Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 70/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 29. maí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 70/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010035


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru, dags. 13. desember 2013, kærði […], fd. […], ríkisfangslaus […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2013, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

 Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði breytt og að hann fái réttarstöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að sér verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.                                                                                                           

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests skv. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um hæli þann 26. mars 2012. Þann 9. desember 2013 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að synja kæranda um hæli hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar við birtingu þann 13. desember 2013. Þann 22. janúar 2014 barst innanríkisráðuneytinu greinargerð kæranda.

 Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa sbr. 3. gr. a laga nr. 96/2002 með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002 með síðari breytingum. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

 Þann 22. apríl 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og greindi nefndinni frá máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar við mat á hæli og viðbótarvernd er frásögn kæranda ekki dregin í efa varðandi aðstæður í […] og ástæður flótta kæranda. Var frásögn kæranda lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

 Þá tekur Útlendingastofnun fram að þær upplýsingar sem fyrir liggja um […] sýni að íbúar norðvestur svæðis landsins búi við óöryggi af þessum sökum. Hins vegar geti það ofríki sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir […] ekki talist fela í sér ofsóknir auk þess sem það grundvallist ekki á kynþætti, trúarbrögðum, þjóðerni, þjóðfélagshópi eða stjórnmálaskoðunum kæranda. Þá tekur Útlendingastofnun einnig fram að […] beinist aðallega að börnum og unglingum en kærandi sé hraustur ungur karlmaður.

 Útlendingastofnun byggir á því að átökin við […] Ekkert hafi heldur komið fram í þeim upplýsingum sem Útlendingastofnun hafi kynnt sér sem gefi til kynna að óbreyttir borgarar ættu almennt á hættu ofsóknir […] Þá beri heimildir einnig með sér að […] stjórnvöld séu virk í baráttunni gegn […] og fullnægjandi vernd sé til staðar í landinu en kærandi hafi ekki gert tilraun til að leita sér aðstoðar stjórnvalda. Jafnframt tekur Útlendingastofnun fram að ástandið á heimaslóðum kæranda hafi batnað að undanförnu og fólk sem hafi flúið þaðan sé byrjað að snúa aftur heim.

 Útlendingastofnun greinir einnig frá því að ríkisfangsleysi sé vandamál í […]. Hins vegar beri skýrslur það ekki með sér að ríkisfangslaust fólk sé ofsótt í […] eða eigi á hættu pyndingar eða aðra ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá eigi kærandi einnig samkvæmt […] lögum tilkall til […] ríkisborgararéttar, en ekkert hafi verið fram fært í málinu sem sýni fram á að til staðar séu hindranir sem standi í vegi fyrir kæranda til að afla sér hans.

 Með vísan til þessa var það mat stofnunarinnar að aðstæður kæranda væru hvorki með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 44. gr. né 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga.  Þá var kæranda einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé frá […]. Þar hafi ástandið verið slæmt um langt skeið vegna […].

 Kærandi kveðst hafa misst báða foreldra sína og bróður en frændi hans hafi gengið honum í föðurstað. Þeir hafi lengst af búið í borginni […].

 Kærandi kveður árásir […]. Kærandi kveðst ekki getað leitað sér verndar stjórnvalda þar sem þau hafi ekki getu til að ráða við […]. Því hafi kærandi ákveðið að flýja til Íslands.

 Kærandi mótmælir þeirri ályktun Útlendingastofnunar að ekkert bendi til þess að […] hafi sérstakan áhuga á að hafa hendur í hári kæranda í ljósi þess að stofnunin telji frásögn hans trúverðuga. Þá mótmælir kærandi því einnig að flutningur innan […] sé raunhæft úrræði fyrir hann þar sem áhrif […].

 Kærandi kveðst vera ofsóttur vegna þjóðernis síns og að […] falli undir skilyrði b- og/eða c-liðar 3. mgr. 44. gr. a útlendingalaga.

 Kærandi kveðst einnig vera ríkisfangslaus, hann eigi hvorki fæðingarvottorð né vegabréf og hafi aldrei fengið slíkt. Ekki sé útskýrt í ákvörðun Útlendingastofnunar hvernig hann eigi að útvega sér slíkt hjá […] stjórnvöldum og hafnar kærandi þeirri staðhæfingu að hann geti það.

 Að lokum telur kærandi að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar vegna brots á málshraðareglu, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. a útlendingalaga.

 

VI.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 1. Lagarammi

 Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

 2. Niðurstaða

 Svo sem fram hefur komið krefst kærandi þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, eða skv. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.

 Landaupplýsingar og […]

 […]

 Þar kemur meðal annars fram að […]. Þó sé hryðjuverkaárásum aðallega beint að ríkisstofnunum. Þá kemur einnig fram að flutningur innan […] sé almennt raunhæft úrræði fyrir ákveðna einstaklinga.

 a. Aðalkrafa kæranda

 Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, eða skv. 2. mgr. 44. gr. sömu laga.

 Ógilding á grundvelli stjórnsýslulaga

 Í greinargerð telur kærandi Útlendingastofnun hafa brotið gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga sem og 23. gr. útlendingalaga og telur að ákvörðun Útlendingastofnunarinnar skuli vera ógild af þeim sökum.

 Kærunefndin telur ljóst að brýnt er að flýta afgreiðslu hælismála svo sem auðið er enda getur langur málsmeðferðartími haft skaðleg áhrif á andlegt sem og líkamlegt ástand hælisleitenda. Mál kæranda hefur tekið langan tíma í meðferð íslenskra stjórnvalda en í heild er málsmeðferðartíminn rúmlega þrjú ár. Aftur á móti telur nefndin að þegar metið er hvað teljist eðlilegur afgreiðslutími máls verði að skoða málsmeðferð í hverju máli heildstætt. Við matið þarf að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni. Þá hefur mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila einnig þýðingu. Þó að almennt verði að gæta að málshraða í málum verður ennfremur að gæta að því að mál sé fyllilega rannsakað og að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn í málinu áður en úrskurður er kveðinn upp. Þannig vegast á mikilvægi þess að mál sé rannsakað á nægilega vandaðan hátt áður en ákvörðun er tekin og brýnir hagsmunir aðila að mál fái skjóta afgreiðslu.

 Þó kærunefndin taki undir það að mál kæranda hafi verið óhæfilega langan tíma í meðferð íslenskra stjórnvalda verður ekki fallist á að málsmeðferðartíminn hafi haft áhrif á niðurstöðu Útlendingastofnunar. Því hafnar kærunefndin kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar á þeim grundvelli.

 Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

 Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamninginn, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að hann sé ofsóttur af […] í heimalandi sínu og vegna þess að hann sé ríkisfangslaus.

 Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

 Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

 Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á hæfilega skýran hátt sýnt fram að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

 Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli þær þurfa að byggja og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

 Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

 Í 3. mgr. 44. gr. a útlendingalaga eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

 Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru: 
   a. ríkið,
   b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
   c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

 Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að einhverjar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamanna­stofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verður yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

 Varðandi þá málsástæðu kæranda að hann sé ríkisfangslaus og eigi því á hættu að verða fyrir ómannlegri eða vanvirðandi meðferð verði hann endursendur til […], þá kemur fram í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008) að ríkisfangslaus maður, sem hefur yfirgefið það land þar sem hann hafði áður aðsetur, af ástæðum sem tilteknar eru í skilgreiningunni á flóttamanni, getur að öllu jöfnu ekki horfið aftur til þess lands. Aftur á móti er áréttað að ríkisfangslausir menn eru ekki allir flóttamenn. Til þess að teljast flóttamenn verða þeir að vera utan þess lands þar sem þeir höfðu áður reglulegt aðsetur af ástæðum sem tilteknar eru í skilgreiningunni á flóttamanni samkvæmt flóttamannasamningnum. Ef þessar ástæður eru ekki fyrir hendi, þá er hinn ríkisfangslausi ekki flóttamaður.

 Kærandi kveðst hafa verið búsettur á […]. Kærandi kvað fjölskyldu sína vera látna en hann ætti einn frænda sem nú væri búsettur í […]. Þau gögn sem kærunefndin hefur yfirfarið styðja við frásögn kæranda um að […]. Hins vegar benda gögnin einnig til þess að átökin í […] séu að miklu leyti staðbundin. Þá þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að […]. Kærandi er ungur, ógiftur og heilsuhraustur og því tekur kærunefndin undir með Útlendingastofnun að hægt sé að ætlast til þess af honum að færa sig um set í […] en gögn sem kærunefndin hefur yfirfarið benda til þess á nægilega skýran hátt að flutningur innanlands sé raunhæft úrræði fyrir kæranda. Er það því mat kærunefndar að kærandi muni ekki eiga á hættu að sæta ofsóknum setjist hann að annars staðar í […]. Í ljósi þess sem fram hefur komið verða aðstæður ekki taldar þess eðlis að þær eigi undir 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

 Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Í ákvæðinu er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd, en þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna sé að ræða.

 Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er aðalkröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði breytt og honum verði veitt hæli hér á landi hafnað.

 b.Varakrafa kæranda

 Til vara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.

 Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 115/2010, greinir að fara skuli fram heildarmat á öllum þáttum málsins áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er veitt.

 Ákvæði 4. mgr. 12. gr. f útfæra nánar skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland. Í 1. ml. er kveðið á um að heimilt sé að veita útlendingi sem haft hefur dvalarleyfi skv. 12. gr. g í tvö ár hið minnsta dvalarleyfi samkvæmt 12. gr. f ef skilyrðum 1. mgr. er fullnægt og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Ljóst er að kærandi var veitt bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt 12. gr. g þann 6. desember 2012. Hann hefur fengið það endurnýjað í nokkur skipti og haft slíkt leyfi í um það bil 15 mánuði. Verður dvalaleyfi skv. 12. gr. f því ekki byggt á þessum málslið.

 Samkvæmt 2. ml. 4. mgr. 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi ef hann uppfyllir skilyrði a–e-liðar 1. mgr. 12. gr. g þó að hann hafi ekki leyfi á þeim grundvelli ef hann hefur dvalið hér á landi í tvö ár hið minnsta vegna málsmeðferðar stjórnvalda um umsókn um hæli. Ljóst er að kærandi hefur dvalið hér á landi í þrjú ár vegna málsmeðferðar stjórnvalda. Koma því til skoðunar skilyrði a-e liðar 1. mgr. 12. gr. g sem eru eftirfarandi:

 a.  að tekin hafi verið hælisskýrsla af umsækjanda,

b. að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er,

c.  að ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda,

d. að ekki liggi fyrir beiðni um að annað ríki taki við honum á ný, sbr. 1. mgr. 46. gr. a,

e. að útlendingur hafi veitt upplýsingar og atbeina sinn til að aðstoða við úrlausn máls.

 Ekki er ágreiningur um það að kærandi uppfyllir skilyrði stafliðar a, c, d og e. Eins og áður hefur komið fram kveðst kærandi vera ríkisfangslaus […] og kveðst hann aldrei hafa fengið útgefið vegabréf eða skilríki. Því hefur hann, við meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum, ekki skilað inn neinum skilríkjum til sönnunar á því hver hann er. Verður því ekki talið að hann uppfylli staflið b.

 Í 2. mgr. 12. gr. g kemur fram að við veitingu á bráðabirgðadvalaleyfi sé heimilt að víkja frá skilyrðum 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Þó svo að 4. mgr. 12. gr. f vísi ekki í þessa undantekningarreglu telur kærunefndin að við mat á því hvort skilyrði a-e liðar 12. gr. g séu uppfyllt verði að taka tillit til undantekningarheimildar 2. mgr. 12. gr. g., þ.e. að skilyrðin í a-e lið 1. mgr. greinarinnar verði ekki tekin úr samhengi við ákvæði 2. mgr. sömu greinar. Fær þessi túlkun stuðning í umfjöllun meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta ákvæði (nefndarálit, 143. löggjafarþing, þingskjal 821 – 249. mál), en þar var lögð á það áhersla að tilgangur ákvæðisins væri að koma í veg fyrir mismunun á milli þeirra hælisleitenda sem hafa fengið bráðabirgðadvalarleyfi á grundvelli 12. gr. g og þeirra sem ekki hafa fengið slíkt leyfi en þó dvalið jafnlengi í landinu vegna málsmeðferðar stjórnvalda. Þá verður í þessu sambandi einnig að líta til þess að með vísan til 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 verður að túlka skilyrði 12. gr. f og g þannig að þau mismuni ekki þeim hælisleitendum sem eru ríkisfangslausir, eða koma frá ríki þar sem ekki eru til staðar fullnægjandi úrræði til að tryggja opinbera skráningu borgaranna. Í athugasemdum við 10. gr. laga nr. 86/2008 um breytingu á lögum um útlendinga, sem bætti 12. gr. g inn í útlendingalögin, kemur ennfremur fram að ekki þyki  sanngjarnt að láta einstakling gjalda þess ef hann hefur lagt sitt af mörkum við að upplýsa málið.

 Með vísan til alls framangreinds telur kærunefndin að unnt sé að gera undantekningu frá b-lið 1. mgr. 12. gr. g með vísan til 2. mgr. þeirrar greinar að uppfylltum þeim skilyrðum að líklegt sé að kærandi sé sá sem hann segist vera, að hann hafi gert það sem sanngjarnt er að gera kröfu um til að staðfesta auðkenni sitt, og að erfiðleikana við auðkenninguna sé ekki að rekja til kæranda sjálfs heldur fyrst og fremst til aðstæðna í heimaríki sem valda því að erfitt eða ómögulegt er að fá útgefin fullnægjandi skilríki, t.d. vegna þess að heimaríkið skorti innra stoðkerfi til slíks.

 Kærandi hefur upplýst um nafn sitt, fæðingarstað og búsetu áður en hann kom til Íslands. Kærandi kveðst vera ríkisfangslaus og ekki eiga fæðingarvottorð. Hann geti því ekki aflað sér skilríkja frá […]. Kærunefnd telur framburð kæranda um þetta atriði trúverðugan og í samræmi við skýrslur um […] sem nefndin hefur kynnt sér. Samkvæmt þeim skýrslum er óljóst hversu margir séu ríkisfangslausir í […] en svo virðist vera að það gæti verið allt frá þúsundum upp undir milljónir einstaklinga. Yfirvöld viðurkenni ekki að ríkisfangslaust fólk sé til staðar og er ríkið hvorki aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um stöðu ríkisfangslauss fólks né samningi þeirra um að draga úr ríkisfangsleysi. Jafnframt er óljóst hversu margar fæðingar eru skráðar hjá stjórnvöldum í […], en áætlað er að þær séu á bilinu 27-75%.

 Í gögnum sem kærunefndin hefur skoðað kemur fram að í […] séu starfandi samtök sem aðstoða fólk við að verða sér úti um fæðingarvottorð og í gildi séu lög og reglugerðir sem tryggi öllum þeim sem geti framvísað fæðingarvottorði rétt til að sækja um […] ríkisborgararétt. Kærunefndin telur það þó ekki samrýmast sanngirnissjónarmiðum að krefjast þess að kærandi, á þessu stigi málsins, hefji nú þann feril og er þá einnig litið til þess að Útlendingastofnun hefur ítrekað veitt kæranda bráðabirgðadvalarleyfi skv. 12. gr. g án þess að hann hafi skilað inn skilríkjum sem sýna fram á hver hann er. Byggist þessi niðurstaða kærunefndar einnig á sanngirnissjónarmiðum vegna óhæfilegrar langrar málsmeðferðar fyrir íslenskum stjórnvöldum í þessu tiltekna máli og er þá sérstaklega litið til þeirrar óvissu sem hún hefur valdið kæranda.

 Með vísan til alls ofangreinds telur kærunefndin að fella skuli úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. desember 2013 og leggja fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

 Kærunefndin beinir því einnig til Útlendingastofnunar að mikilvægt sé að fram fari mat á auðkenni hælisleitenda og hugsanlegum ómöguleika viðkomandi á að gera fullnægjandi grein fyrir sér um leið sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f eða g útlendingalaga.

 Niðurstaða

 Með vísan til þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2013, staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli hér á landi, en aftur á móti telur kærunefndin rétt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 12. gr. f útlendingalaga nr. 96/2002.

  

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2013, í máli […], fd. […], er staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

 The Directorate of Immigration's decision, dated 9 December 2013, in the case […], d.o.b. […], is affirmed with regard to his application for asylum. The Directorate of Immigration shall issue the applicant a residence permit based on Article 12 f, paragraph 4, of the Act on Foreigners no. 96/2002.

  

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

  

Oddný Mjöll Arnardóttir                                                                                                       Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta