Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2000

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2000:

 

A

gegn

Grunnskóla Vesturbyggðar vegna Bíldudalsskóla

--------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 18. desember 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með bréfi, dags. 28. júní 2000, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun um greiðslu launa í skólaferðalagi vorið 2000 til annars tveggja umsjónarmanna sem tóku að sér gæslustörf bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Bréf kæranda var kynnt Bíldudalsskóla með bréfi, dags. 4. september 2000. Var þar m.a. með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað upplýsinga um kyn umsjónarmanna í umræddri ferð og hvað ráðið hefði mismunandi greiðslum til umsjónarmanna barnanna.

Með bréfi Bíldudalsskóla, dags. 7. september 2000, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum við erindi kæranda.

Með bréfi, dags. 26. september 2000, var kæranda kynnt umsögn Bíldudalsskóla og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 9. október 2000, þar sem athugasemdir voru gerðar við fyrrgreinda umsögn Bíldudalsskóla. Með bréfi, dags. 19. október 2000, var Bíldudalsskóla gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kæranda og komu þær athugasemdir fram í bréfi, dags. 25. október 2000. Með bréfi, dags. 15. desember 2000, var óskað eftir nánari upplýsingum um greiðslur til kennara, sem í umrædda ferð fór, og voru þær upplýsingar veittar með bréfi, dags. sama dag. Ekki þóttu efni til að bera þá umsögn undir kæranda enda komu þar ekki fram neinar nýjar upplýsingar.

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sem tóku gildi 22. maí 2000, féll umboð þáverandi kærunefndar jafnréttismála niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún við meðferð þessa máls.

 

II.

Málavextir

Í lok skólaársins 1999-2000 fór kærandi sem er húsvörður og skólaliði við Bíldudalsskóla í Vesturbyggð í skólaferðalag 8. og 9. bekkjar skólans sem fylgdarmaður ásamt einum kennara skólans. Kennarinn var jafnframt bílstjóri í ferðinni. Ferðalagið hófst að morgni miðvikudagsins 31. maí 2000 og var komið heim aðfaranótt sunnudagsins 3. júní. Kærandi fékk ekki sérstaklega greitt fyrir þá daga sem ferðalagið stóð yfir en ferðin var hins vegar henni að kostnaðarlausu. Kennarinn sem fór í sömu ferð fékk greitt fyrir vinnuframlag sitt í ferðinni.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Bíldudalsskóli hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar annar tveggja umsjónarmanna sem tóku að sér gæslustarf vegna skólaferðalags með börnum úr Bíldudalsskóla fékk greitt fyrir störf sín en hinn ekki. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi meðal annars til þess að umsjónarmennirnir unnu báðir sömu störf í ferðalaginu og báru sömu ábyrgð.

Í erindi kæranda kemur fram að þegar aðstoðarskólastjóri Bíldudalsskóla óskaði eftir því að hún færi í umrætt ferðalag leit hún svo á að hún færi sem starfsmaður skólans. Af þeim sökum taldi hún eðlilegt að hún fengi laun sem hún ætti rétt á þann tíma er ferðalagið stóð yfir og samdi því ekki sérstaklega um greiðslur þennan tíma. Ástæða þess að hún lét leiðast til að fara í ferðina var að enginn annar fékkst til að fara í þessa ferð fyrir utan kennarann sem var karlmaður. Öllum hefði mátt vera það ljóst að hún var ekki foreldri nemanda í skólanum og fór því ekki á þeim forsendum.

Teldist það venja innan skólans að greiða ekki báðum umsjónarmönnum ferðar sem þessarar fyrir vinnuframlag þeirra hefði átt að upplýsa þann sem ekki átti að fá greitt um það fyrirfram. Það geti ekki talist eðlileg vinnubrögð að óska eftir að starfsmaður skili ákveðnu vinnuframlagi og segja honum síðar að samkvæmt venju eða af öðrum ástæðum verði ekki greitt fyrir vinnuna.

Enn fremur leggur kærandi áherslu á að í skólaferðalögum er nánast um sólarhringsstarf að ræða þannig að varla verði talið að hún hafi verið í fríi frá vinnu sinni sem starfsmaður skólans þennan tíma. Megi líta svo á að hún hafi einnig verið í kvöld- og næturvinnu þessa daga ásamt því að vinna laugardaginn og hluta sunnudagsins.

Bendir kærandi á að kennarinn hafi jafnframt verið bílstjóri í ferðinni og hafi því ekki getað sinnt öðrum störfum samtímis akstrinum. Á þeim tíma, þ.e. meðan á akstri stóð og vegna verkefna sem lutu að bifreiðinni, hafi kærandi þurft að axla ábyrgð á hópnum og sinna honum. Það megi því segja að kennarinn hafi ef til vill borið ábyrgð á dagskrá ferðalagsins enda hafi hún ekki komið nærri þeirri skipulagningu en hún hafi sannarlega axlað sinn hluta ábyrgðarinnar í ferðalaginu.

 

IV.

Sjónarmið kærða

Sjónarmið kærða byggjast á því að áratugahefð sé fyrir því fyrirkomulagi að í skólaferðalagið fari einn kennari og einn fylgdarmaður. Einungis hafi verið greitt fyrir kennarann í þessum ferðum óháð því af hvoru kyni hann eða fylgdarmaðurinn hafi verið enda gildi sérstakar reglur um greiðslur til kennara í skólaferðalögum. Fylgdarmennirnir hafi ýmist verið foreldrar eða aðrir aðilar úr sveitarfélaginu. Hefði kæranda mátt vera um það fullkunnugt enda hafi hún farið áður sem fylgdarmaður í skólaferðalag hjá sama skóla.

Í máli kærða kemur fram að á fundi með foreldrum hefði það komið skýrt fram að ekki hafi verið venjan að greiða fylgdarmanninum en ábending hefði komið frá foreldrum um að biðja kæranda að fara í ferðina. Hún væri vön að umgangast unglingana og semdi vel við þá.

Kærði leggur einnig áherslu á að ábyrgðin hefði ekki verið á herðum kæranda heldur kennarans sem sá um að skipuleggja, panta og borga þá atburði sem í boði voru og hefði henni verið tjáð fyrir ferðina að hún færi einungis sem fylgdarmaður sér að kostnaðarlausu. Þar sem ekki var litið svo á að ferðalagið væri hluti af vinnu hennar hjá skólanum hefði henni jafnframt verið tilkynnt um að hún fengi frí í vinnunni þá daga sem hún væri í burtu.

Kærði hefur upplýst í bréfi, dags. 15. desember 2000, að kennari hafi eingöngu fengið greitt samkvæmt "Kjarasamningi KÍ varðandi nemendaferðir".

 

V.

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, jafnréttislaga, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Kveðið er á um í 14. gr. laganna að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með launum er átt við almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, beina og óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.

Launamunur felur í sér misrétti séu störf talin jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, nr. 96/2000, enda verði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem séu óháðir kynferði starfsmanna. Lögunum er ætlað að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og fyrir mismunandi störf sem metin eru jafnverðmæt og sambærileg. Lögin skylda atvinnurekanda að ákvarða laun þannig að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launum feli ekki í sér kynjamismunun.

Í lok skólaársins 1999-2000 fór kærandi með í skólaferðalag 8. og 9. bekkjar Bíldudalsskóla í Vesturbyggð ásamt einum kennara skólans en kærandi starfar sem húsvörður og skólaliði við skólann. Daginn fyrir umrætt skólaferðalag óskaði aðstoðarskólastjóri eftir því við kæranda að hún færi með í ferðalagið. Kærandi samþykkti það en ekki virðist hafa verið samið um greiðslur til handa kæranda af því tilefni. Síðar kom í ljós að kærandi fengi ekki greitt sérstaklega fyrir ferðina en kennarinn sem fór í sömu ferð fékk hins vegar greitt fyrir vinnuframlag sitt.

Af hálfu kærunefndar er lagt til grundvallar að greiðslur til kennara þess sem í ferðina fór hafi byggst á ákvæði í kjarasamningi kennara. Umrædd ferð var hluti af skipulögðu skólastarfi Bíldudalsskóla. Verður að líta svo á að kennarinn hafi sem slíkur borið ábyrgð á nemendum og ferðinni að öðru leyti fyrir hönd skólans. Þá er upplýst að kærandi var beðin um að sinna starfi fylgdarmanns í ferðinni en venja hefur verið að fylgdarmaður hafi verið úr hópi forráðamanna nemenda. Ekki þykir sýnt að fylgdarmaður hafi tekið á sig þá ábyrgð sem hvílir á kennara við þessar aðstæður, þó svo að fylgdarmaðurinn hafi í einhverjum tilfellum þurft að sinna meiri umsjón en efni stóðu til. Með vísan til þessa og ákvæðis 1. mgr. 14. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000, verður ekki talið að um sama eða sambærilegt starf sé að ræða. Greiðslur til kennara geta því ekki talist fela í sér brot á ákvæði 1. mgr. 14. gr. jafnréttislaga.

Það athugast að í framangreindu áliti kærunefndar jafnréttismála er ekki tekin afstaða til þess hvort og að hvað miklu leyti kærandi kunni að eiga rétt á hæfilegri þóknun eða öðrum greiðslum fyrir vinnuframlag sitt í ferðinni samkvæmt kjarasamningi eða á grundvelli annarra ráðningarkjara.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta