Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2011

Greiðsluaðlögun.

Miðvikudaginn 31. ágúst 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 7. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er hafnað. Þegar óskað var eftir afriti af ákvörðun umboðsmanns skuldara sendi embættið nefndinni ákvörðun, undirritaða af umboðsmanni skuldara sem var dagsett 7. febrúar 2011. Var því kærunni vísað frá þar sem hún barst kærunefndinni að liðnum kærufresti. Síðar kom í ljós að ákvörðun sú sem kærandi hafði í höndunum var dagsett 18. febrúar og var sú ákvörðun einnig undirrituð af umboðsmanni skuldara. Var því kæran tekin til meðferðar og óskaði nefndin eftir skýringum á þessu misræmi við umboðsmann skuldara þann 23. mars sl. og barst svar hans með bréfi dags. 1. apríl 2011.

Með bréfi, dags. 23. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 4. apríl 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. apríl 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 20. apríl 2011.

Með bréfi kærunefndar, dags. 6. júlí 2011, var umboðsmanni skuldara gefið færi á að taka afstöðu til upplýsinga sem fram komu í athugasemdum kæranda og að endurskoða ákvörðun sína á grundvelli þeirra. Svar umboðsmanns skuldara barst kærunefndinni 14. júlí 2011.

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að fjárhagserfiðleika hans sé að rekja til nokkurra þátta. Ber þar fyrst að nefna heimflutning kæranda, ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum þeirra, fráY árið 2005 en þar hafði fjölskyldan búið frá árinu 1990. Hafi kærandi lært innanhússarkitektúr í Bandaríkjunum og unnið í kvikmyndaiðnaðinum frá útskrift árið 1994. Heimflutningurinn og frágangur þeirra mála þar ytra hafi verið kostnaðarsamur þar sem kærandi þurfti talsvert að fljúga á milli fyrsta árið.

Þegar heim var komið hafi þau fest kaup á fasteign sinni að B-götu nr. 6 sem þau búa í enn í dag, en þau kaup hafi verið fjármögnuð að fullu með lánsfé auk þess sem kærandi hafi ráðist í endurbætur á húsnæðinu og tekið viðbótarlán fyrir framkvæmdunum. Þá hafi kærandi einnig flutt heim með sér bifreið sem hann hafi átt skuldlaust í Bandaríkjunum en til þess að fjármagna heimflutning, tolla og annað hafi hann tekið gengistryggt lán en afborganir þess hafi hækkað talsvert í kjölfar hrunsins.

Árið 2007 hafi kærandi keypt hlut í eignarhaldsfélaginu X ehf. en félagið rak þá skemmti- og veitingastað. Hafi kæranda skort verkefni á þeim tíma þannig að reksturinn hafi verið álitlegur fjárfestingakostur. Hlutur kærandi hafi verið 7.000.000 krónur og fjármagnaði kærandi hann að mestum hluta með lánsfé en einnig með eigin sparnaði. Reksturinn gekk vel til að byrja með en þegar halla fór undan fæti ákváðu hluthafar að leggjast í verulegar endurbætur á staðnum fyrir um 9.000.000 krónur sem eigendurnir fjármögnuðu. Þó fór svo að staðnum var lokað í lok árs 2008 og seldi kærandi hlut sinn á 2.000.000 króna.

Þá hafi áföll gengið yfir fjölskyldu kæranda á tímabilinu en foreldrar og bróðir kæranda létust öll á árunum 2008–2010. Á sama tíma hafi verulega dregið úr verkefnum á starfssviði kæranda og hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá ársbyrjun 2010 fram í ágúst 2010.

Þann 18. ágúst 2010 lagði kærandi fram umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga. Var umsókn hans synjað með ákvörðun, dags. 18. febrúar sl., á grundvelli þess að óhæfilegt þótti að veita heimild til greiðsluaðlögunar þar sem kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns að hann hafi hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt og tekið óhæfilega fjárhagslega áhættu. Hann hafi verið með lág laun hér á landi en hann og kona hans hafi fengið greiðslur erlendis frá á þeim tíma sem um ræðir og greitt skatta þar. Hafi hann undir höndum gögn sem styðji það. Hann hafi farið í gegnum greiðslumat í hvert skipti sem hann hafi stofnað til nýrra skuldbindinga og staðist þau vel. Fjárfesting kæranda í rekstri X ehf. hafi verið til þess að bregðast við færri verkefnum sem buðust á hans sviði og ætlunin hafi verið að byggja upp góðan veitingarekstur til þess að komast út úr skuldunum. Vel hafi gengið í byrjun en svo hafi dregið saman og í kjölfar hrunsins hafi reksturinn ekki gengið og staðnum verið lokað.

Þá hafi bílalánið og húsnæðislánið hækkað meira en von var á í kjölfar hrunsins en þau hafi allan tímann aðeins haldið eitt heimili og átt einn bíl meðan margir aðrir hafi stækkað við sig.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra atriða sem geta leitt til þess að umsókn verði hafnað, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana og skuli þá meðal annars líta til þeirra atriða sem talin eru upp í a–g-lið 2. mgr. 6. gr. Skv. b-lið skuli líta til þess hvort skuldari hafi stofnað til skulda þegar hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og í c-lið að líta skuli til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að meðaltekjur kæranda og eiginkonu hans voru samanlagt 236.285 krónur árið 2007. Þegar kærandi tók lán vegna kaupa á hlut í X ehf. var mánaðarleg greiðslubyrði skuldbindinga þeirra þegar orðin talsverð, eða 238.209 krónur í október 2007. Var þar um að ræða þrjú skuldabréf vegna húsnæðiskaupa hjá Frjálsa fjárfestingabankanum, skuldabréf vegna námslána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, bílasamningur við SP-fjármögnun og skuldabréf hjá Landsbankanum. Hafi mánaðarleg greiðslubyrði láns vegna kaupa á X ehf. verið 108.925 krónur og var því mánaðarleg greiðslubyrði vegna skuldbindinga þeirra orðin 347.134 krónur í lok árs 2007. Af skattframtölum kæranda og eiginkonu hans verði séð að eiginfjárstaða þeirra árin 2006 og 2007 hafi ekki verið sterk.

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að heildarskuldir kæranda og konu hans standi nú í rúmlega 70.000.000 króna en áætlaðar heildarráðstöfunartekjur þeirra nemi 262.996 krónum á mánuði.

Var það því mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt hefði verið að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar og var umsókn hans því hafnað með vísan til b- og c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun teljist óhæfilegt að veita hana vegna þess að skuldari hafi stofnað til skulda á tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.Samkvæmt c-lið er heimilt að synja umsókn hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist fyrst og fremst á þeim ráðstöfunum sem kærandi greip til árið 2007 með hliðsjón af fjárhagsstöðu hans á þeim tíma. Á því ári stofnaði kærandi til skulda vegna kaupa sinna á hlut í atvinnufyrirtæki. Tók hann til þess rúmlega 5.000.000 króna veðlán. Aðrar skuldbindingar frá árinu 2007 og síðar eru fyrst og fremst neysluskuldir sem endurspegla þá fjárhagserfiðleika sem kærandi var þá kominn í. Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags.4. apríl 2011, segir að kærandi hafi stofnað til margvíslegra annarra skulda árið 2007, meðal annars fasteignaveðlána, bílaláns og námsláns. Af öðrum gögnum málsins má hins vegar ráða að stofnað var til þessara skuldbindinga fyrir árið 2007, aðallega á árunum 2005 og 2006.

Við mat á því hvort sú ráðstöfun kæranda að fjárfesta í starfandi fyrirtæki brjóti í bága við b-lið 2. mgr. 6. gr. verður að líta til þess að kærandi greip til ráðstöfunarinnar beinlínis í þeim tilgangi að reyna að auka tekjur sínar. Verður í því samhengi að líta til þess að sá rekstur sem kærandi keypti hlutdeild í var þegar hafinn og tekjuflæði fyrir hendi. Þrátt fyrir að áætlanir hafi ekki gengið upp verður það ekki metið svo að það hafi verið greinilegt að lántakan yrði til þess að hann yrði ófær um að standa við skuldbindingar sínar, jafnvel þótt tekjur hans framan af árinu veittu ekki svigrúm til þess, að óbreyttum afborgunum annarra lána. Þá verður að hafa í huga að á umræddum tíma var farið að þrengjast nokkuð um á vinnumarkaði, ekki síst fyrir fólk í þeirri atvinnugrein sem kærandi stundaði, og því ekki víst að möguleikar kæranda til tekjuaukningar á þeim tímapunkti hafi verið margir.

Við mat á því hvort í ráðstöfunum kæranda hafi falist áhætta sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á umræddu tímabili verður að hafa hliðsjón af nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi felur atvinnurekstur og lántaka tengd honum ávallt í sér áhættu en það er matsatriði í hverju tilviki fyrir sig hvort sú áhætta skuli leiða til þess að viðkomandi sé synjað um heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Í öðru lagi verður að hafa í huga að fjárhagserfiðleika kæranda má fyrst og fremst rekja til fjárskuldbindinga sem stofnað var til á árunum 2005 og 2006, og það í tengslum við íbúðar- og bifreiðarkaup sem ekki verða talin óeðlileg miðað við stöðu hans á þeim tímapunkti. Þær skuldbindingar voru í ágætu samræmi við tekjur fjölskyldunnar á þeim tíma, umfang þeirra hóflegt og afborganir viðráðanlegar. Lánið sem tekið var árið 2007, til fjárfestingar í félaginu, er tiltölulega lítill hluti heildarskulda kæranda og sjálf fjárhæðin hófleg. Að öðru óbreyttu væri kærandi í verulegum fjárhagserfiðleikum, jafnvel þó ekki hefði komið til þeirrar lántöku. Þótt ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvernig verðmat fyrirtækisins fór fram við kaupin verður ekki framhjá því litið að árið 2007 var fólki almennt ekki ljósar þær sviptingar í efnahagslífinu sem síðar urðu að veruleika og kollvörpuðu rekstrarforsendum fjölmargra fyrirtækja, gerbreyttu skuldastöðu allra lántakenda og gerbreyttu atvinnuástandi í landinu, þar með möguleikum fólks til að afla tekna.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara er vísað til þeirra ummæla í greinargerð með frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga að Hæstiréttur hafi túlkað þágildandi ákvæði 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr., með þeim hætti að líta skuli til eignastöðu sem og tekna skuldara á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laganna kemur hins vegar einnig fram að það sé markmið laganna að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins. Þá er lýst því sjónarmiði að eldri ákvæði gjaldþrotaskiptalaganna um greiðsluaðlögun hafi um of tekið mið af skuldaskilaréttinum og hagsmunum kröfuhafa og að skilyrði til greiðsluaðlögunar þyki of ströng. Segir enn fremur í athugasemdum við ákvæði 6. gr. að ekki sé gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni séu til. Miða skuli eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar er komin á og dómvenju en jafnframt hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hljóti vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun. Þá er við túlkun 6. gr. lge. rétt að hafa í huga að ákvæðið er ekki að öllu leyti samhljóða áðurgildandi ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna um sama efni, svo sem fjallað er um í úrskurði kærunefndar í máli nr. 3/2010.Á grundvelli þessa er það álit nefndarinnar beri að skýra ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. á þann veg að mat umboðsmanns skuldara geti eftir atvikum orðið annað og vægara en leiða má af fordæmum Hæstaréttar í málum sem varða beitingu 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna.

Er það því niðurstaða nefndarinnar að kærandi hafi ekki hagað fjármálum sínum á þann hátt að girða skuli fyrir heimild hans til að leita greiðsluaðlögunar.

Við vinnslu þessa máls hafa orðið meiri tafir en eðlilegt má telja, meðal annars vegna frávísunar kærunnar á fyrri stigum, auk þess sem afgreiðsla hefur tafist vegna sumarleyfa. Er beðist velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta