Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2001

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 1/2001:

 

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 15. október 2001 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með bréfi dags. 30. desember 2000, sem barst kærunefnd jafnréttismála hinn 4. janúar 2001, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort mismunandi launagreiðslur annars vegar til bæjartæknifræðings og fræðslustjóra Árborgar og hins vegar til kæranda, er starfar sem félagsmálastjóri hjá sama sveitarfélagi, brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Bréf kæranda var kynnt bæjarstjórn Árborgar með bréfi, dags. 23. janúar 2001. Var þar m.a. með vísað í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 og óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn þeirra er starfa sem sviðsstjórar hjá sveitarfélaginu, hvaða viðmið hafi verið höfð til hliðsjónar við ákvörðun launa sviðsstjóra, hvort stöður sviðsstjóra teljist sambærilegar og hvort samskonar kröfur hafi verið gerðar til menntunar og annarrar sérþekkingar þeirra sem gegna stöðunum.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2000 (á að vera 2001, innsk. nefndarinnar) ásamt fylgigögnum, bárust svör við framangreindum fyrirspurnum, ásamt athugasemdum bæjarstjórnar Árborgar.

Með bréfi, dags. 12. mars 2001, var kæranda kynnt umsögn bæjarstjórnarinnar og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 25. mars 2001.

Í tilefni af því sem fram kom í síðastgreindu erindi kæranda var bæjarstjórn Árborgar gefinn kostur á því, með bréfi dags. 29. mars 2001, að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kæranda og komu þær athugasemdir fram í bréfi B, hrl., dags. 18. apríl 2001.

Kæranda var enn á ný gefinn kostur á að koma með athugasemdir, sbr. bréf dags. 24. apríl 2001. Umsögn frá kæranda barst 5. maí 2001. Var kærða enn á ný gefinn kostur á því að koma með athugasemdir, sbr. bréf 17. maí 2001. Þær athugasemdir bárust með bréfi dags. 7. júní 2001.

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið ítarlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar. Þó var talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina og mættu kærandi og lögmaður kærðu, B hrl., fyrir nefndina í dag, 15. október 2001, og gerðu nánar grein fyrir tilteknum atriðum.

 

II

Málavextir

Kærandi er sviðsstjóri hjá Árborg, ásamt bæjartæknifræðingi, fræðslustjóra og bæjarritara, en hjá sveitarfélaginu starfa fjórir sviðsstjórar. Er kærandi eina konan sem gegnir stöðu sviðsstjóra. Kærandi telur að kröfum hennar um leiðréttingu launa til jafns við bæjartæknifræðing og fræðslustjóra Árborgar hafi verið hafnað. Telur kærandi sig eiga rétt á að fá leiðréttingu launa til jafns við aðra sviðsstjóra frá 1. janúar 1998 að telja, sbr. nánar erindi kæranda til nefndarinnar dags. 30. desember 2000.

Samningaviðræður munu hafa átt sér stað milli málsaðila um nokkurt skeið, en haustið 1998 var kæranda gert tilboð um launahækkun. Telur kærandi að sér hafi þá ekki verið boðin laun sambærileg við laun annarra sviðsstjóra. Sveitarfélagið Árborg telur á hinn bóginn að um nokkurt skeið hafi kæranda staðið til boða að gera samning um kjör sín hjá sveitarfélaginu sem byggi á sömu grunnlaunum og hjá öðrum sviðsstjórum. Yfirvinna hafi hins vegar verið talin mismunandi hjá einstökum sviðsstjórum og að í tilboði um greiðslu yfirvinnu hafi ekki falist mismunun milli sviðsstjóra. Þar sem ekki náðist samkomulag milli málsaðila ákváðu bæjaryfirvöld einhliða í desember 2000 að greiða kæranda sömu grunnlaun og fræðslustjóra, en yfirvinnugreiðslum var haldið óbreyttum. Á sama tíma var bifreiðastyrkur kæranda hækkaður í sem nam x km á mánuði.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur störf sviðsstjóra hjá Sveitarfélaginu Árborg vera jafnverðmæt og sambærileg í skilningi laga, nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga, þar sem störfin séu öll á sama stjórnunarstigi og heyri beint undir bæjarstjóra. Þau feli öll í sér mannaforráð, hliðstæða ábyrgð, boðvald til undirmanna og mörg sameiginleg verkefni, sem þó lúti að mismunandi málaflokkum. Í ljósi þess skuli sviðsstjórum greidd sömu laun, þar með talinn sami fjöldi yfirvinnustunda og sami bifreiðastyrkur. Kærandi tekur þó fram að þar sem bæjarritari sé staðgengill bæjarstjóra hafi hún kosið að miða kjör sín við kjör hinna tveggja sviðsstjóranna, þ.e. fræðslustjóra og bæjartæknifræðings.

Kærandi telur ákvæði starfsmannastefnu Árborgar einkum ákvæði 36.-40., 42., 54., 56. og 61. gr. m.a. sýna ótvírætt fram á að skyldur og ábyrgð sviðsstjóranna séu lögð að jöfnu. Í kæru segir m.a.:

"Í starfslýsingum bæjartæknifræðings, félagsmálastjóra og fræðslustjóra eru sambærileg ákvæði sem snerta ábyrgð, (sbr. I. kafli starfslýsinganna) stjórnunarsvið (sbr. II. kafli starfslýsinganna) verkefni, (sbr. III. kafla starfslýsinganna) s.s. gerð fjárhagsáætlana, eftirlit með fjármálum, (III. kafli 3) fundarsetur, (III. kafli 2) kröfur um fagleg vinnubrögð viðhald þekkingar og endurmenntun (V. kafli 1-3)".

Kærandi kveður bæjarstjórn aldrei hafa boðið sér sambærileg laun og öðrum sviðsstjórum, þó svo að öðru sé haldið fram, þar sem launatilboð það sem lagt hafi verið fram af hálfu samninganefndar hafi hljóðað upp á sömu grunnlaun og fræðslustjóra, en í því hafi einungis falist tilboð um x klst. yfirvinnugreiðslu á mánuði á móti x stundum hjá fræðslustjóra og bifreiðastyrk sem miðaðist við x km á mánuði á móti x km hjá fræðslustjóra. Þannig telur kærandi að þegar bæjarstjórnin hafi ákveðið einhliða launakjör hennar þá hafi launakjör ekki verið ákveðin sambærileg við kjör annarra sviðsstjóra, og því hafi þar ekki verið gætt jafnræðis. Er þó tekið fram að frá 1. desember 2000 hafi bifreiðastyrkur fræðslustjóra og kæranda sem félagsmálastjóra verið ákveðinn sá sami.

Kærandi byggir á því að skv. 42. gr. starfsmannastefnu Árborgar komi fram að ýtrasta tillit skuli taka til jafnréttissjónarmiða við kjaraákvarðanir. Telur kærandi að sveitarfélagið hafi ekki farið eftir eigin fyrirmælum við kjaraákvarðanir um heildarlaunagreiðslur sviðsstjóra. Kærandi bendir sérstaklega á að yfirmenn hennar hafi aldrei gert athugasemdir við störf sín eða dregið hæfni hennar í efa sem stjórnanda eða fagmanns.

Kærandi leggur áherslu á að ákvörðun sveitarfélagsins um mismunandi kjör sviðsstjóra byggi ekki á málefnalegum rökum. Mismunandi kjarasamningar réttlæti ekki mismunandi starfskjör karla og kvenna. Þá hafi raunverulegt mat á vinnuframlagi sviðsstjóra ekki farið fram, eins og kveðið sé á um í 55. gr. starfsmannastefnu Árborgar, engin stimpilklukka sé á vinnustað eða önnur skráning á vinnutíma sviðsstjóranna, nema hvað bæjartæknifræðingur skili eigin skráningu varðandi yfirvinnu til bæjarstjóra. Við ráðningu fræðslustjóra hafi verið samið um x tíma yfirvinnu á mánuði en þá hafi engin reynsla verið komin á umfang starfsins.

Telur kærandi að munur sá sem er á heildarlaunum kæranda og annarra sviðsstjóra hjá sveitarfélaginu verði ekki skýrður með málefnalegum rökum, heldur af kynferði.

 

IV

Sjónarmið kærða

Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er á því byggt að grunnlaun félagsmálastjóra og fræðslustjóra séu þau sömu, en að grunnlaun bæjartæknifræðings taki mið af kjarasamningum launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags tæknifræðinga. Einnig fái framangreindir sviðsstjórar greidda fasta yfirvinnu sem byggist á mati á því hve mikla yfirvinnu einstaka sviðsstjórar inni af hendi. Þá fái sviðsstjórar greiddan akstursstyrk, fræðslustjóri og félagsmálastjóri fái greiðslur miðað við x km á mánuði og bæjartæknifræðingur að meðaltali miðað við x km, sem bæjarstjóri staðfestir samkvæmt akstursbók.

Vísað er til þess að félagsmálastjóri hafi áður fengið greidda lægri akstursgreiðslu, en samkomulag hafi verið milli bæjarstjóra og félagsmálastjóra um að sá síðarnefndi fengi greiddan akstur umfram fasta akstursgreiðslu, ef sýnt yrði fram á það með akstursskýrslum.

Fram kemur í umsögn Árborgar til nefndarinnar að um margra ára skeið hafi verið leitast við að bjóða yfirmönnum Selfossbæjar svipuð kjör og hjá sambærilegum sveitarfélögum. Fyrir um tíu árum hafi orðið breyting á launum tæknifræðinga bæjarins, þeir hafi hætt að taka laun eftir starfsmannafélagasamningum, en tóku þess í stað laun í samræmi við kjör tæknifræðinga á almennum vinnumarkaði. "Var þá tekin upp viðmiðun við samninga Stéttarfélags tæknifræðinga eins og algengast var orðið hjá flestum sveitarfélögum. Við þessa breytingu gáfu tæknifræðingar Selfossbæjar eftir aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hófu greiðslur í Lífeyrissjóð tæknifræðinga. Grunnlaun þeirra hækkuðu mikið við þessa breytingu en á móti var föst yfirvinna afnumin og lífeyrisréttindi þeirra urðu lakari. Sú yfirvinna sem unnin er hverju sinni er greidd og staðfestir bæjarstjóri tímaskýrslur mánaðarlega. Síðar fékk launanefnd sveitarfélaga umboð flestra sveitarfélaga til að semja við Stéttarfélag tæknifræðinga og tóku laun forstöðumanns tæknideildar og síðar bæjartæknifræðings mið af ákveðnum stað í launatöflu skv. samningi LN og tæknifræðinga".

Varðandi laun félagsmálastjóra tekur Árborg fram að kjör félagsmálastjóra hafi almennt tekið mið af kjörum hjá öðrum sveitarfélögum. Mál hafi síðar þróast á þann veg að slíkur samanburður hafi orðið félagsmálastjóra óhagstæður. Hafi sveitarfélagið látið undan þrýstingi félagsmálastjóra og hafi launastefnu gagnvart yfirmönnum verið breytt og hafi félagsmálastjóra verið boðin sömu grunnlaun og aðrir sviðsstjórar höfðu. Þeirri meginreglu hafi hins vegar ávallt verið fylgt af hálfu Árborgar að gera kröfu til þess að yfirvinna sem greitt er fyrir sé í raun unnin. Að því leyti til sé staða félagsmálastjóra ekki samanburðarhæf við aðrar sviðsstjórastöður.

Að því er varðar stöður sviðsstjóra almennt tekur Árborg fram, að kröfur um menntun sviðsstjóra séu áþekkar, krafa sé gerð um háskólamenntun eða samsvarandi menntun á viðkomandi sviði. Sviðin séu í eðli sínu og umfangi misjöfn og störf sviðsstjóranna mismunandi. Starfslýsingar sviðsstjóranna séu byggðar upp á svipaðan hátt að undanskildu starfi bæjarritara. "Fyrirliggjandi starfslýsingar voru allar samdar í einu og virðast um margt vera að lýsa sama starfinu. Það er þó alls ekki þannig í reynd vegna ólíkra verkefna bæði að gerð og umfangi. Starfsmat það sem víða hefur verið samið um milli starfsmannafélaga sveitarfélaga og launanefndar sveitarfélaga liggur ekki fyrir varðandi störf sviðsstjóra hjá Árborg enda ná þeir samningar ekki til sviðsstjóra að bæjarritara undanskildum sem miðar við þau grunnkjör sem þar er byggt á".

Af hálfu Árborgar er tekið fram að kjaramál kæranda hafi komist "á nýtt stig" 1997 er skipulagsbreyting varð hjá sveitarfélaginu og svo þegar fræðslustjóri var ráðinn til sveitarfélagsins 1998. Í tilefni af kröfu kæranda um launaleiðréttingu hafi kæranda ítrekað verið boðin sömu grunnlaun og þeir sviðsstjórar hjá Árborg sem semja um mat á yfirvinnuframlagi í formi fastrar yfirvinnu og hafi þetta komið fram á fundi samninganefndar í nóvember 1999. Þó svo að samningar hafi ekki tekist milli málsaðila hafi verið tekin sú einhliða ákvörðun af hálfu sveitarfélagsins að greiða kæranda sömu grunnlaun og fræðslustjóra og að auki sama bílastyrk, miðað við x km. Miðaðist þessi breyting við desember 2000.

Hækkun á yfirvinnustundum hafi ekki komið til greina þar sem þeirri reglu sé fylgt að ekki er greitt fyrir aðra tíma en þá sem unnir eru og telur Árborg að kærandi hafi í reynd ekki sýnt fram á að hún vinni þá tíma sem hún fái greitt fyrir.

 

V

Niðurstaða

1.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, jafnréttislaga, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jafna þannig tækifæri kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna.

Kveðið er á um í 14. gr. laganna að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Teljist störf jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga felur launamunur í sér misrétti, enda verði hann ekki skýrður með þáttum sem eru óháðir kynferði. Sú lagaskylda hvílir því á vinnuveitendum að sjá til þess að konur og karlar njóti sömu launa og kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

2.

Sviðsstjórar hjá kærða heyra beint undir bæjarstjóra en stýra hver og einn starfsemi sviðs síns og bera ábyrgð á stjórnunaraðgerðum. Í starfslýsingum sem liggja fyrir í málinu eru stöður sviðsstjóra hjá kærða taldar áþekkar þó svo störfin lúti að mismunandi verksviðum. Í sviða- og málaflokkaskipuriti sveitarfélagsins virðast stöðurnar taldar jafnsettar. Það er álit kærunefnda jafnréttismála að störf sviðsstjóra hjá Sveitarfélaginu Árborg séu almennt séð sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði. Af hálfu kærða hefur ekki verið sýnt fram á að slíkur munur sé á störfum þessum að þau teljist ekki jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga. Verður því að fallast á með kæranda að hún geti borið kjör sín saman við aðra sviðsstjóra hjá kærða. Kærandi hefur þó lýst því yfir að hún telji stöðu bæjarritara, sem er sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, ekki sambærilega við stöður annarra sviðsstjóra, þar sem bæjarritari sé einnig staðgengill bæjarstjóra. Verður hér unað við það mat kæranda.

3.

Um laun sviðsstjóra liggur fyrir í málinu að í desember 2000 voru grunnlaun bæjartæknifræðings x kr. á mánuði og grunnlaun fræðslustjóra og félagsmálastjóri x kr. á mánuði, en þá höfðu grunnlaun félagsmálastjóra verið hækkuð einhliða úr x kr. á mánuði. Akstursgreiðslum var á sama tíma (desember 2000) þannig háttað að bæjartæknifræðingur fékk greitt sem nam x km á mánuði en fræðslustjóri og kærandi fengu greiðslu miðað við x km á mánuði. Kærandi hafði til þessa tíma fengið greiðslu sem miðaðist við x km á mánuði. Að því er varðar yfirvinnu liggur fyrir að bæjartæknifræðingur fær greidda yfirvinnu í samræmi við mældar yfirvinnustundir, fræðslustjóri fær greiddar x klst. í yfirvinnu á mánuði en kærandi fær x klst. á mánuði.

Þess er að geta að áður en laun kæranda voru hækkuð einhliða í desember 2000 höfðu henni um nokkurt skeið staðið til boða sömu grunnlaun og fræðslustjóri hafði, en jafnframt voru kæranda boðnar lægri yfirvinnugreiðslur og bílastyrkur en samið hafði verið um við fræðslustjóra. Hafði því ekki náðst samkomulag milli málsaðila um launakjör kæranda hjá sveitarfélaginu.

4.

Í athugasemdum kærða til nefndarinnar, dags. 22. febrúar 2001, kemur fram að tæknifræðingar hjá kærða hafi áður tekið laun samkvæmt kjarasamningum starfsmannafélaga kærða, en taki nú laun samkvæmt kjarasamningi Stéttarfélags tæknifræðinga. Við þessa breytingu á kjarasamningsviðmiðun hafi grunnlaun þeirra hækkað mikið, en á móti hafi föst yfirvinna verið afnumin og lífeyrisréttindi þeirra hafi skerst.

Telja verður óyggjandi að mismunandi launakjör fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf verði ekki réttlætt með mismunandi kjarasamningum einum og sér. Launamunur verður þannig í hvívetna að ráðast af hlutrænum og málefnalegum ástæðum.

Við samanburð á kjörum sviðsstjóra kemur fram að bæjartæknifræðingur fær greidda yfirvinnu samkvæmt sérstakri mælingu sem staðfest er af bæjarstjóra. Aðrir sviðsstjórar virðast hins vegar fá greidda áætlaða yfirvinnu sem ekki byggir á sérstakri skráningu í hverjum mánuði, en sem á að taka mið af raunverulega unninni yfirvinnu á ársgrundvelli. Með vísan til þess að umræddir sviðsstjórar eiga allir að njóta greiðslna fyrir unna yfirvinnu, þó mismunandi aðferðir séu notaðar við mælingu þeirra, verður ekki séð að mismunandi fyrirkomulag að þessu leyti geti haft sérstaka þýðingu varðandi mat á heildarlaunum viðkomandi aðila.

Að því er varðar mismun í lífeyrisréttindum þá er upplýst að kærandi er aðili að LSR og greiðir iðgjald í B-deild hans af föstum launum sínum fyrir dagvinnu. Bæjartæknifræðingur er aðili að Lífeyrissjóði arkitekta og tæknifræðinga og greiðir iðgjald af öllum launum sínum til sjóðsins. Nokkur munur er einnig á kjörum vegna annarra þátta kjarasamninga.

Af hálfu kærða er á því byggt að breyting hafi orðið á grunnlaunum bæjartæknifræðings í kjölfar breytinga á kjarasamningsviðmiðun, þ.e. þegar laun bæjartæknifræðings voru miðuð við kjarasamning Stéttarfélags tæknifræðinga í stað kjarasamnings stéttarfélags starfsmanna kærða, svo sem áður er rakið. Bendir umrædd breyting á fyrirkomulagi grunnlauna til þess að svo hafi um samist í kjarasamningi að grunnlaun hækkuðu vegna breytts fyrirkomulags að þessu leyti, en ekki að bæjartæknifræðingi hafi verið gert hærra undir höfði hvað laun varðar en áður var. Að vísu nýtur ekki við gagna varðandi umrædda breytingu, en hér ber hins vegar að hafa í huga að grunnlaun bæjartæknifræðings virðast um langt skeið hafa verið hærri en annarra sviðsstjóra, þar með talinna karla, sem gegna sambærilegum störfum hjá sveitarfélaginu. Þegar þessi atriði eru höfð í huga virðist svo sem mismunur í grunnlaunum bæjartæknifræðings annars vegar og annarra sviðsstjóra hins vegar eigi sér hlutlæg málefnaleg rök. Verður því að líta svo á að launamunur sá sem er á grunnlaunum kæranda og bæjartæknifræðings sé ekki að rekja til kynjamismununar.

5.

Við samanburð á launakjörum kæranda og fræðslustjóra kemur fram að grunnlaun þeirra eru nú þau sömu (frá desember 2000) en kærandi naut hins vegar lægri launa fram til þess tíma. Með vísan til þess að umræddar stöður sviðsstjóra teljast sambærilegar og jafnverðmætar verður ekki séð að mismunandi grunnlaun samanburðaraðila fram til desembermánaðar 2000 hafi verið réttlætt sérstaklega. Sönnun þar að lútandi liggur hjá vinnuveitanda lögum samkvæmt. Verður því að telja að kæranda hafi borið sömu grunnlaun og fræðslustjóra, enda virðist sem í hækkun þeirri sem framkvæmd var í desember 2000 hafi falist viðurkenning kærða að þessu leyti.

Upplýst er að greiddir yfirvinnutímar fræðslustjóra eru x á mánuði, en kærandi fær nú greidda x yfirvinnutíma á mánuði. Af hálfu kærða er því haldið fram að ástæða þessa sé sú að í raun sé um unna yfirvinnu að ræða og að kærandi vinni minni yfirvinnu en fræðslustjóri sem þessum mun nemur. Í þessu sambandi er m.a. vísað til 55. gr. starfsmannastefnu sveitarfélagsins, þar sem fram kemur að ef starf sé þess eðlis að því fylgi þörf á reglulega unninni yfirvinnu sem yfirmaður hafi ekki tök á að hafa náið eftirlit með skuli hann ákvarða viðkomandi starfsmanni fasta yfirvinnugreiðslu. Skuli sá heildarvinnustundafjöldi samsvara mati aðila á raunverulega unninni yfirvinnu starfsmannsins á ári. Telur kærði sér af þessum ástæðum ekki skylt að greiða kæranda fleiri stundir í yfirvinnu. Þá er fullyrt af hálfu kærða að fræðslustjóri vinni a.m.k. þá yfirvinnutíma sem hann fái greidda.

Óumdeilt er í málinu að ekki hefur farið fram formleg mæling á unninni yfirvinnu umræddra sviðsstjóra og við ákvörðun yfirvinnu fræðslustjóra virðist ekki hafa verið gerð sérstök úttekt á yfirvinnu þeirri sem fræðslustjóra bar að inna af hendi, heldur naut eingöngu við mats bæjarstjóra á ætlaðri yfirvinnu. Það athugast að við meðferð málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála var staðfest að ekki lægju fyrir mælingar á ætlaðri yfirvinnu viðmiðunaraðila.

Þó svo að fallast megi á það með kærða að mismunur í unninni yfirvinnu geti réttlætt mismunandi yfirvinnugreiðslur með þeim hætti sem á er byggt í málinu, verður slíkt að byggjast á einhvers konar mælingu eða úttekt sem gerð er á yfirvinnu viðkomandi aðila. Vegna þessa verður ekki á það fallist með kærða að mismunandi yfirvinnugreiðslur verði réttlættar með fullyrðingum um mismunandi vinnuframlag. Með vísan til þessa og þar sem ekki hafa komið fram önnur sjónarmið af hálfu kærða, sem réttlætt geta umræddan mismun, ber að líta svo á lögum samkvæmt að hann byggist á mismunandi kynferði viðmiðunaraðila.

Upplýst er að fræðslustjóri fær greiðslur vegna aksturs sem miðast við x km á mánuði. Sú greiðsla miðast ekki við raunverulegan mældan akstur. Verður því að telja að sömu sjónarmið eigi við um bifreiðastyrk og yfirvinnugreiðslur, svo sem rakið er að hér að framan. Meðan mismunandi greiðslur vegna aksturs styðjast ekki við raunverulega mælingu aksturs teljast þær mismuna aðilum sem teljast vinna jafnverðmæt og sambærileg störf, sbr. 14. gr. laga nr. 96/2000.

Það er því álit kærunefnda jafnréttismála að mismunur á föstum launum og greiddri yfirvinnu kæranda og fræðslustjóra, frá því að hann var ráðinn til starfa, svo og munur í greiðslum fyrir akstur, hafi ekki verið réttlættur og teljist því fela í sér mismunun í skilningi 14. gr. laga nr. 96/2000.

6.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Sveitarfélagsins Árborgar að kæranda verði bættur sá munur sem verið hefur á grunnlaunum hennar og fræðslustjóra frá þeim tíma er hann var ráðinn til starfa hjá kærða og að leiðréttur verði munur sem verið hefur á greiðslum fyrir yfirvinnu og á bifreiðastyrk til þeirra. Er talið eðlilegt að leiðrétting samkvæmt þessu miðist við 1. júní 1998. Ella er þeim tilmælum beint til Sveitarfélagsins Árborgar að fundin verði önnur lausn sem kærandi getur sætt sig við.

 

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Stefán Ólafsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta