Mál nr. 20/1995
ÁLITSGERÐ
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
Mál nr. 20/1995
Skipting kostnaðar: Teppi á stigagangi.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, dags. 9. maí 1995, beindi A f.h. húsfélagsins X til nefndarinnar ágreiningi við B og C um skiptingu kostnaðar við teppalagningu í stigahúsi fjölbýlishússins X.
Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 var gagnaðilum gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum. Greinargerð þeirra, dags. 19. maí sl., hefur borist nefndinni.
Á fundi kærunefndar 24. maí sl. var fjallað áfram um málið og samþykkt að taka það til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Teppi í stigahúsi fjölbýlishússins var endurnýjað í apríl 1995. Af hálfu meirihluta húsfélagsins er því haldið fram að kostnaði við teppalagninguna beri að skipta annaðhvort að jöfnu milli íbúa eða í samræmi við not þeirra. Að jafnaði séu fleiri íbúar í minni íbúðunum í fjölbýlishúsinu og slíti gólfteppi á stigahúsi þannig ekki einungis jafnt, heldur meira en íbúar annarra íbúða. Mælt hafi verið hversu mörg spor þurfi til að slíta gólfteppi eitthvað að ráði. Einnig megi segja að stigi gegni sama hlutverki og lyfta, en samkvæmt lögum um fjöleignarhús beri að skipta viðhalds- og rekstrarkostnaði lyftu að jöfnu, sbr. 3. tl. B-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994.
Af hálfu gagnaðila er því haldið fram, að þar sem kostnaður vegna teppalagningar á stigahús falli ekki ótvírætt undir B- eða C-lið 45. gr. laga nr. 26/1994 um jafna skiptingu eða skiptingu í samræmi við not, skuli skipta umræddum kostnaði samkvæmt A-lið 45. gr., þ.e. eftir hlutfallstölum. Teppalagning á stigahúsi geti ekki fallið undir B-lið 45. gr. þar sem ekki er um að ræða daglegan rekstur eða viðhald á búnaði sem eigendur hafa jöfn afnot af, heldur endurbætur á sameign. Ennfremur sé ekki hægt að mæla óyggjandi not hvers og eins af teppi í stigahúsi og því falli kostnaður vegna þess ekki undir C-lið 45. gr.
III. Forsendur.
Samkvæmt lögum nr. 26/1994 er meginreglan sú að sameiginlegur kostnaður skiptist á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta þeirra, sbr. A-lið 45. gr. Frá þessari meginreglu eru nokkrar undantekningar sem tilgreindar eru í B- og C-liðum 45. gr. Samkvæmt B-lið skal tilteknum kostnaði skipt að jöfnu og samkvæmt C-lið skal hvaða kostnaði sem er skipt í samræmi við not eigenda, ef unnt er að mæla óyggjandi not hvers og eins.
Þær undantekningar frá meginreglunni sem upp eru taldar í 7 töluliðum í B-lið 45. gr., verður samkvæmt almennum lögskýringarreglum að skýra þröngt. Lagning teppis í stigahús er stofnkostnaður sem ekki verður talinn falla undir neinn töluliða B-liðar 45. gr.
Ákvæði C-liðar 45. gr. gildir samkvæmt orðalagi sínu því aðeins að unnt sé að mæla óyggjandi not hvers og eins eigenda. Þannig þurfa notin að vera nákvæmlega mæld. Þessi undantekningarregla hefur því þröngt gildissvið og kemur aðeins til álita í algerum undantekningartilfellum. Telja verður að not eigenda af teppi í stigahúsi verði ekki mæld svo óyggjandi sé og skilyrði C-liðar því ekki uppfyllt.
Þar sem hvorki undantekningarregla B- né C-liðar 45. gr. á við um skiptingu kostnaðar vegna teppalagningar í stigahúsi gildir meginregla A-liðar, þ.e. skipting kostnaðar eftir hlutfallstölum.
IV. Niðurstaða.
1. Það er álit kærunefndar að kostnaði vegna lagningar teppis í stigahúsi fjölbýlishússins X beri að skipta eftir hlutfallstölum.
Reykjavík, 8. júní 1995.
Valtýr Sigurðsson
Ingólfur Ingólfsson
Karl Axelsson