Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2000

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 8/2000:

 

E
gegn
Neyðarlínunni hf.

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 4. október 2001 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dags. 20. nóvember 2000, óskaði kærandi, E, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn hennar úr starfi hjá Neyðarlínunni hf. bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt kærða með bréfi dags. 18. desember 2000. Var þar með vísan til 3. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, óskað eftir því að tekin yrði afstaða til þeirra athugasemda sem fram komu í erindi kæranda.

Með bréfi dags. 15. janúar 2001, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum við erindi kæranda.

Með bréfi dags. 23. janúar 2001, var kæranda kynnt umsögn kærða og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Athugasemdir bárust með bréfi dags. 12. mars 2001.

Þann 12. mars 2001 var kærða síðan gefinn kostur á að koma með frekari athugasemdir, sem hann gerði með bréfi dags. 5. apríl 2001.

Loks var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við síðastnefnt bréf kærða, sem gert var með bréfi dags. 22. maí 2001. Ekki þóttu efni til að bera síðastgreinda umsögn undir kærða enda engar nýjar upplýsingar sem þar komu fram.

Með nefndu bréfi kærða, dags. 5. apríl 2001 barst hljóðsnælda, sem kærði lagði fram sem trúnaðarmál, sbr. 7. gr. laga nr. 25/1995. Kærði gerði hins vegar ekki athugasemd við að kærandi hlýddi á umrædda hljóðsnældu. Þann 10. maí 2001 mætti kærandi til fundar hjá starfsmanni kærunefndarinnar til að hlusta á framangreinda hljóðupptöku.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála, var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Kærandi starfaði hjá Neyðarlínunni hf. frá því í ársbyrjun 1996 sem almennur neyðarvörður. Um haustið sama ár voru framkvæmdar skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu og starfsfólki skipt niður á fjórar vaktir A, B, C og D. Var kæranda falinn stjórn A-vaktar.

Um áramótin 1999/2000 voru stöður varðstjóra hjá kærða auglýstar lausar til umsóknar og stóð til að ráða í stöðurnar frá og með 1. febrúar 2000. Allir starfandi yfirmenn sóttu um stöðurnar, þar á meðal kærandi en ekki hefur verið upplýst hvort öðrum umsækjendum var til að dreifa. Ráðagerð kærða um þessar ráðningar virðist ekki hafa gengið eftir þann 1. febrúar. Framkvæmdastjóri kærða tilkynnti kæranda hins vegar í viðtali 30. ágúst 2000, að skiplagsbreytingar væru fyrirhugaðar innan fyrirtækisins og vegna þeirra yrði hún ekki lengur yfirmaður A-vaktar, heldur flutt til í stöðu almenns neyðarvarðar.

Á fundi kæranda og framkvæmdastjóra kærða, 5. september 2000, var fyrirhugaður flutningur kæranda úr starfi yfirmanns ítrekaður og jafnframt var henni tilkynnt að hún ætti að hefja störf á annarri vakt sem undirmaður. Óumdeilt er í málinu að á þessum fundi var kæranda sagt upp starfi hjá fyrirtækinu.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að kærði, hafi brotið lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að gera tilraun til að þvinga hana úr starfi yfirmanns vaktar hjá kærða. Kærandi kveðst hafa beðið um skýringar á þessari tilfærslu í starfi og auk þess hafa bent á að staðið væri að henni með ólögmætum hætti. Í framhaldi af því kveðst kæranda hafa verið sagt upp starfi hjá kærða og undirmanni hennar boðinn staða yfirmanns vaktar. Karlmanni með mun minni starfsreynslu, sem auk þess skorti þá menntun og þann faglega bakrunn fyrir starfið sem kærandi búi yfir.

Kærandi telur kærða hafa reynt að réttlæta þessar gerðir sínar með því að vísa til ótilgreindra breytinga á starfi yfirmanns vaktar. Breytinga sem ekki hafi verið skýrðar nánar og höfðu jafnframt ekki haft nein áhrif á stöðu annarra yfirmanna vakta hjá kærða.

Því er jafnframt mótmælt að þær breytingar, sem kærði rakti í bréfi sínu dags. 15. janúar 2001 til kærunefndar og hélt fram að leitt hefðu til uppsagnar kæranda úr starfi, séu þess eðils að hún hefði orðið ófær um að sinna starfi yfirmanns vaktar. Þvert á móti telur kærandi að breytingar þessar hefðu frekar þýtt að hún væri hæfari til þess að gegna starfinu. Hið breytta fyrirkomulag var að sögn kæranda komið til framkvæmda nokkru áður en henni var sagt upp störfum og sinnti hún því starfinu svo breyttu allt til uppsagnardags, án nokkurra aðfinnslna frá kærða.

Kærandi kvaðst hafa starfað sem yfirmaður vaktar hjá kærða frá því að fyrst var skipað í þær stöður eða frá hausti 1996. Frá þeirri stundu kveðst hún hafa haft hærri laun en almennir neyðarverðir vegna aukinnar ábyrgðar og verkefna sem starfinu fylgdu. Kærandi mótmælir því ekki að eðlilegt kunni að hafa verið að auglýsa stöður yfirmanna vakta lausar til umsóknar vegna skipulagsbreytinga. Það að karlvarðstjórar héldu allir sínu starfi eftir sem áður, fól í sér vísbendingu um að auglýsingin hafi verið til málamynda.

Því er mótmælt af hálfu kæranda að varðstjóri Slökkviliðs Reykjavíkur hafi oft orðið að koma henni til hjálpar þegar erfið mál kröfðust úrlausnar. Þeir hefðu stýrt aðgerðum vegna tiltekinna tegunda mála, sem þeir hefðu sérþekkingu á, svo sem vegna eldsvoða, en frá upphafi hafi verið dregnar skýrar línur milli ábyrgðarsviðs varðstjóra hjá kærða og varðstjóra slökkviliðsins.

Kærandi hefur einnig byggt á því að hún hafi haft einna mestu almennu starfsreynsluna hjá fyrirtækinu. Hún sé menntaður lögreglumaður og hafi starfað sem slíkur í fimm ár eftir að námi lauk. Kærandi telur þá menntun og þá reynslu vera ómetanlega í stöðu varðstjóra, sem hefur yfirumsjón með meðferð allra mála sem berast kærða. Hún kvað aðeins einn annan varðstjóra búa yfir sömu menntun, en hann hafi minni starfsreynslu hjá kærða.

 

IV.

Sjónarmið kærða

Með bréfi dags. 15. janúar 2001 kom kærði sjónarmiðum sínum á framfæri. Var á því byggt að kærandi hafi verið ráðinn í starf neyðarvarðar hjá kærða, eins og ráðningarsamningur ber með sér. Kærði kveður fjóra fyrstu starfsmennina, sem ráðnir voru til fyrirtækisins, hafa gegnt störfum yfirmanna vakta án þess að vera sérstaklega ráðnir til þess. Kærandi hafi síðan sótt um stöðu yfirmanns er stöðurnar voru auglýstar í janúar 2000. Á þessum tíma hafi staðið til skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu, sem fólu meðal annars í sér þá breytingu á starfi varðstjóra að hann yrði framvegis eini yfirmaðurinn á vakt, en áður hefði varðstjóri frá Slökkviliði Reykjavíkur verið jafnframt á vakt með yfirmanni vaktar. Einnig hefði kærði byrjað að sinna þjónustu fyrir fjarskiptamiðstöð lögreglunnar.

Kærði taldi sig hafa á grundvelli stjórnunarréttar atvinnurekanda fulla heimild til þess að segja kæranda upp störfum og hafi ekki borið skylda til að rökstyðja þá ákvörðun, hvorki samkvæmt lögum né kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins. Allt að einu hafi verið tilgreindar í uppsagnarbréfinu þær ástæður sem lágu að baki uppsögninni; skipulagsbreytingar vegna nýráðningar yfirmanna vakta en þeim fylgi ábyrgð sem nýjan starfskraft þyrfti til að sinna. Að auki var greint frá því að ýmis mistök hafi verið gerð bæði við úrlausn einstakra mála og svo einnig varðandi almenna stjórnun vaktar á neyðarvarðstofu.

Með vísan til þessara ástæðna taldi kærði kæranda ekki hæfan til þess að gegna starfi yfirmanns vaktar. Hún hafi oft átt erfitt með að vinna undir álagi og varðstjóri slökkviliðs, sem var á vakt með henni, hafi oft komið henni til hjálpar þegar erfið mál kröfðust úrlausnar. Kærði vísar til atviks sem gerðist síðastliðið sumar þar sem að hans mati komi ótvírætt fram að kærandi sé ekki fær um að gegna starfi yfirmanns vaktar.

Því var sérstaklega mótmælt af hálfu kærða að til hafi staðið að lækka laun kæranda í kjölfar breytinganna eins og haldið hafði verið fram af hálfu kæranda.

Lögð var fram hljóðupptaka af samtali kæranda við mann er leitaði aðstoðar Neyðarlínunnar hf. þann 1. ágúst 2000. Taldi kærði ótvírætt að kærandi hafi gerst sek um mistök í starfi og viðbrögð hennar í máli þessu hafi engan veginn verið í samræmi við þá þjónustu sem kærða beri að veita.

 

V.

Niðurstaða

Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti. Með hliðsjón af því skal stuðlað að því að jafna tækifæri kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Atvinnurekendur gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra meðal annars við uppsagnir starfsmanna. Þeir skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Gildir það meðal annars um stöðubreytingar og uppsagnir. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. jafnréttislaga.

Kærandi, sem gegndi stöðu varðstjóra hjá Neyðarlínunni hf., hefur óskað eftir því að nefndin veiti álit sitt á því hvort fyrirtækið hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga með því að segja henni upp starfi í kjölfar skipulagsbreytinga hjá fyrirtækinu.

Kærandi starfaði hjá kærða frá því í byrjun árs 1996. Í upphafi var hún ráðin sem almennur neyðarvörður en því hefur ekki verið mótmælt af hálfu kærða að hún hafi sinnt starfi yfirmanns vaktar, varðstjóra, frá hausti það ár og allt til starfsloka. Í málinu hefur ekkert komið fram um að hún hafi verið áminnt í starfi eða ásökuð um að valda ekki starfi sínu á meðan á starfstíma hennar stóð. Verða þessar staðreyndir því lagðar til grundvallar við úrlausn máls þessa.

Þegar kærði auglýsti stöður varðstjóra lausar til umsóknar í ársbyrjun 2000, sótti kærandi um svo og aðrir sem höfðu fram að þeim tíma gegnt yfirmannsstöðum vakta hjá kærða. Um var að ræða fjórar stöður varðstjóra og voru karlmenn í hinum þremur stöðunum. Þeir héldu allir sínum stöðum eftir þær skipulagsbreytingar sem áttu sér stað hjá fyrirtækinu. Kærandi var eini yfirmaðurinn sem kærði vildi færa til í starfi. Kærandi var einnig eini yfirmaðurinn sem kærði sagði síðan upp störfum vegna nefndra skipulagsbreytinga eftir að kærandi neitaði að fallast á tilflutning úr starfi varðstjóra í starf almenns neyðarvarðar. Karlmaður, sem hafði starfað innan fyrirtækisins sem undirmaður kæranda, var ráðinn í hennar stað sem varðstjóri. Í kjölfar uppsagnar kæranda skipuðu þannig karlmenn eingöngu stöður varðstjóra hjá kærða.

Forsenda þess að jafnréttislögin nái þeim tilgangi sínum, að tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla og brjóta upp þá kynskiptingu sem er í mörgum starfsgreinum á vinnumarkaði, er að við val milli umsækjenda, sem telja verður jafn hæfa, sé horft til skiptingar milli kynja í viðkomandi starfsgrein, sbr. 1. gr., 22. gr. og 24. gr. jafnréttislaga. Hefur þessi meginregla verið staðfest í nokkrum dómum Hæstaréttar og má þar nefna, Hrd. 1993:2230, Hrd. 1996:3760 og Hrd. 1998:3599.

Sömu meginreglu ber að hafa í huga við uppsagnir starfsmanna úr starfi, sbr. 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga. Með hliðsjón af því bar kærða að hafa hlutfall kynja í stöðum varðstjóra í huga er hann afréð hverjir skyldu gegna þeim störfum til framtíðar.

Með vísan til ofanritaðs og 3. mgr. 24. gr. jafnréttislaga er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirrar ákvörðunar að segja kæranda upp störfum eftir að hún hafnaði flutningi í stöðu almenns neyðarvarðar. Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi með uppsögn kæranda brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Þeim tilmælum er beint til Neyðarlínunnar hf. að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

Kærunefnd vill taka fram að meðferð máls þessa tafðist vegna mikilla anna og sumarleyfa.

 

 

Ragnheiður Thorlacius

Björn L. Bergsson

Stefán Ólafsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta