Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2011

Greiðsluaðlögun.

Þriðjudaginn 7. júní 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 21. febrúar 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, dags. 17. febrúar 2011. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 7. febrúar 2011, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 1. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 1. apríl 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. apríl 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 6. maí 2011.

 

I.

Málsatvik

Kærandi í máli þessu sótti um greiðsluaðlögun einstaklinga í mars 2010. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæð fjögurra barna móðir en tvö barna hennar eru búsett hjá henni en hin búa hjá feðrum sínum. Hún er búsett í félagslegu leiguhúsnæði og þiggur fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu B auk barnabóta og meðlags.

Að sögn kæranda megi rekja fjárhagsvandræði hennar aftur til ársins 1998 en þau séu tilkomin vegna algerrar vanþekkingar kæranda á sviði fjármála. Hún er fædd og alin upp að mestu leyti í C-landi en fluttist hingað til lands þegar hún var um 14 ára gömul. Hún segist ekki hafa náð nægjanlegum tökum á tungumálinu þrátt fyrir að hafa búið hér á landi meira og minna frá árinu 1992. Hafi það verið henni til trafala bæði við gerð fjármálagerninga sem og við atvinnuleit en kærandi hefur verið án atvinnu meira og minna frá því um tvítugt, fyrir utan tilfallandi umönnunar- og hreingerningastörf sem hún hefur sinnt til skamms tíma á liðnum árum.

Heildarskuldir kæranda eru 19.320.824 krónur. Þar af eru um 4.300.000 krónur samningskröfur sem hún hefur stofnað til sjálf, 7.718.606 krónur eru tilkomnar vegna ábyrgðarskuldbindinga fyrir aðra auk þess sem hún skuldar 6.439.357 krónur í meðlag vegna þeirra tveggja barna sinna sem búa hjá feðrum sínum.

Nettótekjur kæranda voru 215.829 krónur á mánuði árið 2006, 244.407 krónur árið 2007, 238.679 krónur árið 2008 og 329.929 krónur árið 2009. Áætlaðar mánaðarlegar tekjur ársins 2010 voru 288.201 króna á mánuði.

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga 23. mars 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 7. febrúar 2011 var umsókn hennar hafnað með vísan til c- og f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010. Þótti kærandi hafa hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma auk þess að hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir fyrst og fremst á því að skuldir hennar séu tilkomnar vegna algerrar vanþekkingar á fjármálum. Þeir sem hún hafi gengist á ábyrgðarskuldbindingar fyrir séu fósturforeldrar hennar og frænka og hún hafi gert það í góðri trú um að fjölskylda hennar myndi standa við skuldbindingar sínar.

Hún hafi keypt bíl árið 1999 en síðar flutt til C-lands árið 2001 og hafi þá fósturfaðir hennar ætlað að taka yfir bílalánið og setja það á sitt nafn. Þegar hún flutti aftur til landsins árið 2005 hafi fósturfaðir hennar ekki enn gert nafnabreytinguna og lánið féll á hana. Hafi hann einnig sett sinn síma á nafn hennar og sé hún í skuld vegna þess.

Varðandi meðlagsskuldina þá telur kærandi sér ekki skylt að greiða meðlag með þeim börnum sínum sem búa hjá feðrum sínum.

Kærandi telur að fjárhagsvandræði hennar séu einnig að rekja til þess hversu illa henni hefur gengið að læra íslensku en það hefur valdið henni vandræðum við fjármálagerninga hvers konar.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar í ákvörðun sinni til c-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Þar komi fram að heimilt sé að synja umsækjanda um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana vegna þess að umsækjandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað.

Umboðsmaður skuldara bendir á að kærandi hafi verið atvinnulaus meira og minna frá því hún náði tvítugsaldri og hafi hún haft sér til framfærslu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu B auk meðlags, barnabóta, húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta. Hafi hún þar af leiðandi ekki haft meira til framfærslu en dugði til rekstur heimilis fyrir hana og börn hennar. Því hafi hún ekki haft neitt svigrúm til að greiða af þeim ábyrgðarskuldbindingum sem hún tókst á hendur og hafi með þeim tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í neinu samræmi við greiðslugetu hennar.

Kærandi hafi einnig vanrækt að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt, en hún hafi tjáð umboðsmanni að hún hafi haft til umráða og greitt af bifreið, sem skráð er á D, um 35.000 krónur mánaðarlega. Bifreiðin hafi verið keypt á nafni D og hann skráður fyrir láninu vegna kaupanna árið 2005 þar sem A hafi ekki notið lánstrausts. Hún hafi hins vegar haft afnot af bílnum og greitt af láninu, sem sé nú að fullu greitt, en á sama tíma vanrækt að greiða af öðrum skuldbindingum sínum.

 

IV.

Niðurstaða

Umboðsmaður skuldara byggir synjun sína á c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge). Samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að synja umsækjanda um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana vegna þess að umsækjandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað.

Kærunefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum í málum nr. 3/2010 og 4/2010 lagt á það áherslu að þegar umboðsmaður skuldara hyggst beita heimildinni í 2. mgr. 6. gr. lge. skuli fara fram heildarmat á aðstæðum umsækjanda. Ekki sé það nægjanlegur grundvöllur synjunar að vísa einungis til samspils tekna og skulda á tilteknu tímabili eða heimfæra háttsemi skuldara undir einn eða fleiri stafliði 2. mgr. 6. gr. laganna án frekari rökstuðnings.

Í gögnum málsins er óundirrituð og ódagsett greinargerð með umsókn kæranda um greiðsluaðlögun en vaninn er að þær upplýsingar sem áskilið er að umsækjendur um greiðsluaðlögun leggi fram skv. 4. gr. lge. komi fram í slíkri greinargerð. Gert er ráð fyrir að umsækjandi njóti aðstoðar umboðsmanns til að vinna greinargerðina, sbr. meðal annars 4. mgr. 4. gr. lge. Í tölvupósti frá starfsmanni umboðsmanns, dags. 5. maí sl., kemur fram sú skýring á því að greinargerðin sé óundirrituð og ódagsett að starfsmenn embættisins hafi ekki talið að kærandi skildi innihald hennar nægilega vel.

Í umræddri greinargerð kemur meðal annars fram að verulegur hluti skulda kæranda sé til kominn vegna ábyrgðarskuldbindinga sem hún tók á sig vegna skulda ættingja og venslamanna. Þá segir einnig í greinargerðinni að gera megi ráð fyrir því að hún hafi ekki skilið til fulls þá áhættu sem felist í sjálfskuldaábyrgð, þ.m.t. greiðsluskyldu. Sama sjónarmiði lýsir umboðsmaður í greinargerð sinni til kærunefndarinnar. Í bréfi félagsráðgjafa hjá sveitarfélaginu B til kærunefndarinnar, dags. 6. maí sl., kemur einnig fram að viðkomandi telji kæranda eiga í erfiðleikum með að skilja flókna hluti á íslensku. Allt þetta gefur sterka vísbendingu um að kærandi hafi ekki verið fær um að skilja afleiðingar margra þeirra ráðstafana sem komu henni í þau fjárhagslegu vandræði sem eru grundvöllur beiðni hennar um heimild til greiðsluaðlögunar.

Synjun umboðsmanns byggir á þeirri forsendu að háttsemi kæranda hafi verið ámælisverð og í henni hafi falist veruleg fjárhagsleg áhætta. Ekki er hins vegar að sjá af gögnum málsins að umsækjandi hafi skilið til fulls hvaða skuldbindingar hún tók á sig, hvað þá hversu mikil áhætta fælist í þeim. Hlýtur það að hafa áhrif á mat á því hvort að háttsemi teljist ámælisverð.

Þá er einnig óupplýst hvort einhverjar skuldbindingar kunni að vera fyrndar, ógildar eða ógildanlegar, svo sem á grundvelli misneytingar, og hvort lánastofnanir hafi við stofnun þeirra virt samkomulag um notkun ábyrgðarskuldbindinga frá 1. nóvember 2001 eða eftir atvikum eldra samkomulag frá 27. janúar 1998. Telja verður að umboðsmaður verði í tilvikum sem þessu að kanna slík atriði. Í málinu reynir enn frekar á rannsóknarskyldu umboðsmanns skv. 5. gr. lge. og á skyldu hans til að staðreyna þær upplýsingar sem kærandi hefur lagt fram. Umboðsmaður skuldara hefur skv. 5. mgr. 4. gr. heimild til að afla gagna sjálfur og verður að telja að við aðstæður sem þessar sé tilefni til slíkrar gagnaöflunar, sbr. einnig 4. mgr. sömu greinar.

Í ljósi alls framangreinds er óhjákvæmilegt annað en að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta