvæðis, sjálfstæðra vinnubragða, lipurðar og hæfni í mannlegum samskiptum og þekkingar og reynslu af opinberri stjórnsýslu, sem metin var bæði af fyrirliggjandi umsóknargögnum, í starfsviðtölum og öflun umsagna, hafi það verið mat Reykjavíkurborgar að sú sem starfið hlaut hafi borið af umsækjendum um starfið. Sú aðferðarfræði hafi verið notuð að gefa umsækjendum stig fyrir þau atriði sem sett voru fram í auglýsingu og voru einnig aðrar upplýsingar sem fram komu í umsóknum umsækjenda metnar huglægt.
- Sú sem ráðin var hafi, auk BA-prófs í hagfræði, meistaranáms í viðskiptafræði og stjórnun og diplómanáms í breytingastjórnun, starfað sem stjórnandi til margra ára. Hún hafi mikla reynslu af breytingastjórnun, framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum, sé framsýn, hafi mikinn metnað og sýnt frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð í fyrri störfum. Þá þekki hún mjög vel til starfsins og hafi mikla þekkingu á því verkefni sem um ræðir. Hafi hún því verið metin hæfust og ráðin í starfið.
NIÐURSTAÐA - Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
- Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi, sem er karl, þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í fyrsta lagi varðandi samskipti ráðningaraðila við kæranda, í annan stað vegna þess að hann var ekki valinn í viðtal þrátt fyrir að hafa uppfyllt þær hæfniskröfur sem settar voru fram og í þriðja lagi sökum þess að kærandi hafi ekki verið valinn í starfið þrátt fyrir að hann hafi uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar voru til starfsins og hafi meiri menntun á þeim sviðum sem við komu starfinu, sem og meiri reynslu sem nýtast myndi í starfinu miðað við þá konu sem ráðin var.
- Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi verið hæfari, eða í það minnsta jafn hæfur, til að gegna starfi skrifstofustjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og sú sem ráðin var í starfið. Sem fyrr segir verður kærunefndin við úrlausn á þessu álitaefni að taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum og reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Þar sem ekki er mælt fyrir um sérstakar kröfur til starfs skrifstofustjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í lögum og reglugerðum telur kærunefnd rétt að líta til þeirra krafna sem Reykjavíkurborg setti fram í auglýsingu um starfið, svo og til annarra þeirra atriða sem kærunefndin telur málefnalegt að leggja til grundvallar við mat á því hvað teljast myndi gagnast að þessu leyti í starfinu öðru fremur.
- Reykjavíkurborg auglýsti lausa stöðu skrifstofustjóra á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar til umsóknar með auglýsingu sem birtist í september 2010 í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Í auglýsingunni kom fram að starfssviðið væri að stýra daglegum rekstri á skrifstofu sviðsstjóra, hafa umsjón með upplýsingum og kynningarmálum sviðsins, innleiða breytingar og ný verkefni, samræma og hafa eftirlit með framkvæmd þjónustu, sjá um sérverkefni í umboði sviðsstjóra og taka þátt í yfirstjórn Velferðarsviðs. Menntunar- og hæfniskröfur voru tilgreindar háskólamenntun sem nýtast myndi í starfi, reynsla og þekking af stjórnun, sér í lagi breytingastjórnun, reynsla og þekking af opinberri stjórnsýslu, skipulags- og forystuhæfileikar, hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, framsýni, metnaður, frumkvæði, sjálfstæð vinnubrögð og framúrskarandi lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum.
- Að því er varðar kröfu um menntun sem nýtast myndi í starfi liggur fyrir að kærandi hefur lokið BS-prófi í tæknifræði frá Odense Teknikum árið 1978, cand. polyt. í verkfræði frá Ålborg-Universitetcenter árið 1982, MS í viðskiptafræði, með stjórnun og stefnumótun sem ritgerðarefni, frá Háskóla Íslands og að hluta til tekið í Viðskiptaháskólanum í Árósum árið 1999, MPA-námi í opinberri stjórnsýslu, með árangursstjórnun fyrir stofnun sem ritgerðarefni, frá Háskóla Íslands árið 2008, og lagt stund á kennsluréttindanám í viðskiptagreinum í Háskóla Íslands á árinu 2010. Þá hefur kærandi tekið námskeiðin stefnumiðað árangursmat árið 2007, heimasíðugerð árið 2004, TÖK námskeið og tölvubókhald árið 2004, markaðsfræði III í Háskóla Íslands árið 1999, markaðstengda stefnumótun í Viðskiptaháskólanum í Árósum árið 1998, ársnámskeið í verðbréfamiðlun á vegum viðskiptaráðuneytisins árið 1991, verkefnastjórnun árið 1986 og tímastjórnun hjá Stjórnunarfélagi Íslands árið 1985.
- Sú sem ráðin var lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1985, BA-prófi í hagfræði frá Brandeis University, Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1988, MBA í viðskiptafræði og stjórnun frá INSEAD viðskiptaháskólanum í Frakklandi árið 1992 og diplómanámi í vinnusálfræði með áherslu á breytingastjórnun frá sama skóla árið 2006. Að því er varðar endurmenntun og fræðslu hefur sú sem ráðin var lokið námi í fjármálagreiningu og að auki stjórnendanámi hjá Íslandsbanka árið 2004, auk stjórnendafræðslu um meginreglur stjórnsýslu- og upplýsingalaga hjá Reykjavíkurborg árið 2010.
- Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum starfaði kærandi sem rekstrarstjóri Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja frá 1983 til 1985 og sem framkvæmdastjóri og rekstrarráðgjafi hjá Iðnþróunarfélagi Suðurnesja frá 1983 til 1990. Kærandi rak ferðaþjónustu frá 1991 til 1994 og var framkvæmdastjóri hjá Álverinu ehf. í Garðabæ frá 1994 til 1995. Við tók framkvæmdastjórn hjá Ráðhugbúnaði ehf./Hugráði ehf. árið 1995 til 1996 og hlutastarf hjá markaðssviði Litlabæjar ehf. frá 1997 til 2000. Þá var kærandi framkvæmdastjóri hjá Upplýsingu ehf. á árinu 2000. Auk þess tiltekur kærandi að frá 1991 til 2000 hafi hann verið sjálfstætt starfandi þróunar- og stjórnunarráðgjafi hjá Litlabæ ehf. ásamt því að hafa tekið að sér stjórnunarverkefni hjá ýmsum fyrirtækjum. Þá var kærandi stundakennari við Tækniskóla Íslands í flutningatækni, rekstrarstjórnun og stefnumótun frá 2000 til 2001 og stundaði viðskipti á eigin vegum ásamt föstum verkefnum og námi frá 2001 til 2007. Þar að auki hafði kærandi unnið sem stjórnunarráðgjafi fyrir stofnanir og fyrirtæki frá 2008 og starfað sem slíkur er hann sótti um starf skrifstofustjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þá hefur kærandi langa reynslu af félagsstörfum og stjórnarsetu.
- Sú sem starfið hlaut var ráðgjafi hjá Verðbréfamarkaði Iðnaðarbankans frá 1988 til 1990, fréttamaður Stöðvar 2 frá 1990 til 1991 og síðan fréttaritari Bylgjunnar og Stöðvar 2 í Danmörku frá 1992 til 1993. Þá var hún starfsmannastjóri Hótel Sögu frá 1994 til 1995 og markaðsráðgjafi hjá Hugtök-markaðsráðgjöf frá 1996 til 1998. Við tók starf sem forstöðumaður markaðsþjónustu FBA frá 1998 til 2001 og starfaði hún sem aðstoðarmaður forstjóra við sameiningu Íslandsbanka og FBA frá 2000 til 2001. Auk þess var hún framkvæmdastjóri á fjárfestingarbanka- og alþjóðasviði Íslandsbanka árið 2004 og á árunum 2005 til 2008 starfaði hún sem stjórnunarráðgjafi við breytingaráðgjöf á vegum Reykjavíkurborgar og sinnti stjórnendamarkþjálfun hjá fyrirtækjum og opinberum stofnunum. Á sama tímabili starfaði hún sem fyrirlesari og stundakennari á sviði stjórnunar hjá Háskólanum í Reykjavík, nánar tiltekið hjá viðskiptadeild, lýðheilsudeild, stjórnendaskóla og opna háskólanum. Þá hafði hún gegnt starfi skrifstofustjóra á skrifstofu sviðsstjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar frá 2008 þegar hún sótti um starfið. Hluta árs 2009 og 2010 hafði hún auk þess sinnt verkefnum á skrifstofu borgarstjóra. Þá hefur hún einnig langa reynslu af félagsstörfum og stjórnarsetu.
- Að framansögðu virtu er það mat kærunefndar að bæði kærandi og sú sem ráðin var búi yfir háskólamenntun sem nýtast myndi í starfi skrifstofustjóra. Verður ekki fallist á með kæranda að sú sem ráðin var hafi ekki hefðbundna menntun til að gegna starfi skrifstofustjóra og að hagfræðimenntun sé almennt talin lakari en til dæmis viðskiptafræðimenntun fyrir viðkomandi starf.
- Þá er það mat kærunefndar að bæði kærandi og sú sem starfið hlaut búi yfir reynslu og þekkingu af stjórnun. Kærandi hefur lokið MS í viðskiptafræði, með stjórnun og stefnumótun sem ritgerðarefni, frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, að hluta til tekið í Viðskiptaháskólanum í Árósum, og MPA-námi í opinberri stjórnsýslu með árangursstjórnun fyrir stofnun sem ritgerðarefni, frá Háskóla Íslands. Sú sem starfið hlaut hefur lokið MBA-námi í viðskiptafræði og stjórnun frá INSEAD viðskiptaháskólanum í Frakklandi og diplómanámi í vinnusálfræði með áherslu á breytingastjórnun. Þá hafði sú sem ráðin var starfað sem fyrirlesari og stundakennari á sviði stjórnunar hjá Háskólanum í Reykjavík, nánar tiltekið hjá viðskiptadeild, lýðheilsudeild, stjórnendaskóla og opna háskólanum, frá 2005 til 2008. Stundakennsla kæranda í flutningatækni, rekstrarstjórnun og stefnumótun við Tækniskóla Íslands tekur hins vegar yfir skemmra tímabil, þ.e. frá 2000 til 2001. Þá hafa bæði kærandi og sú sem ráðin var töluverða starfsreynslu á sviði stjórnunar. Til þess er þó að líta að í auglýsingu um starfið var lögð sérstök áhersla á þekkingu og reynslu af tiltekinni tegund stjórnunar, þ.e. breytingastjórnun. Sú sem ráðin var hefur lokið diplómanámi í vinnusálfræði með áherslu á breytingastjórnun frá INSEAD viðskiptaháskólanum í Frakklandi, auk þess sem hún býr yfir reynslu af breytingastjórnun í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg frá 2005 til 2008. Af fyrirliggjandi gögnum telur kærunefnd mega ráða að sú sem starfið hlaut hafi staðið kæranda sýnu framar að því er varðar hæfnisáskilnað um reynslu og þekkingu af breytingastjórnun. Að teknu tilliti til starfslýsingar og annarra fyrirliggjandi gagna þykir kærunefnd ekki óvarlegt að draga þá ályktun að breytingastjórnun hafi haft þýðingu við ákvörðun um ráðningu sviðsstjóra. Telur kærunefnd því ekki ómálefnalegt af hálfu Reykjavíkurborgar að hafa litið sérstaklega til þeirrar reynslu og þekkingar við ráðningu í starfið, en að því leyti verður að játa ráðningaraðila nokkuð svigrúm til að meta hvaða menntunar- og hæfniskröfur eru gerðar til viðkomandi starfs sem til umsóknar er hverju sinni.
- Það er enn fremur mat kærunefndar að bæði kærandi og sú sem ráðin var búi yfir reynslu og þekkingu af opinberri stjórnsýslu. Að því er varðar kæranda þá hefur hann lokið MPA-námi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands en sú sem ráðin var hefur lokið stjórnendafræðslu um meginreglur stjórnsýslu- og upplýsingalaga hjá Reykjavíkurborg árið 2010. Ljóst er því að kærandi hefur meiri menntun í opinberri stjórnsýslu en sú sem ráðin var. Það er þó mat kærunefndar að starfsreynsla þeirrar sem ráðin var af opinberri stjórnsýslu hafi getað nýst betur í starfi skrifstofustjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar heldur en reynsla kæranda á sama sviði. Á þeim tíma sem tekin var ákvörðun um ráðningu í starfið hafði sú sem ráðin var starfað frá árinu 2005 hjá Reykjavíkurborg og sem skrifstofustjóri á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar frá árinu 2008. Verður ekki framhjá því litið að hún þekkti því mjög vel til starfsins og verður ekki talið ómálefnalegt sjónarmið af hálfu Reykjavíkurborgar að hafa sérstaklega litið til þeirrar reynslu hennar þegar ákvörðun var tekin um ráðningu í starfið.
- Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki séu leiddar líkur að því að við ráðningu í starf skrifstofustjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi einstaklingum verið mismunað, með beinni eða óbeinni mismunun, á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Af þeim sökum telur kærunefndin nægilega í ljós leitt að Reykjavíkurborg hafi á málefnalegan hátt lagt aðrar ástæður en kyn til grundvallar ákvörðun um umrædda ráðningu. Niðurstaða kærunefndar er því sú að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við umrædda ráðningu í starf skrifstofustjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
- Af framangreindu tilefni skal tekið fram að samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er verkefni kærunefndarinnar að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Að öðru leyti fellur ágreiningur sem hér er uppi ekki undir verksvið nefndarinnar, svo sem varðandi stjórnsýslulega meðferð málsins. Þó er það álit kærunefndar að af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla leiði sú skylda að stjórnvald hagi undirbúningi ákvörðunar um ráðningu eða skipun í starf svo að jafnan megi ráða af henni og undirbúningsgögnum að gætt hafi verið að ákvæðum laganna.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Reykjavíkurborg telst ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf skrifstofustjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Andri Árnason
Ingibjörg Rafnar
Þórey S. Þórðardóttir