Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 149/2013

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 149/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 15. október 2013 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda hjá B var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá 26. ágúst 2013. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. desember 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta eigi hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 26. ágúst 2013. Með umsókninni fylgdi vottorð frá vinnuveitanda kæranda, B, þar sem fram kom að kærandi hafði unnið þar í 100% starfi frá 1. janúar 2010 til 31. júlí 2013. Ástæða starfsloka er tilgreind sem eigin uppsögn kæranda.

Vinnumálastofnun óskaði með bréfi, dags. 24. september 2013, eftir því að kærandi færði fram skriflegar skýringar á uppsögn sinni. Skýringar kæranda bárust 8. október 2013. Ástæður hennar á uppsögninni voru þær að henni hafi liðið mjög illa á vinnustaðnum. Samstarfskona hennar hafi í sífellu sett út á hana og störf hennar. Hafi ástandið á vinnustaðnum verið farið að hafa áhrif á fjölskyldulíf hennar. Hún vilji læra betur íslensku til þess að geta tjáð sig á vinnustað og finna starf þar sem borin sé virðing fyrir henni og starf hennar sé metið að verðleikum.

Kærandi kveðst hafa starfað í átta ár hjá B. Hún hafi sagt þar upp störfum vegna erfiðleika í starfi og þungs andrúmslofts á vinnustað. Hún hafi oft lent í deilum við C samstarfskonu sína og hafi hún oft talað niður til kæranda. Konan hafi logið og talað illa ekki aðeins um kæranda heldur einnig um annað starfsfólk. Hún hafi verið mjög skapmikil og kúgað fólk. Við þetta hafi skapast slæmt andrúmsloft á vinnustaðnum og kærandi hafi kviðið því að mæta í vinnuna. Hún sé því miður ekki nógu sterk og hafi ekki þolað meira og tekið ákvörðun um að segja upp starfinu. Kærandi lítur svo á að hegðun umræddrar konu hafi verið andlegt ofbeldi. Hún sé enn að jafna sig eftir þetta og tárist oft þegar hún hugsi til málsins. Henni finnist afar ósanngjarnt að þurfa að upplifa bæði andlegt og fjárhagslegt áfall. Umrædd kona hafi nýverið fengið uppsagnarbréf vegna þess hvernig hún hafi komið fram við aðra starfsmenn. Kæranda finnist leitt að þurfa að kvarta undan landa sínum en uppsögn hafi verið það eina sem hún hafi getað gert í stöðunni.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 12. febrúar 2014, vísar stofnunin til þess að í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði.

Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða aðstæður liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Kæranda hafi mátt vera það ljóst að með því að segja starfi sínu lausu gæti verið erfiðleikum bundið að fá annað starf. Í athugasemdum í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar við 54. gr. komi fram að gild ástæða fyrir uppsögn geti verið annars vegar þegar um sé að ræða þau tilvik er maki hins tryggða hefur hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar séu tilvik þegar uppsögn megi rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en sé að öðru leyti vinnufær.

 Fyrir liggi að kærandi hafi sagt starfi sínu hjá B lausu. Ástæðu uppsagnarinnar megi rekja til vanlíðanar á vinnustað og óánægju með samstarfsfélaga hennar. Vinnumálastofnun telji að í þeim tilvikum sem óánægja starfsmanns með vinnuumhverfi sitt sé ástæða starfsloka, þurfi sá er hlut eigi í máli a.m.k. að hafa gert tilraunir til úrbóta með aðkomu yfirmanns á vinnustað, stéttarfélags síns og eftir atvikum Vinnueftirlitsins áður en hann taki ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Af gögnum málsins sé ekki unnt að ráða að kærandi hafi leitað allra leiða til lausnar á þeim vanda sem hún hafi talið vera fyrir hendi á vinnustað sínum. Vinnumálastofnun telji því að ástæður þær er kærandi hafi gefið fyrir uppsögn sinni teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. mars 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009 og 9. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Kærandi sagði sjálf upp störfum sínum hjá B 31. júlí 2013 án þess að vera með annað starf í hendi. Að sögn kæranda var ástæða uppsagnar óánægja með framkomu samstarfsmanns og það sem hún kallaði andlegt ofbeldi samstarfsmannsins. Samkvæmt 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður sá sem segir starfi sínu lausu að hafa til þess gildar ástæður óski hann þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur í kjölfar uppsagnar. Sé ástæða uppsagnar kæranda óánægja með vinnufélaga eða aðbúnað á vinnustað verður að gera þá kröfu til kæranda að hann geri tilraunir til þess að bæta úr því sem miður fer áður en starfi er sagt upp. Ekki verður séð af gögnum málsins, svo sem málflutningi kæranda, að hún hafi til dæmis leitað til yfirmanna sinna á vinnustað, stéttarfélags síns eða Vinnueftirlitsins um úrbætur.

Með vísan til alls framanritaðs er það mat úrskurðarnefndarinnar að ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu hafi ekki verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ber því að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.

  

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. október 2013 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

  Brynhildur Georgsdóttir, formaður

 Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta