Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 25/2012:

 

A

gegn

Félagsþjónustu B

 

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR :

 Með bréfi, ódagsettu en mótteknu 8. febrúar 2012, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Félagsþjónustu B á umsókn hennar um leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann.

 

I. Málavextir.

Fyrir liggur endurnýjuð umsókn kæranda um húsaleigubætur vegna leigu íbúðar að C fyrir árið 2011. Kærandi kveðst hafa hafið nám í ágúst á D og hafi við það farið í launalaust námsleyfi. Húsaleigubæturnar hafi verið þær sömu þrátt fyrir að engar tekjur hafi komið inn eftir að nám hennar hófst. Kærandi kveðst hafa sent inn umsókn, staðfestingu á skólavist og skattskýrslu (frá 2010) en þrátt fyrir það hafi húsaleigubæturnar ekki breyst neitt. Meðal gagna málsins er staðfesting á skólavist kæranda í D og er það dagsett 10. janúar 2012. Ekki liggja fyrir frekari vottorð um skólavist kæranda.

  

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún leigi íbúðarhúsnæði í B og fái greiddar húsaleigubætur. Í ágúst hafi hún hafið nám á D og við það hafi hún farið í launalaust námsleyfi. Húsaleigubæturnar hafi verið þær sömu þrátt fyrir að engar tekjur hafi komið inn frá því að hún hóf námið. Hún hafi sent inn umsókn, staðfestingu á skólavist og skattskýrslu (frá 2010) en þrátt fyrir það hafi húsaleigubæturnar ekki breyst. Hún hafi hringt í starfsmann Fjölskylduþjónustu B, sem hafi sagt að kærandi þyrfti að senda inn yfirlit yfir námslánin. Þegar hún hafi óskað eftir skýringum á því, hafi viðkomandi starfsmaður sagt henni að þau þyrftu að sjá á hverju kærandi lifði. Í kjölfarið hafi kærandi talað við starfsmann hjá velferðarráðuneytinu og hafi hann sagt að námslán væru lán en ekki tekjur. Hún kveðst hafa hringt aftur í starfsmanninn og þegar hún hafi spurt hana hvort hún fengi leiðréttingu hafi svörin verið dræm. Hins vegar hafi hún fengið þau svör að greiðslurnar yrðu ekki leiðréttar afturvirkt, þar sem hún hafi ekki skilað gögnum á réttum tíma. Kærandi kveðst hafa skilað umsókn, skattskýrslu og vottorði á réttum tíma, en um það hafi verið beðið hjá Fjölskylduþjónustunni, en hún hafi ekki skilað yfirliti yfir námslánin á réttum tíma og það standi hvergi í lögum að hún þyrfti að skila því inn, á þeim forsendum að ekki væri um tekjur að ræða.

  

III. Málsástæður kærða.

Af hálfu Fjölskylduþjónustu B kemur fram að kærandi hafi fengið greiddar húsaleigubætur hjá B frá árinu 2009. Hún hafi endurnýjað umsókn sína um húsaleigubætur um áramótin 2010–2011 og aftur um áramótin 2011–2012 með nauðsynlegum gögnum, svo sem skattframtali. Í kæru komi fram að hún hafi farið í launalaust námsleyfi í ágúst 2011 og hafi tekjur hennar þá lækkað án þess að húsaleigubætur hafi hækkað. Engar upplýsingar hafi borist frá kæranda á þeim tíma til fjölskylduþjónustunnar um að aðstæður hennar hefðu breyst og hún hafi ekki lagt fram gögn um skólavist sína fyrr en eftir áramótin 2011–2012, en með gögnum málsins fylgdi staðfesting á skólavist frá D, dags. 10. janúar 2012. Um leið og upplýsingar hafi legið fyrir um breyttar aðstæður kæranda hafi húsaleigubætur hennar verið hækkaðar með tilliti til þess, eins og fram komi á yfirliti um greiðslur húsaleigubóta frá janúar 2011. Af því sem rakið hafi verið megi sjá að Fjölskylduþjónusta B hafi ekki haft neinar forsendur til að hækka greiðslur húsaleigubóta til kæranda á árinu 2011.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Félagsþjónustu B beri að greiða kæranda húsaleigubætur aftur í tímann frá 1. ágúst 2011 til 30. desember 2011.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, kemur fram að með tekjum sé átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Reikna skuli samanlagðar tekjur allra þeirra sem lögheimili eigi eða hafi skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði og séu þá tekjur barna umsækjenda sem séu 20 ára og eldri meðtaldar. Þó séu hér undanskildar tekjur barna umsækjenda sem stundi skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. Eins og fram hefur komið kveðst kærandi hafa farið í launalaust námsleyfi í ágúst 2011. Kærandi kveðst hafa lagt fram gögn þar að lútandi, en af hálfu Fjölskylduþjónustu B kemur fram að stofnuninni hafi ekki borist neinar upplýsingar um að aðstæður kæranda hefðu breyst á þeim tíma. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn máli sínu til staðfestingar og er eina staðfestingin um skólavist kæranda sem er meðal gagna málsins dagsett 10. janúar 2012. Jafnframt má ráða af gögnum málsins að eftir að kærða barst sú staðfesting voru húsaleigubætur kæranda hækkaðar með tilliti til þess.

Í 11. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, er gerð grein fyrir fylgigögnum með umsóknum um húsaleigubætur. Í 5. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, er enn fremur gerð grein fyrir fylgigögnum umsóknar um húsaleigubætur. Í 4. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að umsókn um húsaleigubætur skuli fylgja staðfesting skóla um nám þeirra sem tilgreindir séu í 2. tölul. og séu 20 ára eða eldri og stundi skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. Kærði heldur því fram að slík staðfesting hafi ekki legið fyrir fyrr en í janúar 2012 og er hún meðal gagna málsins. Þar sem engra annarra gagna nýtur við í málinu verður að líta svo á að engar upplýsingar hafi legið fyrir um skólavist kæranda fyrri en í janúar 2012. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Gunnar Eydal og Margrét Gunnlaugsdóttir, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:
 

Ákvörðun Fjölskylduþjónustu B, í máli A, er staðfest.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Gunnar Eydal                         Margrét Gunnlaugsdóttir

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta