Hoppa yfir valmynd

ÁLITSGERÐ nefndar skv. 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í máli nr. 1/2003.

Mál A.

1. Aðilar málsins.

Aðilar málsins eru fjármálaráðuneytið kt. 550169-2829, Arnarhvoli Reykjavík og A. Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur rak málið f.h. fjármálaráðuneytisins en Guðni Á. Haraldsson hrl. rak málið f.h. A.

2. Málavextir.
2.1. Málsmeðferð fyrir nefndinni.
Við meðferð málsins skipuðu nefndina Björg Thorarensen prófessor, formaður, Erna Guðmundsdóttir hdl. tilnefnd af samtökum ríkisstarfsmanna og Óskar Norðmann hdl. tilnefndur af fjármálaráðuneyti.

Málið barst nefndinni með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 18. mars 2003. Með því var framsent afrit bréfs ráðuneytisins dags. 26. febrúar 2003 til A þar sem tilkynnt var að ráðuneytið veitti honum lausn frá embætti deildarstjóra tollgæslunnar [ ] um stundarsakir. Þann 20. mars 2003 sendi formaður nefndarinnar bréf til fjármálaráðuneytisins og óskaði þess að skipaðir yrðu tveir meðnefndarmenn til þess að fjalla um málið sbr. 2. og 3. ml. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (hér eftir nefnd starfsmannalög). Sama dag var A tilkynnt með bréfi formanns að málið hefði verið sent nefndinni til meðferðar.

Með bréfi dags. 27. mars 2003 tilkynnti fjármálaráðuneytið um skipun nefndarinnar. Þann 14. apríl 2003 ritaði fjármálaráðuneytið nefndinni bréf þar sem vakin var athygli á hæstaréttardómi frá 10. apríl 2003 í máli nr. 338/2002, íslenska ríkið gegn Hannesi Inga Guðmundssyni. Í umræddum dómi Hæstaréttar var m.a. til umfjöllunar lausn embættismanns um stundarsakir af ástæðum sem getið er í 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Í dóminum kemur fram að þar sem mál embættismannsins var til rannsóknar að hætti opinberra mála hafi ekki verið þörf á því samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga að vísa því til nefndar sérfróðra manna svo sem gert var. Með bréfi nefndarinnar til fjármálaráðuneytisins dags. 16. apríl 2003 var óskað afstöðu ráðuneytisins hvort það hyggðist reka mál A áfram fyrir nefndinni eða afturkalla það í ljósi fyrrgreinds dóms. Á fundi nefndarinnar með aðilum málsins þann 25. apríl 2003 lýsti fulltrúi fjármálaráðuneytisins því yfir að ráðuneytið óskaði eftir álitsgerð nefndarinnar þrátt fyrir ofangreindan dóm.

Að lokinni gagnaöflun og framlagningu greinargerða aðila var málið reifað munnlega af umboðsmönnum þeirra fyrir nefndinni þann 19. maí 2003.

2.2. Málsatvik
A var ráðinn til starfa sem tollvörður við [ ] með ráðningarsamningi við fjármálaráðuneytið, dags. 6. júní 1994. Starfsheiti hans var deildarstjóri I.

Þann 4. og 7. nóvember 2002 var A kallaður til skýrslutöku hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og eru þær skýrslur meðal þeirra gagna sem lögð hafa verið fyrir nefndina við meðferð málsins. Verður efni þeirra nú lýst í stórum dráttum til þess að varpa ljósi á atvik málsins sem lágu til grundvallar ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að veita A lausn um stundarsakir. Tilefni skýrslutökunnar þann 4. nóvember 2002 var vegna máls nr.[...]. Um var að ræða rannsókn vegna kæru frá Lögmönnum Thorsplani í Hafnarfirði sem lögð var fram f.h. Sparisjóðs Hafnarfjarðar 5. mars 2002 vegna ætlaðra auðgunarbrota B, C og D sem fólust í innflutningi, tollafgreiðslu, skráningu og veðsetningu bifreiðarinnar X sem er af gerðinni BMW M3 árg. 1995. Við skýrslutökuna var A kunngert að honum væri gefið að sök að hafa ekki staðið rétt að forskráningu og tollafgreiðslu fyrrgreindrar bifreiðar, en bifreiðin var flutt hingað til lands á nafni B og tollafgreidd á nafni C. Í gögnum málsins hafi komið fram að um tjónabíl hafi verið að ræða, en í þeim gögnum sem fyrirliggjandi voru varðandi tollagreiðslu bifreiðarinnar sem aflað hafði verið hjá tollstjóranum í Reykjavík var ekki að finna neina skoðunarskýrslu. Í skráningarferli bifreiðarinnar kom fram að hún hafði ekki verið skráð í skattflokk 70 eins og eðlilegt var þar sem um tjónabíl hafi verið að ræða. Var A gerð grein fyrir því að grunsemdir hefðu vaknað um ætluð brot hans á tollalögum nr. 55/1987 og brot í opinberu starfi, skv. ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, vegna tollafgreiðslu hans á bifreiðinni. Við skýrslutökuna staðfesti A að hafa tollafgreitt bifreiðina X. Aðspurður um hvers vegna hann hafi ekki útfyllt skoðunargerð eins og skylt er að gera við tollafgreiðslu tjónabíla, kvaðst hann telja að hann hefði átt að útfylla skoðunarskýrslu og kvaðst óska eftir því að fara á skrifstofu sína að lokinni yfirheyrslu og athuga hvort hún væri þar fyrirliggjandi. Eins teldi hann að hann hefði tekið ljósmyndir af bifreiðinni og óskaði hann þess að kanna það einnig á skrifstofu sinni. Að lokinni yfirheyrslunni fór fram leit að fyrrgreindum gögnum á skrifstofu A en hún bar ekki árangur. A sagði að hann hefði átt að skrá bifreiðina í skattflokk 70 miðað við það tjón sem var á henni og gat ekki útskýrt hvers vegna það var ekki gert. A var kynnt bréf tollgæslunnar [ ] til Guðmundar Arnar Guðmundssonar hdl. dags. 17. janúar 2002 undirritað af A deildarstjóra en þar var fullyrt að bifreiðin X væri skráð í skattflokk 70 og því lýst hvaða afleiðingar það ætti að hafa varðandi tollafreiðslu bifreiðarinnar o.fl. A var spurður hver hefði verið ástæða fyrir því að hann sem deildarstjóri hjá tollgæslunni [ ] hefði gefið lögmönnum Sparisjóðs Hafnarfjarðar augljóslega ranga yfirlýsingu varðandi skráningu bifreiðarinnar X í skattflokk 70. A sagðist telja að ástæðan fyrir þessari fullyrðingu hans til Lögmanna Thorsplani hlyti að vera sú að hann hefði verið svo viss um að bifreiðin hefði verið skráð í skattflokk 70 að honum hefði láðst að gá að því í tölvunni. A var kynnt að í gögnum málsins kæmi fram að með því að bifreiðin X var ekki skráð í skattflokk 70 þá hafi reynst auðveldara að fá hana nýskráða og veðsetja hana fyrir láni að fjárhæð kr. 3.600.000 eins og um óskemmda bifreið væri að ræða og þegar ganga átti að veðinu hafi bifreiðin reynst vera í slíku ásigkomulagi að hún hefði ekki fengist nýskráð. A gaf aftur skýrslu vegna kæru þessarar þann 7. nóvember 2002, þar sem hann óskaði þess að koma að bókun vegna fyrri skýrslunnar. Vildi hann að fram kæmi að bifreiðin X hefði skemmst í gámi Samskipa við flutning frá Bandaríkjunum. Hann teldi ástæðu þess að bifreiðin hefði ekki verið sett í skattflokk 70, ekki hefði verið gerð aðvinnsluskýrsla og ekki teknar ljósmyndir af bifreiðinni vera þá að Könnun ehf. hefði skoðað bifreiðina vegna þess tjóns sem orðið hefði á henni í gámi Samskipa. A sagði þetta hafi verið óvenjulegt og honum vitanlega eina skiptið sem Könnun ehf. hefði skoðað bifreið undir þessum kringumstæðum.

Þann 7. nóvember 2002 kom A á ný til skýrslutöku hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, nú vegna máls nr. [...]. Honum var kynnt sakarefnið sem rekja má til kæru ríkistollstjóra dags. 16. febrúar 2000 varðandi ætluð tollalagabrot B í sambandi við innflutning á 24 bílum frá Bandaríkjunum á nafni E ehf. og hefði með því komist hjá því að greiða aðflutningsgjöld, vörugjöld og virðisaukaskatt samtals að fjárhæð kr. 10.219.481,00 kr. Við rannsókn málsins hefðu vaknað grunsemdir um ætluð brot A á tollalögum nr. 55/1987 og brot í opinberu starfi, skv. ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í sambandi við forskráningu, vöruskoðun og tollafgreiðslu bifreiðanna. Taldi A að þarna væri um að ræða tjónabíla sem hann hefði tollafgreitt fyrir E Hann vissi ekki til að hann hefði farið rangt að við tollafgreiðslu á þeim, en hefði farið samkvæmt þeim fyrirmælum sem hann hefði fengið hjá yfirmönnum sínum. A voru sýndar þær aðflutningsskýrslur sem voru útbúnar vegna tollafgreiðslu umræddra 24 bifreiða en þær bera allar með sér að hafa verið lagðar fram hjá tollgæslunni [ ] . Kannaðist hann við að hafa móttekið allar framangreindar aðflutningsskýrslur og hann hefði útbúið tvær þeirra. Hinar hefðu sennilega verið útbúnar af B en B hefði lagt allar aðflutningsskýrslurnar fram til tollafgreiðslu bifreiðanna. Voru A sýndir "vörureikningar" sem lagðir voru fram af innflytjanda umræddra 24 bifreiða við tollafgreiðslu frá Imports Motors V&H Inc., en þeir voru ýmist merktir sem "Deposit Slip" eða "Lade Model Rebuildables & Repossessions" en enginn þeirra hafi verið merktur sem "Sales Invoice" eða vörureikningur. Aðspurður hvort hann teldi forsvaranlegt sem deildarstjóri tollgæslunnar [ ] að tollafgreiða vöru svo sem bíla út á skjal sem bæri það með sér að væri kvittun fyrir innborgun á vöruna, sagði hann að hann teldi ekki svo vera. Hann hefði hins vegar leitað til starfsmanna tollstjórans í Reykjavík og ríkistollstjóra varðandi þessa vörureikninga sem lagðir voru fram til tollafgreiðslu bifreiðanna. A sagðist hafa sent þeim þessa vörureikninga í faxi og spurt hvort hann mætti tollafgreiða út á þá og hann hafi fengið grænt ljós á það. Hann sagðist einnig hafa sent öll gögn varðandi þessar tollafgreiðslur til endurskoðunardeildar ríkistollstjóra. Aðspurður um til hvaða manna hjá tollstjóranum í Reykjavík og ríkistollstjóra hann hefði leitað í þessu sambandi kvaðst hann ekki geta nafngreint neinn þeirra.

A voru kynnt rannsóknargögn sex nánar tilgreindra rannsóknartilvika þar sem hann er grunaður um að hafa ekki staðið rétt að tollafgreiðslu og eða forskráningu. Voru aðflutningsskýrslur vegna tollafgreiðslna bifreiðanna sex gerðar á tímabilinu 19. febrúar til 18. september 1998. Taldi A að B hefði útbúið skýrslurnar í öllum tilvikum ásamt þeim gögnum sem lögð voru fram í tollafgreiðslu en hann annaðist tollafgreiðslu þeirra. Í fimm framangreindra tilvika bar útprentun af skráningarferli bifreiðanna úr ökutækjaskrá með sér að við forskráningu þeirra hefði verið tekið fram að þær væru með útlitsskaða. Þrátt fyrir það voru bifreiðarnar ekki skráðar í skattflokk 70 eins og skylt er þegar um tjónabifreiðir var að ræða og engar skoðunargerðir voru útbúnar með bifreiðunum eins og eðlilegt hefði verið að gera þar sem bifreiðarnar voru með útlitsskaða. Loks var ekki að finna í gögnum um skráningu bifreiðanna neina vörugjaldsskýrslu vegna aðvinnslugjalds. Féllst A á að hann hefði átt að skrá bifreiðirnar í skattflokk 70 til þess að tryggja að vörugjald af aðvinnslu yrði greitt við endanlegt uppgjör aðflutningsgjalda. Í sjötta tilvikinu var um að ræða tollafgreiðslu bifreiðar þar sem A hafði áritað aðflutningsskýrsluna: "Bifr. með ónýta vél" en grunur léki á að skráningin væri ekki rétt þar sem seljendur bifreiðarinnar hefðu borið við yfirheyrslu að bifreiðin hefði verið í fullkomnu lagi þegar hún var seld. Taldi A nær öruggt að hann hefði tekið trúanleg orð B um að vélin í bifreiðinni væri ónýt og því skráð það á aðflutningskýrsluna, en hann hefði ekki haft þekkingu til að meta ástand vélarinnar og hann hefði fyrirmæli frá yfirmönnum sínum um að hætta að leita til sérfræðinga vegna skoðunar á notuðum bílum.

Við rannsókn málsins hefur komið fram að með því að leggja fram falsaða vörureikninga í ofangreindum sex tilvikum kom innflytjandi bifreiðanna sér hjá því að greiða samanlagt 3.704.716 kr. við tollafgreiðslu þeirra. Aðspurður við skýrslutökuna féllst A á að eðlilegt hefði verið að hann sem yfirmaður tollgæslunnar [ ] hefði komið í veg fyrir framangreind tollsvik.

Þann 4. nóvember 2002, sama dag og A var kallaður til fyrri yfirheyrslunnar fór sýslumaðurinn [ ] fram á það við A að hann kæmi ekki til starfa næstu tvo daga. Er hann mætti aftur til starfa 6. nóvember 2002 lýsti sýslumaður því að hann ætti að vera áfram án vinnuskyldu heima við.

Þann 20. janúar 2003 ritaði sýslumaðurinn [ ] A bréf með yfirskriftinni "brottvikning úr starfi". Í bréfinu var rannsókn málsins hjá lögreglu rakin og fullyrt að A hefði viðurkennt brot í starfi. Sýslumaður vísaði til 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga sem kveður á um að víkja skuli starfsmanni að fullu úr embætti hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. A væri grunaður um brot gegn 147. gr. almennra hegningarlaga auk annarra brota gegn þeim og brot gegn tollalögum. Yrði ekki annað séð en leysa bæri hann frá störfum strax. Bréfinu fylgdi afrit af bréfi sýslumanns, dags. sama dag til fjármálaráðuneytis með ósk um að A yrði leystur frá störfum strax vegna framangreindra ástæðna. Með bréfi sýslumannsins [ ] dags. 21. janúar 2002 til fjársýslu ríkisins óskaði sýslumaður eftir því að A yrði tekinn af launaskrá strax. Var ákvörðun sýslumanns mótmælt af hálfu lögmanns A í bréfi dags. 28. janúar 2003. Í svarbréfi sýslumanns dags. sama dag var áréttað að víkja beri opinberum starfsmanni úr starfi játi hann að hafa gerst sekur um refsivert athæfi sem ætla má að geti haft í för með sér embættismissi. Hafi sýslumaður því ekki talið sig eiga annan kost en að grípa til þess að víkja A úr starfi. Í samræmi við fyrrgreint bréf sýslumanns til fjársýslu ríkisins með ósk um að A yrði tekin af launaskrá voru A ekki greidd laun 1. febrúar 2003. Þann 3. febrúar ritaði fjármálaráðuneytið fjársýslu ríkisins bréf vegna máls A. Þar kom fram að fjármálaráðuneytið hefði til meðferðar beiðni sýslumanns um að leysa A fyrirvaralaust frá embætti. Samkvæmt 4. mgr. 31. gr. tollalaga nr. 55/1987 skipi fjármálaráðherra aðaldeildarstjóra og deildarstjóra til fimm ára í senn og veiti þar með einnig lausn frá því sbr. 26. og 31. gr. starfsmannalaga. Þar sem ákvörðun fjármálaráðuneytis lægi ekki fyrir var þess óskað að A yrði ekki tekinn af launaskrá strax heldur beðið þar til tilkynning um það bærist frá ráðuneytinu síðar í mánuðinum. Þann 7. febrúar 2003 voru A greidd full laun.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 26. febrúar 2003 var A veitt lausn um stundarsakir úr embætti deildarstjóra tollgæslunnar [ ] með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Var rökstuðningur fyrir ákvörðuninni eftirfarandi:

"Ástæða lausnarinnar er sú að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra er með til rannsóknar mál þar sem þér eruð grunaðir um brot á tollalögum nr. 55/1987 og XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 147. gr. sömu laga. Fjármálaráðuneytinu hefur borist bréf sýslumannsins [ ] , dags. 20. janúar sl. Í bréfinu óskar sýslumaður, sem jafnframt er tollstjóri [ ], eftir því að ráðuneytið leysi yður fyrirvaralaust frá embætti yðar, sem deildarstjóri tollgæslunnar [ ], á grundvelli 3. mgr. 29. gr. laga nr. 70/1996. Ráðuneytið hefur kallað eftir og rannsakað þau gögn málsins sem sýslumaður byggir bréf sitt á, þ.á.m. skýrslur sem þér gáfuð lögreglumönnum ríkislögreglustjóra dags. 4. og 7. nóvember sl. Í bréfi sýslumannsins og í lögregluskýrslum kemur fram að ríkislögreglustjóri hafi til rannsóknar meint tollalagabrot vegna innflutnings á 24 bifreiðum frá Bandaríkjunum þar sem komist var hjá að greiða aðflutningsgjöld, vörugjöld og virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 10.219.481. Við rannsókn málsins hafa vaknað grunsemdir um brot yðar á tollalögum nr. 55/1987 og XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í sambandi við forskráningu, vöruskoðun og tollafgreiðslu bifreiðanna.

Samkvæmt 2. málsl. 3.mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins má veita embættismanni lausn um stundarsakir sem grunaður er um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra heningarlaga. Viðmið í umræddri 68. gr. er að hinn refsiverði verknaður sé slíkur að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Ekki er skylt að gefa yður kost á að tjá yður um ástæður lausnar áður en hún tekur gildi, sbr. 3. máls. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996."

3. Sjónarmið málsaðila.
Af hálfu fjármálaráðuneytisins er þess krafist að nefndin taki afstöðu til þess hvort ráðuneytinu var rétt að víkja A frá embætti um stundarsakir. Einnig er þess krafist að nefndin taki afstöðu til þess hvort víkja beri A að fullu úr starfi á grundvelli þeirra ávirðinga sem fram eru komnar og lágu til grundvallar ákvörðun um lausn hans úr embætti um stundarsakir.

Í greinargerð fjármálaráðuneytisins til nefndarinnar dags. 24. apríl 2003 er á það bent að A sé grunaður um alvarleg brot í starfi sínu sem deildarstjóri hjá tollstjóranum [ ] og hafi ráðuneytið ekki talið sér annað fært en að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna.

Í greinargerðinni er rakið það sem fram kom við yfirheyrslur yfir A hjá ríkislögreglustjóra 4. og 7. nóvember 2002. Á það er bent að A hafi þar viðurkennt að það hafi ekki verið forsvaranlegt af yfirmanni í tollgæslunni að tollafgreiða bifreiðar á grundvelli fyrirliggjandi skjala.

Eins telur ráðuneytið að A hafi þar nánast viðurkennt að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga er hann viðurkenndi ítrekað að eðlilegt hefði verið að ætlast til af honum sem yfirmanni í tollgæslunni [ ] að hann kæmi veg fyrir þau tollsvik sem rannsóknin beindist að. Þar væri um að ræða sex tilvik og virtist sú fjárhæð opinberra gjalda sem undan var dregin hafa numið 3.704.716.

Í málinu beri að líta til 14. gr. starfsmannalaga um almennar starfsskyldur starfsmanna ríkisins, þar sem segir að starfsmanni beri að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna. Einnig að starfsmaður skuli forðast nokkuð það í starfi sínu eða utan þess sem honum er til vanvirðu og álitshnekkis eða varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við. Ljóst sé að deildarstjórinn A rækti ekki starfsskyldur sínar af þeirri alúð og samviskusemi sem hægt var að gera kröfur til sem yfirmanns í tollgæslunni [ ] og hann hefði viðurkennt það við yfirheyrslur hjá lögreglu. Hér væri einnig um að ræða þá sjálfsögðu frumstarfsskyldu allra tollvarða í landinu að koma í veg fyrir tollsvik.

Ráðuneytið bendir á að við mat á því hvort ávirðingar séu fyrir hendi sem réttlætt geti frávikningu að fullu samkvæmt 2. mgr 29. gr. starfsmannalaga verði ekki gerðar kröfur til þess að refsiverð háttsemi sé sönnuð í sakamáli sem skilyrði þess að embættismanni verði vikið frá að fullu og að hér eigi við annað sakarmat. Í því sambandi bendir ráðuneytið á dóm Hæstaréttar í Hrd. 1997/490. Sá dómur hafi staðfest að ætlað refsinæmi brots opinbers starfsmanns væri ekki úrslitaskilyrði þess að lausn að fullu ætti við, ef ljóst væri að starfsmaður hefði sýnt af sér háttsemi sem er ósamrýmanleg því ábyrgðarstarfi sem hann hefði á hendi.

Við munnlega reifun málsins fyrir nefndinni var áréttað af hálfu fjármálaráðuneytisins að beiðni sýslumannsins [ ] um að ráðuneytið viki A frá að fullu skv. 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga hefði ekki fengið samþykki ráðuneytisins. Ráðuneytið hefði tilkynnt fjársýslu ríkisins 3. febrúar 2003 að A skyldi aftur settur á launaskrá þar sem mál hans væri til meðferðar í ráðuneytinu og voru launagreiðslur til hans þá leiðréttar. Ákvörðun um brottvikningu A að fullu hefði því aldrei legið fyrir, enda færi ráðuneytið með skipunarvald varðandi embætti deildarstjóra í tollgæslunni samkvæmt 4. mgr. 31. gr. tollalaga nr. 55/1987 og veitti einnig lausn frá því sbr. 26. og 31. gr. starfsmannalaga. Ráðuneytið hefði hins vegar veitt A lausn um stundarsakir þann 26. febrúar 2001 og þá jafnframt tilkynnt honum að á meðan slík lausn vari njóti hann helmings af föstum launum sem embætti hans fylgja, sbr. 1. mgr. 28. gr. starfsmannalaga. Með bréfi ráðuneytisins dags. 17. mars 2003 til fjársýslu ríkisins var farið fram á að A skyldi settur á hálf föst laun sem embætti hans fylgja, sbr. 1. mgr. 28. gr. starfsmannalaga og skyldi greiðsla helmings af föstum launum miðast við 1. mars 2003.

Af hálfu A er þess krafist í fyrsta lagi að nefndin vísi málinu frá og það þannig fellt niður, en til vara að nefndin hafni því að rétt hafi verið að víkja honum úr starfi um stundarsakir. Verður nú nánar lýst rökstuðningi fyrir kröfum A sem komu fram í greinargerð lögmanns hans dags. 10. maí 2003 og við munnlega reifun málsins fyrir nefndinni, 19. maí 2003.

Er krafa um frávísun byggð á 5. gr. starfsreglna sem nefndin hefur sett sér. Í ákvæðinu segir að hafi starfsmaður eða stjórnvald það sem í hlut á óskað opinberrar rannsóknar með heimild í niðurlagsákvæði 1. mgr. 27. gr. starfsmannalaga rannsaki nefndin málið þá eingöngu að því leyti sem þörf er á viðbótarrannsókn til þess að geta látið uppi rökstutt álit. Í þessu máli liggi fyrir að mál A sé til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Fjármálaráðuneytið hafi ekki óskað eftir slíkri viðbótarrannsókn sem um geti í 5. gr. og þegar af þeirri ástæðu eigi nefndin að vísa málinu frá.

Þá er af hálfu A vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 338/2002 frá 10. apríl sl. í máli íslenska ríkisins gegn Hannesi Inga Guðmundssyni. Hannes hefði starfað sem tollvörður hjá tollgæslunni í Reykjavík þegar opinber rannsókn hófst á meintum brotum hans í starfi og hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hafði honum verið veitt lausn úr starfi um stundarsakir á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga og nefnd skv. 27. gr. starfsmannalaga komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu frá 15. september 1997 að rétt hefði verið að veita honum lausn um stundarsakir. Var honum vikið úr embætti að fullu þann 1. nóvember 1997. Var hann síðar í refsimáli sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og höfðaði bótamál gegn íslenska ríkinu m.a. vegna embættismissis og gekk dómur í því máli þann 10. apríl sl. Af hálfu A er vísað sérstaklega til þeirra ummæla í dóminum sem lúta að málsmeðferð fyrir nefndinni en þar segir m.a. annars: "Mál hans var til rannsóknar að hætti opinberra mála og var því ekki samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga þörf á að vísa því til nefndar sérfróðra manna, svo sem gert var. Gat sú meðferð máls hans ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir væri jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram koma í niðurlagi 3.mgr. 26. gr. laganna." A bendir á að nefnd skv. 27. gr. starfsmannalaga sé bundin af stjórnsýslulögum og þannig geti ákvarðanir hennar verið íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir. Hann eigi ekki að þurfa að þola óþarfa umfjöllun um mál hans á meðan það sama mál er til rannsóknar hjá lögreglu. Grunnrök meðalhófsreglu stjórnsýslulaga leiði til þess að stjórnvald eigi að beita þeim vægustu úrræðum sem til eru, til að ná fram því markmiði sem stefnt er að. Rannsókn fyrir nefndinni sé samkvæmt dómi Hæstaréttar óþörf meðan fram fer rannsókn hjá lögreglu. Því eigi nefndin ekki að rannsaka málið heldur vísa því frá og fella það niður. Þá bendi Hæstiréttur í dóminum einnig á þá staðreynd að málsmeðferð nefndarinnar geti ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir sé jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram koma í niðurlagi 3. mgr. 26. gr. laganna. Ljóst sé að lausn hans um stundarsakir byggi ekki á neinum öðrum ástæðum en þeim er raktar eru í 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannlaga. Því geti málsmeðferð fyrir nefndinni ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu sem gæti orðið grundvöllur að brottvikningu í skilningi 29. gr. starfsmannalaga. Hann eigi því heimtingu á því að málinu verið vísað frá nefndinni og það verði fellt niður.

Verði ekki fallist á kröfu um frávísun málsins krefst A þess að nefndin fjalli í fyrsta lagi um það hvort aðdragandi lausnar um stundarsakir hafi samrýmst reglum stjórnsýsluréttar og í öðru lagi hvort ástæða hafi verið til að veita honum lausn um stundarsakir. A bendir á að yfirmaður hans, sýslumaðurinn [ ], hafi afhent honum bréf sem bar yfirskriftina "brottvikning úr starfi". Þá liggi fyrir að sýslumaður hefði tekið þá ákvörðun sem fjármálaráðuneytið hefði síðar staðfest að varnaraðili var tekin út af launaskrá og þannig fékk hann ekki greidd laun 1. febrúar 2003. Á því er byggt að sýslumaður sem æðsti yfirmaður hans og umboðsmaður ráðuneytisins í máli þessu hefði átt að veita varnaraðila andmælarétt áður en hann tók þá ákvörðun að senda hann heim og áður en hann tók þá ákvörðun að afhenda honum bréf um brottvikningu úr starfi. Þá byggi sýslumaður ákvörðun sína á því að A hafi viðurkennt á sig refsiverða háttsemi. Er því mótmælt og hefði sýslumanni borið að kalla eftir afstöðu A til þessa áður en hann tók ákvörðun um brottvikningu, sbr. ákvæði 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er á því byggt að ákvörðun sýslumanns um brottvikningu hefði verið lögleysa ein þar sem sýslumaður væri ekki bær um að taka þá ákvörðun. Bent er á að A var tekinn út af launaskrá vegna kröfu sýslumanns og þannig fékk hann ekki laun sín greidd 1. febrúar 2003. Það hafi ekki verið fyrr en 3. febrúar 2003 eftir beiðni hans að fjármálaráðuneytið reyndi að lagfæra fyrri ákvörðun sýslumanns. Hann hafi hins vegar engin laun fengið 1. apríl 2003.

Þá er á því byggt af hálfu A að þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 hefði hann átt andmælarétt áður en ákvörðun um að leysa hann frá störfum var tekin. Er um þetta vísað til álita nefndarinnar í málunum nr. 3/2002 og nr. 5/2002.

Loks bendir A á að ekki hefði átt að veita honum lausn frá störfum meðan mál hans var til rannsóknar hjá lögreglu heldur hefði átt að bíða með þá ákvörðun þar til niðurstaða rannsóknar hefði legið fyrir. Er um það vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. maí 2002 í máli Hannesar Inga Guðmundssonar sem áður er nefnt, sbr. staðfestingu í dómi Hæstaréttar frá 10. apríl sl. Samrýmist sú niðurstaða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar en hæglega hefði verið hægt að færa hann til í starfi á meðan rannsókn stóð.

Að öðru leyti er því ekki mótmælt af hálfu lögmanns A að uppfyllt séu efnisleg skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga varðandi lausn um stundarsakir, enda sé óumdeilt að hann sé grunaður um refsiverða háttsemi. Krafa um að nefndin hafni því að rétt hafi verið að víkja honum úr starfi um stundarsakir byggi á þeim ágöllum á meðferð málsins í aðdraganda ákvörðunarinnar sem lýst var að framan.

4. Niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur.
A var ráðinn til starfa sem deildarstjóri í tollgæslu við sýslumannsembættið [ ] með ráðningarsamningi við fjármálaráðuneytið frá 6. júní 1994 í gildistíð laga um réttindi og skyldur starfmanna ríkisins nr. 38/1954. Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. starfsmannlaga sem tóku gildi 1. júlí 1996 eru tollverðir embættismenn og eru þeir því skipaðir tímabundið til fimm ára í senn, sbr. 23. gr. starfsmannalaganna. Ráðherra skipar deildarstjóra í tollgæslu samkvæmt 2. mgr. 31. gr. tollalaga nr. 55/1987, eins og því ákvæði var breytt með 6. gr. laga nr. 81/1998 og 7. gr. laga nr. 155/2000.

Af þessu er ljóst að fjármálaráðuneytið var bært stjórnvald til þess að víkja A frá um stundarsakir. Nefndin fellst ekki á þá fullyrðingu A að sýslumaðurinn [ ] hafi með ólögmætum hætti vikið honum úr embætti að fullu með bréfi dags. 20. janúar 2003. Þótt bréfið bæri yfirskriftina "brottvikning úr starfi" var ljóst af efni þess að sýslumaður hafði óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að A yrði leystur frá störfum strax. Féllst fjármálaráðuneytið ekki á þá málaleitan og tilkynnti fjársýslu ríkisins þann 3. febrúar 2003 að þar sem mál A væri enn til meðferðar í ráðuneytinu skyldi hann áfram hafður á launaskrá. Voru launagreiðslur til A leiðréttar í samræmi við það, en samkvæmt þessu lá aldrei fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds um að víkja A að fullu úr embætti skv. 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Hin ótímabæra tilkynning sýslumannsins [ ] þann 21. janúar 2003 til fjársýslu ríksins um að A skyldi tekin af launaskrá leiddi hins vegar til þess óhagræðis fyrir A að launagreiðslu til hans í febrúarmánuði seinkaði um sjö daga.

Áður en nefndin tekur afstöðu til þess hvort fjármálaráðuneytinu var rétt að víkja A frá um stundarsakir 26. febrúar 2003 telur hún rétt að taka afstöðu til kröfu hans um að málinu verði vísað frá nefndinni.

Nefndin fellst ekki á þann skilning á 5. gr. starfsreglna nefndarinnar sem lýst er af hálfu A að opinber rannsókn á máli hans sem ekki er lokið útiloki að nefndin rannsaki málið nema fjármálaráðuneytið hefði óskað eftir viðbótarrannsókn. Nefndin bendir á að 5. gr. verði að skoða í ljósi 15. gr. reglnanna sem kveður á um að hafi stjórnvald eða starfsmaður neytt réttar síns til þess að óska eftir því að fram fari opinber rannsókn skuli nefndin leitast við að fá öll þau gögn sem aflað hefur verið við þá rannsókn, þ.m.t. skýrslur sem hafa verið gefnar fyrir rannsóknaraðilum. Markmið 5. gr. er að taka af skarið um að nefndin þurfi ekki að endurtaka slíka rannsókn á málinu, t.d. að taka skýrslur af aðilum en geti lagt gögn úr opinberri rannsókn til grundvallar niðurstöðu sinni en jafnframt að hún geti til viðbótar rannsakað atriði sem opinbera rannsóknin beinist ekki að, en nefndin kann að telja nauðsynlegt að kanna til að hún geti látið uppi rökstutt álit. Eins og mál þetta liggur fyrir telur nefndin ekki þörf á að afla frekari gagna úr rannsókn málsins frá embætti ríkislögreglustjóra í máli því sem A er grunaður um að tengjast eða afla annarra gagna, umfram þau sem aðilar hafa lagt fram við meðferð málsins. Telur nefndin að málið sé nægilega vel upplýst til þess að hún geti skilað rökstuddu áliti. Í ljósi framangreinds fellst nefndin ekki á að vísa beri málinu frá með vísan til 5. gr. starfsreglnanna.

Verður þá vikið að kröfu A um að vísa málinu frá þar sem rannsóknin sé þarflaus og íþyngjandi fyrir hann og brjóti gegn grunnrökum meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í dómi Hæstaréttar frá 10. apríl 2003 í máli nr. 338/2002 er vissulega tekin skýr afstaða til þess að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 27. gr. starfsmannalaganna sé stjórnvaldi ekki skylt að vísa máli til nefndarinnar þegar mál starfsmanns er til rannsóknar að hætti opinberra mála. Geti sú meðferð máls ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir sé jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram koma í niðurlagi 3. mgr. 26. gr. Þegar dómurinn gekk var málið komið til meðferðar hjá nefndinni en í ljósi fyrrgreindra ummæla leitaði nefndin afstöðu fjármálaráðuneytisins til þess hvort það hyggðist reka málið áfram fyrir nefndinni eða afturkalla það. Óskaði ráðuneytið þess að reka málið áfram fyrir nefndinni. Nefndin telur ekki þarflaust og íþyngjandi fyrir A að rannsaka og láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir, þótt niðurstaða hennar geti ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu um brottvikningu hans að fullu. Meðal þess sem nefndin rannsakar er hvort aðdragandi og form ákvörðunar og hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög. Það úrræði sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. að vísa málinu til nefndarinnar er þannig sett í þágu starfsmannsins og til að tryggja betur rétt hans með því að ákvörðun stjórnvalds verði endurskoðuð að þessu leyti. Getur niðurstaða nefndarinnar því orðið sú að stjórnvaldi hafi ekki verið rétt að víkja embættismanni frá um stundarsakir án þess að lagt sé mat á efnisleg skilyrði frávikningarinnar. Þá getur niðurstaða nefndarinnar orðið sú að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt til þess að veita embættismanni lausn frá störfum um stundarsakir. Verður því ekki fallist á kröfur A um að nefndin vísi málinu frá á grundvelli þess að rannsókn hennar sé þarflaus.

Verður nú vikið að því hvort skilyrði fyrir lausn A frá störfum um stundarsakir voru uppfyllt. Af hálfu A er þess krafist að nefndin fjalli í fyrsta lagi um það hvort aðdragandi lausnar frá störfum um stundarsakir hafi samrýmst reglum stjórnsýsluréttar og í öðru lagi hvort ástæða hafi verið til þess að veita honum lausn um stundarsakir. Áður en lengra er haldið, telur nefndin nauðsynlegt með hliðsjón af kröfugerð fjármálaráðuneytisins, að árétta hvert verksvið hennar er eins og hún hefur ítrekað gert í fyrri álitum sínum, sbr. t.d. í málum nr. 1/1997, 1/2002, 2/2002, 3/2002 og 6/2002. Í fyrrgreindu máli nr. 1/1997, máli Hannesar Inga Guðmundssonar, en í dómi Hæstaréttar frá 10. apríl 2003 var fjallað um bótakröfu hans vegna embættismissis, var lagður grunnur að afstöðu nefndarinnar til hlutverks síns sem byggt hefur verið á þaðan í frá. Er vert að birta hér þann hluta álitsins sem að því lýtur:

"Um verksvið nefndarinnar er fjallað í 27. gr. og 29. gr. starfsmannalaga. Nefndin telur að skýra verði þessi ákvæði svo, að nefndin eigi að rannsaka mál embættismanns, sem vikið hefur verið úr embætti um stundarsakir og skuli hún "...láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir." eins og segir í niðurlagi 2. mgr. 27. g. laganna. Fyrirmælin í 1. mgr. 27. gr. laganna um að markmiðið með rannsókn nefndarinnar sé, að það verði upplýst "...hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu. " verður að skýra í samhengi við 2. mgr. 29. gr. laganna. Þar segir efnislega að embættismanni skuli víkja úr embætti að fullu ef meiri hluti nefndar skv. 27. gr. kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að víkja honum úr embætti um stundarsakir. Í þessu felst að mati nefndarinnar, að álit hennar á því hvort rétt hafi verið að víkja manni úr embætti um stundarsakir er grundvöllur undir síðari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um það hvort víkja eigi embættismanni að fullu eða ekki. Sá grundvöllur er ekki bindandi því frá þessu er gerð sú undantekning í 2. mgr. 29. gr., að ef ávirðingar, sem embættismanni eru gefnar að sök, reynast ekki vera fyrir hendi, skuli stjórnvaldið ekki víkja manni að fullu, þrátt fyrir að nefndin telji að rétt hafi verið að víkja honum um stundarsakir. Telja verður, að það hvíli á því stjórnvaldi, sem fengið hefur þá niðurstöðu nefndarinnar að veiting lausnar um stundarsakir hafi verið réttmæt, að taka ákvörðun um það hvort víkja eigi embættismanni þegar að fullu úr starfi sínu, eða hvort það eigi að bíða með ákvörðun sína, þar til sýnt er hvort þær ávirðingar sem honum eru gefnar að sök reynast réttar eða ekki. Ef stjórnvald kýs að víkja embættismanni að fullu, en síðar kemur í ljós að ávirðingar þær sem á hann voru bornar reyndust ekki réttar, hlýtur það að koma til skoðunar hvort embættismaður geti átt bótarétt á hendur ríkissjóði vegna ólögmætrar frávikningar."

Samkvæmt ofangreindu takmarkast rannsóknarhlutverk nefndarinnar við það markmið starfa hennar sem fram kemur í 2. mgr. 27. gr. laganna að láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir. Verður því hafnað kröfu fjármálaráðuneytisins um að nefndin taki afstöðu til þess hvort víkja beri A að fullu úr starfi á grundvelli þeirra ávirðinga sem fram eru komnar og lágu til grundvallar ákvörðun um lausn hans úr embætti um stundarsakir. Á hinn bóginn er í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar frá 10. apríl 2003 í máli 338/2002 tekin skýr afstaða til þess að niðurstaða nefndarinnar varðandi lausn um stundarsakir geti ekki ein og sér orðið grundvöllur undir síðari ákvörðun stjórnvalds um það hvort víkja eigi embættismanni að fullu þegar ávirðingar þær sem starfsmaður er grunaður um hafa ekki sannast.

Sem áður segir var ákvörðun fjármálaráðuneytisins í máli þessu rökstudd með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga sem kveður á um að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.

Á því er byggt af hálfu A, með vísan til 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, að sýslumaðurinn [ ] hafi átt að veita honum andmælarétt áður en hann tók þá ákvörðun að senda hann heim og áður en hann tók þá ákvörðun að afhenda honum bréf um brottvikningu úr starfi með vísan til þess að A hefði viðurkennt refsiverða háttsemi. Nefndin hefur áður lýst því að aðgerðir sýslumanns sem stefndu að því að víkja A að fullu úr starfi á grundvelli 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga náðu aldrei lengra en að óska eftir ákvörðun fjármálaráðuneytisins um frávikningu, enda var aðeins ráðuneytið bært til að taka slíka ákvörðun. Nefndin telur ekki efni til að meta sérstaklega hvort gæta hefði átt andmælaréttar A vegna ákvörðunar sem ekki var tekin. Hafa þessi atvik því ekki áhrif á mat nefndarinnar á því hvort fjármálaráðuneytið gætti réttra málsmeðferðarreglna varðandi ákvörðun þess um að víkja A frá störfum um stundarsakir.

Ekki er skylt að veita embættismanni kost á því að tjá sig um ástæður lausnar um stundarsakir áður en hún tekur gildi, samkvæmt 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna ef ástæður hennar eru aðrar en þær sem tilgreindar eru í 2. mgr. A telur að þrátt fyrir þetta hefði ráðuneytið átt að veita sér andmælarétt áður en ákvörðun um að leysa hann frá störfum með vísan til álita nefndarinnar í málunum 3/2002 og nr. 5/2002. Nefndin telur að atvik í þessum tveimur málum séu ekki sambærileg. Í máli 3/2002 benti nefndin á að ríkislögreglustjóri hefði átt að gefa lögreglumanni sem grunaður var um refsiverða háttsemi kost á að skýra mál sitt, m.a. vegna þess að hann var í launalausu leyfi frá starfi og hafði ekki enn verið yfirheyrður í opinberri rannsókn sem hafin var. Var þó ekki talið í ljósi afdráttarlauss orðalags 4. mgr. 26. gr. að þessi annmarki á málsmeðferðinni leiddi til þess að ákvörðunin væri ógild. Í máli nr. 5/2002 hafði ráðuneyti afturkallað án skýringa andmælarétt sem starfsmanni hafði verið veittur, en reyndar voru ekki uppfyllt efnisleg skilyrði lausnar um stundarsakir í málinu. Nefndin telur að í ljósi afdráttarlauss orðalags 4. mgr. 26. gr. hafi ekki verið skylt að gefa A kost á að tjá sig um ástæður lausnar um stundarsakir. Má um þetta einnig vísa til dóms Hæstaréttar frá 10. apríl 2003 í máli 338/2002 sem staðfestir að ekki sé skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður lausnar sé hann grunaður um háttsemi sem getur haft í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga.

Loks fellst nefndin ekki á að ráðuneytinu hefði borið að færa A til í starfi meðan á opinberri rannsókn stóð í máli hans. Stendur skýr lagaheimild til þess í 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir við þessar aðstæður og er það m.a. staðfest í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Rök að baki þessari undantekningarreglu eru þau að ekki er forsvaranlegt að maður sem grunaður er um alvarlegt brot í starfi sínu gegni starfinu á meðan slíkur grunur er til staðar. Á þetta ekki síst við um starfsstéttir sem eiga að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu og þurfa að njóta til þess trausts almennings.

Skilyrði þess að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga er að hann sé grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Af hálfu A hefur því ekki verið mótmælt að slíkur grunur liggi fyrir í máli hans og að fyrrgreind efnisleg skilyrði fyrir lausn hans hafi þannig verið uppfyllt. Nefndin telur rétt að taka fram að hún hefur í fyrri álitum sínum um fyrrgreint lagaákvæði litið svo á að skilyrði þetta sé tvíþætt. Annars vegar að grunur liggi í raun fyrir og hins vegar að háttsemin sem starfsmaður er grunaður um hafi verið þess eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga yrði þess krafist fyrir dómi.

Óumdeilt er að A var grunaður um refsiverða háttsemi þegar litið er til þeirrar opinberu rannsóknar sem stendur yfir á vegum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og lögregluskýrslna sem teknar höfðu verið af honum. Viðmið um það hvaða háttsemi hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga er að hinn refsiverði verknaður sé slíkur að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Það er mat nefndarinnar að brot þau sem A var grunaður um þegar ákvörðun var tekin um lausn hans úr embætti um stundarsakir séu ósamboðin embættismanni í tollgæslunni, sérstaklega þegar um ræðir yfirmann með langa starfsreynslu. Í ljósi þessarar stöðu og starfssviðs A væru slík brot sérlega alvarleg. Að mati nefndarinnar eru brotin sem A var grunaður um, ef sönn reyndust, svo alvarleg að hann teldist ekki lengur verður eða hæfur til að vera deildarstjóri í tollgæslunni, sbr. 68. gr. alm. hgl.

ÁLIT

Nefnd samkvæmt 27. gr. laga 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins telur að fjármálaráðuneytinu hafi verið rétt að veita A lausn um stundarsakir úr embætti deildarstjóra tollgæslunnar [ ] þann 26. febrúar 2003.


Þann 27. maí 2003.

___________________
Björg Thorarensen


__________________
Erna Guðmundsdóttir
__________________
Óskar Norðmann





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta