Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 67/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 29. maí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 67/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15020004

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála þann 26. janúar 2015 kærði […], kt. […], ríkisborgari […], ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. janúar 2015, að synja kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og 12. gr. f sömu laga.

 Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni veitt heimild til dvalar á Íslandi.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga þann 9. ágúst 2012. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfinu þann 3. júní 2013 og var leyfið endurútgefið þann 11. desember 2013 með gildistíma til eins árs. Kærandi sótti aftur um endurnýjun dvalarleyfis þann 5. nóvember 2014 en var þá synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. janúar 2015.

 Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála með tölvupósti, dags. 22. janúar 2015. Greinargerð kæranda barst nefndinni 4. febrúar 2015 og önnur gögn málsins bárust nefndinni 10. febrúar 2015. Þá var jafnframt óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærumálsins en stofnunin gerði engar athugasemdir.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

 III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Synjun Útlendingastofnunar á endurnýjun dvalarleyfis kæranda byggir á því að grundvallarforsendur  leyfisins séu ekki lengur verið fyrir hendi. Upphaflegur grundvöllur leyfisins var brýn þörf á stuðningi við dóttur kæranda […]. Aðstæður dóttur kæranda hefðu breyst og ekki væri ástæða til […]. Þá var það jafnframt mat stofnunarinnar að eftirlit umsækjanda með börnum dóttur sinnar falli ekki undir undanþáguákvæði 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga.

 Útlendingastofnun komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að tengsl kæranda við landið hafi ekki verið með þeim hætti að það réttlætti útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga.


 IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi kveður tilgang dvalar sinnar hér á landi vera þann að aðstoða dóttur sína við umönnun barna hennar. Dóttir kæranda hafi nýverið […]. […] og hún hafi því ákveðið að flytjast hingað til lands til að geta aðstoðað hana og eytt meiri tíma með barnabörnum sínum. Dóttir kæranda sé í fullri vinnu og henni gæti reynst erfitt fjárhagslega að fá pössun fyrir börnin. Kærandi kveður dóttur sína […]. Kærandi sé nú […]og ferðalög um langa vegu gætu reynst henni erfið auk þess sem þau eru kostnaðarsöm. Eiginmaður kæranda hafi fengið gefna út vegabréfsáritun fyrir fleiri en eina komu til Íslands en nú hefur eiginmaður kæranda einnig sótt um dvalarleyfi hér á landi. Er það ósk þeirra hjóna að fá að dveljast hér á landi með dóttur sinni. […] börnum þeirra hjóna búa utan heimalands og tengsl þeirra við […] séu því ekki mikil.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og 12. gr. f sömu laga.

 Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að uppfylltum grunnskilyrðum 11. gr. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. heimilar, þegar sérstaklega stendur á, veitingu dvalarleyfis til útlendings sem kemur til landsins „í lögmætum og sérstökum tilgangi“ þrátt fyrir að hann uppfylli ekki hin sérstöku skilyrði dvalarleyfa sem fram koma í ákvæðum 12. gr. – 12. gr. e eða 13. gr. Af orðum ákvæðisins og greinargerð má ráða að um undantekningu sé að ræða sem ber að skýra þröngt.

 Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að forsendur þess að kærandi fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. séu ekki lengur fyrir hendi. Stofnunin mat það svo að umönnun barnabarna kæranda hér á landi dugi ekki eitt og sér til að heimila beitingu undanþáguákvæðis 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga.

 Ljóst er að dóttir kæranda hefur […] og að hann er fluttur af landinu. Það er mat kærunefndar að þær sérstöku aðstæður sem fyrir hendi voru við veitingu fyrri dvalarleyfa kæranda séu ekki lengur til staðar og að núverandi aðstaða kæranda og dóttur hennar séu ekki af þeim toga að beita megi 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga. Kærunefndin fellst því á þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að ekki sé unnt að líta svo á að ákvæði 3. mgr. 11. gr. eigi við í máli kæranda.

 Þá kemur til skoðunar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Í 12. gr. f útlendingalaga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr. sömu laga, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Í þessu máli ber því að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði greinarinnar um sérstök tengsl við landið. Í ákvæðinu sjálfu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök í því tilviki að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið eða unnið hér og þá hve lengi, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu nánasti aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga sem nú er að finna í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008.

 Fjölskylduaðstæðum kæranda er svo háttað að dóttir hennar og […] barnabörn búa öll hér og hafa íslenskt ríkisfang. Kærandi hefur aðstoðað dóttur sína við að annast börn hennar. Í umsókn kæranda um dvalarleyfi kemur fram að ástæða dvalar sé að vera dóttur sinni til aðstoðar við heimilishald og umönnun barnanna. Dóttir kæranda hafi […] og þarfnist aðstoðar með börnin, […]. Í greinargerð er því haldið fram að kærandi sé í mestum tengslum við dóttur sína á Íslandi og að tengsl hennar við önnur börn sín séu ekki mikil þar sem þau búi og starfi utan heimalands þeirra […]. Fjölskylduhagir dóttur kæranda séu með þeim hætti að hana munar mikið um þá aðstoð sem móðir hennar getur veitt henni.

 Við mat á því hvort kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland í því tilviki sem hér um ræðir lítur kærunefndin til þess að kærandi hefur dvalist hér á landi í […] ár í löglegri dvöl á grundvelli 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga og eigi hér náin skyldmeni sem séu íslenskri ríkisborgarar. Telur kærunefndin einnig mikilvægt að líta til hagsmuna barnanna þannig að þau verði ekki fyrir röskun umfram það sem nauðsynlegt er en þau eru ung að aldri og hafa notið samvista við móðurforeldra sína í hátt á þriðja ár.

 Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og með vísan til gagna málsins þá er það álit kærunefndar útlendingamála að kærandi uppfylli lagaskilyrði dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna sérstakra tengsla hennar við landið. Þykir því rétt að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 13. janúar 2015 og veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. janúar 2015, í máli […], kt. […], ríkisborgara […], um synjun á útgáfu dvalarleyfis er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

 The decision of the Directorate of Immigration, of 13 January 2015, in the case of […], ID number […], citizen of […], regarding the denial of residence permit is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to grant the applicant residence permit in accordance with article 12 f of the Act on Foreigners, No. 96/2002.

 

 Hjörtur Bragi Sverrisson

   

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Oddný Mjöll Arnardóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta