Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2011

Greiðsluaðlögun.

Þriðjudaginn, 21. júní 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 21. febrúar 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 4. febrúar 2011, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 1. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 24. mars 2011.

Greinargerðin var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. mars, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir málinu þannig að fjárhagsvanda hans sé að rekja til ársins 2008. Hann hafi unnið við ýmiss konar störf á vinnuvélum og vörubílum uns hann hafi ákveðið að hefja sjálfstæðan rekstur árið 2007 og keypt sér notaðan vörubíl í því skyni. Hafi reksturinn gengið vel til að byrja með og hann fljótlega komið sér upp hópi tryggra viðskiptavina. Árið 2008 hafi hann endurnýjað bílinn sem hann þurfti í reksturinn og fengið lán fyrir 75% af kaupverðinu. Í kjölfar hrunsins hafi verkefnum fækkað jafnt og þétt auk þess sem illa hafi gengið að innheimta fyrir áður unnin verkefni. Hafi hann þá ráðist í að kaupa fasteignir og gera upp til að selja aftur til að reyna að rétta af fjárhag sinn. Það hafi ekki gengið eftir.

Leitaði hann fyrst til forvera umboðsmanns skuldara, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í mars 2010 og var í júlí það ár bent á að sækja um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eftir 1. ágúst 2010. Í gögnum málsins er að finna umsókn um greiðsluaðlögun, dags. 28. október 2010, en þar er einnig að finna staðfestingu á vinnslu og samþykki til gagnaöflunar vegna umsóknar um greiðsluaðlögun undirritaða af kæranda, dags. 19. ágúst 2010.

Þann 12. janúar 2011 var umboðsmanni kæranda sent bréf þar sem óskað var nánari upplýsinga og skýringa á ákveðnum atriðum sem enn voru óskýr að mati umboðsmanns. Þegar svör bárust ekki var umsókn kæranda synjað með ákvörðun, dags. 4. febrúar 2011, á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægjanlega glögga mynda af fjárhag kæranda skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

II.

Sjónarmið kæranda

Í kæru koma fram ástæður fjárhagsvanda kæranda en ekki hafa komið fram neinar skýringar, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið eftir því leitað, á því hvers vegna ekki hafi verið lögð fram gögn með umsókn kæranda. Kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn eða skýringar til nefndarinnar.

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri meðal annars að líta til þess sem komið getur í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhagsstöðu skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi hafi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga á árunum 2007–2008 en hafi hvorki gefið nánari skýringar né lagt fram gögn sem varpað geti skýrara ljósi á fjárhag hans á umræddum tíma, þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað. Hefur umboðsmaður lagt fram gögn sem sýna fram á að kærandi og umboðsmaður hans hafi verið innt ítrekað eftir gögnum en ekki hafi verið við því orðið. Hafi honum verið honum veittur rúmur frestur til að koma að gögnum en hann ekki orðið við því.

Þegar gögnin séu metin í heild sinni sé það mat umboðsmanns að þau gefi ekki glögga mynd af fjárhagsstöðu skuldara og hafi skýringar skuldara ekki skýrt stöðuna frekar. Hafi því umboðsmaður tekið þá ákvörðun að synja kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Niðurstaða umboðsmanns skuldara byggir eins og fram hefur komið á b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, en þar er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynda af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2010 segir um þetta ákvæði:

Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið er samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar er þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í greinargerð með lögum nr. 24/2004, með breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, segir um 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d:

Skv. 1. tölul. verður beiðni hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldarans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á því tímabili sem greiða á af skuldum hans samkvæmt greiðsluáætlun. Hér ber að leggja áherslu á að skuldari verður að
veita fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Þannig
ber honum að varpa ljósi á bæði eigna- og skuldastöðu auk þess að greina frá tekjum og möguleikum til að afla þeirra, svo og áætluðum útgjöldum, eins og nánar var lýst í athugasemdum við c-lið 1. gr.

Af gögnum málsins verður ráðið að nokkuð skortir á að umsækjandi hafi lagt fram fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu sína þegar hann sendi formlega inn umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Í bréfi frá umboðsmanni skuldara til umboðsmanns kæranda, dags. 12. janúar og sent sem ábyrgðarbréf 14. s.m., sem er samhljóða tölvupósti til kæranda þann 12. janúar, er óskað eftir upplýsingum frá kæranda í tíu liðum og honum jafnframt gert ljóst að ef hann ekki leggi fram umbeðnar upplýsingar innan tveggja vikna verði beiðni hans um heimild til greiðsluaðlögunar synjað. Upplýsingarnar sem umboðsmaður fer fram á í bréfinu lúta að skýringum á viðskiptum hans með tilteknar bifreiðar, gögn varðandi ráðstöfun fjár af tilteknum viðskiptareikningum í Arion banka og upplýsingar um laun hans í Noregi árið 2009 og hluta ársins 2010. Þá er farið fram á að kærandi leggi fram ársreikninga vegna fyrirtækis í hans eigu ásamt yfirlýsingu um að hann hafi ekki gripið til riftanlegra ráðstafana.

Upplýsingar þær og útskýringar sem umboðsmaður óskar eftir í framangreindu bréfi eru þess eðlis að það er ekki á færi annarra en kæranda sjálfs að leggja þær fram. Jafnframt er ljóst að þessi gögn eru nauðsynleg til að unnt sé að leggja mat á það að kærandi uppfylli skilyrði laga til fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars 4. gr.

Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og eftir atvikum að leggja fram gögn fyrir kærunefndina við meðferð þessa máls sem bætt gætu úr þessum skorti á upplýsingagjöf hans til umboðsmanns. Þrátt fyrir nokkra eftirgangsmuni af hálfu nefndarinnar hefur kærandi hvorki lagt fram umbeðnar upplýsingar og skýringar né gert grein fyrir sjónarmiðum sem stutt gætu þá kröfu hans að honum beri ekki að verða við beiðni umboðsmanns um framlagningu þeirra.

Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara af framangreindum ástæðum staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta