Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 86/2015

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. júlí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 86/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15020011


 Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu þann 10. febrúar 2015 kærði […], kt. […], ríkisborgari […], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

 Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi sem […] […]og var dvalarleyfi honum til handa framlengt allt til […]. Umsókn kæranda um dvalar- og atvinnuleyfi þann […] var lögð upp hjá stofnuninni í ljósi ákvörðunar stofnunarinnar, dags. […], um að vísa kæranda brott frá Íslandi og banna honum endurkomu til landsins í þrjú ár. Umsækjandi sótti um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið þann 13. ágúst 2013 og er það sú ákvörðun sem kærð er til nefndarinnar.

 Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins og áframsend kærunefnd útlendingamála með tölvupósti, dags. 10. febrúar 2015. Greinargerð kæranda barst nefndinni 27. febrúar 2015. Kærunefndin óskaði eftir gögnum málsins frá Útlendingastofnun þann 11. febrúar 2015 og bárust gögnin þann 26. sama mánaðar. Þá var jafnframt óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærumálsins en stofnunin gerði engar athugasemdir.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

  

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Synjun Útlendingastofnunar á útgáfu dvalarleyfis kæranda byggði á því að dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt. Kærandi hafi dvalist hér á landi í tæp sex og hálft ár, þar af rúm fimm og hálft ár í löglegri dvöl. Mat stofnunin það svo að fimm og hálfs árs dvöl kæranda hér á landi teldist ekki mynda svo sérstök tengsl við landið að veita bæri dvalarleyfi á grundvelli hennar. Þann tíma er kærandi dvaldist hér á landi hafi hann ekki haldið sömu vinnu lengur en í sjö mánuði í senn. Mat stofnunin það svo að slíkur starfsferill dragi verulega úr myndun félagslegra- og menningarlegra tengsla hér á landi. Kæranda hafi með ákvörðun stofnunarinnar verið vísað brott af landinu með endurkomubanni til þriggja ára þann 3. desember 2008. Kærandi hafi dvalist mun lengur  í heimaríki og hafi þannig sterkari tengsl við það. Þá hafi hann verið að miklu leyti háður […] um framfærslu eftir að hann yfirgaf landið. Varðandi tengsl kæranda við son sinn hér á landi fjallaði stofnunin um það í ákvörðun sinni að ekki lægi fyrir samningur um umgengni kæranda við son sinn og því óljóst hvort og að hvaða leyti hann kynni að umgangast barnið. Mat stofnunin það svo að þar sem kærandi hafi stofnað til fjölskyldutengsla í heimaríki væru tengsl hans við heimaríki sterkari en tengsl hans við Ísland.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi byggir í greinargerð sinni aðallega á því að mat Útlendingastofnunar byggi á röngum forsendum. Kærandi telur að stofnunin hafi við mat sitt ekki lagt næga áherslu á hin sérstöku tengsl hans við landið. Kærandi hafi flust hingað til lands ásamt foreldrum sínum og fengið útgefið dvalarleyfi árið […]. Hann hafi búið á landinu í sex og hálft ár þar til honum var vísað brott af landinu og hann látinn sæta endurkomubanni með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þann […]. Á þeim tíma er kærandi bjó hér á landi hafi hann eignast son, fæddan […]. Hann eigi hér foreldra og systkini og sé mikið í mun að fá að umgangast fjölskyldu sína hér á landi. Kærandi mótmælir því mati stofnunarinnar að þótt ekki liggi fyrir staðfestur umgengnissamningur við barnsmóður kæranda geti ekki verið gert ráð fyrir því að hann komi ekki til með að umgangast son sinn hér á landi. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda er jákvæð gagnvart því að kærandi fái að umgangast son sinn verði honum veitt leyfi til dvalar hér. Kærandi kveðst hafi leitast við að hafa samskipti við son sinn frá því að honum var gert að yfirgefa landið. Samskiptin hafa tekið verulega á son kæranda þar sem hann saknar föður síns mikið.

 Kærandi mótmælir því að Útlendingastofnun byggi á því að hann uppfylli ekki grunnskilyrði 11. gr. útlendingalaga. Hann hafi vilyrði um vinnu á […]. Ef kærandi af einhverjum sökum geti ekki sinnt vinnu við komuna til landsins þá muni […] annast uppihald hans hér. Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið.

 Þá byggir kærandi á því að í hinni kærðu ákvörðun sé leitað stuðnings fyrir neikvæðri niðurstöðu með vísan í úrskurð í máli kæranda hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá […]. Kærandi telur stofnunina líta framhjá þeirri staðreynd að forsenda þess að ráðuneytið féllst á að réttlætanlegt væri að […].

 Kærandi telur einnig mikilvægt að við töku ákvörðunar í málinu verði það haft í huga sem er barni hans fyrir bestu.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

 Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum.

 Samkvæmt 12. gr. f. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í þessu máli ber að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði greinarinnar um sérstök tengsl við landið. Í ákvæðinu sjálfu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið eða unnið hér og þá hve lengi, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu nánasti aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga sem nú er að finna í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008.

 Kærunefnd útlendingamála telur að sá samanburður sem Útlendingastofnun gerir í ákvörðun sinni varðandi tengsl kæranda við heimaland og sérstakra tengsla við Ísland skorti lagastoð.  Sé horft til inntaks 12. gr. f laga um útlendinga er ljóst að ekkert bendir til þess að ætlun löggjafans hafi verið að takmarka rétt manna til dvalarleyfis hér á landi við þær sérstöku aðstæður þegar tengsl þeirra við heimaríki hafi rofnað eða séu með einhverju móti ekki sérstakari en tengsl þeirra við Ísland. Það eitt að kærandi hafi dvalist lengur í heimalandi sínu og stofnað þar til fjölskyldu getur ekki talist gildur rökstuðningur fyrir því að sérstök tengsl hans við Ísland séu ekki næg. Af þeim sökum byggir kærunefndin á því að tengsl kæranda við heimaland sitt dragi ekki úr vægi sérstakra tengsla hans við Ísland við mat á því hvort heimilt sé að veita honum dvalarleyfi skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

 Við mat á því hvort kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland í því tilviki sem hér um ræðir lítur kærunefndin til þess að kærandi hefur dvalist hér á landi í sex og hálft ár, þar af fimm og hálft ár í löglegri dvöl. Kærandi á hér náin skyldmenni, þar á meðal son […]. Telur kærunefndin mikilvægt að líta sérstaklega til hagsmuna barns kæranda og þeirra réttinda sem það nýtur m.a. samkvæmt lögum nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Kærunefndin lítur einnig til þess að staðfesting innanríkisráðuneytisins á endurkomubanni kæranda árið […] byggir að hluta til á því að um væri að ræða tímabundna ráðstöfun sem fæli ekki í sér varanlegan aðskilnað föður frá barni sínu.

 Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og með vísan til gagna málsins þá er það mat kærunefndar útlendingamála að kærandi uppfylli lagaskilyrði dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Þykir því rétt að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 26. janúar 2015 og veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2015, í máli […], kt. […], ríkisborgara […], um synjun á útgáfu dvalarleyfis er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

 The decision of the Directorate of Immigration, of 26 January 2015, in the case of […], ID number […], citizen of […], regarding the denial of residence permit is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to grant the applicant residence permit in accordance with article 12 f of the Act on Foreigners, No. 96/2002.

 

  Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                                                         Pétur Dam Leifsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta