Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 152/2013

 Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 152/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 10. júlí 2013 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar og ákveðið að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 17. desember 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 9. ágúst 2010. Hann var í júní 2013 boðaður í atvinnuviðtal hjá B, en kærandi var ekki tilbúinn að taka umræddu starfi. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum á synjun kæranda á starfinu með bréfi, dags. 21. júní 2013. Skýringarbréf kæranda barst 2. júlí 2013 þar sem fram kemur að kærandi hafi hafnað atvinnutilboðinu sökum líkamlegra vankanta, þ.e. vegna C-ofnæmi og e.t.v. einhverra annarra vandamála. Hin kærða ákvörðun var síðan tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 10. júlí 2013 eins og fram hefur komið. Kærandi skilaði læknisvottorði til Vinnumálastofnunar 25. júlí 2013 þar sem fram komi að hann hefði C-ofnæmi og hefði haft það síðan 2004. Vinnumálastofnun hafði ekki áður verið kunnugt um ofnæmið. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi Vinnumálastofnunar 30. júlí 2013 og var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest þar sem það var mat stofnunarinnar að fyrri ákvörðunin hefði ekki verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi, dags. 31. júlí 2013.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. febrúar 2014, kemur fram að 20. nóvember 2013 hafi lögmaður haft samband við Vinnumálastofnun f.h. kæranda til þess að fá upplýsingar um stöðu mála hans hjá stofnuninni. Ekki hafi verið unnt að veita lögmanninum þær upplýsingar þar sem umboð til handa lögmanninum lá ekki fyrir. Vinnumálastofnun hafði í framhaldinu samband við kæranda og útskýrði stöðu mála fyrir honum. Var kæranda tjáð að bærist starfshæfnisvottorð yrði mál hans skoðað aftur. Vinnumálastofnun barst 2. desember 2013 læknisvottorð þar sem fram kom að kærandi væri fær til allra almennra verkamannastarfa þar sem ekki væri unnið með C vegna ofnæmis sem hann hefði fyrir því. Vinnumálastofnun kannaði hjá B hvort þar væri unnið með C og hvort kærandi hefði haft orð á því í atvinnuviðtalinu. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins kannaðist ekki við að hafa fengið einstakling í viðtal þar sem talað hafi verið um slíkt ofnæmi. Enn fremur sagði framkvæmdastjórinn að hann vissi ekki til þess að unnið væri með C hjá fyrirtækinu, sbr. tölvupóst frá fyrirtækinu dags. 12. desember 2013. Fyrri ákvörðun Vinnumálstofnunar var því staðfest og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu stofnunarinnar með bréfi, dags. 13. desember 2013.

Í kæru kæranda, móttekinni 17. desember 2013, kemur fram að hann hafi verið tekinn af skrá vinnumiðlunar þrátt fyrir að hafa lagt fram gögn, þ.e. læknisvottorð, sem hafi sagt til um það að honum væri ekki hollt að stunda þá vinnu sem honum hafi staðið til boða.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. febrúar 2014, segir að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að 1. mgr. ákvæðisins eigi jafnt við um þann sem hafni starfi og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinnir ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar fyrir höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Það sé ljóst að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá B. Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 27. júní 2013, segi kærandi að hann geti ekki þegið starfið vegna C-ofnæmis og e.t.v. einhverra annarra vandkvæða. Vinnumálastofnun hafi ekki haft undir höndum neinar upplýsingar um ofnæmi kæranda þegar stofnunin hafi miðlað honum í starf hjá fyrirtækinu. Stofnunin hafi einnig aflað upplýsinga frá fyrirtækinu og samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra þess viti hann ekki til þess að unnið sé með C hjá fyrirtækinu, sbr. tölvupóst dags. 12. desember 2013.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að framlögð læknisvottorð kæranda um að hann sé með ofnæmi fyrir C geti ekki talist gild ástæða í skilningi 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem ekki verði séð að í umræddu starfi sé unnið með C, sbr. upplýsingar í tölvupósti frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins, dags. 12. desember 2013. Enn fremur kannist framkvæmdastjóri B ekki við að rætt hafi verið um C-ofnæmi í starfsviðtali hjá honum vegna starfsins svo aldrei hafi komið til þess að kærandi léti á það reyna hvort hann gæti sinnt starfinu eða ekki vegna ofnæmisins.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. júlí 2013 var tekin fyrir á fundi 12. desember 2013 og fram kemur að það hafi verið mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á höfnun hans á atvinnutilboði teldust ekki gildar. Ákvörðunin hafi verið endurupptekin tvisvar, fyrst 30. júlí og síðan 12. desember og hafi fyrri ákvörðun verið staðfest í bæði skiptin, í síðara skiptið með hliðsjón af nýjum gögnum frá kæranda og fyrirtækinu B.

Vinnumálastofnun bendir á að með lögun nr. 142/2012 hafi verið gerðar breytingar á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar sem fjalli um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, þar á meðal 57. gr. laganna. Komi nú fram í 5. mgr. lagagreinarinnar að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna. Í athugasemdum við 9.‒15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 142/2012 segi að þegar upp komi tilvik sem lýst sé í 54.‒56. gr. og 57.‒61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. skuli hlutaðeigandi ekki eiga frekari rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Þá sé tekið fram að þetta eigi við um þá sem hafi samfellt verið án atvinnu í svo langan tíma og einnig þá sem hafi verið samtals svo lengi án atvinnu enda þótt þeir hafi tekið tímabundnum störfum eða jafnvel stundi nám einhvern tíma á tímabilinu. Fyrir liggi að kærandi hafi á tímabilinu sem hófst 9. ágúst 2010 fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 31,79 mánuði. Af þeim sökum eigi 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við í máli hans.

Í ljósi framangreinds telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri honum að sæta viðurlögum á grundvelli 5. mgr. ákvæðisins. Því geti kærandi fyrst átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eða þegar hann hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að atvinnuleysisbætur voru síðast greiddar til hans.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. mars 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

 Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.

Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur eftirfarandi fram:

 Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Í 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kom inn í lög um atvinnuleysistryggingar með 12. gr. laga nr. 142/2012 og tók gildi 1. janúar 2013 segir:

Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að ástæðurnar fyrir höfnun hans á starfinu hjá B væru þær að honum væri ekki hollt að stunda þá vinnu sem honum hafi staðið til boða. Kærandi hafði ekki upplýst Vinnumálastofnun áður um þessi veikindi sín. Eins og fram hefur komið hefur kærandi við meðferð málsins hjá Vinnumálastofnun lagt fram tvö læknisvottorð varðandi heilsufar sitt. Í læknisvottorði, dags. 16. júlí 2013, kemur fram að hann hafi verið greindur með C-ofnæmi árið 2004 og að hann fái exem ef hann er útsettur fyrir ofnæmisvaldinn. Í tölvupósti frá framkvæmdastjóra B, dags. 12. desember 2013, kemur fram að honum sé ekki kunnugt um það að unnið væri með C í verksmiðjunni.

Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að með virkri atvinnuleit felist meðal annars að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og rökstuðnings Vinnumálastofnunar, verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1., 4. og 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 Úr­skurðar­orð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. júlí 2013 í máli A um að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans skuli stöðvaðar og að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta