Hoppa yfir valmynd

716/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Úrskurður

Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 716/2018 í máli nr. ÚNU 17010002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 12. janúar 2017, kærði A synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á afhendingu fundargerða Stjórnstöðvar ferðamála.

Með tölvupósti, þann 21. mars 2016, óskaði kærandi eftir aðgangi að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála frá stofnun hennar. Með tölvupósti, þann 22. mars 2016, var kæranda tilkynnt um synjun beiðninnar. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 660/2016 frá 30. nóvember 2016 var synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis felld úr gildi og lagt fyrir ráðuneytið að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar. Ráðuneytið tók beiðnina til meðferðar á ný og synjaði kæranda um aðgang með vísan til 5. tl. 6. gr., sbr. 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í ákvörðuninni kemur fram að hlutverk og tilgangur Stjórnstöðvar ferðamála sé að leggja traustan grunn að íslenskri ferðaþjónustu með því að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila. Stjórnstöðin geti gert tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna er varða ferðaþjónustu og heyri undir ábyrgðarsvið þeirra. Á fundum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála sé fyrst og fremst fjallað um mögulegar eða fyrirhugaðar aðgerðir er snerti ferðaþjónustuna í víðum skilningi. Slíkar aðgerðir séu á undirbúningsstigi þegar þær séu ræddar í stjórn og geti því verið að umræða á fundunum gefi ekki rétta mynd af endanlegum útfærslum einstakra aðgerða. Fundargerðirnar þjóni því samhæfingar- og undirbúningshlutverki fyrir tillögur sem Stjórnstöð ferðamála kunni síðan að senda einstökum ráðherrum. Þá sé einnig ljóst að fundargerðirnar séu unnar af stjórninni sjálfri og til nota við mögulega tillögugerð til einstakra ráðherra. Fundargerðirnar falli því undir skilyrði um vinnugögn sem fram komi í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Með vísan til þessa sé það einnig mat ráðuneytisins að 1. mgr. 11. gr. laganna eigi ekki við í þessu tilfelli.

Í ákvörðun ráðuneytisins er einnig tekið fram að iðnaðar- og viðskiptaráðherra sé formaður stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála. Ráðuneytið ljái stjórninni starfsmann sem sitji fundi hennar og riti fundargerðir. Fundargerðir stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála hafi borist ráðuneytinu á grundvelli þessa fyrirkomulags. Samkvæmt þessu verði að telja fundargerðirnar vinnugögn sem unnin hafi verið af nefnd sem sett var á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki, sem borist hafi ráðuneytinu á grundvelli þess að starfsmenn þess eigi sæti í stjórninni og sinni þar einnig ritarastörfum, sbr. 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.

Í ákvörðuninni kemur einnig fram að í fundargerðunum sé ekki að finna þau atriði sem tiltekin eru í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Vísað er til þess að staða og hlutverk stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála sé að gera tillögu til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna er varði ferðaþjónustu, en ekki að taka eiginlegar ákvarðanir í þeim efnum. Því sé ekki að finna í fundargerðunum upplýsingar í tengslum við töku ákvarðana og sem fallið geti undir 1.-3. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Þá kemur fram að þar sem stjórn Stjórnstöðvar ferðamála sé samhæfingarvettvangur og hafi ekki forystu eða ábyrgð á stjórnsýsluframkvæmd eða atvinnureglum geymi fundargerðirnar ekki upplýsingar sem heyra undir 4. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 19. janúar 2017, var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 2. febrúar 2017, er vísað til fyrri rökstuðnings frá 12. desember um að fundargerðir stjórnarinnar séu vinnugögn og undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. laganna. Þá kemur fram að Stjórnstöð ferðamála hafi verið komið á fót með formlegu samkomulagi ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar, frá 6. október 2015, og skipi forsætisráðherra 10 manna stjórn þar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, nú ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gegni formennsku. Í samkomulaginu komi fram að ferðaþjónustan sé margslungin og að verkefni sem henni tengjast séu á forræði margra ráðuneyta, stofnana og sveitarstjórna. Í stað þess að sameina verkefnin undir sama ráðuneyti væri eðlilegt að Stjórnstöð ferðamála yrði starfrækt þvert á ráðuneytin með aðkomu helstu hagsmunaaðila. Hlutverk Stjórnstöðvar ferðamála samkvæmt samkomulaginu sé m.a. að gera tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmd verkefna er varði ferðaþjónustu og heyri undir ábyrgðarsvið þeirra. Þannig hafi Stjórnstöðin ekki formlegt stjórnsýsluvald og beri ekki ábyrgð á verkefnum sem tengist ferðaþjónustunni heldur sé henni ætlað að gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum stjórnvöldum sem beri ábyrgð á framkvæmd verkefna og stefnumótun í málaflokknum. Af þessu hlutverki leiði að það sem rætt sé á fundum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála séu tillögur á vinnslustigi sem kunni ekki að gefa rétta mynd af þeim endanlegu tillögum sem Stjórnstöðin beini til þeirra stjórnvalda sem fari með stjórnsýsluhlutverk sem tengist málaflokknum.

Með umsögn ráðuneytisins fylgdu sex fundargerðir; dags. 3. nóvember 2015, 23. nóvember 2015, 3. mars 2016, 11. maí 2016, 21. júní 2016 og 21. júlí 2016.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2017, var kæranda sent afrit af umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og veittur kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Niðurstaða
1.

Í málinu reynir á rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem koma fram í 6.-10. gr. laganna. Synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er byggð á því að fundargerðirnar séu vinnugögn og því undanskildar upplýsingarétti almennings á grundvelli 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 660/2016 var komist að þeirri niðurstöðu  að Stjórnstöð ferðamála væri nefnd í skilningi 2. tl. 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga með vísan til þess hvernig henni var komið á fót og efnis samkomulags um stofnun hennar, ekki síst þess hlutverks að gera „tillögur til ríkisstjórnar og einstakra ráðherra um samhæfingu og framkvæmdir verkefna er varða ferðaþjónustu og heyra undir ábyrgðarsvið þeirra“. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort fundargerðirnar hafi misst stöðu sína sem vinnugögn þegar af þeirri ástæðu að þær bárust atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Skýringar ráðuneytisins á því hvernig fundargerðirnar komust í vörslur þess eru þær að starfsmaður ráðuneytisins hafi sinnt ritarastörfum fyrir nefndina auk þess sem ráðherra sé formaður nefndarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst á þessar skýringar ráðuneytisins og telur því undantekningar 1.-3. tl. 2. mgr. 8. gr. frá því skilyrði að gagn megi ekki hafa borist öðrum, sbr. 2. ml. 1. mgr. 8. gr., eiga við. Verður því ekki talið að fundargerðirnar geti misst stöðu sína sem vinnugögn þegar af þeirri ástæðu að þær hafi borist frá Stjórnstöð ferðamála til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

2.

Hugtakið vinnugagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt málsgreininni eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í fyrri úrskurðum lagt til grundvallar að fundargerðir stjórnsýslunefndar geti uppfyllt það skilyrði að teljast vinnugögn ef (1) þær eru ritaðar af nefndarmanni eða starfsmanni nefndar, (2) þær eru ekki afhentar öðrum heldur einvörðungu til eigin afnota fyrir nefndarmenn og aðra starfsmenn sem tilheyra sama stjórnvaldi, (3) þær eru notaðar með sama hætti og vinnuskjöl eru almennt notuð við meðferð mála. Vísast um þetta m.a. til úrskurðar nefndarinnar nr. 538/2014. Af 8. gr. upplýsingalaga leiðir að við mat á því hvort gagn teljist vinnugagn í skilningi 5. tl. 6. gr. laganna skal einkum litið til þess í hvaða skyni gagnið var útbúið og hvers efnis það er. Mat á því hvort efni skjals sé þess eðlis að skjalið teljist vera vinnugagn fer fram á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. mgr. ákvæðisins að stjórnvöldum sé falið að taka ýmsar matskenndar ákvarðanir og móta tillögur um áætlanir eða aðrar aðgerðir. Eins geti verið að stjórnvöld þurfi að undirbúa ýmsar aðrar ákvarðanir, svo sem um samninga við einkaaðila. Oft geymi lög ekki að öllu leyti þau skilyrði sem þarf að fullnægja svo slíkar ákvarðanir verði teknar, eða þau sjónarmið eða markmið sem að skuli stefnt. Þegar stjórnvöld standi frammi fyrir slíkum verkefnum verði þau iðulega að vega og meta ólík sjónarmið og velja svo á hvaða grundvelli úr máli skuli leyst. Af því leiði að það taki einatt einhvern tíma að móta afstöðu til fyrirliggjandi mála og á því tímabili kunni ólík sjónarmið að hafa mismunandi vægi og breytast, t.d. ef fram komi nýjar upplýsingar. Í athugasemdunum er tekið fram að gögn sem til verði í slíku ferli þurfi ekki að endurspegla réttilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Því sé eðlilegt að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að þeim þótt stjórnvöldum sé einnig á grundvelli reglunnar um aukinn aðgang að gögnum heimilt að afhenda slík gögn, standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Enn fremur er tekið fram að þessi afmörkun á upplýsingaréttinum sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum um 16. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir um vinnuskjöl að þau séu liður í ákvarðanatöku um mál og hafi oft að geyma vangaveltur um mál, uppkast að svari eða útskýringar á staðreyndum og kunni síðar að breytast við nánari skoðun.

Þrátt fyrir að fundargerð teljist vinnuskjal í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga getur réttur almennings til aðgangs náð til hennar, að hluta eða öllu leyti, ef hún lýtur að upplýsingum um atriði sem talin eru upp í 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Þar segir:

Þrátt fyrir 5. tölul. 6. gr. ber að afhenda vinnugögn ef:

  1.     þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls,
  2.     þar koma fram upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr.,
  3.     þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram,
  4.     þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.

Í athugasemdum um 3. mgr. 8. gr. segir eftirfarandi:

Þrátt fyrir að stjórnvald, eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara, kunni að hafa útbúið tiltekið gagn í eigin þágu og til nota við meðferð máls getur efni þess engu að síður verið slíkt að rök standi til að veita almennan aðgang að því. Í ljósi þessa er í 3. mgr. 8. gr. lagt til að aðgang beri að veita að gögnum sem annars teldust innri vinnuskjöl stjórnvalds í fjórum tilvikum. Í fyrsta lagi þegar gögn hafa að geyma upplýsingar um endanlega afgreiðslu máls. Þetta getur til að mynda átt við þegar stjórnsýslunefnd afgreiðir mál með vísun til minnisblaðs sem lagt hefur verið fyrir fund. Í öðru lagi er tekið fram í 2. tl. 3. mgr. 8. gr. að undantekningin taki ekki til upplýsinga sem stjórnvaldi var skylt að skrá skv. 27. gr. laganna. Í 3. tl. málsgreinarinnar kemur fram að veita skuli aðgang að vinnuskjali ef í því koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma fram annars staðar. Með þessu orðalagi er einkum vísað til upplýsinga um mikilvægar staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum er ekki að finna annars staðar en kunna að hafa haft áhrif á ákvörðunartöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum. Samsvarandi undanþágu frá upplýsingarétti aðila máls og fram kemur í 3. tl. 3. mgr. er að finna í stjórnsýslulögum. Að síðustu er svo lagt til í 4. tl. 3. mgr. 8. gr. að veita beri aðgang að vinnuskjölum ef þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði. Ef stjórnvald hefur tekið saman slíkar upplýsingar verður að telja mikilvægt að almenningur geti átt rétt á að kynna sér þær, enda skipta slíkar upplýsingar oft miklu um verklag stjórnvalds og grundvöll að töku einstakra ákvarðana.

3.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ekki sé fært að öllu leyti að fallast á skýringar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á hlutverki Stjórnstöðvar ferðamála og þær ályktanir sem ráðuneytið dregur af því að henni sé einungis falið að gera tillögur til stjórnvalda sem beri endanlega ábyrgð á töku ákvarðana í málaflokknum. Telja verður að ákvörðun Stjórnstöðvarinnar um að gera tillögu til annars stjórnvalds feli í sér endanlega afgreiðslu viðkomandi máls hjá Stjórnstöðinni í skilningi 1. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að væri fallist á það með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að Stjórnstöðin taki engar ákvarðanir um lyktir mála myndi það jafnframt leiða til þess að engin gögn sem verða til í starfsemi hennar geti talist til vinnugagna, þar sem það er skilyrði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga að vinnugögn séu útbúin við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.

Af ákvæði 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 leiðir að meta þarf heildstætt á grundvelli framangreindra sjónarmiða hvort fundargerðir Stjórnstöðvar ferðamála uppfylli það skilyrði að teljast í reynd vinnugagn. Teljist þær til vinnugagna að hluta eða öllu leyti þarf síðan að taka afstöðu til þess hvort veita beri aðgang að þeim á grundvelli 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin telur jafnframt mikilvægt að líta til þess að Stjórnstöð ferðamála var komið á fót með formlegri ákvörðun stjórnvalda og er rekin að umtalsverðu leyti fyrir opinbert fé. Hafa verður hliðsjón af markmiðum upplýsingalaga, til að mynda þeim að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni, við mat á því hvort meginregla 1. mgr. 5. gr. laganna um rétt til aðgangs skuli víkja fyrir takmörkunarákvæði 6. tl. 6., sbr. 8. gr. laganna, sem skýra ber þröngri lögskýringu.

Í fundargerð fyrsta fundar stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 3. nóvember 2015, er að finna lýsingu á almennum umræðum fundarmanna um stöðu ferðamála á Íslandi. Að mati úrskurðarnefndarinnar geta slíkar upplýsingar ekki talist til vinnugagna í skilningi 5. tl. 6. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem þær tilheyra ekki tilteknu máli sem verið er að undirbúa, sbr. 1. málslið ákvæðisins. Sömu sjónarmið eiga við um efni fundargerðar stjórnarinnar frá 21. júní 2016. Samkvæmt framangreindu verður lagt fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að veita kæranda aðgang að fundargerðum stjórnar Stjórnstöðvarinnar frá 3. nóvember 2015 og 21. júní 2016 í heild sinni.  

Af orðalagi fundargerða af fundum stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 23. nóvember 2015, 3. mars 2016, 11. maí 2016 og 21. júlí 2016, má hins vegar ráða að þar hafi stjórnin samþykkt að gera tilteknar tillögur að aðgerðum til annarra stjórnvalda. Í þeim tilvikum ber að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál að beita 1. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga og leggja fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að veita kæranda aðgang að upplýsingum um endanlegar ákvarðanir um lyktir mála hjá Stjórnstöðinni. Þá er í þessum fundargerðum einnig að finna almennar umræður um ástand ferðamála í landinu og vangaveltur sem ekki geta talist til vinnugagna í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Loks er að finna ýmsar upplýsingar um stöðu mála hjá Stjórnstöð ferðamála og verkefni hennar sem úrskurðarnefndin telur ljóst að ekki komi fram annars staðar í skilningi 3. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi rétt á aðgangi að þessum hlutum fundargerða stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 23. nóvember 2015, 3. mars 2016, 11. maí 2016 og 21. júlí 2016.

Eftir stendur umfjöllun á stöku stað í fundargerðunum sem úrskurðarnefndin telur unnt að fallast á með ráðuneytinu að geti talist lýsa undirbúningi lykta máls hjá Stjórnstöðinni og því fallið undir hugtakið vinnugögn í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Um þessa hluta þykir jafnframt unnt að slá því föstu að skilyrði 3. mgr. 8. gr. laganna séu ekki uppfyllt. Verður því staðfest ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að synja kæranda um aðgang að þessum hluta fundargerðanna en, eins og áður segir, lagt fyrir ráðuneytið að veita kæranda aðgang að því sem eftir stendur með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Í tilefni af þeim ummælum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í hinni kærðu ákvörðun að 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um aukinn aðgang eigi ekki við um fundargerðirnar tekur úrskurðarnefndin fram að heimild ákvæðisins má almennt beita þegar gögn snerta opinbera hagsmuni. Þagnarskyldureglur sem geta komið í veg fyrir aukinn aðgang er að meginstefnu að finna í öðrum lögum en upplýsingalögum, en jafnframt er einnig almennt óheimilt að veita almenningi aukinn aðgang að upplýsingum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga og lögaðila án samþykkis þeirra, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Þannig getur það eitt og sér ekki komið í veg fyrir beitingu 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga að um sé að ræða vinnugögn í skilningi 6. tl. 6. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur hafið yfir allan vafa að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafi verið heimilt að beita ákvæðinu um rétt kæranda til aðgangs að hinum umbeðnu fundargerðum. Í ljósi niðurstöðu málsins að öðru leyti þykja ekki efni til að ógilda hina kærðu ákvörðun og vísa henni til nýrrar meðferðar hjá ráðuneytinu af þessum sökum. Því er hins vegar beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að hafa hliðsjón af þessum sjónarmiðum við ákvörðun um það hvort beita beri heimild 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga um aukinn aðgang í framtíðinni.

Úrskurðarorð:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ber að veita A aðgang að fundargerðum Stjórnstöðvar ferðamála, dags. 3. nóvember 2015, 23. nóvember 2015, 3. mars 2016 11. maí 2016, 21. júní 2016 og 21. júlí 2016. Áður er ráðuneytinu heimilt að afmá:

  1. Umfjöllun undir 3. tl. í fundargerð, dags. 23. nóvember 2015.
  2. Umfjöllun undir c)-lið 1. tl., 3. tl. og 5. tl. fundargerðar, dags. 3. mars 2016.
  3. Umfjöllun undir 2. tl. í fundargerð, dags. 11. maí 2016.
  4. Umfjöllun undir 3. tl. í fundargerð, dags. 21. júlí 2016.

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Friðgeir Björnsson                                                                                      Sigurveig Jónsdóttir

   


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta